Hatur, von og hótanir
Til er það fólk sem er svo bókstafstrúar að það sér ekki hatur eða hótanir í texta sem flest annað fólk sér hatursáróður og hótanir. Þannig héldu aðdáendur Egils Gillz Einarssonar því fram að hann hefði ekki hótað nafnkunnum feministum (og sumir lásu hótanir sem t.a.m. Hildi Lilliendahl borust og sáu ekki hótanirnar), því það stendur ekki skrifað ÉG HÓTA í textanum. Egill Gillz skrifaði ekki „ég hóta að senda menn“, og þar með segja aðdáendurnir að það sé engin hótun. Þeir sjá heldur ekkert athugavert við að senda menn á nafngreindu feministana, þeir lesa ekki úr því hótun um kynferðisofbeldi því það er hvergi skrifað 'nauðgun' eða 'kynferðisofbeldi' í textanum. Að senda menn sem áttu að „fylla“ konurnar (skv. tillögu Egils Gillzeneggers, en ég hirði ekki um nákvæmt orðalag), er algerlega lesið með augum karlanna, þeirra sem senda átti og þess sem skrifaði. Textinn er ekki lesinn með augum kvennanna sem höfðu ekki samþykkt þessa meðferð af höndum bláókunnugra karlmanna. En bókstafstrúaraðdáendurnir sjá ekki hótunina um kynferðisofbeldið, skilja ekki það sem stendur skrifað.
Nú stendur fyrir dyrum kristileg samkoma í Laugardalshöll sem er kölluð af aðstandendum sínum „hátíð vonar“. Þessi samkoma stendur ekki undir nafni í hugum flestra þeirra sem sjá ekkert jákvætt við hatursáróður aðalpredikarans, en hann mun vera andsnúinn réttindum samkynhneigðra. En enn og aftur kemur bókstaflegur lestur í veg fyrir að fólk sjái hatursáróður predikarans. Eftir að einn þeirra sem skrifar athugasemd við frétt um samkomuna hefur talið til nokkur dæmi um það sem predikarinn hefur sagt um samkynhneigða, skrifar annar að hann sjái hvergi neitt um hatur. Predikarinn hafi ekki sagst hata einhvern „nema að hann hafi sagt það í raun“. Semsagt, vegna þess að Franklin Graham hefur ekki sagt við fjölmiðla: „Ég hata homma og lesbíur“ þá er hann ekki með hatursáróður gegn samkynhneigðum.
Er það kannski þetta sem átt er við þegar talað er um að nærri fjórðungur drengja klári grunnskóla án þess að geta lesið sér til gagns? Eða snýst þetta um viljandi afneitun? Þeir sem sjá ekki hótanir í því að einhver tali um að senda menn til að gera hluti við manneskjur sem þeim er illa við, eða hatursáróður í því að tala niðrandi um þjóðfélagshópa (sem svo einmitt verða fyrir mismunun eða jafnvel ofsóknum af hálfu fólks sem fyrirlítur þá) þeir hljóta að vera blindir á fleira en bara texta. Þetta hlýtur að flokkast sem skortur á hæfileikanum til að setja sig í spor þeirra sem fyrir 'hótunarlausa' og 'haturslausa' áróðrinum verða. Enn einn möguleikinn er frjálshyggjuhugsun í anda Margrétar Thatcher sem afneitaði því að til væri samfélag. Og ef ekkert samfélag er til þá kemur okkur ekkert við hvað verður um annað fólk (aðra en okkar nánustu), og engu skiptir hvað er sagt um konur og samkynhneigða.
Það er engin von í því að hafna samfélaginu eða hamast á móti feminisma og réttindum samkynhneigðra. En það sýnir skilningsleysi hvítra gagnkynhneigðra kristinna karla á samtíma sínum. Og þeirra sem trúa áróðri þeirra, hvað sem hann kallast.
Nú stendur fyrir dyrum kristileg samkoma í Laugardalshöll sem er kölluð af aðstandendum sínum „hátíð vonar“. Þessi samkoma stendur ekki undir nafni í hugum flestra þeirra sem sjá ekkert jákvætt við hatursáróður aðalpredikarans, en hann mun vera andsnúinn réttindum samkynhneigðra. En enn og aftur kemur bókstaflegur lestur í veg fyrir að fólk sjái hatursáróður predikarans. Eftir að einn þeirra sem skrifar athugasemd við frétt um samkomuna hefur talið til nokkur dæmi um það sem predikarinn hefur sagt um samkynhneigða, skrifar annar að hann sjái hvergi neitt um hatur. Predikarinn hafi ekki sagst hata einhvern „nema að hann hafi sagt það í raun“. Semsagt, vegna þess að Franklin Graham hefur ekki sagt við fjölmiðla: „Ég hata homma og lesbíur“ þá er hann ekki með hatursáróður gegn samkynhneigðum.
Er það kannski þetta sem átt er við þegar talað er um að nærri fjórðungur drengja klári grunnskóla án þess að geta lesið sér til gagns? Eða snýst þetta um viljandi afneitun? Þeir sem sjá ekki hótanir í því að einhver tali um að senda menn til að gera hluti við manneskjur sem þeim er illa við, eða hatursáróður í því að tala niðrandi um þjóðfélagshópa (sem svo einmitt verða fyrir mismunun eða jafnvel ofsóknum af hálfu fólks sem fyrirlítur þá) þeir hljóta að vera blindir á fleira en bara texta. Þetta hlýtur að flokkast sem skortur á hæfileikanum til að setja sig í spor þeirra sem fyrir 'hótunarlausa' og 'haturslausa' áróðrinum verða. Enn einn möguleikinn er frjálshyggjuhugsun í anda Margrétar Thatcher sem afneitaði því að til væri samfélag. Og ef ekkert samfélag er til þá kemur okkur ekkert við hvað verður um annað fólk (aðra en okkar nánustu), og engu skiptir hvað er sagt um konur og samkynhneigða.
Það er engin von í því að hafna samfélaginu eða hamast á móti feminisma og réttindum samkynhneigðra. En það sýnir skilningsleysi hvítra gagnkynhneigðra kristinna karla á samtíma sínum. Og þeirra sem trúa áróðri þeirra, hvað sem hann kallast.
Efnisorð: feminismi, fordómar, frjálshyggja, mannréttindi, menntamál, Nauðganir, trú
<< Home