mánudagur, maí 29, 2017

Dómari á eldhúsdegi

Eldhúsdagsumræður fóru fram í kvöld. Brynjar Níelsson flutti ræðu sem virtist eingöngu til brúks innanhúss því ekki fjallaði hún um þjóðmálin. En þingmenn hlógu og skemmtu sér hið besta af einhverjum ástæðum. Sjálfur hefur Brynjar eflaust verið í besta skapi enda var dómsmálaráðherra að enda við að gera honum stórgreiða.

Sem andsvar við gagnrýni á stórkostlegan kynjahalla sem stefndi í að yrði á dómurum Landsréttar (eða það skyldi maður halda) hefur dómsmálaráðherra ákveðið að skáka út nokkrum karlkynsdómaraefnum (líklega samt aðallega vegna þess hversu mjög þeir fara í taugarnar á Sjálfstæðisflokknum*) og bæta við tveimur körlum og tveimur konum í staðinn. Nú ætti mitt feminíska hjarta að gleðjast en gerir það ekki. Ástæðan er sú að Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari eiginkona Brynjars Níelsssonar, flokksbróður ráðherrans, er ein þeirra sem Sigríður Andersen vill fá sem dómara.

Að hygla þannig sínu fólki er óþolandi, jafnvel þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf stundað slíkt (sbr. ráðning ættingja Davíðs Oddssonar í dómarastörf á sínum tíma). Það að Brynjar Níelsson er hatursmaður feminista varpar því ljósi á konu hans að hún hljóti að vera elskusátt við andfeminískar hugmyndir, sem hljómar ekki eins og kona sem þarf til að bæta úr kynjahalla. Sú staðreynd að Sigríður skiptir líka tveimur körlum út fyrir tvo aðra karla sýnir að þetta er pólitísk aðgerð en ekki til að gæta að kynjajafnrétti.** Það er semsagt fátt eða ekkert sem er jákvætt við þessa mannabreytingatillögu dómsmálaráðherra.


Annars var það helst að frétta af eldhúsdagsumræðum að Katrín Jakobsdóttir gagnrýndi ríkisstjórnina eins og aðrir stjórnarandstæðingar — en henni fórst það að vanda betur en öðrum.

Þýskalandskeisari, sem lítið hefur borið á undanfarna öld, fékk sína15 sekúndna frægð þegar fjármálaráðherra misminnti starfsheiti Angelu Merkel. Kannski fylgdist hann ekki með í sögutímum í MR?

Pawel flutti ágæta ræðu, aðallega vegna þess að hann talaði um múmínálfa. Mér varð reyndar um og ó þegar hann fór að líkja sér við Snúð, en til allrar hamingju var á þeirri sögu óvæntur og skemmtilegur endir.

Öllu erfiðara varð að hlusta á Nichole Mosty. Ekki vegna þess að hún talar ekki íslensku alltaf með réttum áherslum heldur vegna þess að hún beygði af þegar hún minntist á óvægna gagnrýni sem hún fær vegna meðferðar sinnar á tungumálinu. Slík gagnrýni er á köflum einfaldlega útlendingaandúð og er óþolandi sem slík. Gagnrýni sem beinist að ríkisstjórnarþátttöku Bjartrar framtíðar og hvernig flokkurinn og Nichole spila úr því á hins vegar fulla rétt á sér.

Bjarkey Olsen átti frasa kvöldsins: Þessi ríkisstjórn lifir á lyginni.


____
* Stundin bendir á að „Einn þeirra sem var metinn hæfastur, en Sigríður vill ekki skipa, hefur verið tengdur við Vinstri græna. Ástráður Haraldsson, sem er reyndur lögmaður og hefur meðal annars verið dósent við Háskólann á Bifröst, hefur hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Vinstri græna og Alþýðubandalagið“ og að „Ástráður er barnsfaðir Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna“. Hann hefur með öðrum orðum ekki réttar pólitískar skoðanir.

** Ekki yrði ég hissa á að þessi kenning sem fram kom í athugasemdum við frétt Stundarinnar reyndist rétt: „Sigríður velur að skipta um fjóra til að gera val Arnfríðar minna áberandi. Gegnsætt bragð.“ 

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, maí 25, 2017

Lausnin á vanda Landspítalans

Nichole Leigh Mosty, formaður velferðarnefndar Alþingis, sakar forstjóra Landspítalans um að stunda „pólitíska baráttu“ og vill setja stjórn yfir Landspítalann svo orku fagfólks sé varið í annað en að „betla pening“ af fjárveitingarvaldinu, segir í frétt Stundarinnar.

