sunnudagur, desember 01, 2013

„Meðan þið talið ekki um þessi mál eða látið eins og áhyggjur okkar séu léttvægar“

Hrafnhildur Ragnarsdóttir skrifaði ágætan pistil í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem vakið hefur upp heift andfeminista. Karlmenn stíga fram í röðum til að segja að vegna þess að þeir séu engir nauðgarar sjálfir komi þeim ekki kynferðisbrot annarra karla við. Þeir sem lesa þessar yfirlýsingar eru allskonar karlar, sumir kynferðisbrotamenn, núverandi og tilvonandi. Það hlýtur að vera huggun fyrir þá að vita að aðrir karlmenn muni aldrei atyrða þá fyrir að viðra kvenfyrirlitningu sína með orði eða æði, að þeir verði ávallt stikkfrí í augum karlkyns vina sinna, vinnufélaga og ættingja.

Margt hef ég hugsað ófagurt meðan ég hef lesið athugasemdirnar við pistil Hrafnhildar og ádeilupistil andfeministans Evu Hauksdóttir, en þegar ég sá þetta fína innlegg Ásu Bjargar í umræðuna ákvað ég að stela því og birta.

Ása Björg skrifar:
„Mér verður oft illt þegar ég les skrif Evu en aldrei þó sem nú. Ég þekki enga kona sem hefur ekki orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi af einhverju tagi.
Ég ætla að fá að endurtaka þetta í stórum stöfum

ÉG ÞEKKI ENGA KONU SEM EKKI HEFUR ORÐIÐ FYRIR KYNFERÐISLEGRI ÁREITNI EÐA OFBELDI AF EINHVERJU TAGI.

Kannski er Eva ein af þessum örfáu heppnu sem ekki hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni og óvelkomnum kynferðislegum tilburðum, hvort er orð, snerting, líkamlegt atlæti eða ofbeldi. Ég samgleðst henni,.Ég vildi gjarnan vera í hennar sporum. Ég óska konum sem ég þekki að vera í hennar sporum... (reyndar líka konum sem ég þekki ekki.)

En ömurlegi sannleikurinn er sá að við erum það ekki og verðum aldrei.

Þýðir þetta að ég hati karlmenn? - Svar mitt er nei, en ég tek ykkur með fyrirvara
Þýðir þetta að ég haldi að karlmenn í heildina geti gert betur - Svar mitt er skilyrðislaust já

Meðan karlmenn eru ekki í liði með okkur þá eru þeir á móti okkur. Afhverju segi ég það?
Jú meðan ég þarf að hugsa mig tvisvar um áður en ég fæ mér í glas á bar, eða fer út úr húsi yfir höfuð.
Meðan ég þarf að horfa í kringum mig þegar ég geng ein heim að næturlagi.
Meðan ég þarf að fylgjast með öðrum konum í kringum mig til að gæta að því að þær séu ekki í vandræðum þá verð ég að líta á það sem svo að þið séuð ekki með mér í liði, annars er ég að bjóða hættunni heim.

Þarna gætuð þið komið sterkir inn, ágætu karlmenn.
Ef þið mynduð gæta allra kvenna eins og um systur ykkar væri að ræða þá væru þessi mál ekki eins mörg, en meðan þið gerið það ekki, meðan þið stöðvið ekki vini ykkar, bræður og frændur þá mun þetta ekki lagast. Meðan þið talið ekki um þessi mál eða látið eins og áhyggjur okkar séu léttvægar þá munum við ekki geta treyst ykkur.

Meðan það er t.d. í lagi að fara með niðurlægjandi gamanmál og grín á kostnað kvenna og meðan farið er með þær sem kynferðislega hluti þá munum við ekki finna fyrir öryggi og þið sem hópur verðið áfram í hinu liðinu.

Ykkur þykir þetta kannski saklaust en viðhorf fólks stjórna gerðum þeirra og meðan það er ástættanleg að líta á kvenfólk sem hluti eða ílát þá munum við halda áfram að hræðast ykkur.

Ætlum við öllum körlum að vera eins? - NEI

Stóra spurningin er hins vegar: hvernig í ósköpunum eigum við að greina á milli ykkar?“

Í athugasemdakerfunum má sjá hvernig nánast allir karlmennirnir gera nákvæmlega þetta: „tala ekki um þessi mál eða láta eins og áhyggjur okkar séu léttvægar“. Þeir segja að sér komi þetta ekki við. Fara svo að tala um eitthvað annað, og snúa blinda auganu að kynferðisbrotum sem [aðrir]karlar fremja á konum. Svei þeim.

Þrátt fyrir þetta eggjar Ása Björg karlmenn enn í öðru innleggi:
„Gangið fram með góðu fordæmi og gerið kynferðislega áreitni og ofbeldi að umtalsefni í hópum karla og lýsið yfir að slík hegðun sé ekki ásættanleg og verði ekki samþykkt.“
Þessi innlegg Ásu Bjargar eru verulega góð.

___
Viðbót: Það er athyglisvert að bera gjörningaveðrið kringum pistil Hrafnhildar saman við pistil Guðna R. Jónassonar frá því fyrir viku þar sem hann ræðir sama mál. Hann uppskar aðeins fjórar neikvæðar athugasemdir. En það er auðvitað ekki sama hver skrifar.

Efnisorð: , ,