miðvikudagur, ágúst 07, 2013

Ógeðslegt á báða bóga

Myndbandið sem nafnlausir róttækir feministar birtu í dag stuðaði mig ekki sérlega þegar ég sá það. Ástæðan var sú að ég skildi ekki nema lítið brot af textanum. (Ef hann hefði verið á dönsku hefðu líklega einhverjir notað hann sem sönnun fyrir því að hætta eigi dönskukennslu í íslenskum skólum því Danir tali hvorteðer óskiljanlega.) Ég náði þó að Gillzenegger „er Bleiki fíllinn“ og einhverju fleiri úr því erindi.

Þegar svo DV vísaði á textann (sem birtist á öðru vefsvæði hvar ég ven ekki komur mínar allajafna) sá ég að textinn er mun verri en mér heyrðist hann vera. Fyrrgreint erindi, og brot úr öðrum, er það eina sem ég get tekið undir.

„Þjóðhátíðarnefndarlufsur
Nauðgunarmenning blómstrar í ykkar nafni.
Þið fáið engin helvítis fokking jarðgöng
Öryggismyndavélar, áfallateymi og Gillz að stjórna balli
Nice try!
Gillz ER fokking bleiki fíllinn!
Þetta er nauðgunarmenning!
Eruð þið að ná þessu???
Þetta er nauðgunarmenning!


Nauðganir eru ekki einstaka harmleikur eða óheppilegt atvik.
Nauðganir eru hamfarir, drepsótt, stríðsyfirlýsing
Landsvæðið er líkamar okkar“

Megninu af restinni er best lýst sem ógeði. „Djók“-morðhótunin er ekki fyndin, ekki einu sinni sem háðsádeila á hótanir sem sagðar eru settar fram í gríni.

Myndbandi nafnlausu róttæku feministanna hefur svo verið svarað með öðru úr smiðju einhvers karlmanns, og það verður að segjast að hugarórar hans eru verulega ógeðslegir. Ansi er ég samt hrædd um að margir karlmenn taki undir þetta (en vonandi ekki margt annað) hjá honum.
„Við vorum með fyrsta kvenkynsforsetann, lesbískan forsetisráðherra
svo viljið þið meira og eyðileggið alltsaman“.

Við viljum meira af því að við viljum ekki nauðganir? Það er greinilega til of mikils mælst. En „nauðgunarmaðurinn“ eins og hann kallar sig hótar nauðgunum (þó ekki á nafngreindum konum eins og Egill Gillzenegger Einarsson hótaði hér um árið) og er greinilega þeirrar skoðunar að þær eigi feministar skilið. Og lýsir því í smáatriðum. Geðslegt.

Enda þótt feministarnir sem gerðu myndbandið hafi haft betri málstað að verja heldur en nauðgunarmaðurinn, þá má ekki á milli sjá hvor textinn er ógeðslegri. Þetta er öllum aðilum til skammar.

Efnisorð: , , ,