laugardagur, desember 14, 2013

Nafnleynd er alltaf mikilvæg í barnaverndarmálum

Mér finnst eins og ég verði að segja eitthvað um málið sem Ragnar Þór Pétursson lenti í og rakti fyrir skömmu. Af frásögn Ragnars að dæma hefur yfirstjórn skólamála í Reykjavík rannsakað áburð á hendur honum með mjög undarlegum hætti og leynt hann rannsóknargögnum. Hann er af öllu að dæma saklaus af því sem á hann var borið — barnaníði — en auðvitað hlýtur að vera óþægilegt að vita að fjöldi fólks í barnaverndarnefndum um land allt veit að hann var til rannsóknar. Barnaverndarnefndarfólk á auðvitað að gæta trúnaðar en það er eflaust erfitt fyrir Ragnar að treysta þagmælsku þeirra og því opinberar hann málið. Ragnar hefur á bloggsíðu sinni dekkað að mestu það sem ég hef að segja um málið, svo ég get bara sagt sammála eða ósammála.
„Það á aldrei, aldrei, aldrei að hunsa grun um ofbeldi gegn börnum. Slík mál á að rannsaka vel og vandlega.“
Gæti ekki verið meira sammála.
„En einmitt vegna þess að maður á að taka slík mál alvarlega á að sjálfsögðu að reyna að hindra það að fólk noti slík mál til að svala illsku sinni og heift. Og það á að rannsaka mál vel – ekki illa.“
Sammála.
„Mig langar að þakka þeim sem trúa á mig – en um leið langar mig að biðja þá um að hafa í huga að svona má ekki hugsa um kynferðisofbeldi. Það eru börn úti í samfélaginu okkar sem eru beitt ofbeldi af mönnum sem engin trúir neinu illu upp á. Barnaníðingar eins og aðrir ofbeldismenn geta litið út fyrir að vera dásamlegt fólk en eru svo bölvuð skrímsli. Kynferðisofbeldismál mega aldrei snúast um að safna í lið þeirra sem trúa meintum geranda og hinum sem trúa meintum þolanda. Það er nógu erfitt að fá raunverulega glæpamenn dæmda þótt við hlöðum okkur ekki upp samfélagslegum varnarveggjum fyrir þá sem verða fyrir sökum.“
Þetta er frábær punktur hjá Ragnari og mikilvæg skilaboð til þeirra sem standa með þeim sem sakaðir eru um kynferðisbrot — jafnvel þegar þeir eru vinsælir kennarar.

Ég er hinsvegar ósammála þeim sem vilja svæla fram þann sem kom með ábendinguna sem varð til þess að Ragnar Þór var rannsakaður. Enda þótt það hljómi líklegt af frásögn Ragnars að viðkomandi hafi hringt af illgirni þá getur líka verið að viðkomandi hafi skilið orð Ragnars (um að hann hefði samúð með barnaníðingum) á þann veg að hann væri hugsanlega barnaníðingur. Og viðkomandi hafi talið sér skylt að láta yfirmenn Ragnars vita, af borgaralegri skyldu og góðum hug. Það er vond tilhugsun að refsa eigi manneskju fyrir slíkt, jafnvel þótt hún hafi rangt fyrir sér. Rétt eins og fjölmiðlar mega ekki gefa upp heimildamenn (því annars hættir fólk að koma til þeirra mikilvægum upplýsingum) þá má það aldrei verða þannig að fólk sem tilkynnir grun sinn um brot á barnaverndarlögum sé svift nafnleynd. Alveg sama þótt einhver hafi misnotað það kerfi til að koma höggi á einhvern.

Það er algjörlega óásættanlegt ef fólk sem tilkynnir grun eða sannfæringu sína um brot á barnaverndarlögum geti átt von á hefnd þess sem hann ásakaði (með réttu eða röngu). Það getur orðið til þess að enginn myndi þora að láta vita af brotum gegn börnum, sannanlegu ofbeldi og vanrækslu. Eins og það hlýtur að vera vont að vera borinn röngum sökum þá er enn verra ef enginn kemur börnum til bjargar þegar það er hægt.