fimmtudagur, júlí 11, 2013

Er þá enginn saklaus og enginn sekur?

Hvað gera aðdáendur Egils Gilzeneggers Einarssonar nú, þessir sem æptu saklaus uns sekt er sönnuð? Konurnar sem hann kærði fyrir rangar sakargiftir verða ekki ákærðar, þarafleiðandi ekki leiddar fyrir dómstóla, ekki frekar en Egill sjálfur. Ríkissaksóknari fellir niður málið gegn konunum, rétt eins og mál Egils áður.* Munu nú aðdáendur Egils hætta að tala um að konurnar hafi logið uppá Egil, úr því að engar málið var fellt niður? Þeir héldu því mjög á lofti að Egill væri saklaus úr því að dómstóll dæmdi hann ekki sekan vegna þess að málið komst ekki svo langt, var fellt niður. En nú mun enginn dómstóll heldur dæma konurnar. En það verður varla svona auðvelt að fá aðdáendur hans til að skipta um aðferð til að verja goðið, hvað þá skipta um skoðun.

Ég efast líka um að fólk sem fannst ólíklegt að konurnar væru að ljúga skipti um skoðun, enda úrskurður ríkissaksóknara varla til þess fallinn. En þá er komin upp pattstaða. Konur kærðu Egil og Egill kærði konur en enginn dómur féll. Heldur fólk þá ekki bara áfram að skiptast í lið eftir því hvort það heldur að frægð karlmanna komi ekki í veg fyrir að þeir geti nauðgað, eða trúir því að allar kéllingar ljúgi hræðilegum glæpum uppá saklausa menn?

Eða heldur fólk raunverulega ennþá að það sé hægt að segja í þessu máli, eða öðrum nauðgunarmálum, að ef ekki sé hægt að sanna sekt þess sem er ákærður fyrir kynferðisbrot fyrir dómi þá sé sá hinn sami örugglega saklaus? Eða til vara: að karlmaðurinn sem er kærður fyrir nauðgun hljóti alltaf að vera sá eini sem segir satt? Mig grunar að svo fari um marga aðdáendur Egils og aðra þá sem hafa varið hann, og aðra þá sem sakaðir hafa verið um kynferðisofbeldi, með kjafti og klóm.


___

* Ofangreint er skrifað eftir frétt DV þar sem sagt er að ríkislögreglustjóri hafi fellt mál Egils niður. Í frétt Vísis kemur fram að það var ríkissaksóknari sem átti síðasta orðið í báðum málum. Textanum hefur verið breytt til samræmis við það.

Efnisorð: , ,