fimmtudagur, október 31, 2013

Afhverju eru konur svo fámennar í sumum stéttum?

Undanfarna áratugi hafa oft birst fréttir um að kona sé nú í fyrsta sinn í starfi sem eingöngu karlmenn hafi áður sinnt. Stundum er það tengt pólitík (fyrsti kvenráðherrann, fyrsta konan sem er formaður stjórmálaflokks) eða opinberum embættum (fyrsti kvenhreppstjórinn). Einnig hafa verið fluttar fréttir og tekin viðtöl við konur sem hafa menntað sig til eða farið til starfa í starfsgreinum þar sem þær eru enn í miklum minnihluta, og jafnvel spurning hvort einhverjar konur séu starfandi í stéttinni yfirleitt þó einhverjar hafi riðið á vaðið fyrir löngu. Það eru störf í iðnaði og á sjó, svo dæmi séu tekin. Fyrsti kvenvélstjórinn var útskrifuð 1975, fyrsti kvenhásetinn hjá Landhelgisgæslunni hóf störf 1978, hvað ætli séu margar í þessum störfum núna? Konur hafa lært og stundað málmsmíðar, húsasmíðar, pípulagnir, rafvirkjun, og margar aðrar iðnir, og þó eflaust sé hægt að finna einhverstaðar tölfræðilegar upplýsingar um fjölda þeirra get ég fullyrt að þær hafa ekki náð því að verða nálægt því helmingur starfsstéttar sinnar. Að einhverju leyti má kenna uppeldi og samfélagsaðstæðum um að konur sæki ekki í þessi störf í sama mæli og karlar, því skal ég vel trúa. En það virðist líka vera að þær konur sem þó vilja starfa í starfsgreinum sem einhverntímann og kannski enn byggðu á líkamlegum styrk, eða tengjast hugmyndum um hreysti, hætti oftar og fyrr en karlar sem hefja sömu störf.

Skýrslan sem gefin var út nýlega um vinnumenningu og kynjatengsl hjá lögreglunni varpar ljósi á afhverju konur endast ekki í slíkum störfum. Þar kemur fram að konunum í lögreglunni er vantreyst af samstarfsmönnum sínum og yfirmönnum (karllöggurnar telja þær ekki nógu sterkar til að slást) og þær fá ekki stöðuhækkanir (sem myndi þýða betri laun), sem er ekki hvetjandi fyrir fólk sem vill vera einhvers metið á vinnustað sínum. Konurnar eru útilokaðar frá ýmsu félagslegu athæfi sem körlunum stendur til boða, tildæmis fá konurnar ekki að syngja með lögreglukórnum, því hann er karlakór, og þær eru ekki endilega boðnar með þegar á að hittast utan vinnutíma. Þær stofnuðu félag fyrir lögreglukonur en karlarnir agnúast út í félagið. Ekki nóg með að konunum sé þannig gert erfitt fyrir félagslega, og að einelti (sem bæði konur og karlar verða fyrir) hreinlega grasseri í lögreglunni, heldur kemur einnig fram í skýrslunni að þriðjungur kvenna í lögreglunni hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni, og í sumum tilvikum hefur það hreinlega orðið til að þær gefast upp og hætta störfum.

Í skýrslunni er mikið um tölfræði (sem ég hirði ekki um að birta) en einnig viðtöl við lögreglukonur (hér má líka lesa gamalt viðtal við lögreglukonu, það virðist ekki mikið hafa breyst síðan 1994). Hér á eftir er vitnað í eina þeirra sem er kölluð Elín en hún „hætti störfum hjá lögreglunni vegna kynferðislegrar áreitni og eineltis af hálfu yfirmanns og vegna aðgerðarleysis embættisins sem hún starfaði hjá“.
„Það er víst rosa mikilvægt í lögguheiminum að strax klína því á stelpurnar að þær séu hórur eða að þær hafi sofið hjá mörgum.“ (s. 79)
„Maður lét sig hafa það þegar strákarnir voru að pæla í því hversu margar billjardkúlur kæmust upp í píkuna á mér.“ (s. 80)
Klámbrandarar eru afar algengir hjá lögreglunni (s. 83), spurning hvort þeir séu allir svona skemmtilegir. Þetta þurfa lögreglukonurnar að þola, ef þær þá ekki gefast upp. Og hvort sem það er vegna klámbrandaranna, káfsins, og annarskonar kynferðislegs áreitis sem þær hætta (þær gefa ekkert allar það upp sem ástæðu) þá er þetta vinnumenning sem fæstar konur vilja verða hluti af ef þær komast hjá því. Þá velja þær sér frekar annan starfsvettvang.

„Aukin þátttaka kvenna í atvinnulífi hefur reynst áskorun fyrir marga karla. Thomas Brorsen Smidt bendir á að sumir karlar bregðast við þessum aðstæðum með nýrri tegund kynferðislegrar áreitni, sem felst „ekki eingöngu í því að vera kynferðislega og líkamlega ágengur og ýtinn gagnvart konum heldur einnig í því að skapa og viðhalda því andrúmslofti á vinnustaðnum að konur séu körlum óæðri“. Slíkt er gert með því að klámvæða umhverfið, m.a. með orðum, myndum og athöfnum.“ (s.83)
Vinnustaðir þar sem karlar eru í miklum meirihluta, þar sem starfið byggir (eða byggði einhverntímann á) líkamlegum styrk og tengist því karlmennskuhugmyndinni eru vinnustaðir þar sem karlarnir telja karlmennsku sinni ógnað þegar konur koma til starfa. Þeir bregðast við því, sýnir skýrslan um vinnumenningu lögreglunnar, með því að gera konunum lífið óbærilegt. Flæma þær burt. Það er stór hluti ástæðunnar fyrir því að konur eru ennþá fáar í byggingariðnaði, á sjó og í lögreglunni, þrátt fyrir að það séu jafnvel áratugir síðan fyrstu konurnar tóku til starfa. Fáar konur leggja í að feta í fótspor þeirra sem gáfust upp, sumar vegna þess að þær grunar hvernig vinnumenning biði þeirra, aðrar vegna þess að þær vita það fyrir víst. Skýrslan um skítamóralinn og karlrembuna innan lögreglunnar staðfestir þá vitneskju. Hún verður varla til að hvetja konur til að sækja um hjá lögreglunni — þó að innanríkisráðherra virðist halda að nú sé kjörið tækifæri fyrir konur að sækja um — þar sem þær eiga von á annarri eins framkomu og meðhöndlun af hálfu samstarfsmanna og yfirmanna.

Eini möguleikinn til breytinga er að konur sæki um og séu ráðnar í svo stórum stíl að þær verði í einu vetfangi lágmark 40% starfsmanna, það er töfratalan sem gæti breytt vinnustaðamenningunni. Þar sem líkurnar á því eru litlar ættu konur hreinlega að varast svona vinnustaði. Og það hafa þær greinilega gert, eins og sjá má á hve fáar konur eru í sumum stéttum.


(Flick my life)








Efnisorð: , , , ,

mánudagur, október 21, 2013

Hraunið skal víkja, fólkið skal víkja, en aldrei skal hætt við glórulausar framkvæmdir

Hef ekkert prenthæft að segja um aðgerðirnar í Gálgahrauni í morgun. Tek bara undir með Eiði Guðnasyni, fyrrverandi umhverfisráðherra.
„Þetta er svartur dagur fyrir innanríkisráðherrann, fyrir Vegagerðina og fyrir bæjarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokksins í Garðarbæ, þeirra verður lengi minnst fyrir þetta.“

Já, og það sem Agnar sagði, hér, tek undir það líka.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, október 15, 2013

Viðhorf til bótaþega sem Sjálfstæðismenn þreytast ekki á að viðra

Það greip mig deja vu tilfinning þegar ég las leiðara Ólafs Þ. Stephensen í morgun. Hann er þar að býsnast yfir atvinnuleysisbótum og örorkubótum, og ekki í fyrsta sinn. Hann skrifar leiðarann í dag vegna þess sem Áslaug María Friðriksdóttir fulltrúi Sjálfstæðismanna í velferðarráði Reykjavíkur sagði um „vinnuletjandi bætur“ við Fréttablaðið nokkrum dögum áður, og það var hún ekki að segja í fyrsta sinn. Og til að bæta gráu ofan á svart skrifa ég svo um afstöðu Sjálfstæðismanna, þarmeðtalinna Áslaugar og Ólafs, til fólks á bótum — og það hef ég gert áður.

Allt er þetta semsagt gamalkunnugt. Eina spurningin sem vaknar er sú hvort Áslaug og Ólafur hafi stillt strengi sína fyrirfram eða hvort hann verður bara alltaf svona hjartanlega sammála að hann getur ekki stillt sig um að skrifa um það leiðara, rétt eins og ég get ekki stillt mig um að hnýta í þessi mannfjandsamlegu viðhorf Sjálfstæðismanna, eina ferðina enn.

___
Viðbót: Stefán Ólafsson hrekur málflutning Áslaugar í bloggpistli undir titlinum „Sjálfstæðiskona vegur að fátækum“.

Efnisorð: , , , , , ,

laugardagur, október 12, 2013

Öryggi (sumra) borgara tryggt

Furðufrétt vikunnar hlýtur að vera sú sem fjallaði um vændiskaupandann sem kærði til lögreglunnar að 16 ára stelpa hefði ekki hleypt honum uppá sig heldur rænt hann. Nógu geggjað er að maður sem augljóslega braut lög með því að ætla að kaupa vændi, og það af ólögráða barni (sbr. 206 gr.„Hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi barns undir 18 ára aldri skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum"), skuli láta sér detta í hug að kæra stelpuna til lögreglu — enn klikkaðra er að löggan skuli taka undir kveinstafi mannsins með því að senda málið til dómstóla. Þegar ég las fréttina um þetta mál trúði ég varla eigin augum, hélt að þetta væri kynning á leikriti eða einhver uppspuni. Ingimar Karl Helgason fjallar um þetta mál og spyr margra ágætra spurninga, þar til svör fást við einhverri þeirra held ég að ég láti mér nægja að vera orðlaus af undrun.

Ég varð ekki eins hissa þegar ég las leiðara Ólafs Þ. Stephensen í Fréttablaðinu í dag. Hann er þar að dásama þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að því að auka framlög til lögreglunnar. Í huga Ólafs eru framlög til löggæslu mikilvægasta verkefnið. Mikilvægara en heilbrigðis- og menntakerfið. Svona tala aðeins hægrimenn. En það sem er óhugnanlegt er að Ólafur virðist fara framá að Hanna Birna innanríkisráðherra láti lögregluna fá rafbyssur sem lögreglan getur notað „sér til varnar ef þeir eiga í höggi við sérlega ofbeldisfulla andstæðinga? Kemur til greina að vopna lögregluna frekar en orðið er?“ Það er ekki langt síðan síðast bárust fréttir af því að lögregla hafi drepið (sárasaklausan) mann með því að skjóta hann með rafbyssu, finnst einhverjum ennþá að þær séu góður kostur? Og ef einhver heldur ennþá að lögreglan á Íslandi fari aldrei offari gagnvart borgurum, þá má minna á „fumlausu“ handtökuna á Laugaveginum þegar lögga hegðaði sér eins og fífl gagnvart ofurölvi konu sem brást við með því að hrækja á lögreglumanninn (og var kærð fyrir það, enda á enginn að þurfa að þola að fá hráka framan í sig í vinnunni; hegðun hennar afsakar samt ekki hegðun löggunnar). Löggan vippaði sér í kjölfarið útúr lögreglubílnum og handtók hana eins og hún væri „sérlega ofbeldisfullur andstæðingur“. Rafbyssa í höndum svona ofbeldisseggs er hættuleg. Miðað við undirtektir skólastjóra Lögregluskóla ríkisins þá er þessi ofbeldisseggur ekki einsdæmi, og því nokkuð ljóst að þessir menn hafa ekkert við rafbyssur að gera. Þeir verða bara að láta sér nægja að beita norskum handtökuaðferðum á fólk sem þeir telja sig (með réttu eða röngu) þurfa að snúa niður.

DV birtir í dag frásögn manns sem leitaði til lögreglu og neyðarlínunnar vegna konu sem hann taldi annarsvegar í sjálfsmorðshugleiðingum og hinsvegar í hættu af völdum „hrægamms“ sem sat um hana. (Lýsing mannsins á högum konunnar er reyndar svo ítarleg að það er ósmekklegt af honum og þá sérstaklega DV að birta hana, því allir sem kannast við konuna geta þekkt hana af lýsingunni.) Hann óttaðist semsagt um öryggi hennar en löggur á lögreglubíl vildu ekki tala við hann og þegar hann reyndi að hringja á neyðarlínuna (sem sér um símtöl til lögreglunnar) fannst engum hjá neyðarlínunni þessi konukind þess virði að eyða á hana útkalli, og varla einusinni símtali og því var skellt tvívegis á manninn sem var að reyna að útvega konunni hjálp. Þegar hann sneri aftur var hún horfin. Enginn veit hvort vafasami karlmaðurinn, sem beið þögull átekta, náði henni á sitt vald. Og einsog það sé ekki nógu ömurlegt þá er það líka ömurlegt að viðbrögð lögreglunnar skuli ekki koma á óvart.

Þetta er ekki eina tilvikið þar sem lögregla og neyðarlínan bregðast konum sem eru í háska, enda þótt að áliti Ólafs Þ. Stephensen sé það „verkefni ríkisvaldsins númer eitt; að tryggja öryggi borgaranna“. Hann segir það skyldu ríkisins að tryggja skilvirka löggæslu og réttarkerfi. En þetta á ekki við um alla borgara, enda þótt Ólafur virðist halda það; þetta á ekki við um konur. Það er lærdómurinn sem má draga af þessum og svo fjöldamörgum öðrum fréttum.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, október 09, 2013

Bankanum þínum er ennþá sama um þig

„Stuðningur fyrirtækja og einstaklinga er oft á tíðum stór hluti af rekstrarfé ýmissa samtaka. Ég sé það ekki breytast þótt mismunandi sé frá einu ári til annars hversu miklu er varið til styrkja. En samfélagsþátttaka bankans verður ætíð til staðar.“
Þetta sagði upplýsingafulltrúi Kaupþings í tilefni af átakinu Bleiku slaufunni en bankinn var aðalstyrktaraðili Krabbameinsfélagsins. Viðtalið var birt 7. október 2008. Tveimur dögum síðar féll Kaupþing. Síðan eru liðin slétt 5 ár.

Kaupþing er ekki lengur til, en Arion banki er auðvitað líka uppfullur af góðvild til samfélagsins, rétt eins og fyrirrennari hans. Sama má segja um Landsbankann hinn nýja og Íslandsbanka. Þeir eiga allir ásamt ýmsum fyrirtækjum aðild að miðstöð um samfélagsábyrgð sem stofnuð var undir heitinu Festa í október 2011.

Enginn skal halda að félagsaðild bankanna sé í ímyndarskyni þó að eftilvill segi einhverjir fortíðarfíklar að ástæða þess að gömlu bankarnir voru útausandi á ýmsa styrki (gegn því að lógó bankanna væru sýnileg hjá styrkþegunum) hafi eingöngu verið til að fegra ímynd þeirra. Nei, nú er ekkert plat. Framkvæmdastjóri Festu segir mjög jákvæða hluti um tilgang félagsins. Vonandi meinar hann líka allt sem hann segir. En það er aftur á móti spurning með fyrirtækin sjálf.

Það vill svo til að mörg fyrirtækjanna sem eiga aðild að Festu eru með laskaða ímynd eða illa þokkuð að margra mati. Það á tildæmis við um þessi: Íslandsbanki, Landsbanki, Landsvirkjun, Ölgerðin (iðnaðarsaltið), Rio Tinto Alcan og Arion banki. Ég óska þeim samborgurum mínum til hamingju sem trúa því að tilgangur þessara fyrirtækja með þátttökunni sé ekki að kaupa sér nýja — og að þessu sinni enn betri — ímynd.

Ég treysti nýju loforðunum álíka vel og því að samfélagsþátttaka Kaupþings verði ætíð til staðar.

Efnisorð:

þriðjudagur, október 08, 2013

Gögnin sem áttu að gera útum málið

Eftir að ég birti síðustu bloggfærslu áttaði ég mig á að ég hafði aldrei skrifað um pistilinn sem Egill Gillz Einarsson skrifaði 13. september síðastliðinn undir heitinu „Að gefnu tilefni“. Ég ákvað því að bæta úr því, þó seint sé. Pistill hans er langur og kaflaskiptur og þó ég reyni að fara í gegnum hann allan lið fyrir lið þá fá sum atriði meira vægi en önnur. Ég legg að sjálfsögðu mesta áherslu á það sem mér finnst vera lélegar röksemdir í málflutningi Egils og ekki styðja málstað hans, enda sannfærði hann mig enganveginn með þessu svari sínu við viðtalinu við Guðnýju sem kærði hann fyrir nauðgun og sagði sögu sína í ágústhefti Nýs Lífs.

Egill Gillzenegger Einarsson byrjar á að gefa til kynna að Guðný sé ekki eins saklaus einsog hún vilji vera láta. Því til sönnunar leggur hann fram bréf frá barþjóni á Austur sem málsgagn. Þar segir að það sé ekki rétt að Guðný hafi verið að koma í fyrsta sinn á veitingastaðinn Austur umrætt fimmtudagskvöld. Hún hafi áður komið þangað á fimmtudagskvöldum og sótt staðinn margoft vikurnar og mánuðina á undan. Gillz notar þessa seintframkomnu yfirlýsingu barþjónsins (sem man hver kom á fimmtudögum og hver aðra daga) sem sönnun þess að það sé rangt að „Guðný hafi verið nýgræðingur á djamminu“. Hún sagði reyndar í viðtalinu í Nýju Lífi að það hefði ekki verið algengt að þær vinkonurnar átján ára gamlar færu að „tjútta niðri í bæ á fimmtudögum, þetta var, að ég held, í fyrsta skipti“ (bls. 62, skáletrun mín). Hún segir segir ekkert um að hún hafi aldrei komið inná Austur (en barþjónninn heldur því fram að hún hafi sagt það) og fullyrðir ekki að hún hafi aldrei farið að tjútta á fimmtudögum (kannski vegna skóla á föstudögum?) en var á staðnum þarna, hugsanlega í fyrsta sinn, en þó getur verið að það hafi komið fyrir áður. Fæstum þætti þetta tilefni til að reka það atriði ofan í hana.

En þetta er svosem smáatriði. Næst, kossinn.

Egill Gillz notar það sem röksemd í málinu að til séu tvær myndir af Guðríði kærustu sinni og Guðnýju að kyssast. Myndirnar sem hann birtir af þeim því til sönnunar er ein þar sem þær kyssast og á hinni eru þær ekki að kyssast (nær hefði verið að sýna báðar myndirnar sem eiga að sýna þær kyssast). Undir myndina þar sem þær eru ekki að kyssast hefur hann skrifað „Svona var stemningin“. Hvernig sú stemning á að vera í andstöðu við það sem Guðný sagði í viðtalinu við Nýtt Líf er erfitt að sjá, því hún sagði einmitt að þau (hún, Guðríður og barþjónninn) hafi spjallað saman, grínast og hlegið. Síðan hafi Guðríður kysst hana. Guðný talar um sleik en jafnframt að á því örstutta augnabliki hafi einhver tekið mynd. Egill Gillz snýr því uppí að hún hafi sagt að „koss sem náðist á mynd hafi bara verið sekúndubrot“. Hún sagði það ekki. Barþjónninn heldur því reyndar fram að „þetta kossaflens“ hafi staðið lengi, að minnsta kosti í hálftíma. Engum sögum fer af tímaskyni hans almennt eða hvort hann geti tímasett allar athafnir gesta staðarins svona nákvæmlega. Ef kossaflensið stóð yfir í hálftíma væri forvitnilegt að vita hvaða varalit stúlkurnar nota, því hann hefur undraverða endingu, ef marka má myndir.

Að því sögðu þá er sérkennilegt að Egill Gillz skuli nota þennan koss, eða kossa, eða kossaflens sem röksemd fyrir því að Guðný hafi viljað kynlíf með karlmanni (honum sjálfum), hann er sannarlega hvergi að sjá á þessum myndum. Það er ekkert sem segir að ef Guðnýju hafi litist vel á Guðríði og jafnvel langað að sofa hjá henni (en hún tekur fram í viðtalinu í Nýju Lífi að hún hafi aldrei kysst stelpu áður og ekkert bendir til að hún hafi verið tilbúin að ganga lengra en að kyssa Guðríði) þá hafi hún verið tilbúin til að stunda kynlíf með Agli Gillz, hvað þá þeim báðum í einu. Ekkert. Stelpa sem kyssir einhvern inni á skemmtistað er ekki þarmeð búin að lýsa því yfir að hún vilji sofa hjá einhverjum allt öðrum aðila. Kossinn þýðir ekki einu sinni að hún vilji sofa hjá manneskjunni sem hún er að kyssa. Koss þarf ekki að leiða til kynlífs. Og með þvíað kyssa einhvern á skemmtistað hefurðu ekki samþykkt kynlíf með manneskjunni sem þú kyssir hvað þá kynlíf með einhverjum öðrum sem staddir eru á skemmtistaðnum.

Kossinn, langur eða stuttur, hefur því enga þýðingu fyrir eftirmálann, hann segir ekkert til um að Guðný hafi verið samþykk því sem á eftir kom.

Næst fjallar Egill Gillz um hver sagði hvað í leigubílnum, hver mátti eða ekki fara með og hvert átti að fara, og ber honum auðvitað ekki saman við Guðnýju um það mál. Ég veit ekkert hvað er satt eða logið í því máli. Vil þó benda á að vitnisburður leigubílstjórans er varla endanleg sönnun um hvað hver gerði við hvern í aftursætinu, líklega hefur hann eitthvað þurft að horfa fram á veginn. Þaraðauki heyrist ekki alltaf vel milli framsætis og aftursætis, og hafi tónlist verið spiluð í bílnum (situr DJ Muscleboy lengi í leigubíl án þess að láta spila fyrir sig músík?) hefur bílstjórinn varla heyrt nákvæmlega hver sagði hvað við hvern. Um þetta er þó erfitt að fullyrða, en þetta er ekki sérlega góður vitnisburður og segir sannarlega ekkert um það sem á eftir kom.

Egill Gillz vitnar í lögregluskýrslu þar sem segir að ekki sjáist sms skilaboð sem vinkonur Guðnýjar segjast hafa fengið frá henni þegar þær voru á Players. Í skjáskotinu sem hann birtir segir reyndar ekkert um önnur sms frá henni eða símtöl, en þetta kemur samt ekki vel út fyrir Guðnýju, ef rétt er. Af skjáskoti og tilvitnunum Egils Gillz má álykta að lögreglan hafi tekið afrit úr síma Guðnýjar og vinkonu hennar af sendum og mótteknum smsum, og að þær hafi borið því við að hafa eytt þeim smsum sem á vantar. Hann segir að gögn frá símafyrirtækjum staðfesti að SMS og símtöl sem hún segir frá áttu sér ekki stað, en sýnir ekki þessi gögn, heldur eru þau aðeins í endursögn hans. Um sms sem hann fær sjálfur skammtar hann upplýsingar til þeirra sem meta eiga gögn málsins (lesendur pistilsins), eins og skoðað verður hér á eftir.

Næst segir Egill Gillz að Guðný hafi orðið margsaga um það sem gerðist eftir að komið var inn í íbúð hans. Hann vekur sérstaka athygli á því að hún hafi sagt í viðtalinu við Nýtt Líf að hún hafi grátið frá því að atburðurinn sjálfur byrjaði, en sjálfur segir hann í þessum bloggpistli 13. september að: „Allt þar til alveg í blálokin bentu svipbrigði hennar og allt atferli til þess að hún væri ánægð og það var ekkert dramatískt við brottför hennar.“ Og sama pistli: „Það var ekki fyrr en alveg í blálokin sem hún varð skrýtin og sagðist ætla að fara.“ Guðríður unnusta Egils Gillz hefur aftur á móti sagt í yfirlýsingu (30. ágúst) að Guðný „grét ekki eða sýndi nein önnur merki um að líða illa fyrr en alveg undir lokin þegar hún ákvað skyndilega að fara (og fór auðvitað óhindruð.)“

Semsagt, samkvæmt yfirlýsingu 3. júlí 2012 var hlegið, góð stemning og enginn grét. En samkvæmt yfirlýsingu 30. ágúst 2013 grét Guðný ekki eða sýndi nein merki um að líða illa fyrr en alveg undir lokin. Og í bloggpistli 13. sept 2013 bentu svipbrigði Guðnýjar og allt atferli til að hún væri ánægð, allt þar í blálokin. Þá varð hún „skrýtin.“ Miðað við hvað Agli Gillz og Guðríði gengur illa að vera sammála um það hvort og þá hvenær Guðný grét, ferst Agli ekki að væna Guðnýju um að vera margsaga. Hún hefur sér það til afsökunar að hafa verið í áfalli og muna e.t.v. ekki allt nákvæmlega vegna þess og fyrsta skýrsla hennar er því í einhverjum atriðum ekki eins og hinar síðari (sbr. viðtalið, bls. 64-65). Þau skötuhjúin afturámóti hafa ítrekað gefið út misvísandi yfirlýsingar á opinberum vettvangi á því hvort þau tóku eftir hvernig Guðnýju leið. Það bætir sannarlega ekki málstað þeirra.

Egill Gillz virðist hafa reynt að kynna sér hvernig manneskja sem verður fyrir kynferðisofbeldi hagar sér og notar það til að slá skýringar Guðnýjar útaf borðinu, svona hegði þær sér ekki. Það sýnir best hvað hann skilur lítið af því sem hann las sér til um. Egill Gillz hafði einnig sagt í yfirlýsingu 3. júlí 2012 að Guðný hafi ekki brugðist rétt við eftir að hafa hitt hann á vinnustað sínum, barasta allsekkert hætt að vinna þar, og klikkir þá út með að „forðun [sé] hins vegar eitt af dæmigerðum einkennum brotaþola í nauðgunarmálum.“ Það er reyndar engin uppskrift til að hegðun fólks, það er til algeng hegðun og dæmigerð, en aldrei er hægt að segja að allar manneskjur hegði sér alltaf eins við tilteknar kringumstæður eða að engin manneskja myndi hegða sér svona og svona við einhverjar aðstæður.

Læknaskýrslur les Egill Gillz sér í hag, hann telur að þær sanni ekki að Guðný hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi. Þær sanna heldur ekki að kynmök hafi farið fram með hennar vilja, gögnin má lesa á báða vegu.

Þá er komið að handrukkaranum ógurlega.

Það er furðulegt hvað Egill Gillz gerir mikið mál úr „æsta manninn í leigubílnum.“ Hann gefur til kynna að það hafi verið handrukkarinn sem hann minntist á strax í fyrstu yfirlýsingu sinni um málið 2. desember 2011 (yfirlýsing sem kom fjölda manns á óvart, þ.á m. mér sem hafði ekki svo mikið sem heyrt ávæning af því að Egill Gillz hefði verið sakaður um nauðgun). Þá sagði Egill Gillz: „Það er jafnframt refsivert að hafa samband við handrukkara í þeim tilgangi að kúga fé út úr fólki.“

Í bloggpistlinum 13. september 2013 segir Egill Gillz svo að þessi „æsti maður“ hafi verið í för með vinkonum Guðnýjar þegar þær fóru að sækja hana heim til Egils Gillz. Maðurinn hafi talað um að beita ofbeldi og Agli Gillz finnst undarlegt af vinkonum Guðnýjar að taka „ókunnugan mann með sér til þess að vitja um meint fórnarlamb í nauðgunarmáli“ og reynir að gera það grunsamlegt að vinkonurnar hafi ekki viljað upplýsa lögreglu um nafn hans, en hann var farinn úr bílnum áður en Guðný var sótt, og kemur því varla málinu við. En án þess að ég viti hver maðurinn er, getur þá ekki verið að vinkonurnar hafi tekið hann með (eða hann boðist til þess að koma með) sem lífvörð ef í odda skærist með vinkonunum og húsráðanda, en þegar þær sáu hvað hann var æstur að hann myndi gera illt verra og losuðu sig þessvegna við hann?

Hver sem skýringin á veru hans og fjarveru úr leigubílnum er, þá er ljóst að hann hitti aldrei neinn aðila málsins, Egil Gillz, Guðríði eða Guðnýju (og því óþarft fyrir lögguna að tala við hann), og þessvegna undarlegt að tileinka honum heilan kafla bloggpistlinum. Þetta er samt athyglisvert vegna þess að í yfirlýsingunni frá desember 2011 sem áður var vitnað í, talar Egill Gillz um tilraun til fjárkúgunar. En í pistlinum í september á þessu ári segist hann hafa fengið „viðvörun um að einhverjir undirheimamenn ætluðu að berja mig“. Hvort var það, átti að berja hann eða kúga út úr honum fé? Fjárkúgunin hlýtur að hafa snúist um að fara með söguna í fjölmiðla ella, eða hvað? Þarna vantar útskýringar.

Það vantar líka skýringu á því hversvegna Egill Gillz, sem er svo annt um að „leggja gögn málsins“ fram, sýnir ekki smsið frá handrukkaranum. Þar hlýtur að koma fram símanúmer þess sem sendi það, einhver hjálpsamur lesandi kannast kannski við númerið og þá er hægt að finna út hver sendi. Það væri líka fróðlegt að lesa hvernig maður sem Egill Gillz veit ekkert hver er (hann hlýtur að eiga að vera sá sem var æstur í leigubílnum, því hvernig eiga þessar sögur annars að tengjast?), kemur því á framfæri að hann sé handrukkari. Skrifar hann: „Hurru, ég er hérna handrukkari sko og þetta er sko viðvörun um að einhverjir undirheimamenn ætla að berja þig.“ (Skv. þeim sem lesa gamlar bloggfærslur Gillz hljóta orðin 'viðvörun' og 'undirheimamenn' hafa staðið í textanum.) Og svo hefur staðið eitthvað um peninga, eða ekki. Egill segist „leggja gögnin á borðið, þau sem til eru“, hann hlýtur að geta framvísað ógnvænlegu smsi sem honum barst sjálfum og hefur „hreinlega ekki hætt að hugsa um“ (3. júlí 2012).

Hvernig æsti maðurinn í leigubílnum og handrukkunarhótunin eiga að vera sönnun þess að Egill Gillz Einarsson og Guðríður Jónsdóttir hafi ekki brotið á kynfrelsi Guðnýjar, er mér óskiljanlegt.

Eftir að hafa lesið þessi málsgögn sem Egill leggur fram, get ég ekki fundið neitt í þeim sem bendir til sakleysis hans. Ég veit auðvitað ekki hvort hann er sekur, en þau atriði sem hann virðist halda að sýni fram á sakleysi sitt, þ.m.t. koss eða kossar milli Guðríðar og Guðnýjar á Austur, og handrukkarasaga hins ægireiða, segja ekkert um að Guðný hafi samþykkt að stunda kynlíf með einkaþjálfara sínum og unnustu hans. Ekkert.

Efnisorð:

laugardagur, október 05, 2013

Markmiðatengd iðrun: umræðan fari fram í lokuðum hópum

Jæja, þá er Egill Gillz Einarsson (eða Jakob Bjarnar í orðastað hans) búinn að skrifa bloggpistil þar sem hann ræðir „mest lesnu bloggfærslu Íslandssögunnar“ orsakir hennar og afleiðingar.

Það hefði satt að segja verið sniðugt að nota tækifærið að biðjast afsökunar á því sem hann sagði um nafngreinda feminista í þessari alræmdu bloggfærslu í stað þess að hamra á því að hann hafi beðist afsökunar fyrir mörgum árum.
„Satt að segja dauðskammast ég mín fyrir þessa mest lesnu færslu Íslandssögunnar enda baðst ég afsökunar á henni opinberlega fyrir mörgum árum.“
Ég finn ekki þessa afsökunarbeiðni nema ef það eigi að vera sú sem er vísað til hér. Þarna er nú ekki mikil iðrun á ferðinni, honum finnst að konur í kvennabaráttu eiga bara að hafa húmor fyrir því sem hann segir. Ef honum er svona mikið í mun að sýna iðrun (með því að segjast skammast sín) afhverju biðst hann þá bara ekki aftur afsökunar?

Þá er áhugavert að Egill Gillz virðist ekkert hafa kippt sér upp við alla umræðuna og mótmælin vegna útgáfu símaskrárinnar sem stóð frá haustinu 2010 og langt framá sumar 2011 og ekki orðið fyrir „neinum óþægindum“, en þá var gamla bloggfærslan hans í brennidepli. Umræðan gekk einmitt útá að mannorð hans væri slíkt að það væri óhæfa að hann væri meðhöfundur og forsíðumynd símaskrárinnar. Orðspor hans var þegar laskað. Það skipti hann þó engu því hann fékk missti ekki verkefni (heldur fékk þau þvertámóti, sbr. símaskránna) en það breyttist þegar hann var kærður fyrir nauðgun. (Þá fékk hann ekki nýja kúnna í 10 daga, þvílík ógæfa!) Sannarlega varð nauðgunarkæran mannorði hans ekki til framdráttar, þó ekki væri, en hann var þá löngu orðinn ærulaus í augum margra. Honum virðist hafa staðið á sama um æruna, allt þar til hún fór að skipta hann máli fjárhagslega.

Egill Gillzenegger segist ekki bugast „þótt honum sé nuddað upp úr gömlum skít“, en hann vill samt að bloggfærslan hans gamla sé bara rædd í lokuðum hópum svo umræðan hafi ekki áhrif á æsku landsins.
„Það eru allar líkur á að þessar færslur komi fyrir augu unglinga sem voru varla orðnir læsir árið 2007 og hefðu aldrei rekist á þennan óhroða nema vegna þess að þeir sem hneyksluðust mest á honum hafa haldið honum lifandi. Þessi dreifingargleði hlýtur að teljast nokkuð sérstök forvarnaraðgerð hjá einmitt því fólki sem telur að ungdómurinn sé að fara til fjandans mín vegna.“
Þarna er um mikinn misskilning hans að ræða. Aðalástæða þess að þessi bloggfærsla er iðulega rifjuð upp þegar Egil Gillz Einarsson ber á góma er að benda á að þessi höfundur lífstílsbóka hefur vægast sagt ömurleg viðhorf til kvenna, með það að markmiði að þeir unglingar sem lesa bækur hans, eða fólk sem hyggst gefa börnum sínum þessar bækur, viti um þessi ömurlegu viðhorf og eigi því auðveldara með að átta sig á að lífstílsbækurnar eru sama marki brenndar. Fjölmargir, þ.á m. Ásta Jóhannsdóttir, Kristín Anna Hjálmarsdóttir og Björn Teitsson, hafa sýnt framá að lífstílsbækurnar eru „uppfullar af hatursáróðri, fordómum og kvenfyrirlitningu.“ En áhrifagjarnt ungt fólk sem veit það eitt um Egil Gillz Einarsson að hann er frægur og vinsæll og lítur á hann sem fyrirmynd, les þær eflaust eins og uppskriftabók að samskiptum kynjanna. Það er það sem upprifjun á gömlu ógeðsbloggfærslunni varar við.

Er ekki annars dásamlegt að í bloggpistli sínum reynir Egill Gillzenegger eina ferðina enn að gera greinarmun á sér og „ímyndinni“ „vörumerkinu“ og „karakternum“ Gillzenegger — nokkrum dögum eftir að hann fékk stúlku dæmda fyrir meiðyrði um Gillz? Af fréttum að dæma hélt hann meira segja upp þeirri málsvörn að þeir væru einn og sami maðurinn; að tala um annan þeirra væri að tala um hinn.
„Gillz er fyrir löngu orðið að listamannsnafni. Þetta byrjaði sem hlutverk en er nú orðið að listamannsnafni. Ég er kallaður Gillz, vinir mínir kalla mig Gillz. Það er hins vegar á hreinu að Egill Einarssonar hefur aldrei nauðgað, Gillz hefur aldrei nauðgað. Skjólstæðingur þinn getur hvorki kallað Egil eða Gillz nauðgara,“ sagði Egill.
Mann svimar bara.

En úr því að hann Egill Gillz minnist á þessa „fölsku nauðgunarkæru“ og segir að það mál hafi svipt sig ærunni, þá má benda á að þeir sem vörðu hann í umræðum voru að stærstum hluta ungt fólk, aðdáendur hans. Fólk sem hann hefur haft áhrif á gegnum fjölmiðla og með bókum sínum, fólk sem er gegnsýrt af því viðhorfi til kvenna sem hann boðar. Honum er því auðvitað kappsmál að það sé ekki verið að svipta hulunni frá augum þeirra, að viðhorf hans til kvenna séu bara rifjuð upp í lokuðum hópum.

Honum verður ekki að ósk sinni með það.

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, október 02, 2013

Fjármálafrumvarpið

Allt sem ég hef að segja um fjármálafrumvarpið er nokkuð fyrirsjáanlegt. Ég furða mig einsog aðrir á að kirkjan fái meira en ekki minna, að tækjakaup til Landspítalans séu ekki tekin með í reikninginn, að stuðningur við ýmis verkefni sem fyrri (og betri) ríkisstjórn hafði lagt línurnar fyrir sé ýmist sleginn af eða dregið verulega úr honum. Þetta með gistináttaskattinn á sjúklinga er svo vond hugmynd að það er með ólíkindum ef hún verður ekki slegin út af borðinu.

Ræða Katrínar Jakobsdóttir í kvöld, þegar stefnuræða forsætisráðherra var rædd, var best. Guðmundur Steingrímsson kom fast á hæla hennar.

Haldi þessi stjórn velli þá verða vond ár framundan. Ekki bara peningalega heldur hugmyndalega. En það var líka fyrirsjáanlegt.

Efnisorð: ,