mánudagur, júlí 22, 2013

Karlarnir sniðganga heimsmeistara og Evrópumeistara af „hinu kyninu“


Aníta Hinriksdóttir hefur unnið íþróttaafrek sem ekki margir Íslendingar geta státað af. Og það tvö sömu vikuna, varð fyrst heimsmeistari og vann síðan Evrópumeistaratitil. Hún er talin líkleg til frekari afreka, líklegri en aðrir íslenskir íþróttamenn fyrr og síðar. Nú er hún komin heim og það er að sjálfsögðu tilefni til að fagna og bjóða hana velkomna.

Sagt er frá því í fréttum eins og það sé hneykslunarefni að hvorki Ólafur Ragnar Grímsson né Illugi Gunnarsson ráðherra íþróttamála hafi tekið á móti henni á flugvellinum eins og venja er þegar afreksmenn í íþróttum snúa heim. Ég held að það eigi frekar að þakka fyrir að þeir hafi ekki verið þar til að þvælast fyrir og skyggja á stemninguna.

Ég spái því að það muni heldur ekki þvælast fyrir íþróttafréttamönnum um næstu áramót að réttlæta það að velja ekki Anítu sem íþróttamann ársins, þrátt fyrir afrek hennar. Þeir munu segja að hún sé of ung, það sé ekki venja að láta neinn undir 18 ára aldri fá titilinn — og velja þess í stað karlmann sem keppt hefur í boltaíþrótt.

Efnisorð: , ,