sunnudagur, október 31, 2010

30. júní 1980

Ég man vel eftir því þegar Vigdís var kosin forseti. Ég var ekki nógu gömul til að kjósa sjálf en fylgdist með kosningabaráttunni af miklum áhuga og hélt með Vigdísi frá upphafi. Þegar allir forsetaframbjóðendurnir komu saman í sjónvarpssal fannst mér hún hafa alla yfirburði, en það fannst víst þeim sem kusu hina frambjóðendurna líka. Foreldrar mínir kusu einn karlanna og fannst lítið til Vigdísar koma, en aldrei kom neitt annað til greina hjá mér en að hún ætti að verða forseti.

Ég vakti svo alla nóttina meðan talið var úr kjörkössunum en úrslitin réðust ekki fyrr en undir morgun. Þá varð ég ofsaglöð. Eins og kom fram í heimildarmyndinni um kjör Vigdísar (sem ég sá í endursýningu nú fyrir stundu) þá var þetta fögur sumarnótt, og ég var svo uppveðruð að ég fór ein út í göngutúr árla morguns þegar ljóst var að Vigdís hafði verið kjörin og gekk um allan bæ í sæluvímu. Ég var ekki ein þeirra sem hyllti hana í garðinum við Aragötu, einfaldlega vegna þess að ég vissi ekki að það stæði til, en ávallt síðan þegar ég sé myndir frá þeim atburði, þá fæ ég tár í augun.

Jafnrétti náðist hvorki hér né annarstaðar í heiminum við kjör Vigdísar, ekki frekar en það hefur náðst núna þegar við höfum konu í stóli forsætisráðherra og eina konu sem hæstaréttardómara. Jafnrétti er ekki náð meðan konur eru bara stundum í æðstu embættum en allajafna sitji þar karlar og þeir séu í yfirgnæfandi meirihluta í viðskiptalífinu og fjölmiðlum. En í hvert sinn sem kona er þó kjörin í embætti (eða fær starf sem konur hafa ekki áður gegnt, sbr. bankastjóri) þá hverfa þær hugmyndir að konur geti ekki sinnt störfum sem karlar einir hafa gegnt fram að því.

Þó breytingar í átt til jafnrar stöðu kynjanna í íslensku samfélagi og í heiminum öllum gangi seint, þá ber að fagna hverjum áfanga. Ég fyllist enn fögnuði þegar ég minnist kjörs Vigdísar. Það var ákaflega gott skref í rétta átt.

Efnisorð:

mánudagur, október 25, 2010

Kvennafrí 2010

Ég get ekki ákveðið hvað ég eigi að skrifa í tilefni kvennafrídagsins, því af nógu er að taka. Þá er gott að geta vitnað í mér vitrari konur.

Steinunn Stefánsdóttir skrifar leiðara í dag:

„Konur eru helmingur mannskyns en eiga eitt prósent eigna heimsins. Áætlað er að konur vinni 2/3 hluta vinnustunda í heiminum.

Konur eru helmingur mannskyns en eiga eitt prósent eigna heimsins.

Áætlað er að konur vinni 2/3 hluta vinnustunda í heiminum. Að launum hljóta þær tíu prósent þeirra tekna sem aflað er.

Heildarlaun kvenna á Íslandi eru samkvæmt tölum Hagstofunnar 66 prósent af heildarlaunum karla.

Kynbundinn launamunur mælist meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Hann er samkvæmt könnun Capacent frá þessu ári 9,9 prósent.

Ofbeldi gegn konum er til muna algengari ástæða fyrir heilsubresti kvenna í heiminum en umferðarslys og sjúkdómurinn malaría eru samanlagt.

Áætlað er að um 800.000 manneskjur séu seldar mansali á ári hverju í heiminum, flestar til kynlífsþrælkunar. Átta af hverjum tíu þeirra eru stúlkur og konur, þarf af um helmingur undir lögaldri.

Talið er að ein kona af hverjum þremur hér á landi verði fyrir alvarlegu kynferðislegu ofbeldi einhvern tíma á lífsleiðinni.

Þolendur kynferðisofbeldis mæta enn djúpstæðum fordómum sem meðal annars felast í því að leitað er að ástæðum glæpsins hjá þolanda hans fremur en að beina sjónum að gerandanum.

Nærri þriðjungur ofbeldismanna sem voru ástæða þess að konur leituðu til Kvennaathvarfsins í fyrra voru fyrrum sambýlis- eða eiginmenn þeirra. Ógnin sem felst í ofbeldi í nánu sambandi getur því haldið áfram jafnvel löngu eftir að sambandi hefur verið slitið.

3,1 prósent íslenskra kvenna hafði leitað til Stígamóta vegna kynferðislegs ofbeldis sem þær höfðu verið beittar, frá stofnun samtakanna til ársloka 2009, eða í 20 ár.

Rannsóknir sýna að fyrirtækjum þar sem bæði kyn skipa stjórn vegnar betur en þeim sem hafa á að skipa einkynja stjórnum. Samt eru nærri níu af hverjum tíu stjórnarmönnum í íslenskum fyrirtækjum karlar og algengast er að stjórnir fyrirtækja séu eingöngu skipaðar körlum.

Þrátt fyrir að Ísland mælist með minnsta kynjabil í heimi í skýrslu World Economic Forum þá mælist í þeirri könnun mikið misræmi milli atvinnuþátttöku kvenna, sem hér á landi er með þeirri mestu sem þekkist í heiminum, og efnahagslegri þátttöku þeirra þar sem Ísland er í 18. sæti.

Samkvæmt launakönnun SFR frá 2008 getur karl með grunnskólapróf vænst hærri launa en kona með háskólapróf.

Allar umbætur sem orðið hafa á lífi og réttindum kvenna eru tilkomnar vegna samstöðu kvenna og þrotlausrar baráttu þeirra sjálfra.

Þótt margir og mikilsverðir sigrar hafi unnist eru ástæðurnar fyrir því að konur fara í kvennafrí fjölmargar, bæði hér heima fyrir og á alþjóðlegum vettvangi.

Þetta eru nokkrar ástæður þess að konur halda kvennafrí frá klukkan 14.25 í dag.“


Og þá er kominn tími til að hnýta á sig trefilinn og arka útí storminn.

Efnisorð:

föstudagur, október 22, 2010

Meðvitundarleysi fjölmiðla

Nei, hér er ég ekki að taka út 8. hluta rannsóknarskýrslunnar, þar sem viðaukann með fjölmiðlagagnrýninni er að finna. Heldur langar mig að ræða stingandi dæmi úr fjölmiðlum dagsins. Því miður er í öllum tilvikum um fjölmiðlakonur að ræða en í fyrra dæminu er um litla klausu í Fréttablaðinu að ræða, kálfinum sem kallast Föstudagur, þar sem fjallað er um nýja snyrtivörulínu. Snyrtivörurnar eru gerðar í samvinnu við Disney og skarta myndum af ýmsum illkvendum sem þekktar eru úr Disney myndum, s.s. Cruellu de Ville.

Það þarf semsagt ekkert sérstakt hugmyndaflug að sjá markaðssetninguna að baki þessari nýju snyrtivörulínu. Nema hvað, blaðakonan* skrifar glaðbeitt að umbúðirnar séu „skemmtilega barnalegar“ en láist um leið algerlega að geta þess að markhópurinn er greinilega litlar stelpur sem annaðhvort eru nýbyrjaðar að fá pening til að kaupa snyrtivörur (í þeirri veiku von að líta út eins og fyrirsætur og poppstjörnur sem þeim er endalaust sagt að séu fyrirmyndir þeirra) eða þá svo ungar að þær eru ekki einu sinni komnar með áhuga á snyrtivörunotkun heldur eru enn á kafi í prinsessudraumum Disney myndanna sem þær hafa horft á síðan þær gátu setið uppréttar við sjónvarp. Þó það sé eflaust fyndið að fullorðnar konur hafi val um varaliti sem eru skreyttar illum nornum þá ætti öllu hugsandi fólki að vera ljóst — þó ekki væri nema eftir mikla umræðu síðustu ára — um skaðsemi þess að kippa börnum of snemma inn í heim fullorðinna, og að ásókn fyrirtækja í að tryggja sér velvild barna hefur ekkert með hagsmuni barnanna að gera heldur græðgi fyrirtækjanna sem beita öllum brögðum í markaðssetningu. Og hér er ég ekki einu sinni farin að tala um klámvæðinguna sem auðveldlega er hægt að sjá í því að ætla að selja börnum snyrtivörur.

Hitt, sem stakk mig þegar ég greip blöðin köld innúr bréfalúgunni í morgun, var forsíðuviðtal Fréttatímans við fréttakonu úr öðrum fjölmiðli.** Tilvitnunin á forsíðunni var þessi: „Ég held að það sé ekki vænlegt til árangurs að konur séu alltaf að velta sér upp úr því að þær séu konur og að þeim sé mismunað af því að þær séu konur.“ Þetta hefur ritstjóranum jafnréttissinnaða*** auðvitað fundist upplagt efni til að nudda framan í lesendur tveimur dögum fyrir hinn rómaða jafnréttisdag, 24. október.

Viðtalið sjálft inní blaðinu inniheldur semsagt þessa frámunalega sorglegu afstöðu sjónvarpsfréttakonunnar og er klausan of löng til að ég nenni að skrifa hana alla upp en það er allt í sama dúr, sbr. þetta: „Það er náttúrlega staðreynd að ennþá er einhver mismunun í samfélaginu en ég held að það sé konum ekki endilega til framdráttar að vera alltaf að leita skýringa á þessu.“

Það þarf ekki að hafa lesið fjölmiðlahluta rannsóknarskýrslunnar til að átta sig á að hér talar manneskja sem hefur lítið lesið eða heyrt af gagnrýni á fjölmiðla og hvernig þeir brugðust á „góðæristímanum“ og í aðdraganda hrunsins. Að fjölmiðlafólk skuli láta útúr sér að það borgi sig ekki að leita skýringa á einhverju, hvað þá því sem í hinu orðinu er viðurkennt að það er „einhver mismunun í samfélaginu“ er hrópandi dæmi um gagnrýnislausa hugsun og mjög líklega léleg vinnubrögð.

