þriðjudagur, desember 26, 2006

Takið af ykkur bílbeltið

Ég legg til að karlar taki af sér bílbeltið ef þeir sjá fram á að þeir eru að lenda í bílslysi, hvort sem þeir eru að endasendast framaf bjargbrún, fá flutningabíl framaná sig eða bíll keyrir aftaná þá á ljósum. Það er jú betra að það séu fleiri áverkar en færri þegar farið er fram á bætur úr tryggingunum. Það getur ekki verið svo erfitt að hugsa nokkra leiki fram í tímann og teygja sig í beltið og taka það af sér. Engu máli skiptir að þú ert þegar í bráðri hættu og allt sem þú hefur lært hingað til segir þér að beltið muni hlífa þér við sársauka og meiðslum, þú skalt taka það af og verða þér útum hámarks áverka. Ekki viltu að tryggingafélagið fari að efast um sögu þína? Það er hægur vandi að segja að þú hafir logið þessu öllu og staðið uppi á bjargbrún meðan bíllinn húrraði niður í fjöru – eða að þú hafir ekki fengið neinn helvítis hálsáverka í aftanákeyrslunni. Þá er nú betra að geta sýnt fram á brotin andlitsbein. Þetta ósjálfráða viðbragð þitt að reyna að slasast sem minnst er bara kjaftæði. Þú hlýtur að geta þolað smá högg.

Þegar konur kæra nauðgun virðist það vera notað gegn þeim ef ekki sjást miklir líkamlegir áverkar. Séu þeir ekki fyrir hendi getur nauðgarinn sallarólegur haldið því fram að konan hafi samþykkt ‘kynlífið’. Það eru samt nokkrar ástæður fyrir því að konur berjast ekki á móti og hver og ein þeirra útskýrir það ágætlega.

1. Stelpur venjast því ekki að slást við vini eða bræður í gamnislag.
2. Stelpum er ekki sagt að slá á móti ef einhver slær þær, þeim er kannski ekki sagt að nota Jesú-aðferðina en þær eru mun frekar hvattar til að forðast vandræði eða fyrirgefa heldur en svara í sömu mynt.
3. Stelpum er kennt að kynfæri karlmanns eru heilög og það brýtur allar reglur að sparka í þau eða klípa.
4. Stelpur/konur eru allajafna líkamlega veikburðari en flestir strákar/karlmenn og vita því að þær geta ekki ráðið við þá.
5. Líkurnar á því að meiðast eru meiri ef barist er á móti nauðgaranum.
6. Margar konur frjósa eða lamast þegar þær sjá hvað er í aðsigi.

Vonandi er stelpum í dag kennt að berjast á móti ef þær lenda í einhverjum átökum við skólabræður sína og vonandi læra þær allar alvöru sjálfsvörn. En að öllum líkindum eru fæstar stelpur/konur vanar því að takast á við aðra manneskju á þann hátt sem þær þyrftu til að geta í raun varið sig gegn ofurefli. Þar af leiðandi dettur þeim það varla í hug á ögurstundu. Eða er hægt að ætlast til af þeim að þær reyni að slasast meira til að þeim verði trúað?

Karlmenn: takið af ykkur bílbeltið þegar lífsháska ber að höndum.

Efnisorð: ,

mánudagur, desember 25, 2006

Ímyndaði heimurinn er ekkert betri

Þegar feministar benda á að fáar konur komist í viðtöl í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna er þeim oft bent á að fréttirnar endurspegli raunveruleikann en sé ekki ætlað að bæta hlut kvenna. Fáar konur séu í stjórnunarstöðum í þeim greinum sem fréttnæmastar eru og í ráðherrastólum og því sé frekar talað við karlana. Þannig verða svo karlarnir mest áberandi í fjölmiðlum og konur minna sýnilegar sem ýtir enn undir þá almennu skoðun að karlar séu betur til þess fallnir að axla ábyrgð á því sem máli skiptir. En það er semsé ekki hlutverk fréttatímanna að breyta því. (Eins og það er ekki hlutverk moggabloggsins að auglýsa jafnmarga kvenbloggara, því þær blogga hvorteðer ekkert um neitt skemmtilegt.)

Vinsælustu teiknimyndir síðustu ára eru ekkert skárri en fréttatímarnir. Kvenhlutverk eru fá. Karlarnir eru aðal. Hvort sem þeir eru fiskar, skrímsli, ljón eða bílar, þá eru það þeir sem lenda í ævintýrunum, segja brandarana og halda fjörinu gangandi. Kvenpersónur eru þær sem einhver verður skotinn í. Ef þær eru í stóru hlutverki þá er það eina kvenhlutverkið, það eru ekki mörg stór hlutverk í einni mynd eins og fyrir karlpersónurnar. Þetta er eins og í leiknum kvikmyndum fyrir fullorðna, en þar er yfirleitt í mesta lagi ein kona í stóru hlutverki, ef þær eru fleiri þá eru þær óvinir (bítast um sama manninn) eða sjást ekki í sömu atriðunum. Myndir sem hafa margar konur í stórum hlutverkum og þær eiga samskipti sín á milli, eru kallaðar kvennamyndir og eru ekki vinsælar hjá stórum hluta áhorfenda, þ.e. karlmönnum.


Dæmi úr nokkrum teiknimyndum.

Finding Nemo. Flestöll hlutverk, stór sem smá gerð fyrir karlraddir (og þetta skiptir líka máli því færri leikkonur fá vinnu við þessar myndir), nema hlutverk Dory sem er snilld í meðförum Ellen DeGeneres.

Lion King. Aðalsöguhetjan er karlkyns og vinir hans líka. Merkileg áhersla á karlhlutverkið miðað við hlutverk kvenljóna í raunveruleikanum.

Shrek. Karlkyns og asninn vinur hans er karlkyns. Nánast allir sem hann hittir og talar við eru karlkyns, nema auðvitað prinsessan sem hann kvænist. Hennar hlutverk er reyndar frekar stórt og meira segja alveg frábært því hún velur að vera ekki sæt. (Í Shrek 3 munu nokkrar kvensöguhetjur ævintýranna birtast: Mjallhvít, Rapunzel, Þyrnirós og Öskubuska þannig að þar bætist örlítið í kvenhópinn en fram að því hafa Gosi, Grísirnir þrír (allir karlkyns), Piparkökumaðurinn, Stígvélaði kötturinn, Pétur pan og Hrói höttur séð um aukahlutverkin í myndunum um Shrek.)

Monsters, Inc. Flestöll hlutverkin eru fyrir karlraddir, efsta kvennafn á lista er lítil stelpa sem hjalar, grætur og skrækir.

Cars. Bílarnir eru flestir karlkyns og í teiknimyndasöguheiminum geta konur ekki verið kappakstursbílar, þær eru bara aðdáendur kappakstursbíla.

Toy Story. Þessi þykir mér eiginlega verst þeirra allra. Ekki nóg með að karlhlutverkin séu stærri, fleiri og skemmtilegri eins og í öllum hinum myndunum, heldur eru kartöflurnar hjón og karlinn fer af stað í ævintýri en kvenkartaflan verður eftir heima í örygginu. Karlkartafla hefur meira hugrekki en kvenkartafla. Hversu lágt er hægt að leggjast?

Hvernig stendur á því, að eins og allir þykjast nú sammála um að jafnrétti eigi að komast á – og það hljóti að komast á fyrr eða síðar ef við bara bíðum rólegar – að það sem borið er á borð fyrir börn sýnir áfram þessa skökku mynd? Afhverju er ekki reynt að sýna börnum jafnréttisheim í þeirri von að þau muni líta á hann sem sjálfsagðan þegar þau fá einhverju ráðið? Þarf nauðsynlega að halda áfram að sýna karla í öllum aðalhlutverkum, að þeir ráði og séu merkilegir en stelpurnar séu bara uppá punt?

Efnisorð: ,

sunnudagur, desember 17, 2006

Karlar sem skoða klám og konurnar sem elska þá

- Varúð, eftirfarandi bloggfærsla getur hrundið af stað óþægilegum hugrenningatengslum -

Margar konur þekkja þá tilfinningu að finna grunsemdir sínar vakna þar til að þær yfirstíga skynsemisröddina sem segir þeim að ganga ekki að tölvunni, fletta upp „History“ og athuga hvað maki þeirra hefur verið að skoða á netinu. Þær vita hvað þær munu finna en vilja samt fá staðfestingu. Hræddar, en fullar sannfæringar þeirrar sem þarf að fá fullvissu þá setjast þær við tölvuna.

Margar ykkar muna hvernig þeim leið þegar þær sáu hvað mennirnir í lífi þeirra vilja sjá, mennirnir sem þær hlæja með, elskast með. „Teen sluts.“ Og með hnút í maganum og óbragð í munni þá grafa þær dýpra í tölvuna til að sjá allt ógeðið.

Maðurinn sem þú kúrir við upp við á morgnana hefur smekk fyrir „tight whores“ og „shaved cunts“ og þú finnur óttann breytast í reiði. Þú hélst að þú þekktir manninn þinn en þú vissir þetta ekki. Þér verður óglatt þegar þú horfir á börnin þín og tölvuskjáinn til skiptis, þar sem stendur „Teen whores“. Þér finnst þú hafa tapað áttum þegar maðurinn sem þú hélst að þú þekktir hefur breyst í skrímsli og þú verður reiðari með hverri mínútunni.

Kannski fylgdirðu einhverjum af slóðunum sem hann skildi eftir sig, bara til að vera viss um hvernig myndir fylgdu þessum ógeðslegu orðum, enda þótt þú vissir svosem alveg hvernig þær yrðu. En þú vildir sjá það sem hann sá, vildir sjá hvað það væri sem honum þótti svona frábært og skemmtilegt og veitti honum svona mikla ánægju.

Kannski gerðir þú eins og ég og barst þetta upp á hann þegar hann kom heim. Kannski prentaðir þú út myndir af „hot virgin teens“ og sendir í pósti til foreldra hans með bréfi sem útskýrði fyrir þeim hvað sonur þeirra hafi fyrir stafni. Kannski sagðirðu honum að þú hefðir sent þeim myndirnar þegar hann kom heim og sagðir: „Ef það er svona mikið allt í lagi með það sem þú gerir og þessar myndir þínar, afhverju ertu þá svona reiður?“

Þetta er ein þeirra hliða á klámi sem karlmenn sjá ekki. Sársaukann í andliti kvenna, ringulreiðina í tilfinningalífi þeirra og áfallið sem þær verða fyrir þegar þær átta sig á hvað eiginmanninum eða kærastanum finnst í raun og veru um konur, systur þeirra, dætur og mæður. Það er sú hlið sem karlmenn líta fram hjá og hlæja að og segja að sé ‘fáránleg.’ Þeir segja við sjálfa sig að eiginkona þeirra eða kærasta sé bara ‘afbrýðisöm’, ‘öfundsjúk’ eða ‘óörugg’ því þeim finnst sjálfum svo auðvelt að trúa því.

Konur sem hata klám eru ekki afbrýðisamar, öfundsjúkar eða óöruggar. Konur sem hata klám eru hræddar. Þær eru hræddar við það sem þær sáu, þær eru hræddar um að þú komir með það inn í samband ykkar. Þær eru hræddar við að sjá að maðurinn sem þær héldu að þær þekktu, sem þær elskuðu og treystu, virðist líta svo á að kona sem sýnir öll merki sársauka við það að henni er riðið í rass, sé kynferðislega örvandi. Þær eru hræddar um að áhugi hans á „hottt teens“ muni snúast að 12 ára gamalli dóttur þeirra.

Konur sem hata klám eru konur sem þykir vænt um allar konur eins og sjálfar sig. Þær finna til verndartilfinningar gagnvart þeim eins og börnum sínum og öðrum sem þeim þykir vænt um. Að sjá inn í hugskot karlmannanna sem við kjósum að eyða ævinni með er ógnvekjandi. Það er álíka og heyra hann segja við bestu vinkonu þína: „Mér hefur aldrei líkað við þig og mér hefur alltaf fundist þú vera ógeðsleg. Ég fæ gríðarlega mikið út úr tilhugsuninni um að sjá þig pínda og kveljast rosalega.“

Hættu að ljúga að sjálfum þér og reyndu að skilja að konur eru hræddar. Þeim óar við því sem þú í rauninni vilt.

