þriðjudagur, júní 30, 2009

Þakklæti og aðdáun í skiptum fyrir þúsundkalla

Undanfarin ár hefur fólk unnvörpum gerst styrktarforeldrar barna. Yfirleitt fer það þannig fram að fólk skráir sig hjá félagi eða stofnun sem rekur eða styður við einhverskonar munaðarleysingjahæli í fjarlægum löndum. Stofnunin eða félagið kemur hinu velmeinandi fólki í samband við barn sem býr á slíku hæli og skuldbindur fólkið sig til þess að greiða ákveðna upphæð með reglulegu millibili til stuðnings barninu og fær það þá föt, húsaskjól, menntun og svo framvegis. Fólkið sér semsagt um framfærslu barnsins og að koma því til manns og er því talað um það sem styrktarforeldra. Til staðfestingar á því að styrkurinn komist til skila fá styrktarforeldrarnir skýrslu frá stofnuninni um framfarir barnsins auk mynda af því. Barnið sendir svo sjálft bréf til styrktarforeldranna þar sem það segir frá sér og þakkar fyrir velvild í sinn garð. Stundum leggja styrktarforeldrarnir land undir fót og heimsækja barnið.

Þetta hljómar allt mjög vel og eflaust verður þetta mörgum börnum til mikilla heilla. Þau vaxa vonandi úr grasi og verða hamingjusöm og gott fólk, nýtir þegnar eða hvað það nú er sem fólk á að gera svona almennt á fullorðinsaldri, hvar sem það elst upp í veröldinni.

Það er samt eitthvað við þetta sem fer í mig. Flestir þeir sem ég þekki (eða les blogg hjá) sem eru styrktarforeldrar tala um það á ákveðinn hátt. Mikið er talað um hvað það sé gaman að fá bréf frá barninu „sínu“ en aðaláherslan virðist vera á hvað fólkinu sjálfu líður vel með þetta og hve það sé gott, þ.e. hve styrktarforeldrar séu gott fólk — og þau sem heyra þetta eða lesa eiga að fyllast aðdáun. Þetta er ekki sagt beint en það skín í gegn hvað fólkinu finnst það vera stórkostlegt og hvað því finnst gaman að til sé einstaklingur sem sé þeim svona mikið þakklátur.

Og hvernig ætli það sé að vera þessi þakkláti einstaklingur? Fæðast við ömurlegar aðstæður eða lenda í einhverjum þeim hörmungum sem enda með því að barninu er bjargað og það lendir á hæli. Þegar það kemst til vits og ára (eða strax sé það nógu gamalt) er því svo sagt að útí heimi sé til ofboðslega gott fólk sem það eigi líf sitt að þakka. Og gjöra svo vel og skrifa því bréf og þakka fyrir sig, núna! Það verður svo kvaðirnar í lífi barnsins: vera þakklátt og skrifa bréf til að þakka fyrir sig. Hvað ef barnið stendur sig ekki í skólanum eða langar ekki að læra hagnýta iðn? Getur það skrifað slíkt í bréfið og sagt: ég ætla að vera eins og þið á Vesturlöndum og læra það sem mér sýnist eða læra ekki neitt og gera bara það sem mér sýnist? Ætli ekkert þessara barna þjáist af sektarkennd gagnvart öðrum börnum sem ekki eru svo „heppin“ að góða fólkið sendir því peninga? Er inní myndinni að barnið verði svo hryllilega vanþakklátt að því finnist velmegandi Vesturlandabúar ekkert of góðir til að styðja fátæk börn og það þurfi ekkert sérstaklega að þakka fyrir það? Hvað ef styrktarforeldrarnir koma í heimsókn og heimta myndatökur af sér með barninu „sínu“ — getur eitthvað barn neitað að taka þátt í þeim skrípaleik?

