sunnudagur, febrúar 02, 2014

Ný áskorun fyrir aðdáendur Woody Allen

Þegar ég las ágæta úttekt Gísla Ásgeirssonar á ásökunum Dylan Farrow á hendur Woody Allen fór ég að skoða hvað ég hefði skrifað um þetta mikla átrúnaðargoð margra kvikmyndaáhugamanna. Í ljós kom að það var furðulítið; ég hafði minnst á hann í framhjáhlaupi í einni bloggfærslu árið 2007. Þetta þótti mér furðulegt því ég vissi að ég hafði skrifað mun meira um hann — en í ljós kom að það var ekki á blogginu heldur í tölvupóstum. Svo að hér fer á eftir samantekt úr nokkrum tölvupóstum (flýtir svo ansi mikið fyrir mér) þar sem ég þusa um undarleg fjölskyldumál Allen og kynferðissamband við eina eða fleiri dætur Miu Farrow.

Fyrst ber að taka fram að ég hef séð nokkrar ágætar Woody Allen myndir en er fráleitt hans mesti aðdáandi. Ég hef nöldrað við hvern sem heyra vill um samband hans við Soon-Yi í hvert sinn sem myndir hans eru sýndar en það hefur aldrei haggað neinum aðdáendum hans. Nú er spurning hvað þeim finnst eftir að kynferðisbrot hans gegn Dylan hafa komist í hámæli. Fram að því að ég las viðtalið sem ég vitna í hér að neðan var þetta viðhorf mitt til Woody Allen og mynda hans:

Woody getur maður réttlætt að horfa á (með herkjum), Polanski er hinsvegar ógeð (þó mig rámi í að hafa séð einhverja ágæta mynd eftir hann áður en ég vissi hverskonar viðbjóður hann er). [úr tölvupósti ágúst 2012] Þetta viðhorf endurspeglast í bloggfærslunni sem ég skrifaði 2007 (og margar aðrar um Polanski).

Eftirfarandi er úr tölvupósti í október 2013, tilvitnanir þýddar í snatri, annað lítillega umorðað og stytt:

Ég rak augun í nýtt viðtal við Miu Farrow í októberhefti Vanity Fair og hellti mér í að finna upplýsingar um Woody Allen og þá svívirðu hans að fara að vera með stjúpdóttur sinni.

Í viðtalinu kemur ýmislegt í ljós sem ég ekki vissi áður t.d. að Mia Farrow hafði ættleitt Soon-Yi meðan hún var gift André Previn, þannig að stelpan hét alltaf Previn og leit á André Previn sem pabba sinn. Ég vissi að Mia Farrow og Woody Allen hefðu ekki búið saman en verið nágrannar, í athugasemdakerfi Vanity Fair kemur fram að hann hafi búið handan götunnar. Það er hinsvegar ljóst að hann átti son með Miu (sem hún segir reyndar núna að Frank Sinatra hafi átt) og að börnin sem hún ættleiddi eða átti eftir að hún tók upp sambandið við Woody Allen hafi litið á hann sem pabba sinn, eða að minnsta kosti pabba systkina sinna. Það er nefnilega athyglisvert að í þessu viðtali segja þau frá (ekki öll, það væri nú meiri langlokan! og engin furða að maður ruglist í hver ættleiddi hvern og hver er hvað) og lýsa hryggð sinni og andstyggð á Woody Allen sem giftist einu barnanna úr systkinahópnum.

Svo er annað mál og það eru ásakanirnar um kynferðisofbeldi sem Woody Allen á að hafa beitt eitt barnanna, Dylan Farrow, það hafði ég ekki heyrt um áður. Það sem ég vissi heldur ekki er að Mia Farrow komst að sambandi Soon-Yi og Woody Allen þegar hún fann nektarmyndir sem hann hafði tekið af henni (þá var hún um tvítugt). Nektarmyndir sem maðurinn þinn tók af dóttur þinni, það hlýtur að hafa verið góð tilfinning. Ekki að undra að hana hafi farið að gruna að hann hafi lagst á fleiri börn og velt fyrir sér (eins og flestir hljóta að gera) hvenær hann fór að bera víurnar í Soon-Yi. Mér hefur fundist líklegt að hann hafi verið lengi búinn að undirbúa hana til að ganga lengra síðar (e. groom) og að hún sé alveg heilaþvegin af honum. Eftir að hún varð fullorðin sé hún með Stokkhólmsheilkenni, eða sjái enga leið út úr þeim ógöngum sem hún er komin í, enda búin að brenna allar brýr að baki sér gagnvart fjölskyldunni; systkini hennar og jafnvel André Previn, faðir hennar, afneita henni.

Það er áberandi viðhorf í athugasemdakerfinu (mig grunar að sumar athugasemdirnar séu skrifaðar af fólki sem vinnur fyrir almannatengslafyrirtæki sem Woody Allen hafi ráðið) að Mia Farrow sé biluð og þoli ekki að henni hafi verið hafnað fyrir yngri konu (þó hún væri klikkuð réttlætir það ekki meðferðina sem hún varð fyrir). Svo er endalaust hamrað á því að þau hafi ekki verið gift; en þau voru saman í tólf ár, áttu eitt barn saman (sinatrastrákinn) og ættleiddu tvö (þaraf Dylan), það er gjörsamlega fáránlegt að segja að samband þeirra skipti engu máli þegar hann fer að vera með dóttur hennar bara vegna þess að þau voru ekki gift eða bjuggu saman. Sum barna hennar áttu Woody Allen fyrir pabba, hann var pabbi systkina hinna barna hennar.

Þá segir í athugasemdakerfinu að hún hafi haldið við Sinatra og þaraf leiðandi geti hún ekki hneykslast á sambandi manns síns og dóttur! En í New York Times kemur þetta fram um samband Miu Farrow og Woody Allen ári áður en sambandinu lauk. „Samband þeirra er betra en hjá mörgum giftum pörum. Þau eru í sífelldum samskiptum, og fáir feður verja eins miklum tíma með börnum sínum og Allen.“ Þarna var hann reyndar byrjaður að vera með Soon-Yi sem var þá nítján ára. En gagnvart blaðamönnum og umheiminum var hann ennþá maðurinn hennar Miu og var mikið með fjölskyldu sinni.

Eftir að þau slitu sambandi sínu hófust miklar deilur um forræði yfir börnum þeirra þremur. Og þá er spurningin: afhverju hefði Woody Allen átt að fara í forræðismál yfir þessum tveimur ættleiddu börnum ef hann hefði ekki litið á sig sem pabba þeirra? Það er fáránlegt að segja þá að börnin sem Mia Farrow ættleidi áður en þau hófu samband séu ekki stjúpbörn hans, og hann hafi litið þannig á þau (og að Mia hafi litið á þau sem stjúpbörn hans og börnin hafi litið á hann sem stjúpföður sinn).

Það er óþolandi þegar fólk lætur eins og þessi fjölskylduharmleikur sé eitthvað sem Woody Allen beri enga ábyrgð á. Svo ekki sé nú talað um kynferðisbrot gagnvart stjúpdótturinni Dylan, sem enginn virðist vilja ræða.
[Hér lýkur tölvupósti.]

En núna — árið 2013 — fylgir Dylan Farrow málinu eftir. Og það er vel að aðdáendur Woody Allen þurfi að horfast í augu við að frægikallinn er ekki allur þar sem hann er séður.** Og eins og Gísli segir:
„Við getum einblínt á fræga manninn og verk hans, reynt að horfa fram hjá ásökunum úr fortíðinni, krafist þess í athugasemdum á netinu að svona mál verði ekki rifjuð upp því þau séu svo óþægileg og komi okkur ekki við. Hinn kosturinn er að hlusta á þolandann, lýsinguna á kvalaranum og líðaninni.“

Það er kannski auðveldara fyrir mig sem er ekki aðdáandi Woody Allen, en ég skora á það fólk sem heldur fram sakleysi hans á öllum sviðum, að kynna sér málið og íhuga í framhaldinu hvort allt sé réttlætanlegt ef menn eru nógu frægir og hæfileikaríkir.

[Viðbót morguninn eftir að pistillinn er skrifaður:]
Í Fréttablaðinu eru tveir pistlar um ásakanir Dylan Farrow á hendur Woody Allen, þaraf leiðari Friðriku Benónýsdóttur. Hún segir að það sé hættulegt að hvetja fólk til að sniðganga verk listamanna. Ég tek fram að ég var ekki einusinni að hvetja lesendur til að sniðganga myndir Woody Allen, aðeins að þeir endurskoði afstöðu sína og hrökkvi ekki í vörn fyrir hann vegna mynda hans. Ég er alveg ósammála Friðriku um afstöðu til listar „vondra manna“. Mín afstaða er sú að dauðir listamenn græða ekkert á list sinni, en það gera núlifandi listamenn. Það er óþarfi að brenna bækur eða bíóhús eða fjarlægja listaverk úr söfnum, hvorki vegna lifandi eða dauðra listamanna, en fólki er í sjálfsvald sett hvort það sniðgengur list þeirra eða ekki. Það er hinsvegar óþægileg tilhugsun að listamenn komist upp með hvaðsemer í skjóli hæfileika sinna, fái viðurkenningar og græði á tá og fingri með blessun fjöldans. Hinn pistilinn skrifar Haukur Viðar Alfreðsson, honum er ég sammála að öðru leyti en því að mér fannst Annie Hall aldrei fyndin.

___
* Aðalheimild í tölvupóstum mínum var viðtalið í Vanity Fair í október en að auki leitaði ég upplýsinga í Wikipediagreinum um einstaklingana sem hér um ræðir.
** Ég hef áður skrifað um fræga kalla og kynferðisbrot, t.d. um Roman Polanski, Julian Assange, Dominique Strauss-Kahn og Jimmy Savile. Læt ótalið að telja upp skrif mín um íslensk frægðarmenni að sinni.



Efnisorð: , , ,