[stolið að hætti hússins]

Efnisorð: ,

mánudagur, desember 11, 2006

Klósettfruss

Önnur hver sjónvarpsauglýsing virðist vera til að selja þetta skrítna litla plaststykki, sem ég man aldrei hvað heitir, en er ætlað til að dreifa bakteríudrepandi og vellyktandi um klósettskálar í hvert sinn sem sturtað er niður. Mér finnst þetta eitt ógeðslegasta fyrirbæri sem ég sé, þegar ég þarf að tylla mér niður annarstaðar en heima hjá mér. En jafnframt er ég undarlega heilluð af fyrirbærinu og stari á það með hryllingssvip. Mér er eiginlega alveg sama hvort það bakteríuhreinsar restina af klósettskálinni eða ekki, þó mér sé til efs að það geri nokkuð gagn í þá átt, því það er sjálft morandi í bakteríum. Þetta klósetthreinsifrussplaststykki er nefnilega iðulega sjálft útmakað í öllu því sem gossað hefur ofan í klósettskálarnar vikur og mánuði á undan. Sé klósettið gamalt og ekki af einhverri staðlaðri stærð og þykkt, þá passar hankinn á plaststykkinu ekki endilega á brúnina og spennist því upp á undarlegan hátt. Ég man eftir að hafa fundið fyrir því við lærið á mér meðan ég var að pissa, og fæ enn hroll.

En svo ég komi mér nú að efninu, eftir þessa skemmtilegu og lystaukandi lýsingu, þá velti ég fyrir mér afhverju þetta er auglýst svona ótt og títt í sjónvarpinu. Á upphafsárum sjónvarps voru auglýsingar eina aðferð sjónvarpsstöðva til að afla sér tekna og völdu ákveðnir vöruframleiðendur sér þætti til að styrkja, stundum voru þættirnir jafnvel gerðir með vöruna í huga eða að beiðni auglýsenda. Þannig styrktu hveitimyllur General Mills (sem nú framleiða morgunkorn) þætti þar sem fjallað var um uppskriftir, sem auðvitað allar þörfnuðust hveitis frá þeim. Þættirnir áttu að höfða til húsmæðra (útaf uppskriftunum) og þannig varð til þáttagerð sem átti að höfða til kvenna. Leiknir þættir þar sem fjallað var um örlög og ástir eða fjölskylduerjur urðu vinsælir en þeir voru iðulega styrktir af framleiðendum hreinlætisvarnings, þar á meðal sápu. Þaðan kemur hugtakið sápuópera, sem þessir þættir draga nafn sitt af.

Ég hef ekki enn gert könnun á því hvort auglýsingarnar sem ég minntist á hér í byrjun séu birtar sérstaklega á undan, eftir og inní miðjum þáttum sem talið er að konur horfi á, eða hvort þeim sé dreift hist og her um dagskrána, en mikið óskaplega langar mig til að vita hvaða þættir það eru, svo ég geti kallað þá klósettfruss-óperur. Eitthvað segir mér að það muni fara vel við efni þáttanna.

Efnisorð:

þriðjudagur, desember 05, 2006

Forréttindi karlmanna

Karlar kvarta stundum yfir að þeir skilji ekki hvað feministar eru að tala um að þeim sé mismunað. Þeir geta ekki betur séð en að við megum kjósa, getum menntað okkur, unnið flest störf og okkur séu í stuttu máli sagt allir vegir færir. Karlar sjá nefnilega ekki að þeir hafa forréttindi fram yfir konur og skilja því allsekki hvernig samfélagið mismunar kynjunum og með því styrkjast yfirráð karla.

Peggy McIntosh, prófessor í Wellesley háskólanum í Bandaríkjunum heldur því fram að hvítt fólk í Bandaríkjunum átti sig ekki á að rasismi er ósýnilegt kerfi sem styrki yfirráð þeirra. Það er misskilningur þeirra að rasismi sé endilega eitthvað sem ætlað er að meiða aðra. Til að útskýra þetta kerfi skrifaði McIntosh lista yfir ósýnileg forréttindi sem hvítir njóta. Listinn yfir forréttindi karla er í anda lista McIntosh og er tekinn saman af Barry Deutsch.

1. Ef ég sæki um sama starf og kona er líklegra að ég fái starfið

2. Mér hefur ekki verið innrætt að forðast að ganga einn úti í myrkri

3. Ég var líklega hvattur til að vera ákveðnari en systur mínar

4. Kjörnir fulltrúar mínir á þingi og í sveitarstjórnum eru yfirleitt kynbræður mínir

5. Ef ég veld óhappi í umferðinni eða mér gengur illa að leggja í stæði er það ekki álitið vera lýsandi dæmi um ökuhæfni allra af mínu kyni

6. Það er mjög líklegt að ég fái hærri laun en maki minn, sé það kona

7. Kynbræður mínir eru daglega á forsíðum blaðanna

8. Í fjölmiðlum er frekar talað við kynbræður mína í fréttum og fréttaskýringaþáttum, alveg sama hvert umræðuefnið er

9. Ef ég eignast ekki börn er karlmennska mín ekki dregin í efa

10. Ef ég eignast börn en sinni þeim lítið eða ekkert er það ekki álitið ónáttúrulegt

11. Ef ég sinni börnunum mínum er mér hrósað í hástert, jafnvel þótt ég geri það bara í meðallagi vel

12. Þó ég noti aldrei getnaðarvarnir er ég ekki ásakaður um léttúð og að nota fóstureyðingar sem getnaðarvörn – sama hversu margar ég á að baki

13. Ég er ekki álitinn bjóða hættunni heim ef ég fer fullur uppí bíl eða í partý með ókunnugu fólki

14. Líkurnar á því að mér verði einhverntíman nauðgað eru mjög litlar

15. Það er ekki ætlast til þess af mér að ég sé undir kjörþyngd alla ævi

16. Verði annað okkar hjónanna að vera heima með börnunum finnst okkur báðum og öllum sem við þekkjum líklega eðlilegra að það sé hún sem hætti að vinna

17. Ef ég er ófríður hefur það líklega ekki afgerandi áhrif á líf mitt

18. Þegar ég var í skóla fékk ég líklega meiri athygli kennaranna heldur en stelpurnar

19. Ef ég er vonlaus í fjármálum verður kynferði mínu ekki kennt um

20. Ef ég steypi fyrirtæki á hausinn verður það ekki tekið sem dæmi um það að enginn af mínu kyni ætti að stunda atvinnurekstur

21. Fjöldi rekkjunauta minna hefur líklega ekki áhrif á hvernig fólk talar um mig eða kemur fram við mig

22. Ég er ekki álitinn óþolandi fyrir það eitt að vera ákveðinn eða hávær

23. Ef ég er geðstirður eða geri vitleysur er ég ekki spurður um hormónastarfsemi mína

24. Hæfni mín til að taka ákvarðanir er ekki dregin í efa út frá hormónastarfsemi minni

25. Flest öll trúarbrögð ganga út frá því að guð sé af mínu kyni og að hitt kynið sé mér óæðra

26. Ef ég er í gagnkynhneigðri sambúð er ólíklegt að ég verði barinn heima hjá mér

27. Fjölmiðlar leggja sig fram um að höfða til mín kynferðislega

28. Ég hef val um fatnað sem er ekki gildishlaðinn; fötin mín senda engin sérstök skilaboð til umheimsins

29. Það er ekki ætlast til þess af mér að ég eyði stórum hluta tekna minna í að halda mér til

30. Yfirleitt er miðað við mitt kyn í skrifuðum texta – „hann“

31. Starfsheiti miða við mig og kynbræður mína – „ráðherra“

32. Það er ólíklegt að ég verði fyrir kynferðislegu áreiti í vinnunni

33. Ef ég vinn sama verk og kona finnst fólki ég standa mig betur

34. Ég hef þau forréttindi að vita ómeðvitaður um forréttindi mín

[stolið úr Veru]

Efnisorð: