þriðjudagur, september 03, 2013

Fælingarmáttur

Það má vera að einhver kynferðisbrot séu framin vegna „dómgreindarbrests“* og í öðrum tilvikum sé um „misskilningsnauðgun“ að ræða, svona eins og þegar tvær manneskjur lokka ungling með sér og nota til kynlífs og misskilja hana svo svakalega og hvort annað í ofanálag að þeim finnst hún ýmist hafa hlegið og gantast þar til hún fór eða að hún grét smá undir lokin en samt allt í góðu útaf því að allir vilja geraða með frægum og stundum gráta stelpur þegar þær prófa eitthvað nýtt.

En leiði nú dómgreindarbresturinn til þess að karlmenn (og þægar kærustur) hrelli, misbjóði, meiði, græti ungar stúlkur eða konur, svo að þær líða þjáningar á meðan á atburðinum (eða um árabil meðan á bréfasendingum) stendur og upplifa skömm, ótta, og niðurlægingu svo fátt sé talið af neikvæðum afleiðingum þess að brotið sé á kynfrelsi þeirra lengri tíma á eftir, jafnvel árum saman, hvaða atburðarás og hvaða upplifun er ásættanleg fyrir þann sem framdi verknaðinn?

Má kæra hann?
Má dæma hann sekan?
Þarf hann að sitja inni?

Og að gefnu tilefni: má segja eitthvað við þessa menn þegar afplánun er lokið? Eða er maður sem dæmdur hefur verið fyrir kynferðisbrot „búinn að taka út sína refsingu“ og allir eiga að taka við honum opnum örmum og fyrirgefa honum „dómgreindarbrestinn“? Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur hefur bent á að þeir barnaníðingar sem sitja nú bak við lás og slá sleppi bráðum út og vill að við sem samfélag íhugum hvernig við tökum á móti þeim.**

Nýlega var nefnilega karlmaður, sem níddist á stjúpdóttur sinni um árabil og sat inni fyrir það, rekinn úr vinnu þegar upp komst að hann var barnaníðingur. Sumum finnst að vegna þess að í starfinu fólst ekki að hann væri einn með börnum væri ótækt að losa sig við hann, en hvað ef samstarfsfólki hans langaði bara ekki að vinna með honum? Höfðu óbeit á honum? Má það?

En hvað, mega þessir menn ekki vinna fyrir sér, er það ekki mannréttindabrot að koma í veg fyrir það? Björg Sveinbjörnsdóttir skrifaði fínan bloggpistil þar sem hún rekur viðtal sem var tekið vegna þess að karlmaðurinn sem skrifaði systurdóttur konu sinnar, stelpu á unglingsaldri, klámfengin bréf var fenginn af háskólakennara til að vera gestafyrirlesari en háskólinn vill svo ekki leyfa honum að kenna*** (það er kallað mannréttindabrot og ég veit ekki hvað og hvað af fjölmörgum hvítum miðaldra köllum, allt frá fyrrverandi ráðherrum til ritstjóra dagblaða****). Viðtalið var ekki við bréfritarann heldur mann sem fannst ómögulegt að menn væru útskúfaðir að eilífu ef upp um glæpi þeirra kæmist, og virðist hafa verið að tala um kynferðisbrot almennt. Björg gerir athugasemd við þetta og segir að hræðslan við afleiðingarnar hafi fælingarmátt:
„Fólk á almennt að verða hugsi um afleiðingar gjörða sinna áður en það framkvæmir.“

Mér er þessi fælingarmáttur hugleikinn. Ef mönnum er alveg sama um tilfinningar, líf og heilsu þeirrar stúlku eða konu sem þeir áreita eða nauðga, fá jafnvel aukið kikk við tilhugsunina um að hafa varanleg áhrif á líf hennar, og þeim er sama um lög og rétt (vitandi að þeir lenda líklega ekki fyrir rétti) — gæti þá fælingarmátturinn sem fólginn er í því að verða útskúfaður ef upp um þá kemst stoppað einhverja þeirra? Kannski ekki. En mér finnst fullkomlega eðlilegt að fólk vilji ekki vinna með þeim (í rútufyrirtækjum eða skólastofnunum), sitja hjá þeim í tímum,***** senda börnin sín á böll þar sem þeir skemmta, eða útskúfi þeim á annan hátt. Það verða hvorteðer alltaf einhverjir sem vilja þessa menn, samþykkja þá og afsaka þá. Við þessi sem höfum ímugust á þeim hljótum að hafa rétt á að hafna allri umgengni við þá. Þeir mættu hugsa út í það áður en þeir láta til skarar skríða.

