föstudagur, júlí 05, 2013

Ýmislegt skrifað um helmingaskiptastjórnina og stefnu hennar


Undanfarið hef ég lesið nokkra pistla, gamla og nýja, sem fjalla beint og óbeint um núverandi ríkisstjórn* og stefnu hennar. Það er ágætt að dunda sér við þennan lestur meðan beðið er undirskriftar forsetans á lækkun veiðigjaldsins.

Fyrsta greinin er einmitt um veiðigjaldið. „Eiga útgerðir að greiða eðlilegt leigugjald?“ Spurning sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson varpaði fram í apríl í fyrra.

Mánuði síðar hrakti Arnaldur Sölvi hugmyndir um 20% flatan skatt (lesist með áætlanir ríkisstjórnarinnar um 'einföldun skattkerfisins'í huga).

Úrsúla Jünemann skrifaði í síðasta mánuði um endurskoðun rammaáætlunar, vatnsaflsvirkjanir, álver og umhverfisráðuneytið sem ríkisstjórnin stakk ofan í skúffu.

Guðmundur Andri skrifaði á mánudaginn um 'bitra ráðgjafann' Davíð Oddsson, Sigmund Davíð og Ríkisútvarpið — sem þeir báðir hafa horn í síðu á. Guðmundur Andri hitti naglann á höfuðið þegar hann benti á að við vanmátum Illuga Gunnars.
„Við héldum öll að Illugi Gunnarsson yrði svo ágætur menntamálaráðherra af því að hann kann á píanó en það var eigi að síður fyrsta mál á dagskrá hjá honum að ganga erinda Davíðs“.
Á miðvikudaginn sagðist Sif Sigmarsdóttir dást að ríkisstjórninni,
„fyrir að hafa hugrekki til að sýna sitt rétta andlit frá fyrsta degi og hefja strax vinnu við að fella niður veiðigjald á útgerðir landsins svo að kvótakóngar geti örugglega haft í sig og á í tíunda veldi. Ekkert pukur, bara blygðunarlaus hagsmunagæsla fyrir opnum tjöldum.“
Lára Hanna bloggaði loksins aftur í gær og skriðtæklaði stjórnarflokkanana spilltu. Það vantar fleiri bloggfærslur frá Láru Hönnu, svo ekki sé talað um fleiri Lárur Hönnur.

Já, og Jónas baðst afsökunar nú í vikunni.

Það er semsagt ýmislegt skrifað um ríkisstjórnina og stefnu hennar — og hún á það allt skilið.

____
* Ingimar Karl Helgason kallar núverandi ríkisstjórn helmingaskiptastjórnina, og er þá líklega ekki síst vísað til sögunnar þar sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn skiptu einmitt öllum þeim gæðum sem þeir náðu til milli sín. Nægir þar að nefna Búnaðarbankann og Landsbankann. Mér hugnast nafngiftin helmingaskiptastjórn.

Efnisorð: , , , , ,