föstudagur, september 06, 2013

Bara ef það hentar mér

Skuggalegar fréttir hafa borist um fyrirhugaðar framkvæmdir í Amazon (ekki vefversluninni). Stjórnvöld í Brasilíu og Ekvador ætla að virkja og bora eftir olíu, rétt eins og Amazon sé ekki mikilvægasti regnskógur jarðarinnar með gríðarlega fjölbreytt jurta- og dýralíf, heimili tugþúsunda manna.
Virkjun Brasilíumanna verður þriðja stærsta vatnsaflsvirkjun í heimi, mun sökkva yfir 400.000 hekturum af skóglendi í Amazon. Þar búa yfir 40.000 indíánar, sem þurfa að yfirgefa heimili sín í skóginum. Mótmælt var í Brasilíu fyrr á þessu ári þegar virkjunin kom til umræðu. Umhverfissinnar segja tjónið sem hlýst af eyðingu skóganna og menningarlegan skaða vera óbætanlegan. Dýrategundir muni hverfa og þjóðflokkarnir sem búa á svæðinu muni sennilega aldrei jafna sig á brottflutningunum.“
Svavar Hávarðsson skrifar feikigóða úttekt á þessari framkvæmd sem birtist á Vísi og í Fréttablaðinu í gær. Það sem þar kemur fram er ekkert minna en hrollvekjandi.
„Brasilísk stjórnvöld munu, ef fram fer sem horfir, byggja á næstu árum þriðju stærstu vatnsafls­virkjun heims í hjarta Amason-regnskógar­ins. Með ­framkvæmdinni verður stærri hluta skógarins eytt en áður eru fordæmi fyrir … Við þetta munu um 1.500 ferkílómetrar gróins lands í ­Amason-regnskóginum verða ­lagðir undir framkvæmdina, þar af fara yfir 500 ferkílómetrar lands undir vatn … Vatnsleysið mun eyða landbúnaðaruppskeru á stórum svæðum, sem mun snerta bæði frumbyggjana og bændur. Regnskógurinn sjálfur, allt um kring, mun líklegast ekki þola breytingarnar … Áhyggjur af vistkerfi svæðisins snúast um að því verði ­raskað af áður óþekktri stærðargráðu. Allt að þúsund sjálfstæðar tegundir skriðdýra, fugla og fiska eru taldar í mikilli hættu. Sumar þeirra ­finnast hvergi annars staðar og munu deyja út.“
Mótrök brasilískra stjórnvalda eru þau að „­framkvæmdin sé landinu lífsnauðsynleg til að viðhalda hagvexti undan­genginna ára og að hún sé í reynd umhverfisvæn.“

Virkjunin sé í raun umhverfisvæn, þetta er óneitanlega kaldhæðnislegt. (Við höfum heyrt svipað áður.)

Grein Svavars sem ég hvet fólk til að lesa, snýr reyndar aðeins að fyrirhuguðum framkvæmdum Brasilíumanna. En þeir eru ekki einir um að gera atlögu að vistkerfi Amazon heldur sjá Ekvadormenn þar sitt Drekasvæði.
Stjórnvöld í Ekvador ætla að láta bora eftir olíu í þjóðgarði í Amazon-regnskóginum. Lífríkið í þjóðgarðinum Yasuni í austurhluta Ekvador er eitt það fjölbreyttasta á jörðinni, talið er að á einum hektara þar sé fleiri trjátegundir að finna en í gjörvallri Norður-Ameríku. Þá er garðurinn heimili fjölmargra ættbálka indíána sem margir vilja lítil samskipti eiga við umheiminn.“
Olíuauðurinn heillar. (Við könnumst líka við það.)

Að baki ákvörðunum stjórnvalda í Brasilíu og Ekvador er sami drifkraftur: hagvöxtur. Hagvöxtur hljómar vel og er ávísun á vinsældir stjórnvalda en felur einnig í sér það sem meiru máli skiptir: hagnaðarvon stórfyrirtækja.

Það er skemmdarverk á svo stórum skala að ráðast á Amazon skóginn að það kemur allri heimsbyggðinni við. Ekki aðeins vegna þess að regnskógar eru lungu jarðarinnar heldur vegna fólksins þar, dýranna, alls vistkerfisins. Hvort sem það er kallað hagnaðarvon eða hagvöxtur réttlætir ekkert eyðileggingu náttúrunnar.

Eða finnst okkur kannski í lagi að það sé verið að virkja í Amazon? Eru allar virkjanir góðar, alltaf?

Efnisorð: , ,