En nei, þetta gengur allt útá þakklæti hinna fátæku barna — barna af öðrum kynþáttum, barna sem fæðast á röngum stöðum í heiminum inní rangar aðstæður. Þau eiga að vera þakklát (hvítu) fólki sem fæddist inní þjóðfélag þar sem heilbrigðiskerfi og menntakerfi hefur séð um að koma því til manns og lífið er þeim ekki erfiðara en svo að þegar það hefur borgað öll nauðsynleg útgjöld, eytt fé í sjálft sig og skemmtanir sínar, þá á það samt peninga til að gefa í góðgerðarstarfsemi. Fæst af þessu fólki er neitt þakklátt því þjóðfélagi sem ól það og margt hefur lagt sitt af mörkum til að engir aðrir fái notið þeirra gæða sem það ólst upp við (hér er ég auðvitað að tala um frjálshyggjumenn sem vilja einkavæða heilbrigðiskerfið og skólana) eða beinlínis verið í liði með þeim sem lögðu í rúst efnahag landsins svo að það mun hvorteðer sverfa að næstu kynslóðum, einkavæðing eður ei. En meira segja fólkið sem vill sterkt félagslegt kerfi, heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn og ókeypis skóla finnur ekki mikla þörf hjá sér til að vera þakklátt. Samt finnst því eðlilegt að barn útí heimi sé þakklátt sér.

Eflaust erum við öll vanþakklát og mættum tileinka okkur meira þakklæti. En að skikka einhver vesalings börn, sem ekkert hafa til saka unnið, til þess að strjúka okkur og klappa og segja okkur hvað við séum góð og æðisleg — er það rétta leiðin til að auka hamingju þeirra? Eða skiptir það engu, svo framarlega sem við getum montað okkur af því hvað við séum góð. Okkar vellíðan skiptir auðvitað öllu. Eigingirnin að drepa okkur.

Kannski er fólk ekkert að hreykja sér af því að vera styrktarforeldri, heldur vill segja frá því eingöngu til að hvetja aðra til að leggja sitt af mörkum til að bæta kjör barna. Mér finnst þó líklegra að það líti svo á að með fjárframlagi sínu jafnist það á við helstu góðmenni sögunnar — staðfestingin fæst með þakklæti barnsins og aðdáun annarra.

Einhverntímann rakst ég á texta sem fjallar m.a. um að byggja sig upp andlega og draga úr eigingirni. Samkvæmt honum á daglega að gera einhverjum gott án þess að nokkur viti; ef einhver kemst að því telst það ekki með. Hvað skyldi mörgum styrktarforeldrum takast þetta?

___
Vilji fólk endilega styðja við hjálparstarf í útlöndum er það hægt án þess að vera með þetta eignarhald á einstökum börnum og án þess að krefjast þakklætis af þeim í staðinn. Hægt er að gerast Heimsforeldri hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og styrkja þannig verkefni í Gíneu-Bissá, Síerra Leóne, Nígeríu og Svasílandi. UNICEF ver framlögunum þar sem þörfin er mest hverju sinni. Til að meta þörfina er farið eftir þjóðartekjum viðkomandi lands, tíðni barnadauða (undir 5 ára) og fjölda barna (íbúa undir 18 ára). Þetta kerfi gerir UNICEF kleift að sinna hjálparstarfi á þeim neyðarsvæðum sem njóta engrar fjölmiðlaathygli. Þannig nær UNICEF líka að starfa sem víðast og er því fyrst á svæðið þegar náttúruhamfarir skella á.

Hjá SOS-barnaþorpum er hægt að gerast styrktaraðili fyrir þorp barna sem misst hafa foreldra sína eða geta ekki búið hjá foreldrum sínum af einhverjum ástæðum. (Reyndar er hægt að gerast styrktarforeldri líka en ég mæli með hinum valkostunum, sem sé þeim að styrkja þorpin sjálf eða samtökin í heild). Í hverri SOS fjölskyldu eru oftast sex til tíu börn á mismunandi aldri og af báðum kynjum. Höfuð fjölskyldunnar er SOS-móðirin sem hefur hlotið menntun í að sinna börnum sem mörg hver hafa upplifað miklar hörmungar. Hún sér um að börnin búi við öryggi og ást. SOS-barnaþorpin taka ekki afstöðu til ólíkra trúarbragða. Það þýðir þó ekki að samtökin hafni trúarbrögðum. Hvert barn er alið upp í þeirri trú sem foreldrar þess tilheyra/tilheyrðu. Ef upplýsingar um trúarbrögð foreldra liggja ekki fyrir eru börnin alin upp í samræmi við það sem algengast er í landinu eða á landssvæðinu. Í mörgum barnaþorpum má finna börn og SOS-mæður sem aðhyllast ólík trúarbrögð.

ABC barnahjálp er rekin í samvinnu við kristna heimamenn á hverjum stað. Starfið gengur út á það að veita munaðarlausum, fátækum og umkomulausum börnum varanlega hjálp í formi skólagöngu, læknishjálpar og heimila þar sem þörf er á auk fæðis og klæða. Minnir á trúboðsstöðvarnar. Hjálparstofnun kirkjunnar er undir sömu sökina seld. Ég mæli ekki með því að fólk styðji starfsemi sem er dulbúið trúboð. Snúa sér frekar til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna eða SOS-barnaþorpanna — þegjandi og hljóðalaust.
___
Viðbót. Í heimildarmynd um rithöfundinn Alexander McCall Smith rithöfundar kemur fram að hann er sérlega vinveittur SOS barnaþorpum (eins og fleira frægt fólk, þ.á.m. Stephen Hawking). Árlega heimsækir hann barnaþorpið Tlokweng í Botswana og Mma Potokwane, móðirin á munaðarleysingjahælinu í bókaseríunni um Kvenspæjarastofu nr. eitt (e. The Number 1 Ladies Detective Agency) er byggð á raunverulegri fyrirmynd, Betty Mpodi, sem er SOS-móðir í barnaþorpinu. Aðalsöguhetjan í bókunum er þó hin skilningsríka ungfrú Precious Ramotswe sem leysir hvers manns vanda.

Botswana, eins og mörg önnur lönd í Afríku, er mjög þjakað af AIDS og reikna má með, segir í heimildarmyndin, að fimmta hvert barn í Botswana verði munaðarlaust af þeim sökum. Því er mikil þörf á barnaþorpunum en þrjú eru þegar starfandi í landinu og í einu þeirra eru tvö fjölskylduhús byggð fyrir íslenskt styrktarfé.

Efnisorð: , ,

föstudagur, júní 26, 2009

Biðin og kvíðinn

Sumarið hefur það sem af er einkennst af bið (ekki var nú á það bætandi eftir biðstöðuna sem einkenndi þjóðfélagið síðustu mánuði síðasta árs). Aðallega hef ég verið að bíða eftir góða veðrinu en ýmis úrlausnarefni ríkisstjórnarinnar hafa líka hvílt á mér. Mér finnst sem Icesave umræðan hafi staðið yfir svo lengi og vil að þingið fari að ganga til atkvæðagreiðslu. Þó mér lítist illa á samninginn — og skilji Guðfríði Lilju vel að vilja ekki samþykkja hann — þá kvíði ég því sem gæti gerst ef hann verður felldur. Verða stjórnarslit? Kemst Sjálfstæðisflokkurinn aftur til valda? Það væri þokkalegur andskoti eftir allt það sem á undan er gengið.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið einbeittur að afsanna loforðin um að stjórnin verði studd í öllum góðum málum — í rauninni hefur hann þvælst fyrir í öllu. Icesave samningurinn varð upphaflega til í þeirra ríkisstjórn — og ekki má gleyma því að Landsbankinn var gefinn Sjálfstæðismönnum og Kjartan Gunnarsson sat fyrir hönd flokksins í bankaráði. Það væri auðvitað gott á Sjálfstæðismenn að þurfa að axla ábyrgð á því að leysa Icesave klúðrið, en gallinn er sá að ef hann kemst til valda verður frjálshyggjan ræst aftur í gang eins og hávaðasöm sláttuvél á sunnudagsmorgni. Og þá verður engu eirt.

Sólin er loksins komin og hlýnað hefur í veðri. Enn eiga þó þingmenn eftir að greiða atkvæði um Icesave. samninginn. Þangað til er það bara biðin og kvíðinn. Vonandi rofar svo til.

___
Viðbót: Egill Helgason með einn af skárri pistlum sem ég hef séð um Icesave. Mjög gott að hann skuli benda á að Steingrímur J. Sigfússon skuli sitja uppi með þetta mál og leggja pólitískan feril sinn að veði vegna þess. Því það er öruggt að Steingrímur ber enga ábyrgð á útrásarruglinu sem stjórnmálamaður. Hann varaði alla tíð við þessu og var alveg heill í því.“

Önnur viðbót: Hjörvar er með enn betri pistil um Icesave.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júní 21, 2009

Blessað stríðið sem gerði syni okkar ríka

Án þess að hafa lesið Icesave samninginn (heldur bara túlkanir annarra) þá svitna ég þegar ég heyri ýmis ákvæði hans. En í hvert sinn sem ég finn að ég fer að hallast á sveif með þeim sem vilja mótmæla honum, í hvert sinn sem fólk segir að við eigum ekki að borga skuldir Landsbankans, þá verður mér hugsað til hve auðveldlega Íslendingar hafa sloppið gegnum tíðina. Við höfum fengið nánast allt upp í hendurnar á okkur, burtséð frá því hvernig málum hefur verið klúðrað undir sjóræningjafána frjálshyggjunnar.

