sunnudagur, ágúst 30, 2009

Ekki bara hægt að kjósa nei

Nú er biðlað til Ólafs Ragnars Grímssonar um að skrifa ekki undir lög um ríkisábyrgð á Icesave með það að markmiði að þá fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Ég velti fyrir mér hvað fólk haldi að standa muni á kjörseðlinum?

Viltu borga Icesave skuldir Landsbankans, krossaðu við:

Já.
Já endilega — má ég borga snekkjur og einkaþotur fyrir Bjöggana líka?
Þvert nei.


Þó það væri bara einfalt já eða nei yrði svar þjóðarinnar auðvitað nei. Líklega 100% samtaka í því.

Kannski yrði textinn á kjörseðlinum á þessa lund.

Veljið annan hvorn kostinn:

A) Viltu að Icesave samkomulagið gildi, með þessum fyrirvörum sem þegar hafa verið settir og þjóðin gangist undir að borga skuldir Landsbankans vegna Icesave?

B) Viltu hafna alfarið ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, leggja í löng málaferli við tvær erlendar þjóðir sem gæti haft þær afleiðingar að íslenska þjóðin sitji uppi ekki bara með skuldirnar heldur verri afborgunarskilmála en hingað til hefur verið samið um, auk þess sem meðan á málaferlum stendur gæti íslenska þjóðin lent í einangrun á erlendum vettvangi með enn takmarkaðri aðgangi að erlendu fjármagni sem leitt getur til vöruskorts og algerrar stöðnunar?


Hvernig myndi fólk nú krossa við? (Kannski eins og stjórnmálaflokkurinn þess segir því.)

Málið er að fólk vill ekki skoða málið útfrá þessum tveimur vondu valkostum. Það vill bara ekki borga. Og auðvitað viljum við ekkert borga, við eigum bara ekkert val.

Og hvað ef spurningin yrði einhver enn önnur? Þau sem núna fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu virðast viss um hvað í henni muni felast (að við losnum við að borga Icesave) en við vitum það ekki í raun.

Ég hef auðvitað ekkert á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, en ég er sammála Láru Hönnu um að almenningur er ekki nógu upplýstur í þessu máli né neinu öðru. Ef það hefði verið þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB í sumar, eins og sumir vildu (þá hefði ég kosið gegn viðræðunum) útfrá hverju hefði fólk ætlað að taka ákvörðun? Því sem það les og sér í miðlum Jón Ásgeirs - Fréttablaðinu, Stöð 2 og Bylgjunni? Þar er áróður fyrir því að ganga í ESB. Eða hefði það ætlað það að kynna sér málin á síðum Moggans, málgagni kvótaeigenda sem mega ekki til þess hugsa að ganga í ESB? Eða myndi fólk hunsa miðla í einkaeign og hlusta bara og horfa á RÚV og Sjónvarpið og ímynda sér að þar sé algerlega hlutlaus umfjöllun?

Það er ekki vegna þess að almenningur sé svo heimskur heldur vegna þess — eins og Lára Hanna bendir á — umræðan er svo vanþroskuð. Við getum ekki tekið upplýsta ákvörðun núna, ekki um ESB, ekki um Icesave. Látum fólkið sem við „tókum upplýsta ákvörðun“ um að kjósa til þings* sjá um þessi mál. Okkar tími kemur vonandi síðar.


___
* Stuðningur almennings við Sjálfstæðisflokks í kosningum og skoðanakönnunum sýnir ágætlega hversu vel við erum upplýst sem þjóð.

Efnisorð: , ,

föstudagur, ágúst 28, 2009

Karlar sem hata konur

Nei, þetta er ekki færsla um hina stórgóðu bók Stieg Larsson með sama titli. Heldur hugleiðingar mínar um nauðgarann og ofbeldismanninn sem fékk átta ára fangelsisdóm en hefur síðan gengið laus. Hann er greinilega karl sem hatar konur. Og ekki einn um það.

Í júlí féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli gegn karlmanni sem beitt hafði sambýliskonu sína ofbeldi árum saman og neytt hana til kynmaka með ókunnugum karlmönnum. Ég ætlaði þá að skrifa hugleiðingar mínar um það mál en týndi uppkastinu sem ég fann svo ekki aftur þrátt fyrir nokkra leit. Nú finn ég mig knúna til að skrifa um málið, ekki bara vegna þess að ég fann loksins punktana mína, heldur vegna þess að sambýliskona mannsins, þ.e. konan sem beitt var ofbeldinu, gekk fram fyrir skjöldu og leyfði birtingu á nafni ofbeldismannsins (reyndar mátti öllum sem til þekktu vera ljóst um hvaða fólk var að ræða því það var illa dulið í dómnum þar sem starfsferill hennar var tíundaður).

Nöfn ofbeldismanna, nauðgara og barnaníðinga eru yfirleitt ekki birt í dómum eða fjölmiðlum, þegar um er að ræða atburði sem eiga sér stað innan fjölskyldna eða gagnvart nátengdu fólki. Með því að birta nafn ofbeldismannsins, nauðgarans eða barnaníðingsins er þá nefnilega líka verið að afhjúpa hver þolandinn í málinu er. Eflaust er einhverjum þolendum sama en reglan er sú að hlífa þeim við því að lenda þannig milli tannanna á fólki; fólk er nefnilega afar misjafnt og kennir jafnvel fórnarlömbum um glæpina sem þeir verða fyrir. En í DV í dag kemur semsagt nafn ofbeldismannsins fram og birt er mynd af honum til áréttingar. Það hefur nefnilega sést (iðulega) til hans á öldurhúsum Reykjavíkur þar sem hann virðist skemmta sér vel. Það vill auðvitað engin vita til þess að einhver kona lendi í klónum á honum og því er nafn hans og mynd birt öllum konum til viðvörunar.


Nauðgarinn og ofbeldismaðurinn Bjarki Már Magnússon

Glæpir hans gegn sambýliskonunni eru margvíslegir og snerust um að ná valdi yfir henni, kúga hana undir sig, gera hana félagslega einangraða og beita hana líkamlegu ofbeldi — allt klassísk einkenni heimilisofbeldis. Að auki beitti hann hana kynferðislegu ofbeldi (sem oftar en ekki fylgir heimilisofbeldi, menn sem beita slíku kippa sér lítið upp við að þvinga konur til kynmaka; en auk þess vitnaði hún um að hann hefði líklega níðst á dóttur sinni — en hann skrifaði víst greinar í blöð á vegum Ábyrgra feðra) og neyddi hana til að stunda kynlíf með fjölmörgum bláókunnugum karlmönnum. Sjálfur horfði hann á auk þess að taka þátt í þessum skipulögðu nauðgunum og tók athafnirnar upp. Léti konan í ljós að hún væri þessu mótfallin var hún barin, léti hún undan sýndi hann á sér sparihliðina, þessa sem hann sýndi útí samfélaginu þar sem hann stundaði störf á opinberum vettvangi, skrifaði greinar og virkaði fínn pappír. En mig langaði reyndar ekki að rekja allt þetta hrikalega mál í neinum smáatriðum, þau sem treysta sér til þess geta lesið dóminn.

Degi áður en dómur féll í héraði (en honum var áfrýjað til Hæstaréttar sem ekki hefur enn dæmt í málinu og á meðan gengur kvikindið laust) upphófst mikil umræða í bloggheimum (lesist: á moggablogginu). Tilefnið var frétt um niðurstöður íslenskrar rannsóknar á ofbeldi gegn konum. Þar kom fram að 18,2% af þeim konum sem tóku þátt í rannsókninni höfðu orðið fyrir andlegu ofbeldi af hálfu maka síns, 3,3% líkamlegu og 1,3% höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Það eitt, að fréttin um þessa rannsókn og helstu niðurstöður hennar, var birt virtist trylla allmarga bloggara. Þeir geystust fram á ritvöllinn og heimtuðu að það yrði fjallað um ofbeldi sem karlar yrðu fyrir af hálfu kvenna, sem að þeirra sögn er gríðarlega víðtækt vandamál og gott ef ekki mun verra en það sem þessar kvensniftir væru að væla yfir. Við þetta var svo hnýtt grínaktugum athugasemdum (enda virtist bloggurunum þykja ofbeldi gegn konum hlægilegt) og orðatiltækjum eins og „sjaldan veldur annar er tveir deila.“ Og svo var auðvitað klykkt út með að segja að konur eigi bara að fara ef mennirnir þeirra séu vondir við þær, nokkuð sem sýnir algert skilningsleysi á heimilisofbeldi og hvernig þolandi er markvisst brotinn niður andlega af ofbeldismanninum. Ég set ekki tengla inná þessa umræðu, hún fór m.a. fram á þeim bloggum sem sjást við hlið fréttarinnar á mbl.is.

Þetta var semsagt daginn áður en dómur féll, og líklega leið enn dagur þar til fréttamiðlar fjölluðu um dóminn. Hvernig varð þessu fólki við, þessu hyski sem þótti ofbeldi gegn konum A) fyndið, B) ekki þess virði að ræða það heldur notaði niðurstöður rannsóknarinnar eingöngu til þess að heimta rannsóknir á ofbeldi sem karlar verða fyrir. Ekki veit ég það, því enginn þeirra sá ástæðu til að fjalla um dómsmálið. Létu eins og það hefði ekki gerst.

Annar hópur sem ég hefði viljað heyra tjá sig um dóminn er sá sem hefur haldið því fram að konur taki sjálfviljugar þátt í klámmyndagerð, þessari sem gerð er með sölu og dreifingu í huga fyrst og fremst en líka þessu sem er notað „til heimabrúks.“ Það ganga alltaf sögur um konur sem auglýsi á einkamálasíðum um að þær vilji endilega kynlíf með fleirum karlmönnum en eiginmanninum en hann hann vilji reyndar ólmur horfa á. Aldrei hef ég heyrt neinn efast um þessar meintu hvatir kvennanna, heldur hef ég aðeins heyrt þetta sem dæmi um að konur séu æstar í að stunda kynlíf með mörgum og helst vilji þær áhorfendur. Engan veit ég hafa sagt eftir að hafa heyrt um dóminn að þeir þurfi að taka þessa skoðun sína til athugunar, að það geti verið að einhverjar þessara kvenna vilji í raun allsekki taka þátt í slíku, heldur sé eiginmaðurinn aðalhvatamaður auglýsingarinnar og etji konunni til þessa verknaðar með bláókunnugum mönnum — ef ekki beinlínis neyði hana til þess. Svo ekki sé nú minnst á í hve mörgum tilvikum er bara ekkert um hjón að ræða heldur vændiskonu og dólginn sem stjórnar henni.

Í þeim tilvikum sem tilgreind eru í dómnum auglýsti karlmaðurinn eftir öðrum karlmönnum til að stunda kynlíf með konu sinni, en í hennar nafni. Engum sögum fer af því hvort mennirnir sem svöruðu auglýsingunni voru krafðir um gjald fyrir þátttökuna, líklega ekki. En þótt peningar hafi ekki skipt um hendur, hvað er það annað en vændi þegar maður framselur konu sína með þessum hætti í hendur annarra karla? Þetta var sannarlega ekki gert með hennar vilja, eins og flestir karlmannanna áttuðu sig á, samt létu flestir þeirra slag standa og héldu áfram eins og ekkert hefði í skorist. Konan þó jafnvel grátandi. Þeir hljóta að hafa gert sér grein fyrir að það var eiginmaðurinn sem stjórnaði atburðarrásinni, einn þeirra tók fram að maðurinn hefði greinilega stýrt þessu öllu. Skipulögð nauðgun, það er ekkert annað sem það er.

Og karlmennirnir, flestir, tóku glaðir þátt. Hvað segir það um þá? Jú, fyrir nú utan það að þeim er sama um hvort þeir séu beinlínis að nauðga konu, þá eru þeir líklegir til að hafa gert þetta áður með einhverjum hætti, t.d. með því að kaupa sér aðgang að vændiskonum. Þetta hangir allt saman; klám, nauðganir, vændi. Ekki bara í þessu hrikalega máli heldur í hugarheimi karlmanna. Karlmaður sem nauðgar fílar klám, kaupir vændi. Og svo framvegis. Þeir sem fíla klám en þykjast vera á móti nauðgunum, ja, það fer eftir því hverri er nauðgað; ef það er konan í klámmyndinni þá er þeim sama. Svona eins og karlmönnunum sem nauðguðu konunni í dómsmálinu var sama þó þeir væru myndaðir af eiginmanni hennar á meðan eða hann tæki þátt (einn varð fúll yfir því en sá ekkert athugavert við neitt annað). A.m.k. tveir þeirra tóku eftir að konunni var stjórnað, annar þeirra kom þrisvar til að nauðga konunni, hinn, tók eftir að hún grét og var með áverka eftir ofbeldi. Hvorugur lét sér til hugar koma að kæra málið til lögreglu eða koma konunni til hjálpar, enda bara einhver kona. Og konur eru nú ekki mikils virði í augum svona karlmanna.

Það er auðvitað afar sérkennilegt að þessir menn skyldu ekki ákærðir fyrir nauðgun, og að Interpol skyldi ekki vera virkjað til að hafa uppi á þeim sem myndir voru til af en ekki var vitað hvað heita. Þrír þeirra báru vitni (kallaðir C, D, og E í dómnum). En það hefur líklega þótt nóg að ná aðalgerandanum, manninum sem undanfarnar vikur hefur kneifað öl á knæpum, óáreittur. En nú vitum við þó allavega hver þetta er og getum forðast hann. Nú eða stútað honum með frjálsri aðferð. Gjöriði svo vel.


Nauðgarinn og ofbeldismaðurinn Bjarki Már Magnússon

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, ágúst 27, 2009

Tek að mér kennslu í reiðistjórnun

Það er líklega til marks um ótrúlega stillingu mína og andlega yfirburði að ég réðst ekki á Kjartan Gunnarsson þegar ég hitti hann í dag. Áður hafði ég haft færi á Geir Haarde* en gerði honum heldur engan miska.

Ég velti því reyndar fyrir mér í dag hvort ég ætti að segja eitthvað — ja eða öskra — sem lýsti áliti mínu á þessum forherta fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, einkavini Davíðs og stjórnarmanni í Landsbankanum á tímum Icesave-útrásarinnar, hvort ég ætti að stíga „óvart“ á ristina á honum (en það hefði ekki verið nógu mikið kikk nema á pinnahælum), hrækja á hann eða sparka í hann.

Ekkert af þessum hugleiðingum varð hann var við þar sem hann vappaði um bensínstöðina meðan ég beið eftir að borga, hann næstur á eftir mér. Þegar ég kom út stakk ég reyndar uppá því við bensínafgreiðslumanninn sem var að dæla á bíl Kjartans að hann setti sykur í tankinn hjá honum.

Svona hef ég ótrúlega stjórn á mér.** Alveg sjálf.

___
* Geir hafði ég innan seilingar á síðasta ári, áður en hann lét sig hverfa af landi brott og þóttist vera að leita sér lækninga erlendis. (Merkilegt að heilbrigðiskerfið sem hann hefur unnið markvisst að því að fjársvelta skuli ekki hafa dugað honum, en sannleikurinn er líklega sá að hann var ekkert veikur, bara gunga og aumingi). Ég sá líka formann Frjálshyggjufélagsins í matvörubúð og gerði honum engan miska heldur.

** Reyndar finnst mér ég helvítis gunga og dáist að fólkinu sem lét svívirðingar og lauslega hluti dynja yfir Hannes Hólmstein í dag. Svona á að gera þetta!

Efnisorð: ,

miðvikudagur, ágúst 26, 2009

Lögreglugrátkórinn

Mér til mikillar furðu hefur ekkert verið rætt við lögreglumenn í fjölmiðlum dagsins, né hafa þeir skrifað greinar sem fjalla um hörmulegar aðstæður þeirra. Í gær heyrðist heldur ekkert í löggunni. Við erum að tala um tvo heila daga þar sem þjóðin fer á mis við kjökrandi löggur að kvarta undan vöktunum, laununum, hvað þær séu fáar og hvað allir ætlist nú til mikils af þeim. Ég verð nú að segja að mér finnst þetta engin framkoma. Hvað veit ég um hve bágt löggan á ef mér er ekki sagt það daglega?

Lögreglukórinn er örugglega ekki eins hávær og þessi grátkór.

Nánast allar stéttir vinnandi fólks (svo ekki sé nú talað um atvinnulausa og aðra bótaþega, sjá ofurlanga færslu mína í gær) þurfa að draga saman seglin, herða sultarólina og gera sér grein fyrir að ástandi fer versnandi en ekki batnandi.* Sumar stéttir — með verkalýðsfélög í broddi fylkingar — hafa haft sig nokkuð frammi til að leggja áherslu á að þeirra fólk megi ekki taka á sig kjaraskerðingu, en flestar held ég að átti sig á ástandinu og sjái ekki ástæðu til að skrifa greinar í blöð og láta taka við félagsmenn fjölda viðtala til að sýna fram á hve starf sitt sé meira virði en allra annarra í samfélaginu.

En málið er auðvitað, og það veit löggan, að það er mikill hljómgrunnur fyrir baráttu hennar. Ríkisvald, fasteignaeigendur, verslunareigendur; öll þessi fyrirbæri og fleiri til treysta mjög á lögregluna. Það sást vel þegar hústökufólk lagði undir sig niðurnídda húseign á Vatnsstíg, hver ræður för. Húseigandinn tók upp símtólið og löggan mætti á staðinn til að rýma húsið. Það gekk ekki eins vel þegar fjöldi fólks vildi rýma Seðlabankann, þá kom ekki löggan askvaðandi og henti Davíð út. Nei, löggan þjónar auðvaldi jafnt sem ríkisvaldi.

Og hvort sem það eru útrásarvíkingar — sem ekki borga sjálfir fyrir vörslu á húsum sínum heldur hafa löggur á launum hjá almenningi til þess — eða aðrir sem eiga eignir að verja, þá þykir þeim óbærilegt að löggan sé ekki fjölmenn og öflug, til í slaginn til að verja það sem máli skipti: völd og peninga. Það er ekki óvart sem frjálshyggjustefnan — sem vill ekkert ríkisvald — vill samt lögreglu og það öfluga lögreglu. Því það þarf að passa að þeir sem ráða geti gert það í friði fyrir skrílnum, hvort sem skrílinn er vasaþjófur, innbrotsþjófur eða fokreiður skattgreiðandi sem óar við að sitja uppi með afleiðingar af viðskiptum fjárglæframanna.

Og fjölmiðlarnir, þetta leiguþý valdsins, þeir taka hvert viðtalið á fætur öðru við löggur sem kjökra yfir að fá ekki að vera á vakt með bestu vinum sínum og tala um að lögreglan sé eins og ein stór fjölskylda (minnast ekkert á rotnu eplin sem margsinnis eru staðin að því að beita almenna borgara valdi), skrifa greinar sem eiga að sýna fram á að aldrei aldrei aldrei hefur jafn mikið af frábæru fólki viljað vera löggur (til að fá að berja fólk) en vegna fjárskorts, hugsið ykkur, fjárskorts, fái það ekki að dafna í húsagörðum þar sem það getur komið í veg fyrir hinar ógurlegu málningaslettur.

Já, þetta er sorgarsaga. Ég held að ég fari grátandi í háttinn.

___
* Undanteking frá þessu er auðvitað lögmannastéttin, sem rakar inn fé í formi innheimtukostnaðar og launa fyrir setu í skilanefndum. Það er nú meira geðslega pakkið.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, ágúst 25, 2009

Svindlifólkið á bótunum

Oft verða bloggfærslur annarra, rétt eins og fréttir, mér uppspretta að einhverjum bloggpistlinum. Iðulega reyni ég að leyna upprunanum, jafnvel láta eins og ég hafi fengið frumlega hugmynd. En núna ætla ég að skrifa eingöngu útfrá því sem ég las á Silfri Egils um fólk sem þiggur bætur, og meira segja taka upp eftir ýmsum sem skrifa athugasemdir þar og taka undir eða gagnrýna en umfram allt að gera að mínu eigin. Ég er nefnilega svo hjartanlega sammála mörgum þar og svo innilega ósammála öðrum. Mest er ég ósammála Agli Helgasyni sjálfum og svo auðvitað öllum þeim sem taka undir orð hans og hneykslast á atvinnulausu fólki og bótunum sem það fær og segir að þetta fólk hafi það of gott á bótunum og nenni ekki að vinna þó störf séu í boði.

Fyrir ekki löngu síðan lenti ég í hávaðarifrildi um þetta sama mál. Kunningi minn hélt því fram að fólk hafnaði vinnu vegna þess að það vildi ekki vinna ófína vinnu og að það bæri að refsa þessu fólki með því að neita því um bætur. Mér fannst afturámóti ótækt að fólk yrði svelt þannig til hlýðni.

Nú vantar fólk á frístundaheimili og ég hef heyrt að það þyki undarlegt í þessu atvinnuleysi. Fyrir nokkrum árum man ég eftir að talað var um að þvinga fólk sem þáði atvinnuleysisbætur til að vinna á leikskólum, því þar vantaði fólk. Mér þótti það undarleg umræða því það hlýtur að vera kostur fyrir bæði börn og foreldra þeirra að fólkið sem eyðir átta tímum á dag með börnunum hafi A) áhuga á að vinna með börnum, B) færni eða hæfni í starfið.

Nokkur þeirra sem þátt tóku í umræðunum sem hér er vísað í sögðu á svipuðum nótum: „Sjálf er ég því mótfallin að þvinga fólk í starf sem það vill ekki vinna, hver sem ástæðan er fyrir því, það er engu betra en þrælahald að mínu mati ... Gæta þarf að því að fólk fái tækifæri til að halda sjálfsvirðingu sinni, hún gæti farið verði fólk þvingað til vinnu sem það vill ekki, sama hver ástæða þess kann að vera.“ Og einhver benti á að vinnuveitendur ættu ekki að vilja starfsfólk sem vildi ekki vinna hjá þeim, það væri varla gott samband.

En hér eru annars helstu atriði sem ég get tekið undir (og eru misjafnlega mikið umorðuð, oftast tekið beint upp af athugasemdakerfinu hjá Agli og jafnvel skeytt saman málsgreinum margra persóna).

Í fyrsta lagi eru of fá störf í boði - m.ö.o. það er atvinnuleysi
Hér er verið að tala um að það séu um 16.000 á atvinnuleysisbótum en aðeins tæp 600 störf í boði. Þegar búið er að manna þessi 600 störf sem er verið að auglýsa, þá eru samt 15.400 eftir á atvinnuleysisskrá, að því tilskildu að engin fyrirtæki hafi farið á hausinn eða þurft að segja upp fólki vegna samdráttar í millitíðinni.

Lágmarkslaun eru of lág
Það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að fólk sem er við hungurmörk á atvinnuleysisbótum taki starfi á sömu launum og skerði þannig ráðstöfunartekjur sínar. Það þýðir ekki að ætlast til þess að fólk vinni fullan vinnudag fyrir minna en bæturnar, kostnaðurinn við það að hafa t.d. barn hjá dagmömmu er á bilinu 70 -90 þúsund á mánuði pr barn - því eru lágmarkslaun hrein skerðing sé farið á þau af bótum. Þegar upp er staðið leitast fólk við að eiga fyrir grunnþörfum fjölskyldunnar og það gerist ekki í störfum sem borga minna en atvinnuleysisbætur. Eina leiðin til lausnar á þessum vanda er að HÆKKA LÁGMARKSLAUN.

Ábyrgð fyrirtækja
Ekki veit ég betur en mörg fyrirtæki hér, sem greitt hafa lág laun, hafa samt haft endalaust fjármagn til að millifæra til Tortola, samt fá þeir talsverða samúð, þegar þeir koma betlandi fram í leit að meðaumkun vegna þess að enginn fæst til starfa hjá þeim á lúsalaunum.

Svo er það umhugsunarefni hvort fyrirtæki sem virkilega geta ekki borgað þau laun sem þarf til að búa hér á landi, séu yfir höfuð þess virði að halda þeim gangandi?

Margir atvinnurekendur virðast misnota sér ástandið og bjóða laun sem duga ekki til þess að lifa á þessu landi. Verktakar, verslanareigendur ofl. kvarta undan því að fá ekki fólk til starfa. Getur ekki verið að launin í þessi lausu störf séu viljandi höfð svo lág að ekki sæki nokkur um þau? Þá er líka miklu auðveldara fyrir atvinnurekendur að fá leyfi opinberra aðila til að virkja hið “frjálsa flæði vinnuafls” frá þrælasvæðum heimsins og borga aðframkomnum farandverkamönnum skítalaun.

Ekki veit ég til þess að illa gangi að ráða í vel launuð störf.

Þeir atvinnurekendur sem hvað hæst væla í dag mundu fá allt önnur viðbrögð ef þeir hækkuðu launin, segjum 50.000 kall yfir atvinnuleysisbætur.

En nei, þeir tala frekar um að lækka þurfi bæturnar.

Þetta eru nútíma þrælahaldarar.

Láglaunastörf ekki í boði fyrir háskólamenntað fólk
Það eru hundruð einstaklinga með háskólagráður sem enn eru atvinnulausir. Það þýðir hins vegar lítið fyrir þá að sækja um fjölmörg af þeim láglauna störfum sem eru laus því að atvinnurekandinn veit það fullvel að um leið og einstaklingurinn sér betri stöðu þá er hann farinn. Þannig yrði láglaunastarf að hringavitleysu þar sem hver háskólamenntaði starfsmaðurinn eftir annan kæmi inn, ynni í skamman tíma og færi svo í betra starf. Atvinnurekendur nenna ekki að standa í því og bíða því frekar eftir því að fá einstakling sem minni líkur eru fyrir því að láti sig hverfa.

Bótaþegar unnu sér inn rétt
Það hefur verið tekið af launum þeirra, sem nú ganga um atvinnulausir, í atvinnuleysistryggingasjóð í gegnum árin sem þetta sama fólk hafði vinnu og af því fólki sem áður gekk heilt til skógar en gerir ekki í dag.

Bætur eru lúsarlaun þeirra sem geta ekki unnið eða býðst ekki atvinna við hæfi. Þær eru ekki ölmusa heldur einfaldlega mannréttindi.

Settu bótaþegar landið á hausinn?
Egill sjálfur segir:
„Það er millistéttin sem stendur undir skattkerfinu,
Og það er bara eðlilegt að hún sætti sig ekki við að skattfé sé eytt í vitleysu.“

Það væri hægt að hafa alla Íslendinga á vinnualdri á bótum í tvö ár, fyrir þúsund milljarða, sem er hluti af því sem vinna kapítalistanna hefur kostað okkur. Mikið eru þið miklir menn að vera væla út af svona smá svindlurum þegar vinir ykkar hægrimanna hafa stolið af þjóðinni, þúsundum miljarða. Eða þú hefur kannski ekki spáð í hve mikið þú þarft að borga vegna hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins?.

Svo er vitað um 40 miljarða í skattsvik á hverju ári. Spyrja mætti þá sem eru að amast við bótakerfinu, hvort þeir væru ekki að gelta að röngu tré?


Rógur gegn bótaþegum
(Svo kom að því að einhver benti á það að umræðan sem slík, þ.e. umræðan um að atvinnulaust fólk hefði það of gott, væri óeðlileg.)

Er virkilega talið slæmt að halda uppi fólki sem hefur orðið fyrir því óláni að missa atvinnuna í kreppunni?

Nú gengur maður undir manns hönd að tortryggja þá sem ganga um atvinnulausir eða eru á örorkubótum. Fjölmiðlar taka undir þennan söng af mikilli gleði. Mér finnst það bæði aumt og óverðskuldað.

Það er fórnarkostnaður að hafa gott velferðarkerfi, fólginn í mistnotkun, en það er gríðarlega mikið stærri fórnarkostnaður þar sem velferðarkerfið er lágmarkað. Að tala um að fólk hafni vinnu þegar þúsundir eru atvinnulaus, og nokkur hundruð störf í boði, er kjánalegt. Þá elur þetta á tortryggni í garð þeirra sem í verstri stöðu eru.

Það er sjálfsagt að taka umræðuna um bótasvindl, en þessi rógsherferð gegn öryrkjum og atvinnulausum er verulega aumkunarverð.

„Útlendingar, örykjar og atvinnulausum er nú stillt upp í sakbendingu hjá hinum betur settu í þessu hrunda og siðlausa samfélagi. Gjáin fer dýpkandi á milli þeirra sem hafa og þeirra sem hafa ekki. Og nú á að rífast um bitana. Þeir sem áttu fullt í fangi með að hafa í sig og á fyrir hrun eiga vart til hnífs og skeiðar.“

Ég segi nú bara: ,,Rétt upp hönd sem VALDI að missa vinnuna?” Þakkaðu bara fyrir að þú skulir enn halda heilsu þinni og vel launuðu djobbi. Það eiga bara ekki allir kost á því.

Svona umræða er alltaf viðkvæm og varasöm því hún getur hæglega orðið til þess að kalla fram fordóma gagnvart þeim sem eru í erfiðri stöðu í þjóðfélaginu. Þannig getur það hæglega endar það með því að öllum er refsað, líka þeim sem ekkert hafa gert af sér.

Það kom upp umræða um þetta í blöðunum í vor þar sem þeir fundu út að 0,45% af þeim sem voru á atvinnuleysisbótum voru að svindla og þeir voru sviptir bótunum. Ekki hefur tekist að sanna að mikið fleiri séu að svindla þótt alltaf sé um það stöðugur orðrómur.

Ég get kyngt því að 0,5% bótaþega séu að svindla* sem fórnarkostnaði. Það er ávallt rýrnun einhver staðar, það er í mannlegu eðli að sumir eru siðblindir og fara sínu fram.

Ég skal með glöðu geði halda uppi þessum 0,5% ef það þýðir að þessi 99,5% sem eiga réttmætt tilkall til bóta eru ekki stimplaðir þjófar, þurfa að sæta rannsókn og tortryggðir og látnir finnast þeir vera þriðja flokks fólk.

En Egill sjálfur segir:
„Er það árás á atvinnulausa og öryrkja að vara við því að í kerfinu sé fólk sem er að svindla.“
Og þykist ekkert vita um áhrifamátt fjölmiðla í skoðanamyndun.

Og einhver þeirra fjölmörgu sem þátt tók í umræðunum og hneykslaðist á ofurlaunum bótaþega, svindli þeirra, leti og almennri ómennsku sagði (fyrirfram sár): Þeir sem vekja máls á þessu verða sakaður um kaldlyndi og hrottaskap og sagðir fastir í “spilltri og ómanneskjulegri hugsun frjálshyggjunnar”. Sem þeir og eru.

Málið er, að með því að halda því fram að fólk sé á atvinnuleysisbótum því það nenni ekki að vinna og fari á örörkubætur því það ætli sér aldrei að vinna, er verið að grafa undan trúverðugleika allra þeirra sem eru á atvinnuleysis- eða örorkubótum. Jafnvel þó að einhver örfá prósent séu hugsanlega að hagræða sannleikanum þá bitnar svona umræða á öllum hinum líka. Það er ekkert grín að þurfa að lifa á þessum bótum. Enn verra er fyrirlitning samfélagsins. Ég skal vera fyrsta manneskja til að kasta grjóti að útrásarhyskinu, enda hefur það unnið sér inn fyrirlitningu samfélagsins, bótaþegar hafa það ekki.

Þessi athugasemd Sigríðar Guðmundsdóttur** náði að sameina marga þætti sem fram komu hjá þeim sem ég var sammála:

„Ég er ein af þeim sem finnst þessi umræða mjög erfið. Í mínum huga eru atvinnuleysisbætur áunninn réttur sem er til þess ætlaður að tryggja mér lágmarksframfærslu við atvinnumissi. Viðhorf Íslendinga til bótakerfisins er og hefur alltaf verið að um ölmusu sé að ræða og þar með til minnkunar fyrir þann sem notar, einskonar aumingjastyrkur. Atvinnuleysisbætur duga ekki venjulegum launamanni á Íslandi til lágmarksframfærslu við atvinnumissi. Alla vega ekki mér. Mér er nauðugur einn kostur að ganga á lífeyrissparnað sem ég hef haft vit á að koma mér upp og get losað að einhverju leyti núna. Það mun síðan koma niður á fjárhag mínum við eftirlaunaaldur, en í núverandi stöðu á ég ekkert val, ég verð að sjá sjálfri mér og fjölskyldu minni farborða.

Það er niðurlægjandi að vera “bótaþegi” og óþolandi að standa frammi fyrir atvinnuleysi, ofan í kaupið að þurfa að sitja undir ásökunum um að maður nenni ekki að vinna, af því að maður er ekki tilbúinn að henda krakkanum og sjálfum sér ofan í tösku og fara í fisk vestur til andskotans eða norður og niður.

Ef að til stendur að taka þessa umræðu findist mér við hæfi að hún væri tekin alla leið. Hvað með alla þá sem stunda skattsvik í gegnum fyrirtæki sín, borga sjálfum sér málamyndalaun og skrifa allt á fyrirtækið, nú eða borga bara fjármagnstekjuskatt og hljóta alla þjónustu sveitarfélaga án raunverulegrar þáttöku eða tekjutilleggs? Nú eða þá staðreynd að stór fyrirtæki eins og Icelandair og fleiri flugfélög geta leyft sér að borga starfsfólki sínu lágmarkslaun og bæta þau upp með dagpeningum og alls lags undarlegum styrkjum til að borga minna til samfélagsins. Ef að við eigum að fara að skera upp eigum við þá ekki bara að leggja allt líkið á borðið, ekki bara eina hendina?“

___
* Mér finnst athyglisvert við þessar tölur, að þetta eru svipaðar tölur og nefndar eru í a.m.k. tveimur málum sem eru alls óskyld þessari umræðu. U.þ.b. 1% kærur um nauðgun eru taldar vera uppspuni — samt eru margir sem telja nánast allar nauðgunarkærur uppspuna. U.þ.b. 95% þeirra sem starfa í klámiðnaðinum (vændi, klámmyndir, stripp) eru þolendur kynferðisofbeldis — samt einblína margir á þessar örfáu konur (1%?) sem koma fram og segjast vera í klámiðnaðnum vegna þess að þær fíli kynlíf — og hunsa allar hinar. Og ég leyfi mér að draga þá ályktun að sama fólkið og trúir því að (næstum) allir sem eru á bótum svindli sé sama fólkið og heldur því fram að (næstum) allar konur ljúgi þegar þær segja að þeim hafi verið nauðgað og að allar konur fíli sig í klámiðnaðnum. Fólkið með litluprósentutrúna.

** Þátttakendur skrifa meira og minna undir dulnefni, svo að ég hirði ekki um að nafngreina þau sem skrifuðu (enda sameinaði ég víða), en alla umræðuna má lesa hér. Vonandi átta lesendur sig á að nánast allt í þessari færslu er frá úr athugasemdakerfi Silfurs Egils komið, nema rétt í byrjun færslunnar þar sem ég kynni samantektina.

Efnisorð: , , , , , , ,

laugardagur, ágúst 22, 2009

Mikilvæg mál í forgangi hjá löggunni að venju

Nýlega var kveikt í Range Rover og óvíst hvort íkveikjan var til að refsa eigandanum fyrir þátttöku hans í gróðærinu eða hvort tilgangurinn var eingöngu að fá tilbreytingu í lífið. Kannski var þetta upphafið að herferð sem miðar að því að kveikja í öllum Range Roverum. Og kannski fékk Baugsforstjórinn þessa þrjá gaura til að kveikja í bílnum fyrir sig og ætlar að hirða tryggingaféð, bíllinn auðvitað óseljanlegur og þeir sem aka á slíkum bílum litnir óvildaraugum hvar sem þeir koma.

Eins og í öllum minniháttar brotum bregst löggan ókvæða við og leggur allt kapp á að upplýsa málið. Tilkynningar eru birtar í öllum fjölmiðlum um að fólk eigi að hjálpa löggunni við þetta mikilvæga verkefni.

Ég er að spá í að hringja í lögguna og segja að ég kannist við þessa þrjá grannvöxnu menn á myndbandinu úr öryggismyndavélinni. Þeir heita Bjarni Ármannsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Hreiðar Már Sigurðsson. Þá verða þeir líklega loksins handteknir.

Efnisorð:

Nauðganir í skjóli blekkingar

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann skrifar afar athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag. Þar fjallar hún um brotalöm í lögum um kynferðisbrot sem olli því að karlmaður sem var kærður fyrir nauðgun var aðeins dæmdur fyrir blygðunarsemisbrot. Hann skreið uppí rúm til sofandi konu og þegar hún vaknaði hélt hún að hann væri annar maður — en það var vísvitandi blekking af hálfu mannsins og vinar hans sem hafði yfirgefið rúmið skömmu áður — og hafnaði honum því ekki.

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann skrifar:

„Í maí sl. var íslensk kona blekkt til kynmaka þar sem hinn brotlegi læddist upp í rúm til hennar, notfærði sér að mökin fóru fram í myrkri og að konan skyldi telja hann vera annan mann sem hún hafði áður átt kynferðislegt samneyti við. Samkvæmt lýsingu brotaþolans voru mökin búin að standa yfir í nokkrar mínútur þegar maðurinn sneri sér að henni og blasti þá við henni „glott og ekki sama andlitið" eins og hún orðaði það í skýrslu fyrir dómi.

Eins og gefur að skilja var þetta gríðarlegt áfall fyrir konuna, sem lét kalla lögreglu á staðinn, leitaði til Neyðarmóttöku vegna nauðgana og lagði í kjölfarið fram kæru. Þann 21. júlí sl. var maðurinn sakfelldur og hlaut hann sex mánaða dóm fyrir blygðunarsemisbrot (brot gegn 209. gr. hegningarlaganna) þrátt fyrir að konan hefði fyrst og fremst kært manninn fyrir nauðgun, en blygðunarsemisbrot til vara. Þungamiðjan í nauðgun er brot gegn kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti brotaþolans, en það gefur augaleið að brotaþoli sem er blekktur til kynmaka er sviptur tækifærinu til að nýta sjálfsákvörðunarrétt sinn sem skyldi. Kynmök án upplýsts samþykkis beggja aðila hljóta að teljast mun alvarlegra mál en blygðunarsemisbrot. Staðan hefur þó ekki ávallt verið svona.

Fram til vorsins 2007 voru ákvæði í íslenskum lögum sem vernduðu fólk gegn kynferðisbrotum sem framin voru undir formerkjum sams konar svika og í áðurnefndu máli. Þetta ákvæði var að finna í 199. gr. hegningarlaganna, en refsinæmi háttseminnar byggðist á því að samþykki til kynmakanna er ekki fengið með eðlilegum hætti heldur með blekkingum. Hámarksrefsing við þessu broti var sex ára fangelsi.

Tveir dómar hafa fallið hérlendis þar sem reyndi á þetta ákvæði. Í báðum málunum, H 1943:167 og H 1996:3030, höfðu ákærðu samræði við konur, sem þeir komu að þar sem þær lágu sofandi í rúmi, önnur þeirra með unnusta sinn sér við hlið, en hin í eigin hjónarúmi. Höfðu ákærðu samræði við konurnar, sem héldu til að byrja með að þær væru að hafa samræði við maka sína. Málið frá því í maí síðastliðnum er því ekki einsdæmi og eflaust eru brot af þessu tagi framin reglulega án þess að þau komi til kasta yfirvalda. Hins vegar kom í ljós að alvarlegur missir er að blekkingarákvæðinu úr kynferðisbrotakafla hegningarlaganna.

Vorið 2007 voru breytingar á kynferðisbrotakaflanum samþykktar á Alþingi. Í drögum að nýja frumvarpinu segir um áðurnefnt blekkingarákvæði: „Svo sem sjá má er ákvæði þetta mjög sérkennilegt og ekki mjög raunhæft að á það reyni." Rökstuðningurinn fyrir að afnema blekkingarákvæðið var að helst gæti reynt á það ef brotaþolinn væri geðsjúkur, þroskaheftur eða sofandi. Þá myndi 2. málsgrein 194. greinar hegningarlaganna fullnægja refsinæmisskilyrðum, en þar segir að það teljist einnig nauðgun að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Hámarksrefsing við slíku nauðgunarbroti er sextán ára fangelsisvist, en refsing við blygðunarsemisbroti er sex mánaða fangelsisvist ef brotið er smávægilegt, sem það virðist af einhverjum ástæðum hafa talist í umræddu máli.

Dómararnir féllust ekki á að brotið félli undir 2. málsgrein 194. greinar, og var þetta að vissu leyti prófmál á nýju lögin. Í ljós kom að þau vernda ekki brotaþola sem blekktir eru með áðurnefndum hætti. Brottnám blekkingarákvæðisins hjó skarð í réttarstöðu brotaþola sem verða fyrir jafn mannskemmandi lífsreynslu og áðurnefnd kona. Þótt yfirvöldum hafi þótt bæði sérkennilegt og óraunhæft að fólk geti verið blekkt til kynmaka blasir við að slíkt á sér þó stað. Mikilvægt er að það endurspeglist í lagabálkinum, svo hægt sé að dæma fyrir slík brot með viðeigandi hætti.“


Ég þekki dæmi þess að karlmenn (tveir saman) hafi leikið slíkan blekkingarleik. Eflaust fundist það mjög fyndið. Hvorugur var kærður, en þá var þó blekkingarákvæðið í gildi. En eins og vitað er, þá kæra ekki allar konur. Mikilvægt er þó að lög endurspegli þann veruleika sem í þessum brotum felst, jafnvel þó einhverjir telji þau það sjaldgæf að ekki muni reyna á lögin.

Efnisorð: , ,

föstudagur, ágúst 21, 2009

Einkaskólar og útvalin börn efnaðra foreldra

Ég er ósammála öllum sem hafa tjáð sig um málefni Landakotsskóla í fjölmiðlum.

Landakotsskóli vill ekki of marga nemendur með sérþarfir. Mér er alveg sama hvernig því máli er snúið, það er ömurleg afstaða.*

Faðir barns sem fékk ekki skólavist í Landakotsskóla heldur því fram að það sé ekki að notfæra sér efnahagslega stöðu sína að senda barn í einkaskóla sem kostar hann 12.000 krónur á mánuði (það er fyrir utan það sem hann borgar með skólanum gegnum opinber gjöld, svona eins og við hin útsvars- og skattgreiðendur gera) — rétt eins og hann haldi að aðrir foreldrar með minni efni vildu ekki gjarnan að börnin sín væru í smærri bekkjum. Hann er sannarlega að gefa barni sínu forskot umfram önnur börn með því að geta borgað þessa peninga.

Margrét Pála Ólafsdóttir** sagði að einkaskólar þyrftu meira fjármagn. Eh, nei. Ef þetta fólk, sem álítur börnin sín svona mikið betri en annarra manna börn að þau þurfi að fá sérmeðferð (og nú á ég ekki við börn með sérþarfir, enda snýst málið hér um að verið er að mismuna börnum með sérþarfir, því bara sum þeirra eiga efnaða foreldra) þá getur það bara borgað enn meira og hið opinbera ætti ekki að borga krónu með þessum skólum, sama á hvaða skólastigi kennslan er.*** Ríkisreka þetta allt, með minni kostnaði og öll börn fái jafn góða þjónustu, takk!

Eina manneskjan sem hefur ekki tjáð sig í þessu máli, a.m.k. enn sem komið er, er brottrekni skólastjórinn. Henni er ég algerlega fylgjandi og styð hana í hvívetna, enda kenndi hún mér að lesa.

___
* Ég er reyndar ekki bara á móti stefnu Landakotsskólans í þessu máli, heldur er ég beinlínis á móti tilvist hans. Mér þykir fáránlegt að börn séu í trúarlegum skólum (eins og ég hef áður skrifað um).

** Mér finnst Hjallastefnan frábær. Ekki spurning. Og Margrét Pála snillingur að innleiða hana. Mér finnst hinsvegar ekkert að það þurfi endilega að framfylgja henni í einkareiknum leikskólum, hún á að vera fyrir öll börn.

*** Ég hef áður skrifað um að mér finnst að hið opinbera eigi ekki að styrkja einkareknu háskólana. (Þá hélt ég reyndar — sem var meginefni bloggfærslunnar — að lánsfé sem Ísland var að fá frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum yrði beinlínis notað í uppbyggingu í samfélaginu, en ekki í varaforða Seðlabankans).

Efnisorð: ,

sunnudagur, ágúst 16, 2009

Hverjir eru hvar

Bókstafstrúarmenn og feministar eiga það sameiginlegt að vera á móti klámi. Afstaðan er þó byggð á gerólíkum forsendum. Bókstafstrúarmenn vilja að konur séu bara með einum karlmanni, hans eign og ekkert kynlíf fyrir hjónaband. Feministar vilja sannarlega kynfrelsi allra kvenna en hafa óbeit á klámiðnaðinum því hann notar konur sem féþúfur, og hirðir lítt um velferð þeirra áður, á meðan eða eftir að þær taka þátt í vændinu/strippinu/klámmyndinni.

Ef feministar boðuðu til mótmælafundar vegna kláms, þá myndi ég mæta jafnvel þó ég frétti að bókstafstrúarmenn yrðu á svæðinu. Ég myndi bara passa mig á að vera hvergi nálægt þeim, og láta þannig vita að ég taki ekki undir þeirra afstöðu. Ef afturámóti bókstafstrúarmenn héldu fund gegn klámi myndi ég ekki mæta, jafnvel þótt ég vissi um einhvern fjölda feminista sem ætluðu að taka þátt. Sama gildir ef Geiri í Goldfinger stæði fyrir málþingi um klám eða kynferðisofbeldi.

Ég get vel skilið að fólki sem líst ekki á Icesave-samkomulagið hafi viljað mótmæla á Austurvelli. Og sannarlega eru fleiri en Sjálfstæðismenn á móti því samkomulagi, enda þótt það séu þeir sem hafa staðið í því stappi í þinginu (ásamt Framsóknarflokknum auðvitað) að tefja fyrir að málið sé afgreitt, rétt eins og þeir gerðu með ESB umsóknina.* En mér þykir mikilvægt að fólk átti sig á félagsskapnum sem það er í. Eins og sjá má m.a. í færslu hér á undan, sprangaði Davíð Oddsson óáreittur um Austurvöll, enda meira og minna umkringdur Sjálfstæðisfólki. Boð höfðu verið látin út ganga frá Valhöll um að fjölmenna á fundinn.** Það fólk sem almennt er ekki hrifið af Sjálfstæðisflokknum eða Davíð sjálfum hefur varla fundist það vera í góðum félagsskap.

Þó ég væri tryllt á móti Icesave-samkomulaginu hefði ég aldrei látið sjá mig þarna.

___
* Einhverstaðar sitja grafískir hönnuðir tilbúnir eftir símtali frá Andríkismönnum þar sem þeim er sagt að 100 dagarnir sem ríkisstjórnin gaf sér til að vinna ákveðin verkefni séu liðnir, og ganga svo frá heilsíðuauglýsinginunni sem birtast mun sem staðfesting á að engu hafi verið komið í verk. — Verk sem voru vísvitandi tafin af gömlu valdaflokkunum.

** Á Austurvelli á föstudag boðuðu Sjálfstæðismenn til fundarins, öll umgjörð (sem öllum ber saman um að hafi verið ríkmannlegri en þegar Vinstri græn eiga að hafa séð um skiltagerðina í vetur) var þeirra, ræðumenn virtust (að undanskildum Einari Má) af hægri kantinum.

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, ágúst 14, 2009

Davíð vill bylta

Ekki að mig hafi langað til að mótmæla á Austurvelli í gær, enda er ég þeirrar skoðunar að illskárra sé að samþykkja Icesave-samkomulagið í núverandi mynd en taka þá áhættu að annaðhvort dómstólar (hvaða dómstólar sem það ættu svo að vera) eða önnur samninganefnd komist að enn verri niðurstöðu. Og þegar ég sá að Sjálfstæðisflokkurinn hvatti fólk sérstaklega til að mæta, þá þótti mér ljóst að mótmælin væru enn ein tilraun flokksins til að komast aftur í valdastóla.* En þegar ég sá svo mynd af Davíð Oddssyni við mótmælin, þakkaði ég mínum sæla að hafa ekki látið sjá mig í þeim félagsskap.

