miðvikudagur, október 09, 2013

Bankanum þínum er ennþá sama um þig

„Stuðningur fyrirtækja og einstaklinga er oft á tíðum stór hluti af rekstrarfé ýmissa samtaka. Ég sé það ekki breytast þótt mismunandi sé frá einu ári til annars hversu miklu er varið til styrkja. En samfélagsþátttaka bankans verður ætíð til staðar.“
Þetta sagði upplýsingafulltrúi Kaupþings í tilefni af átakinu Bleiku slaufunni en bankinn var aðalstyrktaraðili Krabbameinsfélagsins. Viðtalið var birt 7. október 2008. Tveimur dögum síðar féll Kaupþing. Síðan eru liðin slétt 5 ár.

Kaupþing er ekki lengur til, en Arion banki er auðvitað líka uppfullur af góðvild til samfélagsins, rétt eins og fyrirrennari hans. Sama má segja um Landsbankann hinn nýja og Íslandsbanka. Þeir eiga allir ásamt ýmsum fyrirtækjum aðild að miðstöð um samfélagsábyrgð sem stofnuð var undir heitinu Festa í október 2011.

Enginn skal halda að félagsaðild bankanna sé í ímyndarskyni þó að eftilvill segi einhverjir fortíðarfíklar að ástæða þess að gömlu bankarnir voru útausandi á ýmsa styrki (gegn því að lógó bankanna væru sýnileg hjá styrkþegunum) hafi eingöngu verið til að fegra ímynd þeirra. Nei, nú er ekkert plat. Framkvæmdastjóri Festu segir mjög jákvæða hluti um tilgang félagsins. Vonandi meinar hann líka allt sem hann segir. En það er aftur á móti spurning með fyrirtækin sjálf.

Það vill svo til að mörg fyrirtækjanna sem eiga aðild að Festu eru með laskaða ímynd eða illa þokkuð að margra mati. Það á tildæmis við um þessi: Íslandsbanki, Landsbanki, Landsvirkjun, Ölgerðin (iðnaðarsaltið), Rio Tinto Alcan og Arion banki. Ég óska þeim samborgurum mínum til hamingju sem trúa því að tilgangur þessara fyrirtækja með þátttökunni sé ekki að kaupa sér nýja — og að þessu sinni enn betri — ímynd.

Ég treysti nýju loforðunum álíka vel og því að samfélagsþátttaka Kaupþings verði ætíð til staðar.

Efnisorð: