laugardagur, október 12, 2013

Öryggi (sumra) borgara tryggt

Furðufrétt vikunnar hlýtur að vera sú sem fjallaði um vændiskaupandann sem kærði til lögreglunnar að 16 ára stelpa hefði ekki hleypt honum uppá sig heldur rænt hann. Nógu geggjað er að maður sem augljóslega braut lög með því að ætla að kaupa vændi, og það af ólögráða barni (sbr. 206 gr.„Hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi barns undir 18 ára aldri skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum"), skuli láta sér detta í hug að kæra stelpuna til lögreglu — enn klikkaðra er að löggan skuli taka undir kveinstafi mannsins með því að senda málið til dómstóla. Þegar ég las fréttina um þetta mál trúði ég varla eigin augum, hélt að þetta væri kynning á leikriti eða einhver uppspuni. Ingimar Karl Helgason fjallar um þetta mál og spyr margra ágætra spurninga, þar til svör fást við einhverri þeirra held ég að ég láti mér nægja að vera orðlaus af undrun.

Ég varð ekki eins hissa þegar ég las leiðara Ólafs Þ. Stephensen í Fréttablaðinu í dag. Hann er þar að dásama þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að því að auka framlög til lögreglunnar. Í huga Ólafs eru framlög til löggæslu mikilvægasta verkefnið. Mikilvægara en heilbrigðis- og menntakerfið. Svona tala aðeins hægrimenn. En það sem er óhugnanlegt er að Ólafur virðist fara framá að Hanna Birna innanríkisráðherra láti lögregluna fá rafbyssur sem lögreglan getur notað „sér til varnar ef þeir eiga í höggi við sérlega ofbeldisfulla andstæðinga? Kemur til greina að vopna lögregluna frekar en orðið er?“ Það er ekki langt síðan síðast bárust fréttir af því að lögregla hafi drepið (sárasaklausan) mann með því að skjóta hann með rafbyssu, finnst einhverjum ennþá að þær séu góður kostur? Og ef einhver heldur ennþá að lögreglan á Íslandi fari aldrei offari gagnvart borgurum, þá má minna á „fumlausu“ handtökuna á Laugaveginum þegar lögga hegðaði sér eins og fífl gagnvart ofurölvi konu sem brást við með því að hrækja á lögreglumanninn (og var kærð fyrir það, enda á enginn að þurfa að þola að fá hráka framan í sig í vinnunni; hegðun hennar afsakar samt ekki hegðun löggunnar). Löggan vippaði sér í kjölfarið útúr lögreglubílnum og handtók hana eins og hún væri „sérlega ofbeldisfullur andstæðingur“. Rafbyssa í höndum svona ofbeldisseggs er hættuleg. Miðað við undirtektir skólastjóra Lögregluskóla ríkisins þá er þessi ofbeldisseggur ekki einsdæmi, og því nokkuð ljóst að þessir menn hafa ekkert við rafbyssur að gera. Þeir verða bara að láta sér nægja að beita norskum handtökuaðferðum á fólk sem þeir telja sig (með réttu eða röngu) þurfa að snúa niður.

DV birtir í dag frásögn manns sem leitaði til lögreglu og neyðarlínunnar vegna konu sem hann taldi annarsvegar í sjálfsmorðshugleiðingum og hinsvegar í hættu af völdum „hrægamms“ sem sat um hana. (Lýsing mannsins á högum konunnar er reyndar svo ítarleg að það er ósmekklegt af honum og þá sérstaklega DV að birta hana, því allir sem kannast við konuna geta þekkt hana af lýsingunni.) Hann óttaðist semsagt um öryggi hennar en löggur á lögreglubíl vildu ekki tala við hann og þegar hann reyndi að hringja á neyðarlínuna (sem sér um símtöl til lögreglunnar) fannst engum hjá neyðarlínunni þessi konukind þess virði að eyða á hana útkalli, og varla einusinni símtali og því var skellt tvívegis á manninn sem var að reyna að útvega konunni hjálp. Þegar hann sneri aftur var hún horfin. Enginn veit hvort vafasami karlmaðurinn, sem beið þögull átekta, náði henni á sitt vald. Og einsog það sé ekki nógu ömurlegt þá er það líka ömurlegt að viðbrögð lögreglunnar skuli ekki koma á óvart.

Þetta er ekki eina tilvikið þar sem lögregla og neyðarlínan bregðast konum sem eru í háska, enda þótt að áliti Ólafs Þ. Stephensen sé það „verkefni ríkisvaldsins númer eitt; að tryggja öryggi borgaranna“. Hann segir það skyldu ríkisins að tryggja skilvirka löggæslu og réttarkerfi. En þetta á ekki við um alla borgara, enda þótt Ólafur virðist halda það; þetta á ekki við um konur. Það er lærdómurinn sem má draga af þessum og svo fjöldamörgum öðrum fréttum.

Efnisorð: , , , ,