Hvort sem útskúfun hefur fælingarmátt eða ekki, þá er hún fullkomlega eðlilegt viðbragð þeirra sem er ofboðið.

___
* Það er þó varla dómgreindarbrestur þegar brotin eru framin aftur og aftur yfir margra ára tímabil eins og þau að skrifa unglingsstúlku kynórabréf, það er ekki brestur heldur einbeittur brotavilji; já og ég kalla það kynferðisbrot. Ástæðuna má lesa í samantekt Hildar Lilliendahl (í athugasemdakerfinu hér): „Af hverju er alltaf talað eins og um sé að ræða eitt sendibréf? Las enginn umfjöllun Nýs lífs eða eru allir búnir að gleyma henni? Líkamleg áreitni í sólarlandaferðum fjölskyldunnar eða dularfullt hangs við rúmstokk Guðrúnar meðan hún svaf, þrettán ára gömul. Sendibréf stíluð á hana og send í grunnskólann hennar, kröfur um að hún kæmi í heimsókn til grasekkilsins í Washington, kröfur um að hún þegði yfir bréfunum, óskir um að hún skrifaði og sendi kynlífsóra tilbaka...“

** Við sem samfélag útskúfuðum Steingrími Njálssyni. Réttupp hönd sem er með samviskubit yfir því.

*** Forsmáði bréfaskrifarinn notar svo-skal-böl-bæta-að-benda-á-eitthvað-annað aðferðina í pistli þar sem hann talar um „meintar ávirðingar“ sínar og „meinta kynferðislega áreitni“, þegar hann klagar yfir því að Háskóli Íslands hafi ritþjóf í vinnu. Það virðist ekki hvarfla að honum að kannski hafi sú ákvörðun að ráða þann mann í vinnu upphaflega (ráðningin var mjög umdeild) og ekki reka hann þegar hann var dæmdur fyrir ritstuldinn (afsakið: brot á höfundarrétti) hafi plagað skólann svo að ekki sé áhugi fyrir því að gera fleiri slík mistök.

**** Ingimar Karl Helgason telur þá upp og bendir á hvað orð þeirra fá mikið vægi í fjölmiðlum. Þorsteinn Vilhjálmsson (í athugasemdakerfinu hér) segir þetta um þá: „Það að allir frægir íslenskir karlmenn yfir fimmtugu hafi brjálast yfir þessu (en ekki yfir t.d. máli um daginn þar sem maður sem var dæmdur fyrir barnaníð var rekinn úr starfi sínu við að keyra rútur) segir einfaldlega eitthvað um samstöðu þeirra í gegn um súrt og sætt. Það sem var allt í lagi hjá fyrrnefndum rútubílstjóra er algjörlega tabú þegar kemur að einhverjum elítuperra eins og Jóni Baldvini. Þetta er hörmuleg hræsni.“ Viðbót: Gísli Ásgeirsson ræðir einnig samstöðu karlanna á Knúzinu.

***** Ég man ekki prósentutölurnar yfir hvað margar konur hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Tíu prósent? Ef sú tala er notuð og er yfirfærð á á bekk í stjórnmálafræði í háskóla, þá geta verið allt að tíu prósent nemenda í námskeiðinu sem hafa orðið fyrir einhverskonar kynferðisofbeldi. Líkur eru á að þeim þætti ekki geðslegt að neyðast til að sitja tíma (um er að ræða skyldunámskeið) hjá manni sem sjálfur hefur játað á sig klámfengin bréfaskrif til unglingsstúlku, jafnvel þó kæra hennar hafi ekki leitt til dóms yfir honum.
[Já, ég veit að það gætu líka verið engir þolendur kynferðisofbeldis í bekknum, eða fullur salur, prósentuhlutfall meðal þjóðar er ekki alveg yfirfæranlegt á smærri hópa, en ég er að benda á að nemendur eiga ekki að þurfa að sitja í tímum hjá þessum manni].
Ég er ekki ein um að ræða þá hlið þessa máls sem snýr að háskólastúdentum í þessu máli. Hér er pistill Sigríðar Guðmarsdóttur guðfræðings og hér viðtal við Jón Ólafsson heimspeking.
Viðbót vegna tíuprósentanna, talan er hærri: „Í rannsókn sem framkvæmd var árið 2008 fyrir atbeina félags- og tryggingamálaráðuneytisins kom fram að rétt tæplega fjórðungur kvenna á aldrinum 18-80 hafði einhvern tímann frá 16 ára aldri orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.“ Kom fram hér.

Efnisorð: , , , ,