föstudagur, nóvember 08, 2013

Dýraathvörf fyrir fólk sem þolir ekki langtímasambönd

Því ber að fagna að opnað hafi verið athvarf fyrir hunda og ketti sem finnast á lausagangi í sveitarfélaginu Árborg. Auðvitað væri betra að engin dýr villtust að heiman, að engin þeirra þyrftu að flýja vondar aðstæður og engum þeirra væri kastað á guð og gaddinn, en til að bregðast við slíku er nauðsynlegt að bjóða dýrunum húsaskjól þar til úr rætist. Kattholt hefur tekið til sín vegalausa ketti af höfuðborgarsvæðinu og hundahótelið á Leirum á Kjalarnesi hýsir hunda sem eru í sömu aðstæðum. Dýrahjálp hefur svo sinnt flestum dýrategundum og komið þeim fyrir á fósturheimilum þar til þau eignast eða finna aftur heimili.

Allt er þetta gott og blessað.

Gallinn er samt enn sá, að fólk sem kann ekkert með dýr að fara og ætti aldrei að eignast dýr, tekur að sér litla sæta kettlinga og hvolpa, til þess eins að losa sig við dýrin þegar þau stækka eða sýna óæskilega hegðun. Hér gætu komið margar sorglegar sögur um það. En þar sem að nú líður að stærstu gjafakaupahátíð ársins er rétt að árétta að dýr eru ekki jólagjafir, þau hafa tilfinningar sem þarf að taka tillit til og þarfir sem þarf að uppfylla. Þau lifa lengur en marga grunar og ættu því aldrei að koma inn á heimili nema gert sé ráð fyrir þeim til langs tíma. Ef fullorðna fólkið á heimilinu þolir ekki dýr nema þau séu hljóðlaus, skíti ekkert út og skíti yfirleitt ekki neitt, þá ætti frekar að leyfa börnunum að heimsækja fólk sem á dýr en að taka dýr inn á heimili þar sem þau verða fullorðna fólkinu til ama og leiðinda og freistingin að losa sig við dýrið er mikil. Reyndar er til fólk, ótrúlega margt fólk, sem losar sig við hund eða kött og fær sér svo annað dýr, eins og Margrét Tryggvadóttir rakti í pistli. Lokaorðin hennar eru þessi.
„Kæra fólk, að eiga dýr, sérstaklega hunda og ketti, er langtímaskuldbinding og krefst þess að fólk forgangsraði þannig að dýrið sé ekki afgangsstærð. Ef þið treystið ykkur ekki til þess er betra að sleppa dýrahaldi en að gerast hálfviti sem lítur á gæludýr sem leikfang í stuttan tíma og fær sér svo nýtt þegar hann er orðinn leiður á því gamla.“
Og svo ég endurtaki: Umfram allt þarf að gelda fressketti og gera læður ófrjóar. Það munar um hvern kettling sem fæðist bara til að lenda í vondum höndum eða á vergangi, deyja ungur eða lifa sem útigangsköttur alla ævi. Stjórnandi dýraathvarfsins nýopnaða óskar sér þess að það verði alltaf tómt, engin dýr þurfi að koma þangað. Stuðlum að því að dýraathvörfin verði alltaf tóm. Tökum ekki að okkur dýr nema geta veitt þeim góð, varanleg heimili.

Efnisorð: