þriðjudagur, janúar 28, 2014

Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar

Tvö kvöld í röð hefur Stöð 2 sýnt myndskeið frá gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Það er svakalegt. Bílar sem aka inná gatnamótin á grænu ljósi mega hafa sig alla við að forðast þá sem koma brunandi gegn rauðu ljósi. Aðrir leggja af stað inná gatnamótin þó þeir sjái ekki framá að komast alla leið yfir og eru strand á miðri leið, en gera þó atrennur sem gera fátt annað en hvekkja þá sem ferðast á grænu ljósi. Þá eru ótaldir þeir sem sjá að gatan sem þeir ætla inná er stífluð, en fara samt, og munu því stífla gatnamótin fyrir aftan sig. Það er eins og enginn hafi heyrt um 25. grein umferðarlaga.

25. gr. Ökumaður skal hafa sérstaka aðgát við vegamót.
Ökumaður, sem nálgast eða ekur inn á vegamót, skal haga akstri sínum þannig, að hann valdi ekki umferð á veginum, sem hann fer yfir, óþarfa óþægindum, ef hann neyðist til að nema þar staðar. Á vegamótum, þar sem umferð er stjórnað með umferðarljósum, má ökumaður eigi aka inn á vegamótin á grænu ljósi, ef honum má vera ljóst af aðstæðum í umferðinni, að hann muni eigi komast yfir vegamótin, áður en grænt ljós kviknar fyrir umferð úr þverstæðri átt.

Mér fannst sérkennilegt að Stöð 2 vekti ekki athygli á umferðarlögunum í umfjöllun sinni fyrra kvöldið. Þess í stað var spurt heimspekilega „hvort hugsjónin um að takmarka bílaumferð í Reykjavík sé draumsýnin ein“ og bent á að „einkabíllinn er langalgengasti samgöngumáti Reykvíkinga, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr“. Þá var lögð áhersla á að „leysa þarf úr flækjunum til að auka lífsgæði borgarbúa.“

Nú í kvöld þegar Stöð 2 setti ródeóið á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar aftur á dagskrá, skýrðist tilgangur umfjöllunarinnar betur. Nú var lögð áhersla á að eina lausnin væri mislögð gatnamót — og aftur hamrað á þessu með „lífsgæði íbúa Reykjavíkurborgar“. Eins og kunnugt er hafa mislæg gatnamót á þessum stað verið eitt helsta kosningaloforð Sjálfstæðismanna um langa hríð* — og nú styttist í borgarstjórnarkosningar.

Það má vera að Stöð 2 haldi áfram að fjalla um þessi gatnamót, en fyrsti þáttur leikritsins 'Fáum Sjálfstæðismenn til að stýra borginni' fjallaði um hve vonlaust væri að fá fólk til að nota almenningssamgöngur eins og allir borgarstjórnarflokkarnir nema Sjálfstæðismenn vilja, og annar þáttur um að lausn Sjálfstæðismanna sé eina lausnin. Augljóst er að Stöð 2 er að undirbúa jarðveginn fyrir kosningarnar.

Lausnin við því ástandi sem ríkir á þessum gatnamótum getur verið talsvert ódýrari en hrúga þar upp rándýru steinsteypumannvirki öllum þeim sem í nágrenninu búa til hrellingar.** Lausnin felst í því að fara eftir 25. grein umferðarlaga, svo ekki sé minnst á að fara ekki yfir á rauðu í bullandi umferð.

___

* „Fyrstu hugmyndir um mislæg gatnamót við Miklubraut-Kringlumýrarbraut birtust í aðalskipulagi Reykjavíkur 1964 og eru því orðnar 40 ára gamlar. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 1990, sem unnið var undir stjórn sjálfstæðismanna, var gert ráð fyrir
mislægum gatnamótum á þessum stað og í framhaldi var hafist handa við hönnun og annan undirbúning. Eftir að R-listinn komst til valda í borgarstjórn Reykjavíkur 1994 voru áform um gatnamótin lögð á hilluna og ekkert aðhafst árum saman þrátt fyrir mótmæli sjálfstæðismanna.“ Héðan.

** Um viðhorf íbúasamtaka Háaleitis norður og Hlíða, hér, hér og glærupakki hér. Niðurstaða samráðshóps hér.

Efnisorð: , ,