þriðjudagur, janúar 31, 2017

Janúarmánuður 2017

Það hefur sitthvað fleira gerst en Trump.

1.
Fyrsti veðurfréttatími ársins gagnrýndi innflutning frá Kína. Óvænt útspil og gott framtak hjá Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi.

2. (nei þetta eru ekki dagsetningar)
Skýrsla um aflandsfélög var loksins afhjúpuð og jafnframt lygar Bjarna Ben um hana. Önnur skýrsla var líka gerð, nú um hvernig til hefði tekist með stærstu leiðréttingu sögunnar. Henni var einnig leynt. Hún var líka óvenjusmá að vöxtum, aðeins 8 blaðsíður. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans lýsir algjöru frati á skýrsluna en les þó úr henni eftirfarandi niðurstöðu:
„Leiðréttingin er þjóðarskömm. Sú afstaða byggir ekki á ólund, öfund eða almennu stuðleysi. Hún snýst ekkert um vinstri eða hægri, heldur hróplegt óréttlæti.
72,2 milljarðar króna voru teknir úr ríkissjóði og millifærðir til hluta þjóðarinnar – að stærstum hluta þeirra sem áttu eða þénuðu mest – í stað þess að notast í samneysluna. Tvennt gerðist við þetta: ríkir urðu ríkari og aðstæður yngri landsmanna, eignalítilla eða tekjulágra til að koma þaki yfir höfuðið versnuðu til muna. Leiðréttingin var ömurleg millifærsla á fé til að borga fyrir kosningasigur Framsóknarflokksins vorið 2013, með vitund og ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sem kvittaði upp á óréttlætið gegn því að komast í ríkisstjórn, og gegn betri vitund.

Fullyrðingar ábyrgðarmanna um að þetta fé hafi ekki runnið úr ríkissjóði eru rangar. Bankaskattar voru hækkaðir og peningar teknir úr slitabúum og af bönkum inn í ríkissjóð. Þetta eru peningar sem hefðu hvort eð er ratað til ríkissjóðs í ljósi þess að greiðslujöfnuður hefði ekki heimilað erlendum kröfuhöfum að fara með þá úr landi þegar samið var við þá um útgöngu.“
Magnús Guðmundsson er sammála Þórði en segir mjög pent í leiðara
„Engar haldbærar skýringar hafa verið gefnar á þessum töfum [á að birta skýrslurnar um leiðréttinguna og aflandseignir Íslendinga og tap þjóðarinnar af þeim] og því erfitt annað en að horfa til þess að Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, hafi síður viljað fá málin til umfjöllunar í aðdraganda kosninga. Slíkt getur auðvitað ekki talist eðlilegir starfshættir í samfélagi þar sem kjósendur treysta á upplýsingar ákvörðunum sínum til grundvallar.“

3.
Í fyrradag var framið hryðjuverk í Kanada þegar skotárás var gerð í mosku. Sex manns á aldrinum 35 til 70 ára létu lífið og sautján til viðbótar særðust. Hryðjuverkamaðurinn er þjóðernissinnaður aðdáandi Marie Le Pen og Trump. Á sama tíma er Trump handan landamæranna að ærast yfir hryðjuverkaógn sem stafi af múslimum, en allsendis ómúslímskir innfæddir bandarískir karlmenn hafa séð um flestar skotárásir og sprengjuárásir sem drepið hafa og slasað flesta í Bandaríkjunum hingað til (Timothy McVeigh einn og sér drap 168 og særði rúmlega 600 manns). Þeir sem stóðu að baki hryðjuverkaárásinni á Tvíburaturnana árið 2001 voru hreint ekki íslamskir flóttamenn frá Sýrlandi, Íran, Írak, Líbíu, Sómalíu, Súdan eða Jemen, heldur Sádi Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Egyptalandi og Líbanon.

En þetta átti ekki að snúast um Trump. Samt snýst allt um hann þessa dagana, skiljanlega.

4.
Undarleg sending barst til landsins þegar bandarísku dýraverndarsamtökin PETA (e. People for the Ethical Treatment of Animals) sendu 200 pelsa sem ætlaðir voru fátækum. Fyrir það fyrsta er furðulegt að PETA skuli yfirleitt vilja að einhver gangi í loðfeld (ein kenningin er sú að gera eigi pelsa óæskilegri í hugum ríka fólksins, því hver vill vera klæddur eins og fátæklingur?) og svo sú staðreynd að búið var að mála á pelsana (til að ekki væri hægt að selja þá) og þannig hefði verið hægt að sjá á færi að þar væri fátæk manneskja á ferð. Sem væri niðurlægjandi, enda er ekki vaninn að sérmerkja fólk sem er illa statt fjárhagslega. Það er ekki síst truflandi við þessar loðfeldahugmyndir að gyðingar þurftu að ganga með gula stjörnu á sér svo hægt væri að þekkja þá úr. Það endaði á því að örfáir pelsar voru gefnir þeim sem upphaflega áttu að fá þá. Meiri hallærisuppákoman.

5.
Ný ríkisstjórn var mynduð og þessir pistlahöfundar höfðu sitthvað við það að athuga, hver á sinn hátt.

Þórður Snær Júlíusson listar upp verkefni ríkisstjórnarinnar eins og þau koma fyrir í stefnuyfirlýsingu hennar. Skásta fyrirheitið að mínu mati er: „að fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn þurfi að taka upp árlega jafnlaunavottun til að sporna við launamisrétti af völdum kynferðis“.

Agnar Kr. Þorsteinsson er hreint ekki ánægður með þátttöku Bjartrar framtíðar í nýju stjórninni.

Þorvaldur Gylfason skrifar pistil sem heitir „Vitstola stjórnmál “þar sem hann minnir m.a. á að
„Ný ríkisstjórn Íslands er ekki bara skipuð fólki sem hljóp frá skuldum við föllnu bankana í milljarðavís, heldur er hún í þokkabót skipuð ekki færri en þrem eða fjórum ráðherrum af 11 úr röðum Samtaka atvinnulífsins.“

Þess má geta að Torfi H. Tulinius skrifaði um stjórnarmyndunarviðræðurnar flóknu seint í desember og sagði þá einmitt þetta um Viðreisn: „Fréttir herma að stjórnarmyndun hafi siglt í strand vegna þess að ekki var samkomulag um tekjuhlið ríkisfjármála, m.ö.o. um að skattleggja þá efnameiri. Einn af flokkunum sem komu að umræddum viðræðum, Viðreisn, á rætur hjá stóreignafólki og þeim sem starfa fyrir það. Það er því ekki von að hann vilji efla tekjuöflun ríkisins með þessum hætti.“

Illugi Jökulsson skrifaði pistil rétt áður en ríkisstjórnin var mynduð og segist þar vonast til þess að orð Bjarna Benediktssonar um „geðveiki“ verði pólitísk graftskrift hans.

Svo var það hann Páll Magnússon, fyrrverandi fjölmiðlamaður og nýorðinn þingmaður, sem var hrikalega ósáttur við að fá ekki ráðherrastól. Hann hafði reyndar í október 2015 leyft sér að gagnrýna Illuga Gunnarsson sem þá var menntamálaráðherra fyrir spillingu og lygar, og hefði mátt vita að slíkt gerir maður ekki ef maður ætlar sér feit embætti hjá flokknum sem hélt hlífiskildi yfir Illuga. (Ég get því miður ekki vísað í hver rifjaði upp gagnrýni Páls á Illuga og tengdi það við að Páll var svikinn um ráðherrastól, því ég man ekki hver það var.) Svo er bara spurningin hvort Páll verði flokksforystunni óþægur ljár í þúfu í hefndarskyni; þá er óheppilegt fyrir stjórnarflokkana að hafa bara eins manns meirihluta á þingi.

6.
Í dálknum Frá degi til dags í Fréttablaðinu mátti lesa að „meirihluti borgarstjórnar hafi fellt tillögu Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að í Ráðhúsinu yrði boðið dagsdaglega upp á sama mat og leik- og grunnskólabörnum er boðið … En það er vissulega ekki sannfærandi vitnisburður um umhyggju borgarfulltrúanna fyrir börnum okkar, ef þeir bjóða börnunum mat sem þeir sjálfir geta ekki lagt sér til munns.“ Góður punktur.

7.
Þeirri spurningu var varpað fram í pistli eftir landlækni og læknismenntaðan umsjónarmann líffæraígræðsluteymis Landspítala, hvort franska leiðin um ætlað samþykki til líffæragjafar sé skynsamleg fyrir Íslendinga. Þetta er umhugsunarefni.
Hægt er að skrá vilja sinn til líffæragjafar (hver sem hann er) hér og á Heilsuveru.

8.
Látið var til skarar skríða í Öskjuhlíðinni gegn trjám sem höfðu það til saka unnið að teygja sig of hátt upp í himininn. Allt fyrir flugvöllinn – þennan sem á að fara.
(Fjórir pistlar um Öskjuhlíð hafa áður birst á þessu bloggi: 1, 2, 3, 4.)

9.
Mig rak í rogastans þegar ég las frétt um að gyðingahatur fari vaxandi í Póllandi. Í alvöru? Hvað er að ykkur, Pólverjar? Er engin sögukennsla í skólanum hjá ykkur?

En auðvitað eru Pólverjar ekki einir um skort á sögulegri vitund. Og rasismi þekkir engin landamæri. Þetta eru samt alveg stingandi vondar fréttir.

10.
Í ljósi sögunnar hefði getað verið yfirskrift síðustu efnisgreinar en að þessu sinni er verið að vekja athygli á þætti Veru Illugadóttur með þessu nafni. Efni þáttar sem var fyrst fluttur í nóvember síðastliðnum minnir líka á afstöðu Pólverja, svona í ljósi sögunnar.
„Fyrsta þjóðarmorð tuttugustu aldar var framið á árunum 1904 til 1907 af Þjóðverjum í því sem nú er ríkið Namibía í Suðvestur-Afríku, en var þá þýsk nýlenda. Hirðingjaþjóð nokkurri var þá miskunnarlaust slátrað af þýskum hermönnum, þeir látnir veslast upp í brennheitri eyðimörk eða þrælað til dauða í fangabúðum …

Stór hluti hererósku þjóðarinnar hafi safnast saman á sléttunni — þúsundir stríðsmanna með fjölskyldur sínar, konur, börn og gamalmenni — þar sem þeir stóðu í þeirri trú að Þjóðverjar ætluðu að rétta þeim sáttahönd. 

Þess í stað fengu þeir að kenna á mætti þýska hersins og nýjustu evrópsku hernaðartækni. Eftir mikið mannfall úr röðum Hereróa ráku Þjóðverjar svo þá sem eftir lifðu á flótta út í skraufþurra eyðimörkina sem þekur stóran hluta Namibíu. 

Trotha gaf svo skipun um að eyðileggja skyldi eða eitra alla brunna og vatnsból sem gætu orðið á vegi flóttafólksins. Umhverfis eyðimörkina voru reistir varðturna, og hver sá sem reyndi að flýja vatnslausa auðnina var skotinn. Næstu vikur vesluðust þúsundir flóttamanna upp úr hungri og þorsta. Þeir sem lifðu af dauðagönguna í gegnum eyðimörkina og voru teknir til fanga af Þjóðverjum — og voru af einhverjum ástæðum ekki skotnir til bana um leið — voru svo færðir í fangabúðir.“ 

11.
Árleg umræða um listamannalaun fór að mestu framhjá mér enda fátt nýtt sem kemur fram í þessu margþvælda deilumáli. Þó komst ég að því, eftir að hafa pistil Stefáns Snævarr, að fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata, frjálshyggjukonan Erna Ýr Öldudóttir, viðrar fúslega fávitalegar skoðanir sínar á listamannalaunum í Pressunni. Pistill hennar er skemmtileg lesning — í merkingunni hlægileg.

12.
Matvælastofnun hefur tekið upp ný vinnubrögð. Á kúabúi nokkru er illa farið með dýr og bændurnir hafa fengið þá meðferð sem brúneggjaskúnkarnir hefðu átt að fá. Vörslusvipting, fjölmiðlar látnir vita, neytendur vita um hvaða bæ er að ræða. Fyrirtaks vinnubrögð — en auðvitað ekki hjá bóndunum sem afsaka sig út og suður og finnst þeir ekkert hafa farið illa með dýr. Sömu afstöðu höfðu brúneggjamenn, og lýsir í báðum tilfellum algjöru skeytingarleysi um velferð dýra. MAST er þó greinilega að standa sig betur í þessu máli. Sko til.

13.
Lítt er ég gefin fyrir keppnir en þó hugnast mér vel landsleikur í lestri. Lestrarátakið Allir lesa stendur fyrir frá 27. janúar til 19. febrúar og hér er hægt að skrá sig. Ég verð með í anda.

14.
Veganúar og vegan lífstíll hafa fengið góða kynningu í fjölmiðlum (a.m.k. þeim sem ég les) og hér má tildæmis lesa heilt sérblað, grein í Fréttatímanum (reyndar frá í nóvember) o.fl. Þetta er gott lesefni fyrir þau sem eru forvitin um grænkerafæði. Illugi Jökuls er t.d. að spá í að verða grænkeri seinna.

Á móti kom viðtal í Fréttatímanum við þjóðmenningarbónda sem ræðir ítarlega kosti kjötáts. Spes að birta það í veganúar. En kannski bara jákvætt að hafa mótvægi og fleiri hliðar máls.

15.
Talandi um mataræði. Þorbjörn Þórðarson, af öllum mönnum, skrifar leiðara gegn gosdrykkjaframleiðendum sem sífellt rísa upp á afturfæturna þegar bent er á skaðsemi sykurs. Sko hann!

Síðast en ekki síst:

Nú höfum við loksins komist að því að Meryl Street er ofmetin leikkona.

Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

mánudagur, janúar 30, 2017

Áform sem leiða til aðgerða

Hitler skrifaði um áform sín í Mein Kampf. Samt kom öllum á óvart hvaða stefnu hann tók þegar hann komst til valda. Trump var alla kosningabaráttuna að boða einangrunarstefnu, aukin hernaðarmátt, og að draga til baka ýmiskonar mannréttindi sem hart hafði verið barist fyrir, svo fátt eitt sé talið af ömurlegum stefnumálum hans. Margir voru þó vissir um að þetta væri allt í nösunum á honum, bara atkvæðaveiðar, og svo yrði hann örugglega bara fínn forseti. En hann hófst strax handa fyrir tíu dögum þegar hann tók við embætti og eru stefnumálin nú farin að bitna ekki bara á Bandaríkjamönnum í heimalandi sínu heldur fólki um allan heim.

Það er því full ástæða til að staldra við þegar ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra fer fram með yfirlýsingum um hvernig eigi að meðhöndla flóttafólk sem hingað kemur, einsog lesa má t.d. í frétt Stundarinnar. Ekki nóg með það heldur var hún á fundi dómsmálaráðherra og innanríkisráðherra á Möltu og lýst þar yfir „efasemdum fyrir Íslands hönd gagnvart fyrirhuguðum breytingum á Dyflinnarreglugerðinni og áformum um aukna samábyrgð Evrópuríkja vegna flóttamannavandans“ og með því á hún við „afgreiðslu hælisumsókna og áframflutningi hælisleitenda frá þeim ríkjum Evrópu sem taka á móti flestum hælisumsóknum til ríkja sem ekki sæta sambærilegri ásókn hælisleitenda“.

Sömuleiðis er Óli Björn Kárason, einhver ömurlegasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og eru þó margir ömurlegir, með álíka málflutning og Sigríður.

Og nú þegar þau hafa sýnt okkur á spilin sín — ætlum við þá að trúa því að þau séu bara alveg sauðmeinlaus og góðviljuð í garð flóttamanna?

Auðvitað á ekki að líkja neinum við Hitler. Og engum við Trump. Sá fyrri framdi slík voðaverk að fáum er við hann að jafna. Trump ætlar sér vonandi ekkert slíkt, honum nægir líklega bara að gera líf fjölmargra óbærilegt.

Þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins eru auðvitað bara smápeð miðað við svona valdamikla menn. Þó er það nú svo að þetta fólk, sérstaklega ráðherrann, fer með vald sem hefur áhrif á líf annarra, jafnvel fólks í viðkvæmri stöðu. Úrslitavald um líf þess og framtíð. Það vald ætti enginn með skoðanir Sigríðar Á Andersen að hafa.



___
[Viðbót, daginn eftir] Agnar Kr. Þorsteinsson skrifar um sama fólk í fantagóðum pistli.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, janúar 27, 2017

Trump og fóstureyðingar

Það er auðvitað óþolandi og hræðilegt að Trump skuli hafa einhent sér í að brjóta og bramla allskyns góð verk Obama. Eitt var þó fyrirsjáanlegt (en jafn slæmt fyrir því) og það var að hann endurvirkjaði „bann við því að að bandarísku skattfé verði varið til að styrkja samtök sem styðja eða bjóða upp á meðgöngurof“.
„Bandaríkin eru einn stærsti styrktaraðili alþjóðlegra hjálparsamtaka í heimi. Talið er að ákvörðunin hafi afdrifaríkar afleiðingar til að mynda í rómönsku Ameríku, þar sem algengt er að unglingsstúlkur verði óléttar og fjöldi kvenna deyr af barnsförum. Tilskipunin kemur í veg fyrir að samtök sem ráðleggja konum varðandi meðgöngurof og aðrar leiðir til að skipuleggja fjölskyldustærð, geta orðið af stórum hluta þess fjármagns sem þau hafa reitt sig á. Bannið hefur því ekki aðeins þau áhrif að færri konur eigi þess kost að binda enda á meðgöngu. Það getur líka orðið til þess fólk fái síður fræðslu um getnaðarvarnir, barneignir og kynsjúkdóma.“
Ekki nóg með að fjárstyrkir falli niður ef boðið er upp á fóstureyðingar, heldur má ekki segja þeim frá þeim möguleika. Þessvegna er þetta kallað hnattræn þöggun (e. global gag rule).

Það er plagsiður nýkjörinna forseta sem koma úr röðum Repúblikana að setja á þetta bann, (og þegar þeir velja alltaf andstæðing fóstureyðinga sem hæstaréttardómara, í þeirri von að hæstiréttur banni meðgöngurof í öllum fylkjum Bandaríkjanna, því það vilja kjósendur flokksins). En um leið og Demókrati sest í forsetastól afnemur hann bannið. Þannig hefur það gengið milli Bush eldri bannar og Clinton sem afnam það, Bush yngri bannaði og Obama afnam. Engum hefði því átt að koma á óvart að Trumpfíflið hafi bannað aftur.

Og hafi einhver undrast að Trumpfáráðurinn var umkringdur körlum þegar hann skrifaði undir fræðslubannið, þá get ég svosem endurtekið það sem ég hef áður sagt:
„Mikið er það annars ömurlegt að líf og heilsa kvenna sé þrætuepli einhverra karla í Washington og það séu þeirra geðþóttaákvarðanir hvernig konum um allan heim farnast.“
Það er nú heimsins þrautarmein: karlar sem hata konur og vilja hafa stjórn á þeim.


___
[Viðbót, síðar] Pistill Sifjar Sigmarsdóttur vegna þessa máls og áskorun hennar til ráðherra ríkisstjórnar Íslands.

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, janúar 26, 2017

Örlög fjölmiðlahatara

Trump er búið að vera uppsigað við fjölmiðla allt frá því í kosningabaráttunni og hefur greinilega ekkert náð að slaka á síðan. Fyrstu dagana í embætti eru bæði hann og hinn nýi upplýsingafulltrúi Hvíta hússins (það er nú meira gerpið) búnir að vera með stæla og hótanir við fjölmiðla.

Forsetum Bandaríkjanna (og líklega ráðamönnum hvar sem er í heiminum) er ekkert alltaf vel við fjölmiðla, ágengar spurningar og afhjúpanir á því sem leynt átti að fara. Hann Obama minn lagði reyndar á síðasta blaðamannafundi sínum í Hvíta húsinu áherslu á mikilvægi þess að fjölmiðlar veiti forsetaembættinu aðhald og sagðist vera ánægður með þá, þótt hann hafi ekki alltaf verið sáttur við það sem þeir sögðu um sig. Hann fer enda úr embætti með sóma og sann. Það sama má ekki segja um Nixon, en fáir hafa lagt jafn mikla fæð á fjölmiðla og hann.

Löngu áður en Nixon varð forseti var hann orðinn svarinn óvinur fjölmiðla og það skánaði sannarlega ekki þegar hann varð forseti. Hann lét hlera síma fréttamanna og hótaði að svipta fjölmiðla útsendingarleyfi; sagt er að menn á hans vegum hafi haft í hyggju að myrða dálkahöfund nokkurn. Sömu menn lögðu á ráðin og létu brjótast inn í Watergate. Enda þótt Nixon reyndi að ljúga því framan í bandarísku þjóðina að hann væri ekki skúrkur endaði hann á að segja af sér, en þó ekki fyrr en harðskeyttir blaðamenn Washington Post höfðu flett ofan af honum.

Nýjasti forsætisráðherra Íslands hefur oftlega byrst sig við fjölmiðla (auk þess að neita þeim um að sjá skýrslur og ljúga að þeim) en það er þó ekkert á við þarsíðasta forsætisráðherra. Sjálfan Sigmund Davíð. Hann var búinn að vera einhverjar þrjár vikur í forsætisráðuneytinu þegar hann skrifaði í blöðin og kvartaði undan loftárásum fjölmiðla á sig. Og það var allt niður á við eftir það. Undir lok forsætisráðherratíðar sinnar (og upphafið að endalokunum) var dæmalaust sjónvarpsviðtal þar sem hann bæði laug og rauk út, og hefur æ síðan litið á viðtalið — sem flestum þótti afar upplýsandi — sem skærustu birtingarmynd samsæris gegn sér. Og hefur ekkert bakkað með þá skoðun sína.

Ljósið í myrkrinu er því þetta.

Nixon hataði fjölmiðla og varð að segja af sér.

Sigmundur Davíð hatar fjölmiðla og varð að segja af sér.

Trump hatar fjölmiðla. Hann er skúrkur eins og hinir. Það er bara tímaspursmál hvenær fjölmiðlar afhjúpa hann með einhverjum hætti — og hann mun verða að segja af sér.


Efnisorð: , ,

miðvikudagur, janúar 25, 2017

Ráðherra mannréttinda

Einhverra hluta vegna hafði ég ekki fattað að þegar Sigríður Á. Andersen varð dómsmálaráðherra að jafnframt féllu undir hana málefni mannréttinda. Það var ekki fyrr en ég sá pistil á Stundinni sem þessi fjarstæðukennda staðreynd rann upp fyrir mér.

[Hér var tekin út ósmekkleg samlíking þar sem Mengele og heilbrigðisráðuneytið voru í sömu setningu.]

Pent orðað: Manni gæti nú blöskrað.



Efnisorð: , ,

þriðjudagur, janúar 24, 2017

Stefnuræða Bjarnabófans og umræður um hana

Bjarni Benediktsson sem því miður er orðinn forsætisráðherra — þrátt fyrir að vera í Panamaskjölunum, leyna skýrslu um þau og ljúga um hana að auki — flutti stefnuræðu sína í kvöld.

Bjarni vitnaði tvívegis í Tómas Guðmundsson. Nú þyrfti einhver ræðurýnir að geta svarað mér því hvort Bjarni sé vanur að vitna í skáld í ræðum sínum, eða hvort telja megi þetta áhrif frá ræðum Guðna Th. sem fer um víðan völl í sínum ræðum og vitnar jafnt í virt skáld sem poppara. Katrín Jakobsdóttir benti reyndar á, í sinni ræðu (þar sem hún vitnaði í 21. aldar skáldið Kött Grá Pje), að kvæði Tómasar er
„frá fjórða áratug síðustu aldar því að stjórnarsáttmálinn er um margt í besta 1920-stíl, kannski táknrænt að hann er undirritaður af þremur karlmönnum þrátt fyrir batnandi kynjahlutföll á þingi“.
Bjarni sló sér reyndar upp á Bríeti Bjarnhéðinsdóttur jafnvel þótt hann sé í forsvari fyrir flokk sem treystir ekki konum til valda. Aukinn hlutur kvenna fer fram í ræðustól þegar Svanhildur Hólm skrifar ofan í Bjarna ræðurnar. Fingraför hennar eru mjög áberandi þegar talað er um unglinga í tilvistarvanda, flókinn heim íslenskra fjölskyldna og jafnvægið milli vinnu og einkalífs.

Ræðan fór þó verulega út af sporinu þegar Bjarni fór að tala um heilbrigðiskerfið.
„Sterkar vísbendingar eru um að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar um að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif. Ríkisstjórnin hefur með stefnuyfirlýsingu sinni gert heilbrigðismál að forgangsverkefni … Áskoranir í heilbrigðisþjónustu eru margar. Við leysum þær ekki allar með nýju fjármagni. Til þess er fjármagnið af of skornum skammti.“
Hughrifin að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé ekki tryggt. „Hughrif“ sem reyndar eru staðfest með tölulegum staðreyndum, fjölmennri undirskriftarsöfnun en ekki síst fjölmörgum reynslusögum starfsmanna heilbrigðiskerfisins og sjúklinga.