Við erum eina þjóðin í veröldinni sem talar um seinni heimsstyrjöldina, þar sem yfir sjötíu milljónir manna létu lífið víðsvegar um heiminn, sem „blessað stríðið.“ Hernám Breta jók atvinnu á Íslandi (bretavinnan), verð á fiski hækkaði á erlendum mörkuðum og landið græddi á tá og fingri.* Bretar lögðu flugvöll í Reykjavík og Bandaríkjamenn í Keflavík, þeir eru báðir enn í notkun. Eftir stríðið fengu Íslendingar svo Marshallaðstoð eins og stríðshrjáðar þjóðir Evrópu þrátt fyrir allan stríðsgróðann.** Hinar þjóðirnar fengu aðstoðina að hluta til í formi lána en Íslendingar tóku engin lán heldur fengu allt gefins. Marshallaðstoðin leiddi til þess að keyptir voru togarar, dráttarbátar og landbúnaðarvélar og var jafnframt ráðist í stærri framkvæmdir s.s. byggingu Sogsvirkjunar, Laxárvirkjunar, áburðarverksmiðju í Gufunesi, steypuverksmiðju, hraðfrystihúsa og klæðaverksmiðju Álafoss svo fátt eitt sé nefnt.

Það er því varla hægt að segja að við getum horft keik framaní Breta, Hollendinga og Þjóðverja og sagt að við höfum orðið svo illa úti að það sé ekki á okkur leggjandi að borga „skuldir óreiðumanna.“ Við höfum svo margsinnis fengið meira en við áttum skilið. Stríðsgróðanum glutruðu synir þjóðarinnar niður. Nú er komið að skuldadögum og við getum ekki enn eina ferðina fengið sérmeðferð.

En mikið djöfull er það samt skítt.

___
* Íslendingar fóru svo auðveldu og lúalegu leiðina að því að fá sjálfstæði; notuðu tækifærið þegar nasistar höfðu hertekið Danmörku og lýstu yfir sjálfstæði án þess að Danir gætu rönd við reist. Enn einn ódýri sigurinn.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, júní 17, 2009

Fánum prýddir forstjórajeppar

Ég sá nokkra bíla með íslenska fánann flaksandi útum hálfopna glugga. Það voru allt stórir jeppar sem þannig voru skreyttir. Í stóru jeppunum jafnt sem litlum fólksbílum sátu börn með blöðrur og ískám útá kinnar. Þau voru að koma úr bænum þar sem þau höfðu hoppað í hoppuköstulum (það sá ég í sjónvarpsfréttum) og étið candyfloss. Þau minnast þessa dags eflaust með sælu þegar fram líða stundir; dagsins þegar mamma og pabbi leyfðu þeim allt sem þau vildu, vitandi að börnin þyrftu að borga bílalánin þeirra og lánin af fína húsinu með flottu innréttingunum, skuldir þjóðarbúsins og vextina af ríkislánunum sem eiga að borga fyrir syndir feðra þeirra.

Helvíti fínn dagur hjá fjölskyldunni. Mamma pabbi börn og bíll litu vel út og engan sem þekkir þau grunar að þau eru á hvínandi kúpunni. Það er auðvitað fyrir mestu.

Það verður fjör í framtíðarfjölskylduboðum þegar börnin vilja fara að ræða það hvernig hoppukastalinn átti að sætta þau við óréttlætið. Gera upp skuldirnar og spyrja hvað í andskotanum þessir foreldrar sínir hafi verið að hugsa.

Þau svara líklega bara: Við vildum að þetta liti allt vel út.

Efnisorð:

föstudagur, júní 12, 2009

Aumingjar með orðu

Þjóðhátíðardagurinn er í næstu viku. Verður ekki bara hátíðarhöldum sleppt? Eiginlega ósmekkleg tilhugsun að stefna fólki niður í bæ að fagna. Fagna hverju? Varla mun þjóðarstoltið skína úr hverju andliti.

Vonandi hefur forsetinn rænu á að sleppa fálkaorðuveitingum þetta árið. Nýverið hef ég verið að rekast á myndir af honum að veita hinar ýmsu orður og verðlaun. Sigurður Einarsson í Kaupþingi (þessi sem ber innrætið utaná sér) fékk fálkaorðu 2007, eða eins og það er orðað: „riddarakross fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi.“* Björgólfur Guðmundsson fékk orðu 2005.

Hefð er fyrir því að hæstaréttardómarar, forsetaritari og aðrir embættismenn fái orðu fyrir að mæta (stundvíslega?) í vinnuna. Pólitíkusar fá af einhverjum álíka annarlegum ástæðum orður í röðum, sérstaklega ef þeir eru í réttum flokkum: Guðni Ágústsson (2006), Halldór Ásgrímsson (2005) og Geir Haarde (stórriddarakross með stjörnu 2005, stórkross 2006 — hann hefur langað í settið), líklega að eigin ósk. Ráðuneytisstjórar eru fastir áskrifendur, og heitir það að þeir fái stórriddarakross fyrir störf í opinbera þágu.

Baldur Guðlaugsson, hinn frækni og ómissandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu — sá hinn sami og seldi bréfin sín þegar hann vissi hvert stefndi með bankana — hefur ekki enn verið sæmdur neinni orðu. Er hann kannski næstur í röðinni? Kannski má nota orðu sem dúsu til að stinga uppí hann og fá hann til að hunskast burt, taka pokann sinn eins og vinur hans Eimreiðarstjóranum í Svörtuloftum var gert að gera?

Held að ég loki mig inni á sautjándanum og dragi fyrir alla glugga. Þetta getur enn versnað.

___
*Kaupþing fékk líka útflutningsverðlaun 2005 og Jón Ásgeir fékk þau í september 2008 fyrir hönd Baugs, aðeins nokkrum vikum áður en allt hrundi.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, júní 10, 2009

Konur og karlar

Hér er sagt frá þeirri staðreynd að orðið „maður“ á alls ekki alltaf við um karlmenn eingöngu. Orðið á við um bæði konur og karla.

Feministar hafa þó gagnrýnt notkun orðsins maður þegar um t.d. starfsheiti er að ræða. Það er þó aðallega vegna þess að með því að nota orð sem endar á maður (þingmaður, formaður) þá fallbeygist öll setningin eftir því og er hjákátlegt að heyra talað um konur á þann hátt. Það er holl áminning um hvernig hægt er að láta konur hverfa með orðum einum saman. Þessvegna vilja sumar konur tala um þingkonur, rétt eins og framkvæmdastýrur í stað framkvæmdastjóra en sömu vandræði eru með -stjóra endinguna (svo ekki sé talað um ráðherra). Oftar en ekki er þó talað um konur sem þingmenn og fátt út á það að setja sem slíkt. Enda eru konur menn, eins og ég hyggst endurtaka nokkrum sinnum.

Kannski er það afleiðing þingkvenna-umræðunnar sem fólk ruglar saman mönnum og körlum. Stundum er sagt að „menn“ geri þetta og hitt og svo bætir viðkomandi við — ýmist skömmustulegur eða með yfirlætisfullu brosi þess sem þykist jafnréttissinnaður — að konur geri það líka. Menn og konur eru ósátt við við Icesave samninginn, menn eyddu um efni fram og konur líka. Verslun í Reykjavík hefur held ég tvö útibú, annað heitir Konur og hitt Menn. Réttar væri að tala um konur og karla.* Karlmenn, þyki fólki orðið „karl“ of kallalegt.

Vinsamlega koma því inní hausinn á sér að konur eru partur af mannkyni, eru kvenkyns menn, rétt eins og karlar eru karlkyns menn. Fjölmörg orð byrja á „mann“ (sbr. mannkyn) í orðabókum, þau eiga við um konur og karla, ekki bara karla. Við erum öll menn, öll manneskjur.

Ég forðast í bloggfærslum mínum að tala um „menn“ vegna þess að ég vil leggja áherslu á að ég er að tala um konur eða karlmenn og vil ekki að það fari neitt á milli mála hvort kynið á við hverju sinni. Ef mikið liggur við nota ég orðið fólk. Þá forðast ég líka að nota orðið maður þegar ég skrifa um eigið álit á einhverju; ég held að ég hafi hvergi skrifað: „manni blöskrar“ (þótt oft hafi verið ærið tilefni). Mér verður seint treyst til að skrifa lög um meðferð íslenskrar tungu en myndi örugglega skikka fólk til að nota orðið menn um konur líka en ekki karla eingöngu — nema þegar um starfsheiti er að ræða.

Allar konur eru menn
Allir karlar eru menn
Sumir menn eru karlar
Sumir menn eru konur

Í stuttu máli sagt: konur eru líka menn.

___
* Meira segja í Biblíunni segir: Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“ Og á ég þó ekki nýju útgáfuna heldur þá eldri sem ekki var eins mikið að vanda sig í jafnréttismálum. Fariði nú eftir því sem Biblían segir, krakkar mínir!

Efnisorð: ,

laugardagur, júní 06, 2009

Icesave svekkelsið

Strax í haust var ljóst að við værum í vondum málum. Það var ástæða þess að fólk varð hrætt, sorgmætt og reitt.* Það var ástæða þess að mótmæli voru haldin, viku eftir viku þar til uppúr sauð og ríkisstjórnin hrökklaðist frá völdum.

Ríkisstjórnin sem nú situr við völd tekur við arfaslæmu búi: litlar eignir og miklar skuldir. Og til þess að atvinna haldist í landinu þarf peninga og til þess þarf lán frá útlöndum. Útlöndin eru ekkert of hrifin af því að lána okkur því þau vita að við erum blönk og að auki fóru íslenskir bankar í eigu og undir stjórn fjárglæframanna ránshendi um sparifé í löndum Evrópusambandsins: Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi. Það er því um tvennt að ræða: greiða innistæðueigendum til þess að geta haldið áfram að fá lán (sem liðkar þar að auki fyrir því að ganga í ESB— sem er mikill plús í huga sambandssinna) eða borga ekki og sitja þá uppi með afar takmarkað fjármagn í landinu sem þýðir að innflutningur dregst líklega mjög saman (ekki bara flatskjáir heldur túnáburður, eldsneyti fiskiskipa og aðrar nauðsynjar) og lífsafkoma enn fleiri er í hættu.

Hinsvegar — gangist íslensk stjórnvöld undir Icesave samkomulagið (og þá líklega Kaupþing Edge samninga í kjölfarið?) og taki það lán og önnur slík til að rétta úr kútnum — þá erum við hugsanlega komin á þá hálu braut sem varað hefur verið við allt frá því að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn kom til skjalanna eftir bankahrunið. Skuldunautar sem þessir eru engin lömb að leika sér við og hætta er á að á einhverjum tímapunkti — geti íslenska þjóðin ekki staðið við skuldbindingar sínar — verði gengið að einu raunverulegu eignunum okkar: jarðvarmaorku, vatnaflsorku og jafnvel drykkjarvatninu sjálfu. Minnug varnaðarorðanna og þýsku myndarinnar sem var sýnd í Sjónvarpinu um daginn um einkavæðingu rafmagns og vatns, þá hljómar Icesave samningurinn — rétt eins og öll samskipti við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn — eins og handrit heimsendakvikmyndar.

En kannski kannski kannski reynast eignir Landsbankans duga fyrir skuldunum sem hann safnaði í nafni Icesave blekkingarleiksins duga fyrir afborgunum þegar að þeim kemur, sem er eftir fimm ár. Kannski blessast þetta allt og kannski er þetta bara það besta í stöðunni.

Hvað eru mörg kannski í því?

___
* Merkilegt að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn eru fyrst núna reiðir. Samt voru það þeir sem seldu Björgólfunum Landsbankann og hagræddu reglum um fjármálastofnanir þannig að þær máttu allt sem þær vildu. Og í bankastjórn Landsbankans sat allan tímann framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og besti vinur Davíðs Oddssonar, Kjartan Gunnarsson. Icesave er á ábyrgð þessarra manna en samt láta þeir eins og núverandi ríkisstjórn hafi fundið það upp í kommúnískri illsku sinni eingöngu til að vera vond við Íslendinga. Og margir þeirra sem nú tjá sig á bloggsíðum láta eins og þeim komi sérstaklega á óvart að við séum í vondri stöðu og að skuldir forfeðranna (les: fjárglæframanna í boði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar) komi niður á börnunum. Það er auðvitað vont að það sé rifjað upp og ísköldum milljarðaupphæðum sé skellt fram. Ég endurtek: við höfum vitað síðan í haust að þetta yrði hrikalegt.

En auðvitað er líka allt venjulegt fólk reitt. Ég er að mestu leyti sammála Láru Hönnu enda þótt ég telji líkurnar á að við getum sleppt því að borga skuldir fjárglæframannanna litlar. Mér finnst hinsvegar galli ef fólk ætlar að kenna núverandi ríkisstjórn um að hafa komið okkur í þessar ógöngur. Lára Hanna fer ekki í grafgötur um hvar ábyrgðin liggur. Það mættu fleiri gera.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júní 04, 2009

Obama réttir fram sáttarhönd til múslima

Ég var að horfa á Barack Obama Bandaríkjaforseta flytja ræðu sína í endursýningu á Al Jazeera sjónvarpsstöðinni. Ræðuna flutti hann í morgun fyrir fullum sal 3000 gesta í háskólanum í Kairó höfuðborg Egyptalands eftir nokkurra daga ferð um ríki múslima.

Ég kom inn í ræðuna þar sem hann var að tala um Palestínu og Ísrael. Mér finnst hann tala mjög skynsamlega. Það er auðvitað líka hægt að segja að það sé yfirlætisfullt af enn einum Bandaríkjamanninum að ætla að skikka málum þar en einmitt vegna þess hve Bandaríkin eru margflækt í deilur Palestínumanna og Ísraela þá er nauðsynlegt að koma því vandlega á framfæri hver afstaðan sé núna. Og hún er semsé sú að ríkin verði að viðurkenna hvert annað og Ísraelar verði að virða mannréttindi Palestínumanna og hætta landtöku, báðir aðilar verði að hætta ofbeldinu.*

Næsta atriði sem hann talaði um að hefði valdið spennu milli arabaheimsins og Bandaríkjanna: kjarnorkuvopn. Það er eitthvað dásamlegt við að horfa framan í forseta Bandaríkjanna þegar hann segir að hann vilji að heimurinn verði án kjarnorkuvopna. Ekki hljómaði það neitt verra þegar hann sagðist hafa sagt Írönum að hann vildi grafa stríðsöxina og játaði fúslega þátt Bandaríkjanna í að hafa steypt lýðræðislega kosinni ríkisstjórn af af stóli. (Vonandi þykir Írönum það jafn jákvætt og mér).

Í fjórða lagi talaði hann um lýðræði.** Hann lagði áherslu á að það væri ekki bara bandarísk hugmynd (ef ske kynni að einhver vildi ekki lýðræði á þeim forsendum) heldur mannréttindi að hafa málsfrelsi, fá að kjósa, að geta treysta lögum og dómsvaldi, að stjórnvöld sýni spilin á hendi og steli ekki af almenningi og frelsi til að lifa lífi sínu eftir eigin höfði.

Í fimmta lagi ræddi hann trúfrelsi (gleymdi auðvitað trúlausum) og benti á að múslimar hefðu langa sögu um umburðarlyndi í trúmálum. Nú þyrfti að sæta Súnní og Shíta múslima og múslimum hætti til að hafna hugmyndinni um aðra trú en þeirra eigin (og hér sleppti Obama alveg að nefna landa sína sem vísa öllum umsvifalaust til helvítis trúi þeir ekki „rétt“).

Í sjötta lagi — og hér hafði ég verið búin að missa vonina en litla hjartað tók gleðikipp — hóf Obama máls á réttindum kvenna. Hann byrjaði á að bauna á íbúa Vesturlanda og segjast ósammála því að kona sem kysi að bera blæju væri endilega ófrjáls. Hinsvegar sagðist hann sannfærður um að það sé ójafnrétti að neita konu um menntun. Hann lagði áherslu á að konur ættu að njóta menntunnar og að þau lönd þar sem konur nytu góðrar menntunar væru þau lönd sem nytu mestrar velmegunar. Dætur jafnt sem synir gætu lagt mikið til samfélagsins fengju þau að efla hæfileika sína. Og svo baunaði hann sérstaklega á fordómafulla Vesturlandabúa sem héldu örugglega að hann myndi bara tala um kúgaðar konur í Arabaríkjum og sagði að baráttan fyrir jafnrétti væri enn háð á mörgum sviðum þjóðlífsins í Bandaríkjunum og víðar. Hinsvegar hefðu múslimaríkin Tyrkland, Pakistan, Bangladesh og Indonesía kjörið konur til æðstu valda. Þannig að ekki var hann sérstaklega að skamma múslima fyrir að kúga konurnar sínar*** — það mætti jafnvel segja að hann hafi verið að gagnrýna eigin landa fyrir að kjósa ekki Hilary Clinton.