Botninn í samtalið — og nokkurnveginn botninn á þessu öllu saman — slær svo blaðakonan sem viðtalið tekur þegar hún spyr í framhaldi af því að konum sé ekki til framdráttar að leita skýringa á mismunun sem þær eru beittar, og spyr: „Þú ert ekkert gefin fyrir eitthvert væl?“

Þetta eru skilaboðin fyrir jafnréttishátíðina sem framundan er,**** öll málþingin og fundina og kvennafríið á mánudaginn: að þetta sé bara eitthvert væl. Því fréttakonan og blaðakonan hafa sammælst um að lokaorð viðtalsins séu að það sé „ekki leiðin til árangurs“.

Það er sorglegt að fjölmiðlafólk skuli ekki fylgjast betur með samtíma sínum.

___
* Ég geri ráð fyrir að það sé kona sem skrifar því aðeins tvær konur eru skrifaðar fyrir föstudagskálfinum. Karlmenn í fjölmiðlum eru ekki ráðnir til að skrifa lífstílsgreinar; það er eitt af kvennastörfum samtímans.

** Fjölmiðlafólk að taka viðtöl við annað fjölmiðlafólk, óþrjótandi efni.

*** Það vakti strax athygli mína þegar Fréttatíminn hóf göngu sína að á myndinni sem sýndi starfsfólkið voru aðeins fjórar konur á móti körlunum. Þar af ein prófarkalesari (góðkunn og gamalreynd) en ekki hefur verið venja til að hampa þeim á síðum blaða hingaðtil. En einhver hefur kannski bent á að það vantaði fleiri konur á myndina því aðeins þrjár blaðakonur eru starfandi á Fréttatímanum. Af þeim þremur voru a.m.k. tvær þeirra áður starfandi sem lífstílsblaðamenn og má því gera ráð fyrir að það sé þeirra aðalhlutverk á nýja vinnustaðnum. Sem sýnir auðvitað bæði hverskonar efni á að vera fyrirferðarmikið í blaðinu (umfjöllun um vörur sem seljendur þeirra svo auglýsa) og viðhorf ritstjórans til hlutverks kvenna í fjölmiðlastétt.

**** Það eru líka skemmtileg skilaboð eða hitt þó heldur í heilsíðuauglýsingu beint á móti Disneysnyrtivörunum í föstudagskálfi Fréttablaðsins þar sem „stelpur“ frá 18 ára aldri eru hvattar — utanlandsferð og módelsamningur í boði — til að taka þátt í leitinni að Sloggi stelpunni. Á myndinni má hverskonar kostum „stelpan“ (ekki fullorðin kona þannig að það er bannað að vera yfir tvítugu geri ég ráð fyrir) þarf að vera búin, þar er bakhluti fyrirsætanna í forgrunni, mismunandi lítið hulinn nærbuxum og þær eru allar berar að ofan. Og rúsínan í pylsuendanum er að kosningin um Sloggi stelpu ársins fer fram á heimasíðu útvarpsstöðvar, þar sem allir strákarnir geta kosið um flottasta rassinn! Jáh, um þetta eiga nú stelpur að keppast meðan á öllu þessu jafnréttisstússi kéllinganna stendur.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, október 21, 2010

Feit, og hvað með það?

Í dag var haldið málþing um fitufordóma þar sem þau Kerry O’Brien og Marilyn Wann töluðu, hann frá sjónarhóli heilsu- og félagssálfræði en hún sem baráttukona gegn holdafarsmismunun. Fundi stýrði hin ágæta Sigrún Daníelsdóttir sem heldur úti blogginu Líkamsvirðing og ég hef áður getið að góðu. Enda þótt erindi Kerrys hafi verið fróðlegt þá var Marylin Wann svo hrikalega skemmtileg að ég hálfgleymdi að málþingið snerist ekki bara um hana.

Ég held samt að ef ég hefði setið með glósubók eins og konan við hliðina á mér og skrifað niður eitthvað af því sem Kerry sagði þá hefði hugsanlega setið eitthvað eftir af því sem hann sagði annað en það að 50% heilbrigðisstarfsmanna vilja helst ekki annast feita sjúklinga, en mér fannst það svo sláandi að ekkert annað komst að í kollinum á mér í lengri tíma á eftir. Það eru engir smá fordómar sem fólk sem er yfir kjörþyngd mætir þegar meirasegja heilbrigðisstarfsfólk hefur óbeit á því.

Einu sinni sá ég heimildarmynd (man ekkert á hvaða sjónvarpsstöð, líklega erlendri) um fordóma gagnvart fólki sem er yfir kjörþyngd og þar var kona sem var mjög áberandi þung fengin til að ganga með falda kvikmyndavél og hljóðupptöku tæki á sér. Það var hræðilegt að verða vitni að því hvernig viðhorfi hún mætti nánast hvar sem hún fór. Fólk starði og benti eða sagði háðslega hluti um líkamsvöxt hennar þegar hún gekk framhjá, rétt svo nógu hátt til að hún heyrði. Verst var þó þegar hún settist inná veitingstað sem var einhverskonar kaffitería. Þar sem hún gekk með bakkann sinn að borðinu mátti sjá fólk gjóta á hana hornauga eða hlæja og þegar hún var sest að snæðingi hreytti fólk sem átti leið framhjá borðinu hennar í hana ónotum. Einn maður lagði greinilega lykkju á leið sína til að komast í færi við hana og hellti yfir hana svívirðingum í hálfum hljóðum þannig að enginn annar í salnum heyrði hve andstyggilegur hann var við þessa bláókunnugu konu sem ekkert hafði gert honum. Þetta var, að sögn konunnar, daglegur viðburður. Hvernig fólk á að þola svona framkomu dag hvern er mér óskiljanlegt. Enda er sjálfsvirðing margra þeirra sem eru langt yfir kjörþyngd afar langt frá því að vera í lagi.

Og á þetta var einmitt bent á málþinginu, að almenningur virðist líta svo á að hægt sé að láta feitt fólk skammast sín til að fara í megrun og ef það sé bara nógu oft látið vita af hve mikil sjónmengun sé af því þá endi það á því að grenna sig og lifa löngu og hamingjusömu lífi. Fólk sem er yfir kjörþyngd er hinsvegar allajafna sér ágætlega meðvitað um þyngd sína og þarf ekkert aðstoð umheimsins til að gera sér grein fyrir henni, og þetta sífellda 'velmeinandi' tuð — hvað þá svívirðingar — gera ekkert annað en láta fólki líða illa andlega. En, eins og bent var á á málþinginu, þá er fólk sem er yfir kjörþyngd iðulega skotspænir fólks sem er að reyna upphefja sjálft sig á þess kostnað; það er semsagt ekki af umhyggju fyrir heilsufari þeirra feitu sem sífellt er verið að hnýta í það, heldur til að fá útrás fyrir eigin vanlíðan af einhverjum toga.

Um daginn var ég að hlusta á gamlan Víðsjárþátt í hlaðvarpinu (frá 51:43 mínútu) og þar var Þorgerður E. Sigurðardóttir (sú hin sama og nú má berja augum á skjánum í Kiljunni annanhvern miðvikudag) að tala um bókina The Secret. Hún sagði að bókin hafi verið leiðarvísir um hvernig ætti að laða að sér velgengni — en jafnframt forðast að hugsa um það sem það vildi ekki. Þessvegna ætti það ekki að forðast að horfa á feitt fólk, því hugsanir um fitu laði að sér fitu. Hafi fólk á annað borð innbyrt The Secret og trúað bullinu sem þar er að finna, má þá ekki gera ráð fyrir að bókin (og myndin) hafi átt þátt í að auka á fordómum gegn fitu?

Þorgerður E. nefndi að Barbara Ehreinreich hafi gagnrýnt bókina og myndina (enda er sú ágæta kona feministi) en afhverju heyrði ég engan þeirra sem mærðu þessa Secret vitleysu á sínum tíma tala um þetta atriði, sem gengur svo gjörsamlega gegn allri heilbrigðri skynsemi? Var fólk svona brjálæðislega ánægt með að hafa fundið lykilinn að því hvernig ætti að verða ríkt að ekki vottur af gagnrýni komst að í kollinum á því þegar það las þessa fjarstæðu? Fyrirutan að það þyrfti að gera rannsókn á því hvernig fólki sem síkretaði hefur vegnað, þá mætti líka gera rannsóknir á því hvort þessi dómadagsvitleysa hafi sannanlega haft áhrif á fordóma fólks gagnvart fólki sem lítur á einhvern hátt „óæskilega“ út. Það væri nú eftir öðru.

Það er því ekki vanþörf á því að hengja upp á vinnustöðum eða heimilium plaggið sem ég tók með mér heim af málþinginu. Þar stendur:


Hér er borin virðing fyrir fjölbreytileika líkamsvaxtar

Vinsamlegast haldið ykkur frá megrunartali, neikvæðum athugasemdum um eigin líkama og öðrum ónotalegheitum.


___
* Ekki að mér þyki skynsemi í að halda að fólk geti laðað að sér ríkidæmi með því að „hugsa sig ríkan“ — og hef áður talað háðslega um það að síkreta — en það að einhver verði feit afþví að horfa á feitt fólk?! Trúir þessu einhver?

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, október 20, 2010

Stjórnlagaþingskandídatar

Meira um stjórnlagaþing.

Bent hefur verið á — meðal annars í ágætri grein Sverris Jakobssonar — að hætta sé á að ríka og fræga fólkið eigi meiri möguleika á að verða kosið á stjórnlagaþingið. Það ríka vegna þess að það getur auglýst fyrir tvær milljónir og það fræga vegna þess að fólk þekkir það fyrir. Einhverra hluta vegna þykir mörgum kjósendum alltaf sem (brosmilt) andlit af skjánum sé ávísun á persónuleg heilindi, góðar gáfur eða gæfuleg stefnumál, enda þótt reynslan ætti að hafa sýnt okkur að svo er alls ekki alltaf. Dæmi: Gísli Marteinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigmundur Ernir og Sigurður Kári …

Á meðal þeirra sem ég voru komin á lista þegar ég síðast leit hann augum hefur ein af frambjóðendunum algera sérstöðu. Nánast öll frambjóðendanna lögðu mikla áherslu á lýðræðisumbætur ýmiskonar svosem skýrari skiptingu löggjafa og framkvæmdavalds, auðlindir í þjóðareign, og oft var nefnt að mannréttindakaflinn ætti að koma fremst í stjórnarskránni. En ekki hafa öll löngun til að fylgja fjöldanum og ein þeirra hefur þetta að markmiði: „Það er von mín að fólk muni sameinast í góðum og skynsamlegum samræðum um stjórnarskrána og mæti til leiks með það að markmiði að bæta hana og skýra en umbylta henni ekki.“ Með öðrum orðum: Kjósið mig, ég ætla ekki að gera neitt!

Augljóslega mun ég ekki veita þessari manneskju brautargengi* enda þótt hún eigi eflaust góðan möguleika á að komast á stjórnlagaþingið í krafti þess að vera fræg úr sjónvarpinu. Þá kemur líklega í ljós að mörg þeirra sem vilja setja ákvæði um að þjóðaratkvæðagreiðslur verði hafðar við ýmis tilefni hafi rangt fyrir sér, því Íslendingar eru of óupplýstir til að kunna að fara með atkvæði.

___
* Frjálshyggjufólk fær ekki mitt atkvæði. Karlmenn á listanum sem eru haldnir and-feminisma eða eru sérlega hlynntir klámi fá heldur ekki mitt atkvæði (suma kannast ég við fyrir en aðrir halda úti bloggsíðum sem fljótlegt er að skanna, meira segja hjá þeim sem þykjast sniðugir og loka þeim). Þá finnst mér ekki góð hugmynd að tekið verði upp persónukjör og mun það ráða úrslitum í einhverjum tilvikum, ekki bara útaf vinsældarkosningunum heldur útaf kynjahlutfallinu. Svo eru það öll þau sem hafa ekki einu sinni rænu á að hafa facebook síðuna sína opna, þau detta sjálfkrafa út.

Hér er gerð tilraun til að hafa yfirlit yfir öll þau sem bjóða sig fram.
— Og þetta framtak Svipunnar er enn betra því þarna koma áherslumál, hagsmunatengsl og starfsferill frambjóðenda fram. Ég mun sökkva mér ofaní þetta á næstunni!

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, október 19, 2010

Vonda fólkið í mannréttindaráði

Það er skemmtilegt að fylgjast með hasarnum sem orðið hefur vegna tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um að girða fyrir heimsóknir presta í leikskóla og grunnskóla og að börn séu ekki send í kirkjur eða kirkjustarf á skólatíma. Fréttablaðsleiðari gærdagsins var eins og í kirkjulegu íhaldsmálgagni og bloggsíður presta og trúmanna eru uppfullar af söngnum um að menningu, samheldni (!) og framtíð þjóðarinnar sé stefnt í hættu.

Í morgun var svo í þessu sama kristilega íhaldsmálgagni viðtal við prest og formenn mannréttindaráðs og velferðarráðs. Þar var einnig yfirlýsing frá SAMFOK samtökum foreldra grunnskólabarna í Reykjavík þar sem segir:
„Stjórn SAMFOK telur að svo stöddu hvorki ljóst að framkomnar tillögur endurspegli vilja meirihluta foreldra né að ákvæði stjórnarskrár kalli á þær.“


Mér þykir athyglisvert að SAMFOK vísi í stjórnarskrána því nú stendur til að endurskoða hana frá A-Ö. Ég hef undanfarið verið að lesa mér til um frambjóðendur til stjórnlagaþings (eða reyndi það framanaf en nú eru víst komin um 500 framboð og mér hefur ekki tekist að halda í við fjölgunina) en í fljótu bragði sýnist mér ellefu manns af 38* hafa aðskilnað ríkis og kirkju sem eitt af áhersluatriðum sínum.

En kannski er SAMFOK að óska eftir því að þessu verði breytt í stjórnarskrá? Vonandi verður það að veruleika.

Svo kom líka fram að:

„Stjórn SAMFOK telur mikilvægt að fram fari markviss umræða skólafólks og foreldra um þessi mál og telur brýnt að skoða vandlega rök með og á móti því að taka með þessum hætti ákvörðunarrétt um innra starf úr höndum skólayfirvalda og foreldra.“


Einhverstaðar var það orðað þannig að hver skóli fyrir sig — þ.e.a.s. hverfisskólinn — mætti bara ráða þessu. Á þá fólk að flytja úr hverfinu til að setja börnin í annan skóla og hvað ef allir nema þrír skólar ákveða að leyfa prestum að boða börnum trú á skólatíma? Verða þá trúlausir foreldrar og þeir sem aðhyllast aðra trú en þá kristnu bara gjöra svo vel og þyrpast allir þangað með börnin? Er sú aðskilnaðarstefna þá betri eða verri en sú að börn séu látin dúsa á bókasafninu meðan skólafélagar þeirra fara í kirkju eða fermingarfræðsluferðir útá land? Og hvað með leikskólana, eru börn trúlausra og ókristinna látin moka sand meðan hin börnin syngja sálma með prestinum sem röltir við með reglulegu millibili?

Ég veit að það flokkast undir aðför að menningu og æsku þessa lands en mér þykir eiginlega að eitt eigi yfir alla ganga og það sé það að öll börn hvort þau eru í leikskólum eða grunnskólum eigi að vera í friði fyrir trúboði. Foreldrarnir hljóta að vera fullfærir um að troða þessari ímynduðu vitleysu í kollinn á þeim utan skólatíma eða vakna á sunnudagsmorgnum til að fara með þeim í barnastarfið í kirkjunni. Óþarft að varpa þeirri stemningu yfir á aðra.

___
* Ég mun skoða alla frambjóðendur áður en yfir lýkur enda er ég vön að vanda val mitt við allar kosningar. En áður en seinasta holskefla frambjóðenda skall á voru komin 67 manns á lista. Þar af hafa 29 engar upplýsingar um stefnumál sín; ýmist kynnti fólk sjálft sig ítarlega og virtist treysta á persónutöfra sína sem frambjóðenda en sleppti að segja neitt meira eða þá að það vísaði á lokaðar facebook síður þar sem vonlaust er fyrir aðra en innvígða (og það eru þrátt fyrir allt ekki allir Íslendingar á facebook) að kynna sér hvaða erindi frambjóðendur telja sig hafa á stjórnlagaþingið. Af þeim 38 sem þó kynntu stefnumálin á læsilegan hátt voru semsé 11 með aðskilnað ríkis og kirkju á oddinum. Það fólk fékk umsvifalaust plús í kladdann hjá mér.

Efnisorð: , ,

laugardagur, október 16, 2010

Karlmenn sem taka ábyrgð á frjósemi sinni

Það er ánægjulegt að komast að því að æ fleiri karlmenn fara nú í ófrjósemisaðgerðir. Allt of mikið er um að konur sem eru í föstu sambandi séu árum og jafnvel áratugum saman að taka hormónalyfið sem kallað er pillan, jafnvel löngu eftir að algerlega er ljóst að ekki stendur til að eignast (fleiri) börn. Margar konur hafa reyndar sjálfar farið í ófrjósemisaðgerðir til þess að losna við að að taka pilluna — því aukaverkanir hennar eru oft talsverðar — en sú aðgerð er talsvert mikið inngrip, krefst svæfingar og þess að farið sé inní kviðarhol konunnar sem aftur getur leitt til sýkinga en þarfyrirutan er auðvitað meira en að segja það að jafna sig eftir skurðaðgerð.

Fyrir karlmenn er ófrjósemisaðgerðin mun minna mál, þó líklega sé hún ekki þægileg frekar en aðrar aðgerðir hvorki meðan á henni stendur né fyrst á eftir. (Aðgerðinni er nokkuð nákvæmlega lýst í Fréttablaðinu).

Ekki eru gefnar upp nákvæmar tölur í blaðagreininni en þó má þar sjá að árið 1995 fóru rúmlega 500 konur í ófrjósemisaðgerðir (en þá fóru innan við 100 karlmenn í slíka aðgerð) og urðu flestar rúmlega 600 árið 1997. Tala þeirra karlmanna sem fóru í aðgerð hefur farið hækkandi og árið 2005 var fyrsta árið sem fleiri karlar en konur fóru í aðgerð; í fyrra voru konurnar á annað hundrað en karlarnir 358. Ekki er gerður greinarmunur á fólki eftir aldri eða hjúskaparstöðu í súluriti blaðsins en fólk mætti sannarlega gera meira af því að fara í ófrjósemisaðgerðir fyrr á lífsleiðinni* heldur en eignast börn sem það langar ekkert í eða hefur ekki burði til að ala upp, bara til þess að falla að samfélagsnorminu.

En hvort sem fólk tekur þessa ákvörðun seint eða snemma á ævinni þá eru það góð tíðindi að til sé nokkur fjöldi karlmanna sem ekki varpar allri ábyrgð á frjósemi sinni yfir á konur.

Karlmenn sem taka ábyrgð er málið.

___
* Flestir þeirra karlmanna sem fara í ófrjósemisaðgerð eru eldri en 35 ára. Til þess að mega fara í slíka aðgerð þarf viðkomandi karl eða kona að vera 25 ára, en engin aldurstakmörk eru til þess að eignast börn, enda þótt sú ákvörðun hafi ekki síður áhrif á allt líf viðkomandi til frambúðar.

Efnisorð: ,

föstudagur, október 15, 2010

Steingrími það sem Steingrími ber

Ég skil að vissu leyti það fólk sem er með lítinn rekstur sem gengur útá slíkan smáaurabisness að því finnist ekki taka því að seilast í kvittanaheftið þegar viðskiptavinurinn borgar fyrir þjónustuna. En þegar fyrirtæki sem eru með fólk í vinnu og tölvur uppá skrifborðum og bókhaldskerfi taka uppá því að bjóða mér nótulaus viðskipti þá finnst mér það öllu verra. Hef ég því tekið upp frasa sem mér finnst vel við hæfi að varpa fram við slík tilefni: Steingrími það sem Steingrími ber.

Eða heldur fólk að það efli heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið og félagslega kerfið með því að svíkja undan skatti?

Efnisorð: , , , , , ,

þriðjudagur, október 05, 2010

Stefnir í óefni?

Ég er aftur komin með kvíðahnút í magann.

Efnisorð: , ,

laugardagur, október 02, 2010

Lífi nauðgara er lokið ef þeir játa

Ég hef verið að velta vöngum yfir þessu viðtali við Valtý Sigurðsson ríkissaksóknara sem DV tók vegna umfjöllunar um kynferðisbrot og þeirrar staðreyndar að aðeins sjö af 130 kærum enda með sakfellingu ogbirtir í bútum á netinu.

„Eitt málið var þess eðlis að fólk var í ástarleik þegar hann setti lim sinn inn í hana. Hún bað hann um að hætta en hann hélt áfram í smástund áður en hann varð við þeirri bón. Í kjölfarið kærði hún hann fyrir nauðgun.
Valtýr segir að vandinn við þetta mál hafi verið að ásetningur hafi ekki verið til staðar. „Hann verður að vita að hann sé að beita hana nauðung. Hann verður að hafa ásetning um nauðgun. Þau eru þarna í ástarleik.“
Valtýr segir einnig: „Þarna játaði hann verknaðinn, en játaði ekki að hafa ætlað að nauðga manneskjunni. Það er heljarinnar munur þar á. Ég er hræddur um að það þyrfti þá að byggja ansi stór fangelsi ef menn ætluðu sér að telja öll svona atvik sem nauðganir og dæma alla. Það væri ekki bara alvarlegt heldur skelfilegt að senda menn á Litla Hraun án þess að þeir viti nokkurn tímann af hverju, hvað þeir gerðu. Þú getur rétt ímyndað þér að eftir svona djamm væri lífi þeirra lokið. Ég þarf ekki að setja mig í spor þessara manna til þess að skilja það. Menn geta bara hugsað það sjálfir, hver fyrir sig. Maður vil ekki búa í þannig ríki.“
Það virðist ekkert vefjast fyrir Valtý að búa í ríki þar sem konur verða fyrir nauðgunum og eiga margar hverjar í miklum sálrænum erfiðleikum árum saman eða jafnvel alla ævi sem afleiðingar þess að einhver karlmaður taldi sig eiga rétt á að taka skrokkinn á þeim til handargagns um stund. Þær eiga líklega bara að taka því eins og hverju öðru hundsbiti.

Valtýr segir líka:
„Þegar kona kærir nauðgun sem aldrei átti sér stað kemur yfirleitt tvennt til. Henni líður illa út af málinu eða það er ágreiningur varðandi það sem gerðist, hvort það telst ólögmæt nauðung, nauðgun eða hvað. Oft fara mál í þennan farveg þegar atburðinum er lokið og hún fær samviskubit. Hugsar kannski með sér: „Hvað segir kærastinn?“, „Hvað var ég að gera?“, „Hvað á ég að segja foreldrum mínum?“ Þá sannfærir hún sig um að þetta hljóti að hafa verið nauðgun. Ég held að í mörgum tilfellum séu þessar stelpur bara ekkert að pæla í þessu. Þetta hljóti bara að vera nauðgun. Þegar foreldrar eða kærasti kemst í málið og þær segja að þetta hafi ekki verið með þeirra vilja eru völdin tekin af þeim og maskínan fer af stað. Allt í einu eru þær komnar upp á Neyðarmóttöku og þær verða að kæra. En þótt foreldrar eða kærasti hafi komist í málið og það sé kært lítum við ekki á það sem rangar sakargiftir.“
Ég hef áður skrifað um hver eftirsóknarvert það er fyrir konur að komast í hinn mikla stuðklúbb sem Stígamót eru og að þær eru til í að ljúga hægri vinstri til að komast þar inn fyrir dyr. En svo er líka mjög líklegt að kona sem skammast sín fyrir kynlíf með karlmanni ákveði að í stað þess að þegja þá bara yfir því þá básúni hún það um allt og sé tilbúin að lýsa samskiptunum í smáatriðum fyrir fjölda manns, af eintómri sektarkennd vegna þess að hún sér eftir kynlífi með karlmanninum.

Svo bendir Valtýr líka á hve ótrúverðugar konur eru hafi þær drukkið áfengi, en minnist ekkert á hve karlmenn bera oft við minnisleysi eða að þeir hafi verið of drukknir til að taka eftir að konan vildi ekki kynlíf með þeim, trúverðugleika karlmanna dregur hann ekki í efa:
„Það getur haft áhrif á trúverðugleika kvenna að þær séu drukknar. Ef þær eru mjög drukknar er það oftast þannig að þær muna verr hvað gerðist og þá er minna að marka það sem þær segjast hafa sagt og gert. Það er eðlilegt. Að sjálfsögðu skiptir það máli hversu drukknar þær eru.“


Fyrst og fremst er ég hugsi yfir því af hverju Valtýr segir svona hluti. Lærði hann ekkert af umræðunni sem spannst þegar Björgvin Björgvinsson þáverandi (og þarafleiðandi fyrrverandi) yfirmaður kynferðisbrotadeildar gubbaði útúr sér álíka kvenfjandsamlegum viðhorfum? Eða er karlveldinu svo mjög í mun að koma konum í skilning um hina réttu skipan hlutanna að hver á fætur öðrum stíga fram karlmenn innan kerfisins til að afhjúpa hvernig kerfið lítur á konur sem hafa orðið fyrir kynferðisbrotum og eru svo frekar að kæra nauðgarana sem á þær hafa ráðist?

Vissulega hafa þessir kyndilberar valdsins stoð í lögum þegar þeir segja að það skipti máli hvað nauðgarinn hugsar áður en hann nauðgar konunni, því að samkvæmt lögum skiptir ætlun meira máli en athöfnin. Fáist karlmaður ekki til að viðurkenna fyrir lögreglu og dómstólum að hann hafi hugsað með sér: „Hér kem ég, nauðgarinn, og ætla að nauðga konu“ þá er eins víst að hann komist upp með athæfið. Honum nægir þá að hafa af gömlum vana litið á konuna sem rétt-ríðanlega* úrþví að hún var nú þarna fyrir framan hann á þessari stundu. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir benti á að í öðrum löndum eru lögin á þá leið að ætlun skipti ekki máli og ég man ekki betur en Atli Gíslason hafi lagt fram frumvarp sem átti að breyta þessu í þá átt.**

En afhverju segir þá ekki ríkissaksóknari að það þurfi að breyta lögunum því að þau bjóði uppá að nauðgarar sleppi séu þeir nógu staðfastir í neitun sinni? Hann virðist allavega samkvæmt viðtalinu tala eins og það sé óumflýanleg staðreynd að ekki sé um nauðgun að ræða nema karlmaður játi að hafa ætlað sér að nauðga.

Og hvernig stendur á því að karl þessi, ríkissaksóknari sem ekki nokkur leið er að losna við úr starfi, lætur útúr sér aðra eins kvenfyrirlitningu og skilningsleysi á mannlegum samskiptum að halda því fram að í hvert sinn sem kona fer heim með manni eða býður honum heim með sér, í hvert sinn sem kona er til í að kyssast smá en er kannski ekki til í meira eða áttar sig á því eftir sem líður á kelerí að hana langar bara ekkert í kynmök*** eða félagsskap karlmannsins yfirleitt á þeirri stundu — þá skuli hún bara gjöra svo vel og gera sér grein fyrir að karlmaðurinn vill sína fullnægingu og engar refjar og hver er hún að ætla að standa í vegi fyrir því?

Kynfrelsi kvenna, þetta nýuppfundna frelsi kvenna til að stunda kynlíf þegar okkur langar, það er líka frelsi okkar til að segja nei takk við kynlífi sem við viljum ekki. Meira segja þegar einhver viðstaddur vill stunda með okkur kynlíf. Það að konu snúist á einhverjum tímapunkti hugur í samskiptum við karlmann og vilji 'skyndilega' ekki ganga lengra, það ætti og á að vera sá tímapunktur þar sem öllum tilraunum í þá átt er hætt. Það skiptir engu hvaða hugsanir fljúga gegnum hausinn á karlmanninum á þeirri stundu, hann hefur engan rétt á því að koma vilja sínum fram við konu sem vill hann ekki. Punktur.

En mikið djöfull sem löggan og ákæruvaldið eru ósammála því.

___
* Sbr. réttdræpur.
** [Viðbót löngu síðar]. Atli lagði fram slíkt frumvarp í félagi við aðra alls fimm sinnum. Fyrst á 135. löggjafarþingi 2007–2008, að lokum, og jafn árangurslaust og áður, á 141. löggjafarþingi 2012–2013. Kjarnann í frumvarpinu má lesa í grein eftir Atla frá 2007 sem lesa má hér.
*** Það kemur oftar fyrir en karlmenn virðast halda að konur vilja ekki samfarir eða aðrar kynlífsathafnir jafnvel eftir ítarlegt kelerí; þeir standa margir í þeirri trú að reki þeir tungu uppí konu tryllist hún úr greddu.

Efnisorð: , , ,