Katrín Jakobsdóttir hjó einnig eftir þessu með hughrifin (frábær ræða hjá henni að vanda) og sagði:
„Hughrifin birtast líklega í 86.000 undirskriftum frá Íslendingum sem kröfðu stjórnmálamenn um aukin framlög til heilbrigðismála. Hughrifin birtast í því að greiðsluþátttaka sjúklinga hér á landi er umtalsvert meiri en annars staðar á Norðurlöndum á sama tíma og skortir fjármuni til að tryggja mönnun og viðunandi aðstæður. Og ætli það skapi ekki líka ákveðin hughrif að í tíð núverandi hæstv. forsætisráðherra í fjármálaráðuneytinu lækkaði skattbyrðin á tekjuhæstu hópana og þyngdist á aðra hópa. Sumir myndu reyndar kalla þetta staðreyndir fremur en hughrif.“
Mikla áherslu lagði Bjarni á menntamál — en ekkert um 25 ára aldursþakið sem skerðir aðgengi að námi, eins og Katrín benti á:
„Við þurfum að tryggja að framhaldsskólarnir okkar geti opnað dyr sínar fyrir öllum aldurshópum ólíkt því sem verið hefur og tryggt fjölbreytt nám sem mætir þörfum nemenda.“
Og hún gagnrýndi að sjálfsögðu að ætlunin sé að
„fresta nauðsynlegri eflingu velferðar og menntakerfis, það á ekki að byggja meira upp en rúmast innan hagsveiflunnar. Það má ekki afla aukatekna til að byggja upp aðþrengt velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Undir þetta er kvittað í ræðu hæstv. forsætisráðherra þegar hann segir: Fjármagnið er af of skornum skammti.“
Skemmtiatriði kvöldsins voru freudísk mismæli Bjarna þegar hann ætlaði að tala um loftslagsmál og Parísarsamkomulagið, en sagði: „Í aðgerðaáætlun í tengslum við Panama — Parísarsamkomulagið“.

Sorglega ræðan var varnarræða Óttars Proppé. Aumkunarvert.


Efnisorð: , , , , , ,

fimmtudagur, janúar 19, 2017

Obama kvaddur

Barack Obama hefur verið góður forseti. Hann hefur ekki náð að gera allt sem hann vildi, hann hefur gert sumt þveröfugt við það sem hann sagði sjálfur en að mestu leyti hefur hann verið til sóma. Hann getur auðvitað ekki annað en litið vel út í samanburði við fyrirrennara sinn, fáráðinn George Bush yngri. Hvað á sé hann borinn saman við stórhættulega klikkhausinn sem tekur við af honum á morgun, enda hafa vinsældir Obama aukist undanfarið, nú þegar fólk sér hvað við blasir og hvers verður að sakna.

Þegar Obama tók við embætti forseta Bandaríkjanna fyrir átta árum lagði hann mikla áherslu á að:
- Bæta aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu
- Kalla bandaríska hermenn heim frá Írak
- Loka fangabúðunum í Guantanamo. 
- Gera úrbætur í innflytjendamálum
- Herða reglur um fjármálamarkaði
- Auka samvinnu þvert á flokka

Innflytjendamálin hef ég ekki sett mig inn í og ekki veit ég hvernig honum gekk með að herða reglur á fjármálamarkaði, en hann hefur sjálfur viðurkennt
„honum hafi mistekist að brúa þá gjá sem myndast hafi milli stjórnmálaflokka í Bandaríkjunum. Heift og vantraust milli flokka hefur versnað, sagði Obama.“
Annað sem mistókst var að loka Guantanamo. 245 manns voru þar í haldi þegar Obama varð forseti og hann mætti mikilli andstöðu þingsins við að uppfylla þetta loforð sitt. Mörgum var þó sleppt í hans tíð og eru nú 55 eftir í Guantanamo.

Írak og hernað Bandaríkjanna yfirleitt þarf að ræða alveg sér. Eitt af því sem við getum aldrei skilið, hér í herlausu landi, er hin fáránlega hernaðardýrkun Bandaríkjanna. Obama er ekki saklaus af stríði en hann hefur aðallega verið að reyna að bakka útúr þeim stríðum sem Bush yngri kom af stað í Afghanistan og Írak snemma á öldinni. Ein afleiðing Íraksstríðsins er uppgangur Daish/Íslamska ríkisins, og hernaðarmætti Bandaríkjanna hefur verið beitt í baráttunni við það, og eru drónaárásirnar óhugnanlegu partur af þeim hernaði.

En þetta hefðu sennilega allir forsetar Bandaríkjanna gert (líka Hillary Clinton). Það var semsagt ekkert sérlega heppilegt að veita Obama friðarverðlaun Nóbels þegar hann var nýtekinn við embætti, og ekki virkar sú ákvörðun neitt gáfulegri núna.

Burtséð frá stríðsbröltinu þá hefur Obama verið feikna góður forseti. Honum hefur ekki tekist að gera allt sem hann ætlaði sér, eða ekki á þann veg sem hann ætlaði sér. Þannig varð ACA (e. Affordable Care Act) sem allajafna er kallað Obamacare ekki eins og til var ætlast, því þingið (les: Repúblikanar) lögðust gegn því að öllu afli. Og þeir hafa haft meirihluta í þinginu. Það varð því að semja um aðra niðurstöðu í málinu, kerfið varð ekki jafn fullkomið og lagt var upp með. (Svo hneykslast andstæðingar Obama á því að hann hafi ekki uppfyllt loforðin um hvernig kerfið átti að virka.)

Jón Ólafsson ræðir þessa stöðu Obamacare í pistli:
„Heilsugæsluumbætur Baracks Obama eru í senn dæmi um hvað honum hefur tekist og mistekist í valdatíð sinni. Heilsugæslufrumvarpið fór vissulega í gegnum þingið og það hefur staðist árásir andstæðinganna síðan – þar á meðal umfjöllun Hæstaréttar um einstök atriði þess. En niðurstaðan er fjarri því sem Obama lofaði í kosningabaráttunni. Tvö mikilvæg atriði eru fallin út: Í fyrsta lagi er ekki komið á neinu almenningstryggingakerfi. Einstaklingar verða eftir sem áður að semja við einkaaðila, sem þar með ráða lögum og lofum um verðlagningu trygginga. Í öðru lagi hafa lyfjafyrirtæki eftir sem áður forréttindastöðu gagnvart ríkisvaldinu um verðlagningu á lyfjum. Verulegar hömlur eru á svigrúmi ríkisins til að semja um verð við lyfjafyrirtækin, sem í raun geta ákveðið það upp á sitt einsdæmi – þó var þetta eitt af því sem Obama lýsti skýrt yfir að hann myndi breyta í kosningabaráttu sinni.

Ástæðan fyrir því að þessi mikilvægu atriði hafa horfið úr umbótaáætlun forsetans er einfaldlega sú að í þeim samningaviðræðum sem nauðsynlegar voru til að tryggja nægan stuðning á þingi við frumvarpið um heilsugæsluumbætur hafði heilsutrygginga- og lyfjaiðnaðurinn nógu sterka stöðu til að geta komið þeim út. Þannig þurfti Obama að beita nákvæmlega þeim aðferðum sem hann fordæmdi til að ná árangri í þessum málaflokki og niðurstaðan ber keim af því, hagsmunir stórfyrirtækjanna eru tryggðir – á kostnað hins almenna borgara að sjálfsögðu.“
Samt sem áður breytti Obamacare miklu fyrir mikinn fjölda fólks sem áður hafði ekki aðgang að heilbrigðiskerfinu. Ef almennilegur forseti tæki við af Obama væri enn hægt að bæta kerfið, og þá yrði þetta bara fyrsti áfanginn í átt að alvöru almannatryggingakerfi.

Jón nefnir þarna stórfyrirtækin. Þau koma víðar við sögu. Engin(n) verður forseti Bandaríkjanna nema fá mikinn fjárhagslegan stuðning frá einstaklingum og stórfyrirtækjum — sem eiga svo til að innheimta greiðann síðar. Eflaust eru til mörg dæmi um það í forsetatíð Obama en eitt þykir mér blasa við. Það var þegar hann veitti „olíufélaginu Shell heimild til að bora eftir olíu á heimskautasvæðinu á Tjúktahafi“ og sagði að „farið yrði eftir ströngum skilyrðum“, en „umhverfisverndarsamtök hafa gagnrýnt þessa ákvörðun forsetans í ljósi yfirlýsinga hans um viðbrögð við loftslagsbreytingum og sakað hann um hræsni.” 

Eitt má þó Obama eiga, og það er linnulaus gagnrýni hans og barátta gegn skotvopnabrjálæðinu. Ótal skotárásir hafa verið framdar og í hvert sinn heldur hann hjartnæma ræðu og biðlar til þjóðarinnar að taka sönsum, herða þurfi löggjöf um skotvopn. Hann hefur bent á að hann einn geti ekki breytt þessu, til þess þurfi stuðning ríkisstjóranna, þingsins og kjósenda. Allt kemur fyrir ekki. Aðeins tíu ríki banna fólki að bera skotvopn en í fjölda ríkja má fólk ganga vopnað um göturnar og er misjafnt hvort fólk þarf yfirleitt leyfi fyrir vopnunum. Þetta er náttúrlega algjör bilun.

