fimmtudagur, október 31, 2013

Afhverju eru konur svo fámennar í sumum stéttum?

Undanfarna áratugi hafa oft birst fréttir um að kona sé nú í fyrsta sinn í starfi sem eingöngu karlmenn hafi áður sinnt. Stundum er það tengt pólitík (fyrsti kvenráðherrann, fyrsta konan sem er formaður stjórmálaflokks) eða opinberum embættum (fyrsti kvenhreppstjórinn). Einnig hafa verið fluttar fréttir og tekin viðtöl við konur sem hafa menntað sig til eða farið til starfa í starfsgreinum þar sem þær eru enn í miklum minnihluta, og jafnvel spurning hvort einhverjar konur séu starfandi í stéttinni yfirleitt þó einhverjar hafi riðið á vaðið fyrir löngu. Það eru störf í iðnaði og á sjó, svo dæmi séu tekin. Fyrsti kvenvélstjórinn var útskrifuð 1975, fyrsti kvenhásetinn hjá Landhelgisgæslunni hóf störf 1978, hvað ætli séu margar í þessum störfum núna? Konur hafa lært og stundað málmsmíðar, húsasmíðar, pípulagnir, rafvirkjun, og margar aðrar iðnir, og þó eflaust sé hægt að finna einhverstaðar tölfræðilegar upplýsingar um fjölda þeirra get ég fullyrt að þær hafa ekki náð því að verða nálægt því helmingur starfsstéttar sinnar. Að einhverju leyti má kenna uppeldi og samfélagsaðstæðum um að konur sæki ekki í þessi störf í sama mæli og karlar, því skal ég vel trúa. En það virðist líka vera að þær konur sem þó vilja starfa í starfsgreinum sem einhverntímann og kannski enn byggðu á líkamlegum styrk, eða tengjast hugmyndum um hreysti, hætti oftar og fyrr en karlar sem hefja sömu störf.

Skýrslan sem gefin var út nýlega um vinnumenningu og kynjatengsl hjá lögreglunni varpar ljósi á afhverju konur endast ekki í slíkum störfum. Þar kemur fram að konunum í lögreglunni er vantreyst af samstarfsmönnum sínum og yfirmönnum (karllöggurnar telja þær ekki nógu sterkar til að slást) og þær fá ekki stöðuhækkanir (sem myndi þýða betri laun), sem er ekki hvetjandi fyrir fólk sem vill vera einhvers metið á vinnustað sínum. Konurnar eru útilokaðar frá ýmsu félagslegu athæfi sem körlunum stendur til boða, tildæmis fá konurnar ekki að syngja með lögreglukórnum, því hann er karlakór, og þær eru ekki endilega boðnar með þegar á að hittast utan vinnutíma. Þær stofnuðu félag fyrir lögreglukonur en karlarnir agnúast út í félagið. Ekki nóg með að konunum sé þannig gert erfitt fyrir félagslega, og að einelti (sem bæði konur og karlar verða fyrir) hreinlega grasseri í lögreglunni, heldur kemur einnig fram í skýrslunni að þriðjungur kvenna í lögreglunni hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni, og í sumum tilvikum hefur það hreinlega orðið til að þær gefast upp og hætta störfum.

Í skýrslunni er mikið um tölfræði (sem ég hirði ekki um að birta) en einnig viðtöl við lögreglukonur (hér má líka lesa gamalt viðtal við lögreglukonu, það virðist ekki mikið hafa breyst síðan 1994). Hér á eftir er vitnað í eina þeirra sem er kölluð Elín en hún „hætti störfum hjá lögreglunni vegna kynferðislegrar áreitni og eineltis af hálfu yfirmanns og vegna aðgerðarleysis embættisins sem hún starfaði hjá“.
„Það er víst rosa mikilvægt í lögguheiminum að strax klína því á stelpurnar að þær séu hórur eða að þær hafi sofið hjá mörgum.“ (s. 79)
„Maður lét sig hafa það þegar strákarnir voru að pæla í því hversu margar billjardkúlur kæmust upp í píkuna á mér.“ (s. 80)
Klámbrandarar eru afar algengir hjá lögreglunni (s. 83), spurning hvort þeir séu allir svona skemmtilegir. Þetta þurfa lögreglukonurnar að þola, ef þær þá ekki gefast upp. Og hvort sem það er vegna klámbrandaranna, káfsins, og annarskonar kynferðislegs áreitis sem þær hætta (þær gefa ekkert allar það upp sem ástæðu) þá er þetta vinnumenning sem fæstar konur vilja verða hluti af ef þær komast hjá því. Þá velja þær sér frekar annan starfsvettvang.

„Aukin þátttaka kvenna í atvinnulífi hefur reynst áskorun fyrir marga karla. Thomas Brorsen Smidt bendir á að sumir karlar bregðast við þessum aðstæðum með nýrri tegund kynferðislegrar áreitni, sem felst „ekki eingöngu í því að vera kynferðislega og líkamlega ágengur og ýtinn gagnvart konum heldur einnig í því að skapa og viðhalda því andrúmslofti á vinnustaðnum að konur séu körlum óæðri“. Slíkt er gert með því að klámvæða umhverfið, m.a. með orðum, myndum og athöfnum.“ (s.83)
Vinnustaðir þar sem karlar eru í miklum meirihluta, þar sem starfið byggir (eða byggði einhverntímann á) líkamlegum styrk og tengist því karlmennskuhugmyndinni eru vinnustaðir þar sem karlarnir telja karlmennsku sinni ógnað þegar konur koma til starfa. Þeir bregðast við því, sýnir skýrslan um vinnumenningu lögreglunnar, með því að gera konunum lífið óbærilegt. Flæma þær burt. Það er stór hluti ástæðunnar fyrir því að konur eru ennþá fáar í byggingariðnaði, á sjó og í lögreglunni, þrátt fyrir að það séu jafnvel áratugir síðan fyrstu konurnar tóku til starfa. Fáar konur leggja í að feta í fótspor þeirra sem gáfust upp, sumar vegna þess að þær grunar hvernig vinnumenning biði þeirra, aðrar vegna þess að þær vita það fyrir víst. Skýrslan um skítamóralinn og karlrembuna innan lögreglunnar staðfestir þá vitneskju. Hún verður varla til að hvetja konur til að sækja um hjá lögreglunni — þó að innanríkisráðherra virðist halda að nú sé kjörið tækifæri fyrir konur að sækja um — þar sem þær eiga von á annarri eins framkomu og meðhöndlun af hálfu samstarfsmanna og yfirmanna.

Eini möguleikinn til breytinga er að konur sæki um og séu ráðnar í svo stórum stíl að þær verði í einu vetfangi lágmark 40% starfsmanna, það er töfratalan sem gæti breytt vinnustaðamenningunni. Þar sem líkurnar á því eru litlar ættu konur hreinlega að varast svona vinnustaði. Og það hafa þær greinilega gert, eins og sjá má á hve fáar konur eru í sumum stéttum.


(Flick my life)








Efnisorð: , , , ,