Er ekki annars magnað að hann skuli láta sjá sig þar sem er verið að fjalla um afleiðingar hrunsins, þessi yfirhershöfðingi frjálshyggjunnar, maðurinn sem lagði niður Þjóðhagssstofnun? Honum taldi sér greinilega óhætt þarna í gær, viss um að allir á staðnum væru Sjálfstæðismenn. Ef þetta hefði verið sá hópur sem var á Austurvelli í janúar hefði Davíð verið tjargaður og fiðraður, ef hann hefði þá sloppið lifandi. En meðal sinna manna er hann ennþá guðinn.


___
* Mörður Árnason varpar upp hrikalegri framtíðarsýn; ráðherralista og þau verkefni sem ríkisstjórn Sjálfstæðis-og Framsóknarflokks myndi leggja áherslu á.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, ágúst 13, 2009

Allskonar konur fara í fóstureyðingu

Sjónvarpið sýndi í kvöld* heimildarmyndina Lake of Fire, sem fjallar um fóstureyðingar og deilurnar um þær í Bandaríkjunum. Myndin var líklega sanngjörn að því leyti að röksemdir beggja deiluaðila komu fram; bæði þeirra sem eru á móti fóstureyðingum og þeirra sem vilja að konur geti valið að fara í fóstureyðingar. Þar sem ég vil auðvitað að konur hafi þetta val þá fannst mér áróður andstæðinga fóstureyðinga alltof áberandi — og sérstaklega ógeðslegt og þeim í hag að sýna myndir af sundurlimuðum fóstrum. Andstæðingum fóstureyðinga hefur líklega fundist myndin neikvæð vegna þess að málsvarar þeirra í voru froðufellandi ofsatrúarmenn sem gerðu málstaðnum engan greiða.

Ánægjulegast var að sjá fólk sem vildi skoða málin í víðara samhengi og sagði jafnvel að báðir aðilar hefðu nokkuð til síns máls. Og enn betra var að ítrekað var bent á að þetta sama fólk er hlynnt stríðsrekstri og aftökum, þannig að það er ekki eins og „rétturinn til lífs“ eigi við um fólk eftir að það er komið úr leginu.** Jafnframt var sagt frá því að andstæðingar fóstureyðinga — sem eru kristnir bókstafstrúarmenn — eru oft á móti getnaðarvörnum, kynfræðslu, félagslegri aðstoð og jafnvel sköttum. Semsagt öllu því sem gæti dregið úr því að konur verði óléttar án þess að vilja það eða fái aðstoð ef þær kjósi að ganga með og eiga barn.

Þessir kristnu bókstafstrúarmenn (konur eru þar á meðal en það er áberandi hve karlmenn standa framarlega í þessari baráttu) eru í raun fyrst og fremst að ætlast til að nútímafólk lifi lífi sem byggir á sögum Biblíunnar, þar sem konur eru til undaneldis, karlar ráða öllu og lögmálið auga fyrir auga og tönn fyrir tönn blífur. Kvenréttindi hverskonar eru þeim þyrnir í auga (þ.m.t. að mega stunda kynlíf að vild), rétt eins og réttindi samkynhneigðra. Kynlíf á að vera stundað innan hjónabands og bara til að búa til börn. Og auðvitað snýst þetta um yfirráð yfir líkama kvenna.

Einn froðufellandi ofsatrúarmaðurinn (gott ef það var ekki sá sem síðar drap lækni sem framkvæmdi fóstureyðingar) sagði að fólk sem vildi frjálsar fóstureyðingar væri allt kynvillingar og trúleysingjar. Eða eins og einhver orðaði það í þættinum: Fyrir þeim skiptist heimurinn í kristna og alla hina. En það vill nú samt svo til að konur sem eru kristnar (eða trúaðar á einhvern hátt) og konur sem eru gagnkynhneigðar bæði styðja rétt annarra kvenna til að fara í fóstureyðingar og nota sér jafnvel þann rétt sjálfar, ef svo ber undir.

Meðan ég horfði á myndina rifjaði ég upp þær konur sem ég þekki sem hafa farið í fóstureyðingu. Sumar þeirra voru giftar*** eða í langvarandi sambandi þegar þær urðu óléttar og tóku af einhverjum ástæðum þá ákvörðun að eignast ekki barn í það sinn. Sumar höfðu áður átt barn, aðrar vildu gjarnan eignast barn en tímasetningin var þeim í óhag (t.d. vegna nýafstaðinnar barnsfæðingar) eða heilsufarið eða fjárhagurinn var ekki beysinn. Sumar voru trúaðar, aðrar ekki, sumar höfðu aldrei hugsað útí að þær yrðu svona manneskjur sem gripu til þessa úrræðis. Sumar höfðu notað getnaðarvarnir sem brugðust, aðrar engar varnir. Sumar hafa farið í aðgerðina oftar en einu sinni.

Í dag eru þær mæður, ömmur, barnlausar frænkur, systur, stjúpmæður, eiginkonur, kærustur, vinnufélagar, vinkonur.**** Sumar fullar eftirsjár, sumar hugsa útí hve gamalt barnið væri í dag, aðrar velta engu slíku fyrir sér. Sumar segja frá þessu eins og ekkert sé, aðrar segja bara örfáum vel völdum nákomnum aðilum gegn loforði um trúnað. Það eru semsé fullt fullt af konum sem hafa valið á einhverjum tímapunkti að eignast ekki barn þó sæðisfruma og eggfruma hafi runnið saman í legi þeirra. Og það er bara alltí lagi.

Konur eiga rétt á að velja hvort og hvenær þær eignast börn. Punktur.

___
* Myndin var reyndar alltof seint á dagskrá, lauk nú rétt um eittleytið og áhorfendur líklega færri af þeim sökum.
** Sérkennilegt að íslenski þýðandinn notaði alltaf orðið „móðurlíf“ þegar „leg“ ætti betur við, enda hlutlausara orð.
*** Ég hef ekki fundið nýlegar tölur en hér kemur fram að árið 1976 voru 45% kvennanna giftar, 39% ógiftar og 14% giftar áður (fráskildar eða ekkjur). Árið 1985 voru 26,8% kvenna, sem fóru í fóstureyðingu, giftar en 64,5% ógiftar og af þeim voru 10,4% í sambúð.
**** Í stuttu máli sagt: Þú þekkir líklega líka fjölda kvenna sem hafa farið í svona aðgerð, jafnvel þó þér hafi ekki verið sagt frá því.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, ágúst 08, 2009

2009 og konur eru enn til sýnis fyrir peninga

Morgunmatur og Fréttablaðið fara saman. Fyrir daga Fréttablaðsins las ég Morgunblaðið meðan ég maulaði morgunmat og um nokkurra ára skeið Þjóðviljann eða þar til hann lagði upp laupana. En alltaf er lesið. Nú í morgun var ég blessunarlega búin að kyngja síðasta bitanum þegar ég kom að öftustu opnu blaðsins. Nú er þessi síða í blaðinu oftar en ekki helguð nýjustu fréttum af Geira í Goldfinger og álíka andans mönnum, skrifuðum af Jakobi Bjarnar Grétarssyni, og því ekki við því að búast að lesendur verði fyrir menningarlegri uppljómun af lestrinum. Samt brá mér talsvert þegar ég sá að verið var að kynna blautbolssýningu unglingsstelpna.

Þessi stelpugrey virðast hafa heyrt eitthvað af því sem feministar hafa segja undanfarin ár — gripið nokkur hugtök og orðalag — en ekki skilið neitt.* Hið frjálshyggjulega umhverfi Verslunarskólans hvetur auðvitað ekki til sjálfstæðrar hugsunar og því varla við því að búast að nemendur skólans skilji neitt nema það sem kemur að því að græða peninga. Þessar stelpur vilja afla fjár fyrir listafélag skólans og nota til þess öll meðöl. Þar á meðal unga líkama sína, sem karlmönnum þykja svo eftirsóknarverðir.

Það er óþægilegt að byrja daginn á að verða sorgmædd. Því ég get ekki lýst tilfinningum mínum þegar ég las þetta öðruvísi en sem vonleysi og sorg. Verra er þó þegar ungar stelpur byrja lífið á að gangast við hlutverki sínu sem leiksoppar karlveldisins með svo augljósum hætti.

Vonandi læra þær einhverstaðar gagnrýna hugsun.