Að jákvæðari málum þar sem vissulega hafa orðið breytingar til batnaðar. „Obama skrifaði undir lög um jöfn laun karla og kvenna og afnam skilyrði, sem Reagan setti upphaflega, um að ekki mætti styðja fjölskylduráðgjöf ef hún fæli í sér jákvæða afstöðu til fóstureyðinga (e. global gag rule). Hann hefur hvatt til jafnréttis, og leggur þar að jöfnu kvenréttindabaráttu, baráttu blökkumanna og baráttu samkynhneigðra fyrir réttindum sínum.“

„Í maí 2012 lýsti Obama sig fylgjandi því að hjónabönd fólks af sama kyni yrðu lögleg.“ Og með úrskurði hæstiréttar Bandaríkjanna varð það úr, og nú geta samkynja pör gengið í lögformlegt hjónaband.

Obama dreif í því að opna að nýju sendiráð á Kúbu og fór svo þangað í heimsókn, og hafði þá ekki starfandi forseti Bandaríkjanna komið þangað í tæpa öld, eða allt frá heimsókn Calvin Coolidge árið 1928.

Obama braut einnig blað í sögu Bandaríkjaforseta þegar hann varð sá allra fyrsti til að heimsækja ríkisfangelsi. „Hann hefur stytt fangelsisdóma fjörutíu og sex fanga og segir nauðsynlegt að endurskoða refsistefnu í Bandaríkjunum, sem ræni fólk tækifærum og bitni sérstaklega á fólki sem ekki er hvítt.“ Kynþáttamál voru reyndar mjög áberandi í forsetatíð Bandaríkjanna en það er eins og lögreglan hafi tvíelfst í ofbeldi sínu gegn svörtum (ungum karlmönnum sérstaklega) og kom ítrekað til uppþota vegna þessa. Obama er sér meðvitaður um misrétti sem bitnar á fátækum og svörtum íbúum landsins, og ræddi það þegar hann heimsótti New Orleans þegar minnst var hörmunganna þegar fellibylurinn Katrín gekk yfir.
Obama sagði í ræðu sinni að fellibylurinn hefði opinberað misréttið sem hafði gerjast í áratugi. „New Orleans hefur í áratugi verið illa haldin af ójöfnuði,“ sagði forsetinn. „Ójöfnuði sem hefur skilið of margt fólk, sérstaklega fátækt fólk og svarta, eftir atvinnulaust eða án heilsugæslu eða góðs húsnæðis. Of mörg börn hafa alist upp umkringd ofbeldisglæpum þar sem þeim hefur boðist slæm menntun og fá þeirra hafa haft tækifæri til að brjótast úr viðjum fátæktar.“
Ein af síðustu ákvörðunum Obama í embætti var að stytta fangelsisdóm Chelsea Manning svo að hún situr aðeins í fangelsi þar til í maí, en átti eftir að dúsa þar í u.þ.b. 28 ár hefði ekkert verið að gert. (Því miður eru einhverjar líkur á að Trump snúi ákvörðuninni við.)

Obama tók líka afstöðu með þolendum kynferðisofbeldis þegar hann fordæmdi hegðun Bill Cosby sem ásakaður er um að hafa nauðgað fjölda kvenna.
„Ég skal orða þetta svona,“ sagði forsetinn. „Sá sem gefur konu eða karlmanni lyf og hefur síðan samræði við viðkomandi án samþykkis fremur nauðgun. Ég tel að enginn í þessu landi eða öðru landi í hinum siðmenntaða heimi ætti að umbera nauðgun.“
Þegar Barack Obama tók við embætti forseta Bandaríkjanna fyrir átta árum sagði ég:
„Obama verður kannski ekki eins farsæll og ég myndi óska. Hans bíða hrikalega erfið verkefni: að greiða úr hryðjuverkastríðum Bush stjórnarinnar og takast á við efnahagsvandann sem er upphafið að heimskreppu, ef svo fer sem horfir. Líkurnar á að hann svífi átakalaust gegnum forsetatíð sína og styggi engan eða geri ekkert sem hægt er að átelja hann fyrir af einhverjum aðilum eru mjög litlar.“
Völva Vikunnar hefði ekki getað orðað þetta betur.

Það skiptir auðvitað mestu hvernig forsetinn stendur sig í starfi, hvort hann gerir meira gagn en ógagn. Ég er á því að Obama hafi gert meira gagn (er ekki að hugsa um hernaðinn hér) því hann hefur verið málsvari minnihlutahópa — séð óréttlætið sem þeir eru beittir — og gert meira en margir fyrirrennarar hans til að auðvelda löndum sínum lífið og draga úr óréttlæti.

Svo hefur það líka verið mikill kostur að hann er einstaklega vel máli farinn, fyndinn, flottur í tauinu og glæsilegur á velli, og yfirhöfuð hrikalega kúl og töff. Ekki spillir fyrir að hann er einstaklega vel giftur. (Michelle er alveg kapítuli útaf fyrir sig og aðdáun mín á henni hefur vaxið mjög.) Það er því einstaklega vond tilfinning að arftaki hans í embætti sé þetta svín sem ætlar að snúa öllu á haus og gera Bandaríkin verri en þau nú eru.

En semsagt, Barack Obama fær bestu einkunn og verður sárt saknað. Það er hreinlega alveg ferlegt að hann sé að hætta.

Efnisorð:

miðvikudagur, janúar 18, 2017

Horfst í augu við samfélagslegar staðreyndir

Nú biðji
sem biðja,
nú óski
sem óska,
nú voni
sem vona,

nú hugsi allir
þá hlýju hugsun,
þá einu ósk,
þá bæn og von
sem býr með
smárri þjóð.
Þessar línur, sem lesa má í leiðara Fréttablaðsins í dag, eru eftir Guðmund Brynjólfsson. Tilefnið er augljóst.

Magnús Guðmundsson skrifar leiðarann, og vegna þess að ég veit að ekki lesa allir Fréttablaðið þá ætla ég að stelast til að birta hann allan hér. Svo frábær þykir mér hann.
„Þjóðin heldur niðri í sér andanum vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur sem hefur verið saknað frá því snemma á laugardagsmorgun. Hugur þjóðarinnar er hjá Birnu og ástvinum hennar. Þegar þessi orð eru skrifuð er enn óvíst um afdrif þessarar ungu og hraustu stúlku í blóma lífsins. „Nú biðji sem biðja, nú óski sem óska, nú voni sem vona, / nú hugsi allir þá hlýju hugsun, þá einu ósk, þá bæn og von sem býr með smárri þjóð.“ Þessar línur sem hér eru birtar í breyttri uppsetningu orti Guðmundur Brynjólfsson, rithöfundur og djákni á Eyrarbakka, og deildi á Facebook-síðu sinni í gær og undir þetta getum við öll tekið. Við vonum, biðjum, óskum.

En við, þessi smáa þjóð, þurfum líka að finna með okkur hugrekki til þess að horfast í augu við samfélagslegar staðreyndir. Horfast í augu við það að við óttumst að Birna Brjánsdóttir hafi mögulega verið fórnarlamb ofbeldis af hálfu karlmanna. Horfast í augu í við það að það er hættulegt að vera kona í heiminum og líka á Íslandi. Það er hættulegt fyrir konur að vera einar á ferð að næturlagi í miðborg Reykjavíkur. Það getur verið hættulegt fyrir konur að fara í samkvæmi, á útihátíðir og skemmtistaði. Hættulegt að kynnast manni á netinu eða að fara á stefnumót. Hættulegt að klæða sig eins og kona vill klæða sig. Það er hættulegt að vera kona vegna þess að ofbeldið er alls staðar og valdbeiting karlmanna inngróin í samfélagsgerðina í gegnum aldirnar. Hér sem annars staðar. Í dag sem fyrr.

Auðvitað eru ekki allir karlmenn ofbeldismenn, langt því frá. En það breytir ekki þeirri staðreynd að líkurnar á því að kona verði fyrir ofbeldi karls er langlíklegasta tegund mögulegs ofbeldis sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir. Það er óásættan­legt með öllu. Og þó svo að við sem lítil þjóð getum kannski ekki breytt heiminum, þá getum við breytt samfélagi okkar til hins betra og verið öðrum þjóðum fyrirmynd.

Ábyrgðin af því að framkvæma þessar breytingar liggur fyrst og fremst hjá okkur karlmönnum. Okkur sem erum afkomendur þessa hugmyndaheims, þessa karllæga valds hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Konur hafa lengi talað um vandann og sumir karlar veitt þeim liðsinni en til þess að sigrast á þeim fjanda sem ofbeldið er þá þurfa allir að leggjast á eitt. Við þurfum að margfalda fræðslu og forvarnir til allra aldurshópa og virkja til þess allar mögulegar leiðir. Við þurfum að heyja þessa baráttu með öllum tiltækum ráðum á öllum vígstöðvum og til þess þarf hvert og eitt okkar að taka ábyrgð á sinni orðræðu og hegðun í dagsins önn án undantekninga.

Það er löngu tímabært að við sem þjóð útrýmum kynbundnu ofbeldi á Íslandi og sendum veröldinni skýr skilaboð um að slíkt sé ekki látið þrífast hér. Að hér búi kærleikur og mannvirðing og að ofbeldi sé ekki, aldrei nokkurn tíma, liðið. Það er hægt ef vilji og úthald er fyrir hendi. Til þess að þetta sé gerlegt þurfum við að halda í þessa hlýju hugsun, þá einu ósk, þá bæn og von sem býr með smárri þjóð.“

Hafi þeir Magnús og Guðmundur þökk fyrir.

fimmtudagur, janúar 12, 2017

Engeyjarstjórnin: ráðherravalið

Ekki nóg með að mér finnist hræðilegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé enn og aftur kominn í ríkisstjórn, nú meira segja með forsætisráðuneytið og meirihluta ráðuneyta, heldur eru ráðherrar þessarar nýju ríkisstjórnar margir hverjir alveg síðasta sort.

Hver hefði trúað að Jón Gunnarsson yrði ráðherra? Hann hefur verið gerður að ráðherra samgöngumála, byggða- og sveitastjórnarmála, þrátt fyrir að vera asni á öllum sviðum.

Stundin gerði ágæta úttekt á nýju ráðherrunum og rifjaði þá þetta upp.
„Jón Gunnarsson, hefur setið á þingi frá árinu 2007, og er sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur fengið hæstu styrki frá útgerðinni. Á þingi hefur hann lagt áherslu á að skapa sjávarútvegsfyrirtækjum langtímaöryggi, einfalda veiðigjaldakerfið og sagt að það sé óráð að markaðurinn ráði ferðinni við útreikning veiðigjalda. Þá hefur hann lagst eindregið gegn uppboðsleiðinni á kvóta.
Hann var formaður atvinnuveganefndar þegar meirihluti nefndarinnar ákvað að bæta fjórum virkjanakostum við þingsályktunartillögu um Hvammsvirkjun í nýtingarflokk, þvert á niðurstöður rammaáætlunar. Áður hafði hann reynt að bæta átta virkjunarkostum við tillöguna en bakkað vegna mótstöðu sem hann mætti á þinginu.“
Stundin nefnir það ekki en Jón hefur beitt sér mjög fyrir hvalveiðum en sonur hans gerir út á hvalaveiðar.

Sigríður Á. Andersen er orðin dómsmálaráðherra. Ég fæ flog. Sigríður er andfeministi og stæk frjálshyggjumanneskja. Hún er á móti kynjakvótum — en sér líklega ekki kaldhæðnina í því að vera tekin fram yfir karlmann með meiri þingreynslu sem var ofar en hún á framboðslista, bara vegna þess að það vantaði konur í ráðherralið Sjálfstæðismanna — hvað þá að hún afþakki að verða ráðherra við þær kringumstæður.
Stundin segir enda að hún sé
„hörð frjálshyggjukona og er einn hægrisinnaðasti ráðherra sem setið hefur á Íslandi … Hún var einn af stofnendum frjálshyggjumiðilsins Vefþjóðviljans og sat um árabil í stjórn félagsins. Sigríður sagði tækifæri til einkavæðingar felast í fjöldauppsögnum hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum vegna bágra launa. Hún lagðist einn þingmanna gegn stofnun Jafnréttissjóðs Íslands með þeim orðum að tillagan væri vonbrigði og ekkert annað en „enn eitt ríkisútgjaldamálið.“ Í umræðum um virðisaukaskatt sagði hún að of mikil áhersla væri lögð á mat, því helst ættum við „ættum við kannski öll að kaupa aðeins minna af mat.“ Hvatti hún til þess að horft yrði á stóru myndina og hætt „að fókusera á mat“.

Guðlaugur Þór Þórðarson. Styrkjakóngurinn sjálfur er aftur orðinn ráðherra. Núna utanríkis. Þá verður hann yfirmaður Geirs H. Haarde sendiherra í Bandaríkjunum. Muniði hið svokallaða hrun?

Og talandi um hrun, spillingu og afturgengna ráðherra. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, kúlulánadrottningin sjálf er orðin Sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra. Hvaða starfi ætli Kristján Ari gegni núna? Ætli það sé búið að bjóða honum eitthvað vel launað djobb með miklum fríðindum, svo hægara sé um vik að fá gott veður hjá ráðherranum eins og síðast?

Auðvitað er það svo algjört hneyksli að Bjarni Ben skuli vera orðin forsætisráðherra. Vorum við ekki síðastliðið vor að losa okkur við annan forsætisráðherra úr Panamaskjölunum? Ég veit ekki hvort alþjóðapressan lítur á þetta sem hneyksli eða aðhlátursefni, aðallega er þetta bara sorglegt.

Einu kostirnir við ríkisstjórnina eru að Jón Gunnarsson er ekki sjávarútvegsráðherra, Sigríður Andersen er ekki heilbrigðis- eða félagsmálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson (fv. framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda) er ekki umhverfisráðherra, og Brynjar Níelsson er ekki ráðherra yfirhöfuð.

Efnisorð: , , , , , ,

þriðjudagur, janúar 10, 2017

Engeyjarstjórnin

Tilkynnist: Blogg þetta er stjórnarandstöðublogg.

mánudagur, janúar 09, 2017

Hvernig komast skal til valda með því að hlífa kjósendum við upplýsingum og tala um lygar sem ónákvæmni

Óttarri Proppé finnst vera á ákveðinn grundvallarmunur á því að Sigmundur Davíð leyndi kjósendur upplýsingum um Wintris og því að hann væri kröfuhafi og því að Bjarni Ben faldi skýrsluna. Því er ég ósammála. Enda földu þeir upplýsingarnar af sömu ástæðunni: upplýsingarnar hefðu getað fælt kjósendur frá að kjósa þá. Auðvitað hefði fullt af fólki samt kosið þá, kjarnafylgið hefði ekki kippt sér upp við þetta frekar en annað, en það munar um hvern kepp í sláturtíð.

En kom þá eitthvað nýtt fram í skýrslunni, það vissu jú allir þegar kosið var í haust að Bjarni væri í Panamaskjölunum (sem virðist vera afsökun Óttarrs Proppé fyrir að halda ótrauður áfram að berja saman ríkisstjórn með Bjarna).

Bjarna tókst að mörgu leyti að fjarlægja sig umræðunni um Panamaskjölin (ekkert í gangi hér) og í kosningabaráttunni sagði hann fólk vera orðið þreytt á að ræða þau. Talaði svo bara um annað. Og reyndar var „umræðan um eignir Íslendinga í aflandsfélögum í algjöru lágmarki fyrir kosningar“, einsog Magnús Guðmundsson bendir á í leiðara sínum í dag. En hefði skýrslan verið nýkomin út og allir fjölmiðlar að ræða hinar gríðarlegu fjárhæðir sem hafa sogast úr íslensku efnahagslífi og setja í samhengi við fjársvelti heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, vegakerfisins o.sfrv., þá er hætt við að Bjarni hefði átt í meira basli við að veifa meintum góðum árangri sínum í efnahagsstjórn landsins. Það hefði kannski einhver getað brigslað honum um þvætting, fyrirslátt og pólitík hefði hann ekki verið búinn að salta skýrsluna.

Ritstjórn Kjarnans hefur lengi gengið hart eftir því að fá að sjá skýrsluna og Þórður Snær Júlíusson aðalritstjóri var í viðtali við Ríkisútvarpið í dag, eftir að í ljós hafði komið að Bjarni laug til um hvenær skýrslan var tilbúin (og baðst svo síðar afsökunar á
að „þetta var kannski ekki nákvæm tíma­lína“ hjá honum, orðalag sem almannatenglar sátu eflaust sveittir við að berja saman).

Starfshópur skilaði skýrslunni 13.september og var hún kynnt fjármálaráðherra þegar rúmar þrjár vikur voru til kosninga. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, sagði á Morgunvaktinni að ljóst væri að Bjarni hafi setið á skýrslunni, sem honum var kynnt á meðan þingið starfaði enn og efnahags- og viðskiptanefnd hélt sína fundi. Skýrslan hafi átt mikið erindi við almenning í aðdraganda kosninga sem boðað var til vegna aflandsfélagamála.

„Og ekki nóg með það, eins og allir vita sem horfðu á fréttir um helgina, þá var verðandi forsætisráðherra uppvís að því að segja ósatt. Hann sagðist ekki hafa séð skýrsluna fyrr en þingi hafði verið slitið.“

Eftir að fram hafi komið að skýrslan hafi verið tilbúin 13.september og ráðherra hafi verið kynnt honum 5.október, þá hafi hann beðist afsökunar á þessari „ónákvæmni“ sinni.

„Ónákvæmni er í þessu tilfelli bara fínt orð yfir það að segja ósatt,“ sagði Þórður Snær.
Ritstjórinn skrifaði fyrir tveimur dögum einn af sínum feiknagóðu pistlum í Kjarnann, og valdi honum titilinn „Fólkið sem stal frá okkur hinum“, og sagði þá meðal annars þetta.
„Skýrslan er mögnuð lesning. Þar kemur meðal annars fram að uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum hafi líkast til verið að minnsta kosti 580 milljarðar króna (og allt að 810 milljarðar króna) á árunum 1990 til 2015. Að 1.629 aflandsfélög hafi fengið íslenska kennitölu vegna banka- og hlutabréfaviðskipta. Að Íslendingar séu fjórum sinnum líklegri en Danir til að eiga aflandsfélag og að tekjutap hins opinbera nemi líklega um 56 milljörðum króna á árunum 2006 til 2014. Á hverju ári bætist við tap vegna vantalinna skatta sem er á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna. Þessi hópur Íslendinga sem ákvað að greiða ekki sitt til samneyslunnar hefur því haft af okkur öllum hinum sem þiggjum laun og greiðum óhjákvæmilega skatta, marga tugi milljarða króna. Það eru peningar sem þeir hafa stungið í vasann.

En hvaða hópur er þetta? Í skýrslunni segir: „Þeir Íslendingar sem hafa verið í aðstöðu til þess hafa frá fornu fari sumir hverjir leitað leiða til þess að flytja fé úr landi, ýmist til þess að forðast skattgreiðslur, leyna auðlegð sinni eða firra sig þeirri gengisáhættu sem fylgir íslensku krónunni.“
Þetta eru að mestu pilsfaldarkapitalistar - ekki frumkvöðlar - sem hafa aldrei skapað neitt, en vegna aðgengis þeirra að tækifærum, upplýsingum og fjármagni annarra, hafa þeir hagnast vel, og kosið að fela þann hagnað á aflandseyjum.“
Þessi áfellisdómur í skýrslunni hefur einn og sér verið Bjarna nægileg ástæða til að opinbera hana ekki.

En auðvitað skiptir þetta engu máli. Kjósendum finnst teflonhúð Bjarna bara smart; Bensi frændi og Óttari Proppé tína til jafnvel enn fleiri afsakanir en Bjarni sjálfur fyrir aflandsfélögum, földum skýrslum og lygum — enda ráðherrastólar í augsýn. Og mikið sem Bjarni Ben, þessi myndarlegi maður, verður áferðarfallegur forsætisráðherra.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, janúar 07, 2017

Veganúar 2016

Æ þessi janúar. Eftir tæpar tvær vikur verður Trump forseti Bandaríkjanna. Í ofanálag stefnir í svæsna hægristjórn hér á landi. Það fer hrollur um mig.

Eini bjarti punkturinn er Veganúar. Samtök grænmetisæta á Íslandi hafa semsé skorað á landsmenn að prófa að vera vegan í janúar. Borða engar dýraafurðir, og „leitast við að útiloka og forðast eftir fremsta megni hagnýtingu og ofbeldi gagnvert dýrum, hvort sem það á við um fæðu, fatnað, skemmtun eða aðra neyslu“. Og „stuðla þannig með virkum hætti að dýravernd, umhverfisvernd og bættri heilsu“, eins og segir í annarri af tveimur heilsíðuauglýsingum sem ég hef séð um veganúar.

Veganismi, eða grænkeralífstíll, hefur orðið æ meira áberandi og ljóst að hópur þeirra sem íhuga að gerast grænkerar eða hafa þegar tekið það skref fer sístækkandi.* Ég dáist að fólki sem treystir sér til þess að hætta að nota dýraafurðir alfarið, flestum finnst nógu erfið tilhugsunin að gerast grænmetisæta. Það sem mér finnst þó skrítið er hvað margar kjötætur verða reiðar yfir grænkeralífstíl. Sérstaklega varð það áberandi þegar aðgerðarsinnarnir í Aktí-vegan mótmæltu við sláturhús SS á Selfossi. Umræðukerfið við frétt DV um mótmælin telur 203 athugasemdir, mestmegnis frá æfareiðu fólki sem hatast útí aðgerðarsinnanna fyrir að berjast fyrir réttindum dýra.

Ég hafði ekki séð þessa frétt þegar kunningi minn fór æstur mjög að býsnast yfir mótmælunum, og af hans endursögn mátti skilja að tugir ef ekki hundruð manna hefðu veist að starfsmönnum SS með hótunum um ofbeldi. Ég flýtti mér að fordæma ofbeldishótanirnar en aldrei skildi ég almennilega afhverju þessi kunningi minn varð svona reiður. Ef þú vilt ekki vera grænkeri þá bara borðar þú þitt kjöt? En nei, hann eins og fólkið í athugasemdakerfi DV þurfti að lýsa yfir heimsku mótmælendanna (sem mér virtust vera örfá og mestmegnis ungir krakkar, og ég skildi vel að þau voru í uppnámi og fannst gott hjá þeim að vekja athygli á dýraslátrun), veruleikafirringu þeirra (Disney-rökin**), og ræða í þaula hvað honum þætti kjöt gott.

DV fréttinni fylgdu einmitt margar yfirlýsingar um hvaða kjöttegund fólk ætlaði að borða í tilefni af því að hafa lesið fréttina („Nú langar mig í djúsí steik, já eða vænan hammara með hellings baconi. Og í tilefni þessarra mótmæla verða pylsur á mínu heimili alla sunnudaga í náinni framtíð. Jafnframt munum við hafa lambakjöt næstu 7 daga í röð til að sýna þessu samhug“), og sem mest gert í að segja eitthvað sem myndi valda vegan-aðgerðarsinnunum ógleði eða sorg („best að tyggja eitthvað sem hafði púls og sál“). Einnig var hneykslast á að mótmælendurnir væru ekki í vinnu eins og annað fólk (mótmælt var á sunnudögum) — hvort það væri kannski á atvinnuleysisbótum (sem allir vita að er versta fólkið). Þá var spurt með vandlætingu afhverju aðgerðarsinnarnir berðust ekki frekar fyrir sveltandi börnum eða gegn stríðinu í Sýrlandi (sömu rök og feministar fá; alltaf er einhver annar málstaður mikilvægari en sá sem þið berjist fyrir), og svo var auðvitað óttinn við að grænkerar ætluðu að þröngva öllum til að hætta að borða dýr („ef þú hefur samúð að vilja ekki drepa dýr þá skaltu bara rækta þinn eigin búfénað og elska þau, það er enginn að banna þér það við öll höfum valið en að neyða aðra að gera sama val og þú er ekkert nema frekja.“)*** Já, og svo voru það þeir sem þóttust sniðugir og vildu ræða tilfinningalíf gulróta, og hvort grænmetisát sé ekki morð?

Margir voru reyndar að æsa sig yfir orðanotkun aðgerðarsinnanna, en þar höfðu orð eins og nasistar, morðingjar og dýraníðingar heyrst. Tvö seinni orðin hljóta að eiga rétt á sér þegar verið er að mótmæla við sláturhús — en býður ekki skammstöfun Sláturfélags Suðurlands uppá samlíkingu við nasista? Í hita leiksins er sú samlíking allavega mjög nærtæk. Og mótmælendurnir voru augljóslega í tilfinningauppnámi. En í athugasemdakerfinu var fólk tryllt yfir þessu líka. „það er vegna alls sem þið kallið okkur. Áttaðu þig á því að það voruð ÞIÐ sem byrjuðuð að kalla OKKUR morðingja og dýraníðinga.“**** Mikið sem þetta fólk verður reitt þegar því finnst vera ráðist á lifnaðarhætti sína.

Það er freistandi að nafngreina alla vitleysingana, en ég ákvað að kippa nöfnum þeirra út. Afturámóti finnst mér rétt að birta hér góðar athugasemdir grænkera undir fullu nafni.