Forstjóri Landspítalans eyðir eflaust allt of miklum tíma í að hamast í fjárveitingarvaldinu til þess eins að fá boðlegt rekstrarfé fyrir spítalann. Hugsanlega er það vel meint hjá Nichole að vilja létta af honum þessu stússi svo hann geti einbeitt sér að öðru því sem felst í starfi hans sem æðsti stjórnandi háskólasjúkrahúss, stærsta spítala landsins.

Eflaust væru líka forstöðumenn fleiri ríkisstofnana fegnir því að þurfa ekki sínkt og heilagt að réttlæta fjárþörf stofnana sinna og berjast gegn enn meiri niðurskurði. Ætlar Nichole að skipa sérstaka stjórn yfir allar þessar stofnanir til þess að hjálpa þeim að ná eyrum fjárveitingavaldsins?

Ætli það kosti ekki talsverð býsn af peningum að hafa svona stjórn til þess eins að vera milliliður um að „betla pening af fjárveitingarvaldinu“? Eða er stjórninni sem Nichole sér fyrir sér yfir spítalanum aðallega ætlað að þagga niður allt raus um hræðilegar afleiðingar ef ríkisstjórnin heldur áfram að svelta spítalann; slíta sambandið við fjölmiðla og fjárveitingavald.

Svo er kannski bara hægt að spara launakostnað spítalastjórnarinnar og bæta þess í stað verulega við upphæðina sem spítalanum er ætlaður á fjárlögum næstu árin. Það myndi minnka betlið verulega. Og sama mætti gera fyrir hinar ríkisstofnanirnar líka, takk.


Efnisorð:

mánudagur, maí 22, 2017

Staða jafnréttismála á Íslandi á vordögum 2017

Nýjasta nýttið hjá ríkisstjórninni er að breyta brennivín-í-búðir frumvarpinu snarlega á síðustu dögum þingsins og reyna að þvinga það í gegn; allt til að koma á bara einhverri einkasölu áfengis svo hægara verði að fullfremja verknaðinn síðar.

Markaðsviðhorfin blífa hjá ríkisstjórninni enda er hún hægrisinnaðasta ríkisstjórnin hingað til og hafa þó frjálshyggjuviðhorf einkennt aðrar ríkisstjórnir á undan þessari (fyrir utan þessa einu vinstristjórn, blessuð sé minning hennar). Afleiðingar frjálshyggjustefnunnar sjást meðal annars í stöðu heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og samgöngumálum, og viðhorf núverandi ríkisstjórnar birtast í fjármálaáætluninni sem sannarlega viðheldur þeirri stefnu að svelta, svelta og svelta allt sem hægt er — til þess að geta einkavætt það og grætt á því.

En ég ætlaði ekki að tala um það heldur stöðu jafnréttismála á tímum ríkisstjórnarinnar núverandi og fyrirrennara hennar sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð einnig að.

Ríkisstjórnin hefur fleiri karlráðherra en kvenráðherra. Ein ástæða þess er sú að Sjálfstæðisflokkurinn bauð fram karla í efstu sætum í næstum öllum kjördæmum. Bjarn Ben setur upp strákslega brosið og skreytir kökur í útlöndum og þar með sjálfan sig sem jafnréttisssinnaðan en rífur næstum jafn mikinn kjaft yfir að hafa brotið jafnréttislög og hann reifst við Jóhönnu; en finnst þó hann ekki eiga að segja af sér þótt hann hafi krafist þess af henni.

Dómarar sem stendur til að ráða við nýstofnaðan Landsrétt eru í yfirgnæfandi meirihluta (2/3) karlar. Dómsmálaráðherra finnst það í lagi því hún er á móti því „að líta sérstaklega til kynjasjónarmiða við skipan dómara“ enda er hún er uppteknari af að vera frjálshyggjumanneskja en hagsmunum kynsystra sinna. Það er óskandi að þingið hindri þessa ráðstöfun.

Frumvarp sem Brynjar Níelsson (dyggilega studdur af feministahatandi samtökum umgengnisforeldra) leggur fram gengur útá að fangelsa mæður í fimm ár — og svipta þær þannig samvistum við börn sín — ef þær hafa gerst uppvísar að því að svipta feður barnanna samvistum við þau. Þetta er einstaklega barnvænleg stefna: fyrst færðu ekki að sjá pabba þinn og svo færðu ekki að sjá mömmu þína; það köllum við réttlæti. Sembeturfer virðist „stjórnarandstaðan með VG í fararbroddi“ ætla að ná að koma í veg fyrir að þetta frumvarp verði að lögum (a.m.k. með þessu refsiákvæði), kannski vegna þeim er umhugað um að börnin verði ekki svipt því foreldrinu sem þau augljóslega hafa verið í meiri samvistum við, en hugsanlega líka vegna þess að þau sjá hefnigirnina og kvenhatrið skína af þessu baráttumáli Brynjars.

Í tíð vinstristjórnarinnar var kaup á vændi gert refsivert. Dómskerfið hefur afturámóti tekið eindregna afstöðu með vændiskaupendum og hlíft þeim við opinberum réttarhöldum og nafnbirtingu. Þegar stjórn Sigmundar Davíðs (úff, muniði?) tók við stjórnartaumunum og Bjarni Ben stýrði fjármálum og misgæfulegt Sjálfstæðisfólk stýrði og starfaði í Innanríkisráðuneytinu sáluga var dregið úr rannsóknum á vændiskaupum (á síðustu þremur árum aðeins níu mál). Auðvelt að réttlæta að skera það niður við trog þegar allar stofnanir eru sveltar hvorteðer.

Löggan segir: „Við þurfum að forgangsraða mannskapnum. Þar setjum við kynferðisbrot og brot gegn lífi og líkama efst í forgangsröðunina.“ Kynferðisbrotamál í forgangi (það liggur við að maður fari að hlæja) — er það ekki bara sagt til að geta réttlætt að gefa algjöran skít í vændiskaupamálin? Og eru vændismál ekki kynferðisbrotamál og brot gegn líkama? En jújú, löggæslan er fjársvelt, og þá má ekki splæsa of mikilli vinnu í mál sem snúa að konum.

Á meðan er staðan þannig að hér grasserar vændi sem aldrei fyrr, konur eru fluttar inn í tonnavís og seldar Íslendingum og ferðamönnum, og enginn skiptir sér af. Frelsi markaðarins — í boði frjálshyggjuríkisstjórnarinnar.

Lengi vel leit út fyrir að jafnt og þétt færðumst við nær jafnrétti. Með þessari ríkisstjórn er ólíklegt að við þokumst neitt framar.

Efnisorð: , , , , , , ,

sunnudagur, maí 21, 2017

Vonlausar aðferðir til að verjast nauðgurum og vonin um að geta varist nauðgurum

Sif Sigmarsdóttir skrifaði í dag um varnarlausar konur og hvað konur gera — eða mega gera — til að reyna að forðast að vera nauðgað. Tilefnið er límmiðar sem stóð eða stendur til að setja á glös á skemmtistöðum og eiga að varna því að nauðgunarlyf séu sett í glasið.

Ég er hjartanlega sammála afstöðu Sifjar enda var ég hálfhissa þegar þessi límmiðahugmynd var skotin í kaf, og sérstaklega þegar höfundur tillögunar var úthrópaður fyrir að koma sök yfir á fórnarlömb nauðgana (með því að ef límmiðinn væri ekki notaður og konu væri nauðgað í lyfjamóki, væri hægt að nudda konunni uppúr því að þetta hefði ekki komið fyrir ef hún hefði bara notað límmiðann, og afhverju hefði hún ekki notað límmiðann...). Það hafa verið búnar til glasamottur, muni ég rétt, sem eiga að geta (sé þeim dýft í glasið eða látið leka úr glasinu á þær, ég veit ekki hvort) ljóstrað upp hvort nauðgunarlyf séu í glasinu. Ég man ekki hvort það varð allt svona brjálað yfir glasamottunum, en ég man að mér fannst þetta ekkert galin hugmynd, ekki frekar en límmiðarnir nú. Mér finnst raunar hver sú aðferð sem konur nota til að verjast lyfjanauðgunum vera þess virði að nota hana. Bjargi hún einhverri konu frá nauðgun þá er það ekkert minna en frábært.

Hinsvegar er það nú svo að flestum konum er nauðgað án þess að byrlað sé fyrir þeim á skemmtistað, þessi byrlunarfaraldur er tiltölulega nýtilkominn í mannkynssögunni. Konum er oftast nauðgað af einhverjum sem þær þekkja, stundum eru þær undir áhrifum áfengis en ekki endilega, stundum hafa þær verið á skemmtistað en það er ekki skilyrði. Eiginmaðurinn (fyrrverandi), kærastinn (fyrrverandi) eða kunningi til margra ára þarf ekkert að lauma neinu í glas til að vera í góðri aðstöðu til að nauðga. Hvorki límmiði né glasamotta getur komið konunum til bjargar í slíkum tilfellum, heldur ekki að ganga með lykil milli fingranna eða að 'vinkonurnar haldi hópinn'. Samt er mikilvægt — og kannski bara fyrir eigin öryggistilfinningu — að halda hópinn, passa glösin og ganga með lykil milli fingranna við vissar aðstæður. Mér finnst furðulegt að gera lítið úr því sem falskri öryggistilfinningu. Öryggistilfinning er sennilega oftast fölsk hvorteðer.

Og nei. Ég er ekki að segja að konur eigi ekki að fara út á kvöldin, eða vera einar á ferð eða neitt slíkt. Það er stór munur að hafa varann á við vissar aðstæður eða læsa sig inni og fara aldrei út á meðal fólks.

En aftur að pistli Sifjar.
„Við erum komin í hring ef við sendum út þau skilaboð að kynferðisofbeldi gegn konum sé einhvern veginn „öðruvísi“ glæpur og reyni konur að verja sig gegn honum með „hefðbundnum“ hætti séu þær að taka á sig einhverja sök. Við erum að stunda þolendaskömmun. Við erum að segja að konur eigi hlutdeild í sektinni vegna þess að þær viðurkenndu að hætta gæti verið á ferðum. Við erum að segja að vilji kona reyna að verja sig þurfi hún að skammast sín. Skömmin er komin á fórnarlambið, umræðan er aftur orðin tabú og við erum komin á byrjunarreit.

Í stað þess að úthrópa þá sem vekja máls á glæp sem þrífst á þögn og hírist í skuggum, væri ekki nær að taka saman höndum og opna umræðuna enn frekar? Þeir sem settu sig upp á móti átaki Þórunnar sögðu að réttara væri að segja nauðgurum að hætta að nauðga en að segja fólki að verja sig gegn nauðgurum. Annað útilokar ekki hitt.“
Einnig sagði Sif frá nýlegu bresku dómsmáli þar sem dómari hlífði krikketleikara (magnað hvað íþróttamenn njóta alltaf velvildar dómskerfisins) við fangelsisvist þrátt fyrir að hafa beitt konu hræðilegu ofbeldi. Tengingin við límmiðafárið er sú að breska dómaranum fannst að konan hefði átt að geta varast ofbeldið.

Við eigum að berjast gegn nauðgunum — meðal annars með því að kenna fólki frá unga aldri að nauðga ekki. Við eigum ekki og aldrei að saka fórnarlömb kynferðisofbeldis um að hafa kallað ofbeldið yfir sig eða ekki gripið til einhverra ráðstafana sem okkur (sem vorum ekki í þessum aðstæðum) finnst að hefði átt að viðhafa. Við eigum að fagna því að til er fólk sem vill finna nýjar leiðir (hversu óskynsamlegar sem okkur finnst þær) til að draga úr nauðgunum.

Að lokum tek ég undir með Sif.

„Eftirfarandi skilaboð mætti til dæmis setja fram á límmiða: Ekki vera nauðgari.“

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, maí 17, 2017

Mætti örugglega réttur Ólafur fyrir nefndina?

Hálft ár mun vera liðið frá því að almannatenglafyrirtæki hóf að vinna að málsvörn Ólafs Ólafssonar: í því fólst ekki að mæta fyrir rannsóknarnefnd og svara spurningum.

Eftir hundraða blaðsíðna sendingu til stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar Alþingis, videóbloggræðu á skyrtunni (rafræna ökklabandið virðist ekki hafa truflað upptökuna), og fum og fát þegar þingmenn í stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd kröfðust annarra svara en þeirra sem komu Ólafi vel og hann hafði æft (svosem að afhjúpa það sem allir vita um spillingu við einkavæðingu Landsbankans), situr bara ein spurning eftir:

Verður nám í almannatengslum áfram lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, nú þegar stétt almannatengla hefur með svo áberandi hætti sýnt fram á gagnsleysi sitt?


Efnisorð:

miðvikudagur, maí 10, 2017

100 milljónir til eða frá, ekki segja frá

Rannsókn sem náði allt aftur til ársins 1779 leiddi í ljós að karlkyns fræðimenn væru 56% líklegri en konur til að vitna í eigin verk þegar þeir skrifa fræðigreinar og bækur. Þessi tilhneiging hefur reyndar aukist með tímanum og á undanförnum tuttugu árum (rannsóknin náði til ársins 2011) mælast karlmenn 70% líklegri til að vitna í sjálfa sig en konur.

Þetta fannst mér fyndið. Auðvitað aðallega vegna þess að kallar eru svo hrikalega ánægðir með allt sem þeir gera að þeir geta ekki stillt sig um að segja umheiminum frá því aftur og aftur. En stór hluti kæti minnar stafaði þó af því að vandfundinn er sá laumubloggari sem vitnar oftar í sjálfa sig en ég. Og hitti því þarna mig fyrir í hópi sjálfbirgingslegra karla.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég rakst á pistil frá 16. febrúar þessa árs, sem ég hafði gleymt að lesa, en höfundurinn er Þorvaldur Gylfason sem skrifar í Fréttablaðið. Ég ætla mér allsekki að gera gys að Þorvaldi en það vill svo til að hann notar pistilplássið til að birta „að gefnu tilefni fáeinar orðréttar tilvitnanir í eigin skrif um bankamál frá árunum 1987-2016“.

Það er alveg þess virði að lesa þessar sjálftilvitnanir Þorvaldar en ein þeirra vakti sérstaka athygli mína, semsagt þessi.
„Frumvarp Eyglóar Harðardóttur alþingismanns um, að birtar verði upplýsingar um, hverjir hafa fengið afskrifaðar skuldir yfir 100 mkr. í bönkunum, náði ekki fram að ganga á Alþingi. Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (2. bindi, bls. 200-201), að tíu alþingismenn skulduðu bönkunum hver um sig 100 mkr. eða meira, þegar bankarnir hrundu, sumir miklu meira. Meðalskuld þessara tíu þingmanna við bankana var 900 mkr. Enn hefur ekki verið upplýst, hversu farið var með þessar skuldir alþingismannanna tíu. Hver getur tekið mark á slíkum þingmönnum í umræðum um bankamál? … Þessar upplýsingar skipta máli vegna þess, að bankarnir hafa látið bera varnarlausa viðskiptavini út af heimilum sínum í stórum stíl ... Bankaleynd á rétt á sér að vissu marki, en henni má ekki misbeita til að mismuna viðskiptavinum bankanna. Í bönkum eins og annars staðar eiga allir að sitja við sama borð.“ (DV, 15/3/2013).
Mér varð þessi lesning mér tilefni til að seilast í 2. bindi Rannsóknarskýrslunnar og lesa þessar tvær blaðsíður sem rekja hver skuldaði hverjum og hve mikið. Og fyrir tilstuðlan rafrænnar birtingar á vef Alþingis birti ég það hér. Töflum er sleppt en nöfnum stjórnmálaflokka bætt inn til glöggvunar. Um skuldir fjölmiðlamanna (þ.á m. Björns Inga) má lesa í kaflanum 8.11.3 sem er ekki birtur hér.

8.11 Lánafyrirgreiðslur til alþingis- og fjölmiðlamanna

8.11.1 Inngangur
Til að kanna hvort alþingismenn og fjölmiðlamenn hafi notið óeðlilegrar lánafyrirgreiðslu í íslensku bönkunum var eftirfarandi greining gerð. Fyrir hvern aðila, þingmann eða fjölmiðlamann, var samanlögð lánastaða aðilans sjálfs, maka hans og félaga í helmings- eða meirihlutaeigu þeirra í Glitni, Kaupþingi, Landsbanka og Straumi-Burðarási könnuð. Þessi heildarlánastaða var könnuð aftur til byrjunar árs 2005 og hæsta heildarlánastaða tímabilsins skráð. Þeir aðilar sem höfðu yfir 100 milljónir að láni alls, samkvæmt þessari aðferðafræði, voru skoðaðir sérstaklega og er þeirri athugun lýst hér að neðan.Viðmiðið var valið með það í huga að flest lán undir þessum mörkum eru eingöngu húsnæðislán og telja má slíkt til eðlilegrar fjármögnunar einstaklinga.
[…]

Kafli 8.11.2 Alþingismenn
Tafla 23 sýnir þá þingmenn sem höfðu, ásamt maka og félögum þeirra, heildarlánastöðu yfir 100 milljónum króna einhvern tímann frá ársbyrjun 2005 og fram að falli bankanna í október 2008. Hæsta útlánastaðan sést í töflunni og tímasetning hennar.

Öll veruleg lán sem tengjast Sólveigu Pétursdóttur [Sjálfstæðisflokkur] á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Kristins Björnssonar. Stærstu lánin voru til félags Kristins, Mercatura ehf., og af þeim voru hæstu lánin í gegnum framvirka samninga. Helstu verðbréf sem lágu að baki þeim samningum voru hlutabréf FL Group hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. og skuldabréf Icebank. Í stærstu lánum og framvirkum samningum Kristins og Mercatura var Glitnir mótaðili. Þá var félag í helmingseigu Kristins, Geri ehf., með 200–300 milljóna króna lán hjá Landsbanka á tímabilinu.

Öll veruleg lán sem tengjast Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur [Sjálfstæðisflokkur, nú Viðreisn] á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Kristjáns Arasonar. Stærstu lánin voru fyrst til Kristjáns beint en síðar til félags í hans eigu, 7 hægri ehf., vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Kristján var framkvæmdastjóri í bankanum og tengdust lánin starfshlunnindum til hans en um það er nánar fjallað í kafla 10.0.

Öll veruleg lán sem tengjast Herdísi Þórðardóttur [Sjálfstæðisflokkur] á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Jóhannesar Sigurðar Ólafssonar, eða félags í sameiginlegri eigu þeirra. Stærstu lánin voru í gegnum framvirka samninga um íslensk hlutabréf, svo sem hlutabréf FL Group hf., Landsbanka Íslands hf., Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. og Actavis Group hf. Umfang viðskiptanna var mest árið 2006. Á árinu 2005 gerði Jóhannes S. Ólafsson ehf., félag í sameiginlegri eigu þeirra hjóna, nokkuð af framvirkum samningum en um nokkru lægri fjárhæðir en Jóhannes sjálfur.

Öll veruleg lán sem tengjast Lúðvík Bergvinssyni [(Alþýðuflokkur, þingflokkur jafnaðarmanna, Samfylkingin]á tímabilinu voru á vegum fasteignafélags í helmingseigu hans, Miðkletts eignarhaldsfélags ehf., og voru þau fengin hjá Landsbanka Íslands hf.

Öll veruleg lán sem tengjast Jónínu Bjartmarz [Framsóknarflokkur] á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Péturs Þórs Sigurðssonar. Jafnframt voru öll veruleg lán til félags Péturs, Lindarvatns ehf. Lánveitandi félagsins var Landsbanki Íslands hf.
Stærstu lán Árna Magnússonar voru í Glitni banka hf. en Árni var ráðinn sem forstöðumaður til bankans árið 2006. Lánafyrirgreiðslurnar voru annars vegar til Árna sjálfs og hins vegar til félags í hans eigu,AM Equity ehf., en það félag fékk 100 milljóna króna lán til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum.

Helstu lán Ármanns Kristins Ólafssonar [Sjálfstæðisflokkur] voru annars vegar lán í Kaupþingi banka hf. og hins vegar lán í Landsbankanum í gegnum framvirka samninga. Undirliggjandi í þeim samningum voru ýmis hlutabréf, innlend og erlend. Stærstu samningarnir voru um hlutabréf Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf.

Helstu lán Bjarna Benediktssonar [Sjálfstæðisflokkur] voru í Glitni banka hf. Annars vegar var um bein lán að ræða og hins vegar um lán í gegnum framvirka samninga. Fyrir utan einn um 45 milljóna króna framvirkan samning um hlutabréf Glitnis í upphafi árs 2006 voru þeir framvirku samningar allir um hlutabréf erlendra banka, Deutsche Bank, Morgan Stanley og Lehman Brothers.

Öll veruleg lán sem tengjast Ástu Möller [Sjálfstæðisflokkur] á tímabilinu voru á vegum eiginmanns hennar, Hauks Þórs Haukssonar. Stærsti hluti þeirra lána var í gegnum framvirka samninga sem Stafholt ehf., félag Hauks, og Investis ehf., félag í helmingseigu Stafholts, gerðu. Stærstu samningarnir voru um íbúðabréf, þ.e. skuldabréf gefin út af Íbúðalánasjóði. Framvirku samningarnir voru gerðir við Kaupþing banka hf. en lán voru í Landsbanka Íslands hf.

Þau lán sem tengjast Ólöfu Nordal [Sjálfstæðisflokkur] á tímabilinu voru lán til hennar og eiginmanns hennar, Tómasar Más Sigurðssonar, og voru aðallega í Landsbanka Íslands hf. og Glitni banka hf.

Allt þetta höfum við lengi vitað (og líka að Sjálfstæðismenn voru í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem skulduðu yfir 100 milljónir), en rétt eins og Þorvaldur sá ástæðu til að rifja þetta upp að hluta þá finnst mér ágætt að birta þetta nú. Ekki síst vegna þess að Bjarni Benediktsson, núverandi forsætisráðherra, er þarna meðal skuldara, og við vitum að hann bæði átti aflandsfélag og sótti um (og fékk?) skuldaleiðréttingu hér um árið. Og hver veit hvað hann fékk afskrifað í bönkunum, á sama tíma og minna merkilegt fólk var þvingað til að greiða allt í topp eða var gert gjaldþrota ella, eins og Þorvaldur bendir á. Svo má ekki gleyma að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og bróðir Einars Sveinsonar fyrrverandi stjórnarformanns Glitnis, tók 500 milljónir króna út úr Sjóði 9 hjá Glitni þremur dögum fyrir þjóðnýtingu bankans. Feðgarnir forðuðu báðir miklum fjármunum úr Glitni fyrir hrun. Bjarni Benediktsson var á fundi með Glitnismönnum nóttina fyrir yfirtöku.

Það hefur því lengi verið mikið peningaflæði kringum Bjarna. Verst hvað lítið af því lendir sem skattskyldar greiðslur í ríkissjóðnum, þessum sem Bjarna er svo umhugað um að skammta öðrum naumt úr.



Efnisorð: , , ,

sunnudagur, maí 07, 2017

Óþarfa kvíði: Frakkar eru ekki fávitar

Skoðanakannanir spáðu Emmanuel Macron sigri í frönsku forsetakosningunum. Í ljósi þess hversu skoðanakannanir gáfu ranga mynd af niðurstöðum Brexit-kosninga í Bretlandi og forsetakosninga í Bandaríkjunum gat það allt eins þýtt að Marine Le Pen yrði forseti. En Frakkar eru greinilega ekki fávitar og svo virðist sem 65% þeirra sem kusu hafi viljað Macron (þótt þeim þætti hann ekki endilega góður kostur) heldur en fasistaleiðtogann sem hatast útí fjölmenningarsamfélag og evrópusamvinnu.

Hefði hún komist til valda hefði það líklega ýtt enn undir að Evrópusambandið liðaðist í sundur. Sem í mínum huga er uppskrift að styrjöld í álfunni, jafnvel heimsstyrjöld. Þannig að ég gleðst yfir skynsemi Frakka og ósigri Le Pen. Megi enginn úr þeirri fjölskyldu komast til valda!

Efnisorð:

mánudagur, maí 01, 2017

1. maí 2017

Á baráttudegi verkalýðsins hugsum við um:

Misskiptingu auðs
Bæði á heimsvísu og á Íslandi safnast auðurinn á æ færri hendur. Þeir ríku eiga allt, og nota auðinn til að sanka meira að sér; eiga fyrirtækin sem við verslum við, fjölmiðlana sem við lesum, tryggingafélögin, olíufélögin, húsnæðið — og ef þeir fá sínu framgengt spítalana líka og vegina. Á meðan situr sí stækkandi hópur láglaunafólks, öryrkja og aldraðra neðst á botninum og rétt skrimtir. Á vart ofan í sig og á hvað þá fyrir lyfjum eða tannlæknaheimsókn. Þeir ríku heimta lægri skatta eða flytja fjármuni úr landi, þá er enn minna til samneyslunnar fyrir hina, og þar af leiðandi minna til að bæta félagslega stöðu þeirra fátækustu.

Húsnæðismál
Staðan í húsnæðismálum er slík að annarsvegar eru alltof fáar íbúðir til sölu eða leigu, og hinsvegar sú að söluverð á íbúðum og húsaleiga hefur hækkað langt umfram getu flestra þeirra sem vilja kaupa eða leigja. Það var óráð að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið, nú sést best hvers er að sakna.

Það þarf að setja bönd á leigufélög hrægamma sem blóðmjólka leigjendur og keyra upp húsnæðisverð. Hemja útleigu til ferðamanna (þeir hljóta að geta gist á hótelum, til þess eru þau). Ríki og bær þurfa einnig að hefja uppbyggingu húsnæðis þar sem allir — en þú sérstaklega þeir efnaminnstu — eiga möguleika á mannsæmandi húsnæði til frambúðar.

Atvinnulausa, öryrkja og aldraða
Fólk sem af einhverjum ástæðum er atvinnulaust þarf samt sem áður að borga húsaleigu eða afborganir af húsnæði. Það þarf að borða, greiða rafmagn og hita, halda jól, komast milli staða. Atvinnuleysisbætur þurfa að gera ráð fyrir að fólk lifi mannsæmandi lífi. Sama gildir um ellilífeyri og örorkubætur.

En það er ekki nóg að bæta fjárhag þessara hópa heldur eiga þeir skilið að talað sé um þá af virðingu en ekki fyrirlitningu. Það ætti ekki að vera áfellisdómur yfir manneskju að missa heilsu eða vinnu, ekki frekar en að eldast.

Vinnuþrælkun
Það verður sífellt augljósara að margir fyrirtækjaeigendur, hvort sem þeir eru í veitingarekstri, með hótel eða reisa hús (og eflaust margir fleiri) hika ekki við að ráða fólk til starfa og borga þeim langt undir taxta, láta það vinna án afláts, skila ekki opinberum greiðslum af laununum þeirra. Ekki fær fólkið greitt í veikindafríi og ekkert orlof. Starfsfólkið þarf jafnvel að búa í húsnæði atvinnurekandans, og þá kannski við ömurlegar aðstæður og húsaleigan dregin af kaupinu. Uppsagnir fara fram fyrirvaralaust og þá sérstaklega ef fólkið vogar sér að kvarta eða leita til stéttarfélags. Í sumum tilfellum er um hreint mansal að ræða.

Þetta gera sum fyrirtækin aftur og aftur, því þetta er ekki óvart, heldur líta þau á fólk sem einnota vörur sem má henda og fá nýtt í staðinn. Það eru semsagt til fjölda fyrirtækja, stórra og smárra sem markvisst níðast á fólki í gróðaskyni.

Launamismunun
Það er vitað mál, enda þótt einstaka fulltrúar karlveldisins þræti fyrir það, að konur fá almennt talað minni laun en karlar. Því þarf sannarlega að breyta og vonandi verður jafnlaunavottun hjá hinu opinbera skref í þá átt.

Annar launamunur er svo einnig kynbundinn og það er sá sem metur hefðbundin kvennastörf minna en hefðbundin karlastörf. Leikskólakennarar og sjúkraliðar eru í umönnunarstörfum og það er verðlagt minna en að störf í fjármálaheiminum.

Svo er það líka launamunurinn milli þeirra sem þurfa að beita fyrir sig verkalýðsfélögum til að hækka kaupið, þeirra sem geta fengið kauphækkun með því að 'vera nógu fylgin sér' í viðræðum við yfirmanninn, og svo aftur þeirra sem fá launin sín skömmtuð ríflega hjá mannúðarsamtökunum sem kallast Kjararáð.

Frjálshyggju
Hugmyndafræðina sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur (með dyggri aðstoð meðreiðarsveina í ríkisstjórnum allt frá forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar) troðið uppá landsmenn. Það er samkvæmt þessari hugmyndafræði sem heilbrigðiskerfið og menntakerfið eru svelt og ríkiseignir eru seldar. Frjálshyggja boðar að markaðurinn eigi að ráða, og segir að heilbrigðisþjónusta og menntastofnanir eigi að vera einkarekin með hagnaði. Sama gildir um nánast alla innviði samfélagsins að undanskildu félagslega kerfinu því það hyglir að mati frjálshyggjunnar þeim sem ekkert eiga skilið og því á að leggja það niður. Frjálshyggja er fyrir þá sem geta og eiga; henni kemur ekki við hvað verður um hina.

Samstöðu
Góð vísa er aldrei of oft kveðin og kvæðið hans Martin Niemöller byrjar á þessu gamalkunna stefi: fyrst tóku þeir sósíalistana en ég sagði ekkert því ég var ekki sósíalisti. Þið munið hvernig kvæðið endar. Við verðum hvert og eitt að reyna að hafa áhrif á samfélag okkar, ekki síst varðandi þau málefni sem snerta okkur ekki beint.

Við eigum að láta húsnæðisskort annarra skipta okkur máli, líka lág laun og lélegan lífeyri.

Við eigum ekki að láta málefni öryrkja og aldraðra okkur í léttu rúmi liggja bara vegna þess að við erum heil heilsu og bráðung enn. Röðin kemur að okkur.

Við eigum í fyrsta lagi að kjósa flokka sem hafa hag almennings í fyrirrúmi (þ.m.t. ungt fólk, aldrað fólk, öryrkja, innflytjendur) en þjóna ekki fyrirtækjunum eða auðugasta fólkinu. Við eigum að mæta í kröfugöngur og á mótmæli. Safna undirskriftum gegn óréttlæti. Við eigum líka að sýna samstöðu okkar í ræðu og riti. Tala máli bótaþega, ræða endurreisn verkamannabústaðakerfisins, fordæma vinnumansal og misskiptingu auðs. Það þarf (vonandi) ekki byltingu (hvað þá blóðuga) því við höfum margar aðrar leiðir til að berjast fyrir því að bæta hag fjöldans og þá um leið þeirra sem minnst mega sín.

Um þetta ættum við að hugsa og fyrir þessu ættum við að berjast.



Efnisorð: , , , , , , , , , ,