þriðjudagur, desember 31, 2013

Áramót

Oft hef ég mælt með vefritinu Knúz og ekki minnkar ánægja mín við lestur áramótaannáls Knúzzins. Hann er skrifaður af Elvu Björk Sverrisdóttur, Gísla Ásgeirssyni, Höllu Sverrisdóttur, Hildi Lilliendahl, Líf Magneudóttur, Maríu Hjálmtýsdóttur, Sigríði Guðmarsdóttur, Steinunni Rögnvaldsdóttur og Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur. Þau hafa sparað mér tíma sem ég annars hefði eytt í að rifja upp atburði ársins og reyna að berja saman áramótapistil. Auk þessa tímasparnaðar sem ég er þakklát fyrir er annáll Knúzzins vel skrifaður og vel heppnaður í alla staði. Lesið hann hér.

Eitt af því sem Knúzið rifjar upp (en ég hafði alveg gleymt að skrifa um) er veiting jafnréttisverðlauna Stígamóta. Þar fékk Knúzið og aðstandendur þess viðurkenningu fyrir þá vitundarvakningu um jafnrétti og ofbeldismál sem miðillinn hefur unnið að. Að auki fengu viðurkenningu Erna Agnarsdóttir og María Haraldsdóttir sem afhjúpuðu kynferðisbrot Karl Vignis, og umsjónarmenn Kastljóss einnig fyrir umfjöllun þeirra um málið. Aðrir sem hlutu viðurkenningu Stígamóta voru Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unicef, Theodóra Þórarinsdóttir, starfsmaður Stígamóta, og forvarnarátakið Fáðu já.(Héðan og héðan.) Allt er þetta verðskuldað. Best af öllu er nú samt að Stígamót skuli veita þessi verðlaun og vera til yfirleitt.

En úr því áramótaannáll Knúzzins sparaði mér allan þennan tíma og erfiði get ég snúið mér að öðru, því nú heyri ég að nágrannar mínir eru farnir að skjóta upp flugeldum. Flugeldar geta verið hættulegir og karlmenn á öllum aldri eru í aðaláhættuhópnum, eins og segir hér. Þeir fara óvarlega, fylgja ekki leiðbeiningum og nota ekki hlífðargleraugu. Gunnar Már Zoega augnlæknir kann ráð við þessu. Hann veit sem er að ákaflega sjaldgæft er að konur slasist vegna flugelda og þessvegna biðlar Gunnar Már til mæðra og eiginkvenna skotglaðra karlmanna.

„Kvenþjóðin er í lykilhlutverki að passa upp á okkur vil ég segja. Fylgjast með táningunum sínum dagana fyrir og eftir gamlársdag og síðan hugsa um eldri karlpeninginn á gamlárskvöld og sjá til þess að hann sé í skotheldu ástandi og það sé allt í lagi með þá þegar þeir byrja á þessu.“
Þarna sýnir Gunnar Már mikla kænsku. Hann veit að það þýðir ekkert að ávarpa karlmenn beint. Ef það er gert og þeir beðnir um að breyta hegðun sinni (hvað þá ef karlmenn eru beðnir um að hafa áhrif á aðra karlmenn) þá verður allt vitlaust. Það er alveg bannað að móðga karlmenn með því að segja beint við þá að hegðun þeirra sé skaðleg. Þetta veit augnlæknirinn, einsog við reyndar öll.

Ég bið lesendur síðunnar um að fara varlega í kvöld, með eða án flugelda/áfengis/karlmanna.

Efnisorð: ,