Tinna Björg Hilmarsdóttir:
„Vissulega ekki vonlaus barátta, ekki þegar þessi málstaður dýranna er hjartans mál og ástríða þúsunda ef ekki milljóna manna, þegar vísindin sýna fram á skaðsemi dýraafurðarneyslu bæði fyrir heilsu okkar og náttúru jarðar. Það hefur engin réttindabarátta verið jafn sterk og breiðst jafn hratt út og veganisminn, sem er jú réttindabarátta fyrir hönd allra dýraegunda
við erum flest dýravinir inn við beinið, viljum huga vel að heilsu okkar og hugsa vel um jörðina okkar og því er veganisminn að blómstra í samfélaginu sem betur fer :) Vonandi muntu kynna þér málin betur í framtíðinni og tileinka þér þennan fallega lífsstíl einn daginn.“

María Magnúsdóttir:
„Tegundahyggja fjallar um að gera eða að gera EKKI upp á milli dýrategunda.Verksmiðjudýr hafa sömu þarfir og gæludýrin þín að öllu leyti. Kýr og svín eru t.d. mjög miklar tilfinningaverur. Kýr gráta þegar kálfarnir þeirra eru teknir frá þeim eða drepnir ef þeir eru kk og flestar þeirra ná sér aldrei eftir missirinn. Þær eru sæddar hvað eftir annað og látnar fæða og pyntaðar svona aftur og aftur, svo ekki sé minnst á að þær eru mjólkurmaskínur fyrir mannkynið. Mjólk er óholl ,það vita orðið margir í dag og það sýna rannsóknir berlega. Myndirðu vilja að gæludýrið þitt liofði við sömu aðstæður og verksmiðjudýrin og væri slátrað á endanum. Sum dýr eru svo óheppin að vera í fangelsi hefðar, þau eiga að vera étin og eiga að vera öðruvísi en eru það alls ekki, þau hafa bara öðruvísi útlit en gæludýrin ykkar.“

Sirrý Klemensdóttir:
„Haldiði í alvöru að veganisminn sé bara byggður á disney hugmyndum? Eruði í alvöru að segja mér að þið haldið að milljónir manna séu haldin ranghugmyndum um að dýr eigi skilið sömu grunnréttindi og mannkyn? Eruði í ALVÖRU að segja mér að dýr eigi skilið að vera lokuð í stíum, notuð á allan hátt mögulegan, upplifi sársauka andlegan og líkamlegan fyrir mannfólks hag og það sé í lagi því dýr séu óæðri mannfólki og okkur ber að nýta þau þess vegna? Finnst ykkur það réttlætanlegt og eðlilegt?? Ok... áttum okkur á einu! Mikill meiri hluti vegana var einu sinni kjötæta! Þ.a.l. Í gegnum ferlið að breytast frá kjötætu yfir í vegan, liggja miklar rannsóknir (byggðar á samviskubiti) á réttlætingu kjötáts! Það er alveg sama í hvaða horn maður snýr sér í rannsóknum á kjötáti og iðnaði, maður rekur hausinn allt í og meiðir sig!

Svo það sem veganinn hefur umfram kjötætunni (þið sem haldið því fram að veganisminn snúist um að litlu krúttlegu lömbin eigi bara að að fá knús) er mikil þekking og rannsókn á báðum hliðum! Flest vegan fólk veit ALLT um kjötát og kjötiðnað. Meira heldur en kjötætan (sem lifir í sjálfsblekkingu um að þessi iðnaður sé í lagi, nauðsynlegur, réttlætanlegur og óbreytanlegur) Veganisminn er byggður á miklum rannsóknum í tugi ára gerðum af fagfólki út um allan heim. Kjötætan sem berst gegn veganismanum (í raun eruði að berjast gegn fólki sem vill dýrum vel.... what does that make you then? ) veit hins vegar lítið sem EKKERT um vegan. Það er algjört lágmark að kynna sér málefnið sem maður gagnrýnir! Bottom line: Ekki koma upp um eigin fávisku og dæma það sem þú veist ekkert um. Það er bara kjánalegt.“

Já, og svo sagði Jón nokkur Bergsson þetta, sem ég tek hjartanlega undir:
„Held að við hin ættum frekar að sýna þessum krökkum þá virðingu að kynna okkur málstað þeirra nánar í stað þess að hlaupa í vörn yfir því að einhver gagnrýni lífstíl okkar. Hvort sem einhver er þarna með ullartrefill eða ekki held ég að þau séu mun minni hræsnarar en við sem köllum okkur dýravini eða umhverfissinna um leið og við höldum sláturhnífnum á lofti.“


_________
* Það fer betur á að nota íslenska heitir grænkeri yfir vegan. Grænkeralífstíll er ágætt orð en veganismi þykir mér þó tengjast hugmyndafræðinni og baráttunni og mun því nota það áfram, eða víxla þessu öllu einhvernveginn.

** B: „Kannski búinn að horfa á of mikið af Disney teiknimyndum í dag þar sem dýr eru manngerð? Nei þetta er ekki spurning um skoðanir. þetta eru staðreyndir. Dýr hafa ekki sama rétt og við. Það er staðreynd. ef þú heldur öðru fram ertu ekki í tengingu við raunveruleikann.“ B fór mikinn og sagði einnig þetta í mörgum aðskildum athugasemdum: „efast um það að dyr hafi sömu andlegu tilfinningar og við. Þau eru ekki nalægt okkur í greind, hvað þa hugsun … Dýr eru ekki menn. Afhverju eiga þau að njóta "mann"réttinda? … Dýr hugsa ekki eins og menn og eru ekki nálægt okkur í greind. Eru langt á eftir okkur í vitsmunalegri þróun. Þannig að NEI, dýr eiga ekki að njóta sömu réttinda og menn … Mér er bara drullusama. Þau eru dýr ekki menn.“ Og svo kom þessi skarplega athugasemd: „Afhverju skyldu 90% af þessari vegan stétt vera kvenkyns?“ G, sem einnig barðist hatrammlega í athugasemdakerfinu gegn þessum stórhættulega veganisma, reyndist skoðanabróðir B að þessu leyti líka, og svaraði: „pròfađu ađ spyrja vegan hvort ađ hann eđa hùn sè feministi þà skýrist þetta allt saman... Same brand of crazy.“

*** S var búinn að grafa sig ofan í skurð, tilbúinn að berjast gegn þessum yfirgagnssömu grænkerum. GG var líka voða sár: „Því getið þið ekki veganfólkið ekki bara etið ykkar gras og látið okkur hin í friði.“

**** Sveinn Þórhallsson sem ekki er grænkeri (meira svona grænkeravinsamlegur) svaraði þessu svona: „Ég velti hins vegar upp þeirri spurningu hvort mótmæli við þessa orðanotkun snýst aðeins um skilgreininguna á orðinu, en ekki það sem verið er að benda á sem er að framleiðsla kjöts leiðir óhjákvæmilega til þess að einstaklingar deyi - svo ég endurtaki nú sjálfan mig. Ég kalla þetta persónulega ekki morð, það er lagalega skilgreindur verknaður milli manneskja. Mér finnst þessi munur og þessi orðanotkun samt ekki skipta nokkru einasta máli í þessari umræðu“

Efnisorð:

miðvikudagur, janúar 04, 2017

Barnsleg heimsmynd

Þegar ég var krakki las ég stundum bækur þar sem minnst var á þræla, svona eins og voru til í gamla daga. Stundum var líka minnst á hvíta þrælasölu, en það vissi ég að var bara bull, því allir vissu að þrælar voru svartir. Þeir voru nefnilega frá Afríku en þræluðu í Ameríku þar sem ríkt fólk átti þá. En öfugt við það sem ég hélt þegar ég var krakki þá lagðist þrælahald ekki af og verslun með fólk, og sú iðja að þvinga það til að vinna kauplaust eða svo gott sem (kannski uppá mat og húsnæði) við allra verstu verkin, jafnvel til að selja líkama sinn, blómstrar sem aldrei fyrr.

Ég hef gengið með fleiri barnslegar ranghugmyndir í kollinum, komst ég að nú áðan. Því kolabrennsla tíðkast enn á Íslandi.

Árið 2015 voru notuð 139 þúsund tonn af kolum á Íslandi. Samkvæmt eldsneytisspá Orkustofnunar var áætlað að notkunin ykist í 161 þúsund tonn 2016 og í 181 þúsund tonn 2017. Árið 2018 yrði hún orðin 224 þúsund tonn, sem er rúmlega 60% aukning á fjórum árum.

Það er langt síðan ég hef orðið jafn gapandi hissa.


Efnisorð: , ,