þriðjudagur, ágúst 13, 2013

Víðsýnið nær ekki til allra átta

Eftir Gleðigönguna hefur spunnist talsverð umræða vegna ummæla nokkurra risaeðla um réttmæti þess að samkynhneigðir kyssist á almannafæri. Það þykir þorra fólks ekki gæfulegt viðhorf árið 2013 og hafa margir lagt orð í belg til að koma því á framfæri með ýmsu móti. Einn þeirra er Egill Helgason sem skýrir frá því að sonur sinn eigi vini sem aldir eru upp af samkynhneigðum körlum, hann sé í skóla með börnum allstaðar að úr veröldinni og að Egill telji hann ekki í neinni hættu á að skaðast af neinu þessu. Það er auðvitað mjög jákvætt og ágætt að Egill komi þessu á framfæri. En það vill svo til að Egill hefur áður tjáð sig um hvað er æskilegt og óæskilegt í lífi sonar síns.

„Ég vil að sonur minn læri að lesa, skrifa og reikna, kannski nokkur tungumál, tónlist, raungreinar, sögu, landafræði – og svo eitthvað fleira sem hann kann að fá áhuga á.

En ég vil alls ekki að hann sé neyddur til að læra kynjafræði.

Ef hann hins vegar finnur einhvern tíma hvöt hjá sér til að læra kynjafræði – ja, þá verður bara að hafa það.“

Þetta hljómar eins og hómófóbískur faðir fyrri tíðar sem ætlar rétt að vona að sonurinn verði ekki hommi. En Egill er auðvitað ekki hómófóbískur, það er ekki hipp og kúl hjá upplýstu og frjálslyndu fólki. Honum finnst hinsvegar kynjafræði síðasta sort, enda er Egill hvítur miðaldra (ómenntaður) karlmaður og frá þeim sjónarhól lítur hann niður á kvennabaráttu, jafnrétti, kynjafræði og aðgerðir í þágu feminisma (eins og Helga Þórey Jónsdóttir hefur sýnt framá). Og Egill vill í stuttu máli ekki að sonur sinn mengist af sjónarhorni sem er ekki hans eigið.

Ég féll semsagt ekki í stafi af hrifningu yfir víðsýni Egils Helgasonar.

Efnisorð: , ,