___
* Þær segja m.a.: „Staðalímyndin að stelpur séu rosalega sexí að bóna bíla fannst okkur mjög fyndin.“ Of oft heldur fólk að niðurlægjandi eða meiðandi atferli verði fyndið ef það sjálft tekur þátt í því. Þá er oft talað um að það geri eða segi eitthvað á írónískan máta, en í rauninni er það bara að gera það sama og ef engum þætti það fyndið. Hálfberar stelpur eru jafn hálfberar þó þeim þyki það fyndið. Strákarnir glápa jafnt á þær fyrir því, nema hvað þeim þykir það ekki fyndið heldur sjálfsagður réttur karlmanna að fá að horfa á hálfberar stelpur.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, ágúst 06, 2009

Innbrot útbrot

Ég var að fá ansi skemmtilegt bréf frá sölustjóra Securitas. Þar er mér tjáð að fyrirtækið muni af góðsemi sinni senda mér sölumann — sem kallaður er öryggisráðgjafi í bréfinu — til að kynna mér þá þjónustu sem Securitas hefur uppá að bjóða.

Efni bréfsins mun vera Öryggisátak í Reykjavík.

Nú er ég ein þeirra sem hef látið Þjóðskrána og Símaskrána vita að ég vilji undir engum kringumstæðum verða fyrir ónæði sölumanna og á því hvergi að lenda á úthringilistum eða listum yfir fólk sem fær svona markpóst. Samt er bréfið kyrfilega merkt mér og mínu heimili.

Líklega hafa Securitasmenn hugsað sér gott til glóðarinnar — nú þegar fjölmiðlar eru fullir af fréttum um innbrotahrinu í höfuðborginni — og ákveðið að leggjast í markaðsherferð og þá lítt skeytt um þá borgara sem vilja vernd gegn slíkum sölubrellum. Annar möguleiki (og flokkast sá undir samsæriskenningar) er að á næstunni verði brotist inn hjá mér, svona svo ég hrökklist örugglega til að kaupa mér þjófavarnarkerfi frá Securitas.*

Þegar ég næ að róa mig niður finnst mér þessi möguleiki kannski ekkert sennilegur og þá er nærtækt að minnast orða kunningja míns sem benti mér á fyrir nokkrum árum, að sömu eigendur væru að Securitas og fjölmiðlasamsteypunni sem þá rak Stöð 2. Eftir að linnulausar fréttir voru fluttar af innbrotum í öllum fjölmiðlunum rauk upp sala á þjófavarnarkerfum. Og þessi kunningi minn var sannfærður um að það væri ekki óvart.

Ég held að Securitas leiðist a.m.k. ekkert að fólk sé hrætt við að brotist sé inn hjá því og það sé ekki af góðmennsku einni saman sem þetta „öryggisátak“ sé sett af stað.

Og nú ætla ég að hringja í Securitas og fá að tala við þennan ágæta mann sem stendur í bréfaskriftum við mig. Þetta verður besti dagur sumarsins fyrir hann.**

___
* Ég heyrði af slíku máli í sumarbústaðabyggð fyrir nokkrum árum. Þar buðu landeigendur uppá gæslu við bústaðina og þeir sem afþökkuðu komu að öllu í rúst þar til þeir keyptu sér verndina.

** Viðbót. Ég talaði við sölustjórann og hann var mjög kurteis (ég líka) og fullvissaði mig um að ekkert vafasamt væri við þessa markaðsherferð. Þeir hefðu fengið lista frá Fasteignaskrá. Hann sagði mér ennfremur að nú ætti Landsbankinn fyrirtækið, hefði hirt það úr búi Pálma í Fons. Fyrir nokkrum árum hefði Stöðvar 2 samsteypan (hvað-hún-nú-hét-þá) reyndar átt það. Og hann kannaðist við samsæriskenningarnar — án þess þó að kannast við að þær ættu við rök að styðjast. Ég er samt ekkert að fara að kaupa mér þjófavarnarkerfi frá Securitas.

Efnisorð:

mánudagur, ágúst 03, 2009

Eyjamenn kátir að vanda enda siðferðilega skemmdir

Mogginn segir að Þjóðhátíð í Eyjum hafi verið frábær. „Aðstandendur hátíðarinnar eru afar ánægðir með helgina og segja hana hafa verið frábæra í alla staði. Afar vel hafi tekist til með allt og allir skemmt sér konunglega.“

Iss, hvað með þó einhverju kvenfólki hafi verið nauðgað örlítið.

Og 14.000 manns sungu með þegar þingmaðurinn og fyrrverandi refsifanginn glamraði á gítarinn sinn. Alltaf krúttlegir þessir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og siðferðið þeirra.

En, eins og fram kemur í athugasemdum á bloggi Jennýjar Önnu, þá hlýt ég að vera andlegur öryrki sem er þar að auki öfundsjúk vegna þess að á Þjóðhátíð kann fólk að fara með áfengi. Og svekkt yfir að hafa ekki komist til Eyja. Því þar er nú aldeilis gaman að vera. Jibbý!

Efnisorð: , ,

sunnudagur, ágúst 02, 2009

Líklega löglegt. Siðlaust kemur málinu ekki við.

Voðalega æsir fólk sig yfir upplýsingum um lánveitingar Kaupþings. Mjög líklega varðaði ekkert af þessu við lög, ekki frekar en kúlulánin.

Það var nú eitt helsta afrek frjálshyggjupostulana, að afnema og breyta lögum þannig að þau væru sem hagstæðust þeim sem vildu græða sem mest með aðferðum sem öllu venjulegu fólki blöskrar. Viðskiptaráð skrifaði á blað hvernig lög ættu að vera og frjálshyggjuþingmennirnir komu þeim gegnum Alþingi. Allir kátir.

Þessvegna verður ekkert hægt að lögsækja helstu ræningjana, þá sem blóðmjólkuðu banka, tryggingafélög, lífeyrissjóði. Þeir eru að auki valdaðir af embættismönnum og öðrum dyggum þegnum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarfloks og hægri arms Samfylkingarinnar, sem eru í öllum helstu stöðum (þ.m.t. skilanefndum bankana) þar sem þeir geta brugðið fæti fyrir rannsóknir og hugsanlega uppljóstrun á því sem kemur þeim illa. En þó þeim svíði kannski gagnrýnin, sleppur allt þetta lið við lögsóknir, hvað þá eignaupptöku og fangelsisdóma, sama hvað við hin heimtum.

Það var nefnilega aldrei spurt um siðferði. Rétt og rangt var ekki til. Bara hámarks gróði. Reglurnar miðast við það, þær snúast ekki um að hvort það sé réttlátt að örfáir einstaklingar — eða jafnvel allir þeir sem tengjast fjármálakerfi heillar þjóðar — megi skara svo eld að eigin köku að við hin þurfum að líða fyrir það.

Á öllum vefsíðum sé ég fólk koma með uppástungur um hvernig megi breyta og hvað eigi að gera. Endursemja um Icesave (og útlistað hvernig), fangelsa fjárglæframennina (jafnvel stungið uppá hvar eigi að vista þá), efla rannsóknir, skipta út fólki í embættum og skilanefndum og svo mætti lengi telja. En það skiptir engu með allar okkar góðu hugmyndir um hvernig á að ná fram réttlæti — réttlæti er ekki innbyggt í kerfið.

Lögfræðingum hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum. Heilu skólarnir spruttu upp bara til að kenna lögfræði og viðskiptafræði (örfáar aðrar greinar hafa verið uppá punt) — þessir skólar hafa verið „nátengdir viðskiptalífinu“ og nemendurnir ýmist verið innmúraðir í stjórnmálaflokkana fyrir eða innvígðir í þá eftir að nám hófst. Þessir lögfræðingar — rétt eins og þeir sem áður þjónuðu Flokknum — eru ekki þjónar almennings, heldur útverðir og gæslumenn hagsmuna sem hafa ekkert með almenning að gera. Þessir lögfræðingar eru ekki og munu ekki — hvort sem þeir sitja í skilanefndum, rannsóknarnefndum eða eru á stofum sem hafa unnið fyrir fjármálageirann — neitt á leiðinni að fara að styðja kröfur almennings um afturvirk lög sem nái yfir bankaleynd, upptöku eigna eða fjármálagjörninga þá sem kollsigldu þjóðarskútunni.

Við, þessi almenningur, sem viljum réttlæti og einhverkonar siðferði. Ja, við getum alveg eins heimtað leiðréttingu á norðanáttinni.

Efnisorð: ,