fimmtudagur, október 30, 2008

Úthreinsun

Það þarf að losna við fólk sem hefur stutt, staðið fyrir og fundist frjálshyggjan frábær með þeim afleiðingum sem nú er öllum orðin ljós. Ég legg til að allir þeir sem kosið hafa Sjálfstæðisflokkinn* síðustu 17 ár skulu hengdir uppá löppunum.** Með því móti fá allir sinn skerf: „útrásarvíkingar,“ þingmenn, ráðherrar, Seðlabankastjóri, Fjármálaeftirlit og líklega megnið af bankaliðinu, og síðast en ekki síst: klappliðið sem fannst þetta svo frábært og vildu bara grilla en ekki bera neina samfélagslega ábyrgð, því þeir eru svo miklir „einstaklingar.“

___
*Já, ég veit að fólk innan annarra flokka og sem stendur utan flokka var líka í klappliðinu eða jafnvel gerendur, en þetta ætti að slá á mestu græðgina og verða hinum víti til varnaðar.

** Viðbót, löngu síðar: Oft gleymi ég því sem ég hef skrifað á þetta blogg og man aldrei neitt orðrétt, nema þetta sem ég skrifaði hér um að hengja fólk upp á löppunum. Ég las nefnilega blogg þar sem svipuð uppástunga var lögð fram og var hún myndskreytt með frægri ljósmynd af Mússólíní dauðum og hékk öfugur ásamt konu sinni. Ég hafði allsekki verið með þann atburð í huga og fannst óþægilegt að bloggfærslan mín hefði líklega verið lesin á þann hátt, og hefur það ásótt mig lengi þó ég hafi ekki úr því bætt fyrr en nú.
Það sem ég var semsagt að hugsa (fyrir utan að nota þetta orðalag meira eins og frasa) var sena úr Hrafnkels sögu Freysgoða, þar sem skorið er í hásinarnar á Hrafnkeli og hann hengdur upp á löppunum til að niðurlægja hann og kúga. „Þá taka þeir Hrafnkel og hans menn og bundu hendur þeirra á bak aftur. Eftir það brutu þeir upp útibúrið og tóku reip ofan úr krókum, taka síðan hnífa sína og stinga raufar á hásinum þeirra og draga þar í reipin og kasta þeim svo upp yfir ásinn og binda þá svo átta saman.“ (Síðar voru þeir leystir niður og enginn dó).
Ekki að mér sé mikill sómi að því að hvetja til pyntinga en það var þó allavega ekki örlög Mússólínís sem ég óskaði Sjálfstæðismönnum.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, október 28, 2008

Lára bloggar betur

Nú bloggar hver sem betur getur um efnahagsástandið, jafnvel þau sem áður skrifuðu bara um hve óvær börnin séu á næturnar eða hvernig staðan sé í fótboltanum. Löngu áður en það varð nauðsynlegt fyrir okkur öll að fylgjast með þjóðmálum var Lára Hanna búin að sýna fram á einstaka hæfni í að draga fram aðalatriði hvers máls fram á greinargóðan hátt. Hún er reyndar búin að gera vídeóklipp að sérgrein sinni og á bloggi hennar má finna margar magnaðar samantektir. Þessi var reyndar búin að birtast í Kastljósi, en er haldið til haga á síðu Láru Hönnu, umhverfisverndarsinna með meiru.

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, október 24, 2008

Jafnréttisbaráttan fær enn eitt kjaftshöggið

Ekki nóg með að fólk sem (braskar, bruðlar, svíkur, lýgur) fer með fé fái hæstu laun sem þekkjast í opinbera geiranum, heldur fá konurnar AUÐVITAÐ lægri laun en karlinn. Frábært hjá bankastjórninni að ákveða það á kvennafrídaginn. Skítt með áfrýjunarorð félagsmálaráðherra um ofurlaun, skítt með lög um jafnrétti.

DJÖFULS HELVÍTIS HELVÍTI.

Efnisorð: , ,

Peningahyggju á ekki að hygla

Mikið er ég sammála Jóhönnu Sigurðardóttur að það sé fáránlegt að bankastjórar séu með hæstu laun allra í opinbera geiranum. Hver samdi eiginlega um þessi laun, er þetta sama sjálftökuliðið og áður?

Miðað við hvaða virðing er borin fyrir slíku liði núna ættu þau að vera á lægsta taxta.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, október 21, 2008

Skilgreining á einelti

Einelti er EKKI þegar valdamesti maður þjóðarinnar í hartnær tuttugu ár er gagnrýndur fyrir störf sín eða þess er krafist að hann láti af störfum.

Einelti er EKKI að rekja þátt hans í að fiskikvóti varð söluvara, að ríkisbankar voru gefnir flokksgæðingum, að leggja niður ÞJóðhagsstofnun, að ráða vini sína og ættingja í Hæstarétt (og koma síðar syni sínum að við héraðsdóm), að setja sérákvæði í eftirlaunafrumvarp þingmanna sem hyglaði honum sérstaklega, að láta manninn sem hann leyfði að verða forsætisráðherra (því hann langaði svo að prófa stólinn) ráða sig sem Seðlabankastjóra; hvar hann svo nagaði blýanta meðan nýju bankastjórarnir á ofurlaununum veðsettu þjóðina í braski. Og ekki má gleyma því að það var hann sem sló í frjálshyggjuklárinn og hleypti honum á skeið.

Einelti er EKKI þegar þessi valdamesti maður þjóðarinnar - og sá sem hefur með einhverjum hætti náð að dáleiða dágóðan hluta hennar - er sakaður um að hafa leitt þessa sömu þjóð, bæði þau sem gagnrýna hann og þessi dáleiddu, í þvílíkar ógöngur að leitun er að öðru eins. (Jafnvel þótt hann hafi sannarlega fengið til þess hjálp þessara 20 gróðapunga sem við öll vitum nöfnin á).

Einelti er EKKI að benda á að blaður hans í beinni útsendingu í sjónvarpi varð til þess að annar álíka vitleysingur notaði yfirlýsingar hans sem smjörklípu til að draga athyglina frá sér,* sem gerði bara illt verra. Máttleysisleg tilraun til að halda gengi íslensku krónunnar kyrru næstu daga á eftir var aðhlátursefni útaf fyrir sig, því enginn tók mark á því.

Einelti er EKKI að safnast saman á Arnarhóli eða Austurvelli og heimta að þessi fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi borgarstjóri, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi Seðlabankastjóri segi af sér, né heldur að skrifa um hann og gegn honum á bloggsíðum. Gagnrýni á störf hans er fullkomlega eðlileg og ekki síst í ljósi nýlegra atburða.

Kallið það hvað sem er annað, en þetta er EKKI einelti.

___
* Athyglisvert að höfundur smjörklípuaðferðarinnar skuli hafa lagt þetta uppí hendurnar á breska forsætisráðherranum, en jafnframt algerlega augljóst að allar gjörðir þess breska hafa reynst íslenskum ráðamönnum kærkomin smjörklípa og láta nú allir sem Gordon Brown eigi sök á hruni íslenska hagkerfisins.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, október 17, 2008

Mútuþægar þjóðir eru ekki alltaf þægar

Er ljótt að skella uppúr þegar inngöngubeiðni Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er hafnað?

Sérstaklega í ljósi þess hve mútuferlið - ég meina viðræður við þjóðir sem hafa atkvæðisrétt - hefur verið dýrt?

Ekki það, það verður gerð önnur eins (og jafn vonlaus) tilraun síðar, og þá verður kastað meira fé í tiltækið.

Ég meina, eitthvert verða aflóga stjórnmálamenn að geta farið, sumir vilja t.d. fá að vera í útlöndum á feitum launum og því þá ekki hjá Sameinuðu þjóðunum? Fyrirhafnarlítið djobb, bara spyrja Bandaríkjamenn (eða hverja þá sem við skríðum fyrir þá stundina) hvernig eigi að kjósa um mikilvæg málefni og taka þá alltaf undir að þeir megi ráðast inn í hin og þessi ríki.

Gengur bara betur næst.

Efnisorð:

mánudagur, október 13, 2008

Forherðing

Séu bornar sakir á saklausan mann eru allar líkur á að hann bregðist illa við, missi jafnvel stjórn á skapi sínu í viðleitni sinni til að bera af sér ávirðingarnar.
Sé maður með vonda samvisku borinn sökum bregst hann að öllum líkindum harkalega við til þess að verja sig.
Forhertur maður skiptir ekki skapi og hækkar ekki róminn. Hann situr bara sallarólegur og endurtekur lygina.

Talandi um viðtalið við Jón Ásgeir; ekki var Davíð Oddsson skárri í Kastljósinu um daginn. Sagði með Jesúsvip að það mætti svo sem alveg kenna sér um þetta allt - enda sannfærður um að ekkert væri sér að kenna. Og brá svo mjög vandlega útaf flokkslínunni, sem þessa dagana hljóðar uppá að það megi ekki benda á sökudólga, og talaði um brennuvarga. Þar átti hann auðvitað hvorki við sig, aðra Sjálfstæðismenn, Framsóknarflokkinn eða sína menn í bönkunum (Björgúlf, Kjartan Gunnarsson o.fl.) heldur félaga sinn í siðblindingjafélaginu: Jón Ásgeir.

Efnisorð: ,

föstudagur, október 10, 2008

Nú er það svart

Fyrir réttum mánuði var settur af stað sterkeindahraðall í Evrópsku öreindarannsóknastöðinni CERN í Sviss í því skyni að kanna upphaf alheimsins - Miklahvell - og hélt svartsýnn almenningur að þá gæti svarthol myndast. Það er þegar risastór strúktúr hrynur saman, innávið og eftir stendur myrkrið eitt, þar er engin ljósglæta.

Sviss hefur lengi verið miðstöð bankakerfis.

Hvort fór þá tilraunin úrskeiðis eða heppnaðist fullkomlega?

Efnisorð: ,

laugardagur, október 04, 2008

Drakúla með flensu

Nú eru allir svo uppteknir af að rekja fjárfestingar og skuldsetningu bankanna og benda á nafngreinda menn sem beri sökina. Ekki skal ég efast um það en allt á þetta sér fleiri en eina orsök. Stjórnvöld hafa sannarlega brugðist (nú kvarta margir að það hafi ekki verið settar reglur) en það má heldur ekki gleyma því að uppsprettuna er líka þar að finna, þ.e. í frjálshyggjustefnu þeirri sem hér hefur verið við lýði og einkavinavæðingu sem bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eiga heiðurinn af.

Davíð Oddsson hleypti af stað frjálshyggjunni og sigaði henni m.a. á ríkisbankana. (Hún átti síðan að breiða úr sér yfir menntakerfið, menninguna og heilbrigðiskerfið - vera allsráðandi. Það hefur enn ekki tekist, er enn á undirbúningsstigi, með því að svelta stofnanir á fjárlögum þar til einkavæðing - afsakið einkarekstur - virðist betri kostur). Ríkisbankarnir voru afhentir einkavinum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, þeim sem áður höfðu tilheyrt Kolkrabbanum og Sambandinu. Til er fræg mynd (sem rifjaðist upp þegar myndin af Davíð við stýrið í yfirtökunni á Glitni) af Finni Ingólfssyni frá árinu 2002 upp í hugann þar sem hann er nýorðinn bankaeigandi ásamt Ólafi Ólafssyni sem nú orðið ferðast um á þyrlum.



Frjálshyggjan óx og dafnaði og menn urðu gríðarlega ríkir. Kvótakerfið spilaði þar mikið inní - óskabarn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins og Halldórs Ásgrímssonar sem sjálfur efnaðist á því þegar núverandi kvótakerfi var komið á 1990 (en hann er einn eigenda Skinneyjar- Þinganess)
en sjávarbyggðum blæddi út þegar kvótinn var seldur úr byggðalaginu og núverandi stjórnarformaður Glitnis, Þorsteinn Már Baldvinsson , lofaði í hvert sinn sem hann keypti skip með kvóta að það yrði ekki flutt burt og meðal annars urðu afleiðingarnar þær að fjöldi fólks þurti að flytja burt - til höfuðborgarinnar og fjármagna þar húsnæðiskaup því fasteignaverð í sjávarþorpum var á núllpúnkti - og það þurftir að byggja heilu hverfin til að koma landsbyggðarfólkinu fyrir, Framsóknarflokkurinn beitti sér svo fyrir 90% húsnæðislánum (kosningaloforð þeirra 2004), sem varð til þess að húsnæðisverð rauk upp og fasteignaviðskipti blómstruðu sem aldrei fyrr. Þeir sem ekki keyptu húsnæði á þessum „kostakjörum“ notuðu lánin sem „endurfjármögnun“ - fengu semsagt lán út á húsnæði sem þeir þegar áttu - og nýttu í ýmiskonar neyslu: utanlandsferðir, jeppakaup og fleira dýrt og flott. Af þessu er svo fólk að borga miklar afborganir í dag á háum vöxtum - og bankarnir græða.

Bónusfeðgar höfðu tök á bönkunum, skulduðu þeim svo mikið að bankarnir urðu að dingla eftir þeirra höfði. Bónusfeðgar - nú oftast nefndir Baugsmenn - hlýddu ekki flokkslínu Sjálfstæðisflokks en partur af einkavæðingarferlinu var að gamli Kolkrabbinn héldi sínu og engum hafði dottið annað í hug en allir myndu halda áfram að styðja hvern annan og hlýða Flokknum - og þegar þeir voru búnir að stríða Davíð nógu lengi ætlaði hann að þagga niður í þeim með fjölmiðlalögum en það gekk ekki enda áttu þeir ekki bara öfluga fjölmiðla heldur voru komnir innundir hjá óvæntum stuðningsmönnum s.s. forsetanum.

Óvild Davíðs stafaði af því að hann ætlaðist til að allir væru honum þakklátir og leyfðu honum að ráða en „götustrákarnir“ voru óheftir frjálshyggjuguttar sem létu ekki smámuni eins og leikreglur trufla sig. Enda var það nú eitt sem allir frjálshyggjuguttar voru sammála um; að reglur væru til óþurftar og því var æpt „forræðishyggja“ í hvert sinn sem einhver nefndi að það þyrfti að koma böndum á eitthvað sem fylgdi frjálshyggjustemningunni.

Nú standa allir hneykslaðir - eftir að Glitnir valt á hliðina og þurfti ríkisaðstoð til að rísa á fætur - og meira segja Hannes Hólmsteinn talar um græðgi - sem frjálshyggjan gengur út á og þeir segja að það hefðu þurft að vera reglur til að hafa stjórn á græðginni - en áður mátti ekki minnast á reglur og eftirlit (forræðishyggja!) og Framsóknarmenn standa í pontu á Alþingi og kenna núverandi ríkisstjórn um að allt hafi farið til andskotans - og líta þá alveg framhjá eigin aðkomu að kvótakerfi og íbúðarlánum (svo ekki sé minnst á virkjanir og álver - sem enn hertu á peningastreyminu sem var eins og hvirfilbylur og rótaði öllu upp án sýnilegs tilgangs eða stefnu nema bara áfram áfram ) -
allir benda nú á þessa ofríku gróðapunga sem hafa stungið rosalegum upphæðum í vasann á þessum tíma - lánað sjálfum sér peninga gegnum fyrirtæki sín sem eiga hvert annað og lána hvert öðru og eiga að auki bankana sem eiga fyrirtækin - og þar eins og í fyrirtækjunum (FL Group) stjórna bankastjórar á ofurlaunum sem fá að auki tröllaukna starfslokasamninga og hlutafé á lágu verði - allt sem uppbót að sögn fyrir þá miklu ábyrgð sem á herðum þeirra hvílir en þó rýrnar ekkert af því fé þegar þeir keyra allt í strand eða skilja við allt í rjúkandi rúst. Enginn ber ábyrgð og enginn tekur skellinn. Nú er auðvelt að benda á þá og nafngreina þá (Bónusfeðgar, Björgólfsfeðgar, Bjarni Ármanns, Hannes Smárason, Róbert Wessmann ... listinn er lengri en Framsóknarmenn virðast gleymast í upptalningu flestra) og allt það eiga þeir skilið. En stjórnvöld brugðust (með því að hleypa einkavæðingunni af stað og án þess að setja reglur, og einstaklingar (þessir nafngreindu en margir aðrir reyndu að feta í fótspor þeirra) sem fóru yfir um í græðginni og fjölmiðlar brugðust líka þvi þeir kyntu undir neyslunni - og voru sannarlega þar á köflum eða bara algerlega að ganga erinda eigenda sinna - og allir hinir við þessi meðvirka þjóð stóðu á kantinum og hvöttu þá áfram og vildum vera með og reyndum að hegða okkur eins og klæða okkur eins og láta heimili okkar líta eins út og fína ríka fólkið - enda þótt við værum þau sem vorum að fjármagna eyðsluna þeirra.
Og allir elskuðu Davíð.

En nú þykjast allir hafa verið gagnrýnir og séð í gegnum þetta - og við sem hötuðum frjálshyggjuna eigum loksins hljómgrunn (en áður vorum við öfundsjúk eða forræðishyggjusinnaðir öfundskjúkir kommúnistar, m.ö.o. afturhaldskommatittir) og allir undrast hvernig þetta gat gerst (og rekja það með vísunum í tölur og bankatilfærslur og hver skuldaði hverjum hvað) en neita að horfast í augu við að við erum öll meðsek. Þó mér finnist reyndar þeir sem kjósa alltaf Sjálfstæðisflokkinn eiga meiri sök en við hin sem höfum hatast útí frjálshyggjuna. En nú erum við öll í sömu súpunni (nema þessir nafngreindu ofurríku sem hafa makað krókinn svo rosalega að þeir líða aldrei skort og geta bara verið i sínum útlöndum það sem eftir er ævinnar í vellystingum praktuglega) og við blasir að allir þurfa að herða sultarólina, margir verða atvinnulausir til lengri tíma og gjaldþrot og þunglyndi aukast.

Samt grunar mig að eftir kortér verði allir aftur komnir á þá skoðun að einkavæðing sé lausnin (vilji einkavæða virkjanirnar!) og frjálshyggjan sé hið besta mál. Og allir verða glaðir og klappa og segja: loksins er komið góðæri aftur. Vei!

___
Viðbót: Titill færslunnar vísar í eldri færslu sem var tilvitnun í bók Einars Más Jónssonar, Bréf til Maríu.

Efnisorð: , , ,