fimmtudagur, september 19, 2013

Nauðganir á átakasvæðum

Grein eftir William Hague utanríkisráðherra Bretlands og Angelinu Jolie sérstakan sendiherra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna birtist í fjölmiðlum í dag. Þau fjalla þar um skýrslu Rannsóknarnefndar SÞ þar sem lýst er kynferðisofbeldi sem beitt er á átakasvæðum.
„Kynferðislegu ofbeldi hefur verið beitt sem vopni í nánast öllum stríðsátökum okkar tíma, frá Bosníu til Rúanda. Nauðgunum er vísvitandi beitt sem hernaðartækni, í því skyni að ná fram pólitískum markmiðum: að niðurlægja pólitíska andstæðinga, að flæma á brott eða undiroka fólk af öðrum þjóðflokki eða þjóðerni, eða að hræða heila samfélagshópa til undirgefni. Í sumum tilvikum er nauðgunum jafnvel beitt vísvitandi til þess að smita konur af HIV-vírusnum, eða slasa þær svo illa að þær geti ekki alið börn.“
„Heimsbyggðin hefur gert með sér samninga um allsherjarbann við notkun klasasprengja og jarðsprengja, eða til að hamla gegn alþjóðlegu vopnasmygli. Allir þessir alþjóðasáttmálar voru eitt sinn álitnir vera draumórar einir. Uppspretta þeirra allra var réttlát reiði fólks um allan heim yfir afleiðingunum af notkun þessara vopna sem leiddi til alþjóðlegrar samstöðu. Það er tími til kominn að heimsbyggðin beiti sér með sama hætti gegn nauðgunum og kynferðisofbeldi á átakasvæðum.“
William Hague og Angelina Jolie rekja síðan baráttu sína fyrir því að uppræta stríðssvæðanauðganir. Ríkisstjórnir átta mestu iðnvelda heims, Bandaríkjanna, Þýskalands, Ítalíu, Frakklands, Japan, Bretlands, Kanada og Rússlands (G8-hópurinn), hafa skuldbundið sig til að gera tímamótaátk í þessum efnum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og 45 aðildarríki SÞ leggja einnig hönd á plóg. Lögð verður fram „Yfirlýsing um skuldbindingu til að binda enda á kynferðislegt ofbeldi í stríðsátökum“ á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem hverju einasta ríki heims gefst tækifæri til að sýna afstöðu sína.

Þau segja að ef þeim takist að fá ríkisstjórnir heims til að skrifa undir yfirlýsinguna, með öllum þeim skilyrðum sem henni fylgja, „gæti það markað þáttaskil í alþjóðlegu viðhorfi til nauðgana og kynferðisofbeldis og síðast en ekki síst markað upphafið að endalokum refsileysis gerendanna.“

Allt er þetta afar jákvætt og ég tek hatt minn ofan fyrir þeim William Hague og Angelinu Jolie fyrir þessa baráttu. Vonandi ber hún árangur.

Mér finnst það sem þau segja að uppræting nauðgana á átakasvæðum geti breytt alþjóðlegu viðhorfi til nauðgana,afar áhugaverð og opna ýmsa möguleika. Ef ríki skrifar uppá að nauðgun í stríði sé glæpur, verður það þá ekki líka að líta á nauðgun á friðartímum eða á svæðum þar sem ríkir friður sé glæpur? Hvaða viðhorfs- og lagabreytingu kallar það á í þeim löndum þar sem konur eru ásakaðar um hórdóm og þeim er refsað eftir að hafa verið nauðgað? Eða munu þau ríki einmitt neita að skrifa undir, og gefa þar með endanlega yfirlýsingu um að nauðganir séu alltaf, í stríði sem friði, réttlætanlegar, alltaf sök konunnar?

Það er hætt við því að það séu „draumórar einir“ að öll ríki heims samþykki að berjast gegn nauðgunum á átakasvæðum, en barátta gegn naugunum, hér, þar og allstaðar er samt alltaf þess virði.

Efnisorð: ,