föstudagur, nóvember 29, 2013

Gefðu mér stærstu skuldaleiðréttingar í veröldinni í skóinn, góði jólasveinn í nótt

Þó ekki sé von á neinum af jólasveinunum þrettán nærri strax til byggða þá er nokkuð ljóst að ég set skóinn útí glugga í nótt. Á morgun er nefnilega, eins og ríkisstjórnin hefur boðað, von á Skuldagleypi, hinum nýja öllu-bjargandi-jólasveini (og hann verður ekkert líkur skrímsli Frankensteins þó hann sé samsettur úr mörgum nefndum, það er bara fyrirframtilbúin lygi). Það gæti auðvitað verið að hann setti ekki í skóinn fyrr en eftir blaðamannafundinn í Hörpu (ekki veitir af salarkynnunum, þetta eru róttækustu aðgerðir stjórnvalda nokkurs staðar í veröldinni), en þá er spurning hversu skjótt eftir að fundinum lýkur — strax?

Á morgun verð ég örugglega á þönum á milli gluggans og sjónvarpsins, nei ég meina útvarpsins, því auðvitað verður ekki bein sjónvarpsútsending, hvað þá aukafréttatími, vegna þess að eftir að gerð var hressileg jólahreingerning í útvarpshúsinu (sem einnig var boðuð) kom í ljós að barninu hafði verið kastað út með baðvatninu. En hey, hvaða máli skiptir það, á morgun fáum við öll monnípeningaglás!

Ég er svo spennt.

Efnisorð: , ,