Gay pride 2013
Friedrich Guzman, 18. apríl 1940
Paul Lemm, 4. nóvember 1942
Max Oestreicher, 2. júlí 1942
Wilhelm Schaper, 14. apríl 1942
Heinz Goldschmidt, 16. apríl 1940
Rudolf Oldenburg, 27. mars 1943
Ernst Pingel, 11. ágúst 1942
Frank Finke, 3. júlí 1942
Damian Reis, 11. ágúst 1942
Herbert Meyer, 30. mars 1940
Felix Lewandowski, 4. febrúar 1941
Ludwig Honig, 19. júní 1941
Wilhelm Funken, 8. janúar 1941
Curt Ganssauge, 9. júlí 1941
Alfred Viebach, 9. júlí 1941
Alfred Lederman, 12. júlí 1942
Otto Tölpel, 4. nóvember 1939
Egon Sander, 26. júní 1941
Alfred Fishel, 29. febrúar 1940
Felix Landowski, 4. febrúar 1941
Þetta eru örfá nöfn af þeim fjölda samkynhneigðra sem nasistar ofsóttu, fangelsuðu eða drápu. Dagsetningarnar eiga við um daginn sem þeir voru drepnir í Sachsenhausen-fangabúðunum. Nasismi er auðvitað alltaf gott viðmið þegar draga skal fram það versta sem mannskepnan getur hugsað sér — og hefur framkvæmt — en enn í dag eru samkynhneigðir ofsóttir vegna kynhneigðar sinnar. Ekki alltaf ofsóttir og drepnir af ríkisvaldinu, eða með þegjandi samþykki ríkisvaldsins, þó slíkt þekkist sannarlega. En einstaklingar og hópar um allan heim ofsækja enn, og drepa jafnvel, samkynhneigða. Hér á landi getum við hreykt okkur af því að vera lengra komin en margar aðrar þjóðir varðandi lagalegan rétt samkynhneigðra, og að almennt samþykki sé fyrir því að samkynhneigð sé viðurkennd í samfélaginu.
Enn er þó við ramman reip að draga, ekki bara í útlöndum þar sem er lífshættulegt að vera samkynhneigður, heldur hér meðal vor, þar sem einstaklingar og hópar hafa horn í síðu samkynhneigðra og veigra sér ekki við að úthrópa þá. Skemmst er að minnast ummæla imamsins í Menningarsetri múslima og hvernig þjóðkirkjan stóð lengi í vegi fyrir réttindum samkynhneigðra eins og hin kristna kirkja hefur einnig gert í öðrum löndum.
Nú hefur Þjóðkirkjan gert sig að viðundri eina ferðina enn, að þessu sinni vegna innflutnings á predikara sem hatast útí samkynhneigða. Þjóðkirkjan mun ekki sem slík standa að innflutningum (skilst mér) heldur önnur kristin trúfélög, en biskup á samkvæmt dagskrá að ávarpa samkomuna. Til að auka á flækjustigið hefur Þjóðkirkjan beðist afsökunar á að auglýsa samkomuna en biskupinn segir eitt annan daginn og annað hinn um þátttöku sína.
Hvernig sem það fer alltsaman dregur þessi fyrirhugaða samkoma (og ummæli á athugasemdakerfum af því tilefni) fram í dagsljósið að viðhorf til samkynhneigðra hér á landi eru ekki einróma jákvætt, og að til er fjöldi manna sem finnst fullkomlega eðlilegt að úthúða fólki vegna kynhneigðar. Það spillir heldur fyrir gleðinni sem annars ætti að ríkja þessa dagana.
<< Home