Síðan talaði Obama um efnahagsmál og kosti og galla hnattvæðingar. Hann sagðist ekki lengur bara vilja eiga samskipti við múslima á forsendum olíuverslunar heldur á sviði menntunar og tækniþróunar — en bara í góðu samkomulagi við þá í stað þess að þröngva þeim til samstarfs (eins og tilhneigingin hefur verið).

Svo hélt hann áfram að vera svo bjartsýnn að mér var alveg hætt að lítast á blikuna. Niðurstaðan er samt sú að mig langar hrikalega til að trúa þessum manni og vona að honum takist að sætta arabaheiminn og Bandaríkin. Hann fær a.m.k. prik fyrir viðleitni.


___
* Ég viðurkenni fúslega að ég man minnst af því sem forverar hans í starfi hafa sagt um deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs — eins og það er oft kallað — og kannski hafa einhverjir þeirra sagt þetta sama meira og minna. Sumir Bandaríkjaforsetar hafa líka reynt að miðla málum og haldið sáttafundi í eigin landi.

** Þ.e.a.s. hann talaði um þessi atriði: 1) al-Qaeda, Afghanistan og Írak, þ.e.a.s. „ofbeldi öfgamanna“ (hann sagði jafnframt að Bandaríkjamenn hefðu valið að fara í stríð í Írak þó hann líti á stríðið í Afghanistan sem nauðsyn), 2) Palestína og Ísrael (þar byrjaði ég að horfa), 3) kjarnorkuvopn, 4) lýðræði, 5) trúfrelsi, 6) réttindi kvenna, 7) þróun og efnahagsleg tækifæri

*** Alltaf jafn súr frasi, þessi með múslimar kúgi konurnar sínar. Konur eru líka múslimar, múslimar eru líka konur. Það er alger óþarfi að tala um alla múslima sem karlmenn.

Ræðuna má lesa í heild sinni (á ensku) hér. RÚV rekur helstu atriði hennar stuttlega hér.

Efnisorð: ,

mánudagur, júní 01, 2009

Auga fyrir auga þar til heimurinn verður blindur

Bandarískur læknir sem starfaði í Kansas var skotinn til bana í kirkju í gær. Árið 1993 varð hann einnig fyrir skotárás og skemmdarverk hafa verið unnin á lækningastofu hans oftar en einu sinni.* Ástæða þess er sú að hann framkvæmdi fóstureyðingar. Nú styttist í að Bandaríkjaforseti setji nýjan dómara í embætti við hæstarétt Bandaríkjanna og hefur hann valið konu til að taka við því embætti.** Bandaríkjaþing þarf þó að samþykkja hana í embættið og líklega hefur banamaður læknisins viljað sýna skoðun sína á fóstureyðingum af því tilefni. Enda er það svo rökrétt, að drepa einhvern til að sýna fram á að það sé rangt að eyða lífi.

Umræðan um fóstureyðingar verður örugglega enn háværari um stund í kjölfar morðsins, en sembeturfer er núverandi forseti Bandaríkjanna ekki svo skyni skroppinn að hann haldi að hægt sé að taka þennan rétt af konum. Vonandi verður nýi dómarinn sama sinnis.

___
* Níu manns hafa dáið af völdum andstæðinga fóstureyðinga og álíka margir slasast. Einn morðingjanna var svo tekinn af lífi (hann drap tvo í Flórida) og má með sanni segja að Bandaríkjamenn trúi á auga fyrir auga tönn fyrir tönn aðferðina.
** Sonia Sotomayor yrði þriðja konan í sögunni til að setjast í hæstarétt Bandaríkjanna. Aðeins ein kona er hæstaréttardómari núna. Fátt er vitað um afstöðu Sotomayor til fóstureyðinga.

Efnisorð: