fimmtudagur, janúar 31, 2019

Pálmatré í janúar

Það er stórundarlegt þegar umræðuefnið þessa dagana er aðallega kuldinn (og hugsanlegt heitavatnsleysi) og ófærðin að talið berist í næstu andrá að pálmatrjám. Það er líka furðulegt að láta sér detta í hug að planta hér trjám sem eiga rætur að rekja (!) til suðrænna landa með mildara loftslag. Gler á víst að vera utanum og upphitun og líklega þá gervibirta líka. Allt eins ónáttúrulegt og hægt er. Ég skil þetta bara ekki. Hér er pistill eftir konu sem skilur þetta ekki heldur. Mér finnst þetta hallærislegt og glatað. Svo kemur þetta beint ofaní braggamálið sem gerir þetta enn verra; dönsku stráin og ógnarkostnaðurinn ættu að vera víti til varnaðar, en virðast nú eiga að varða veginn að annarri klikkaðri framkvæmd.

Nú vona ég að hneykslun minni á þessu máli sé ekki tekið þannig að ég hljóti að vera á móti list í almannarými eða bara list almennt (verandi nú nýbúin að lýsa áliti mínu á Seðlabankamálverkunum). Það er síður en svo, sem ég get vonandi sannað með því að vísa á pistil um útilistaverkin í Breiðholti sem var birtur hér á blogginu.

En rétt eins og nektarmyndir eiga ekki við á vinnustöðum þá eiga pálmatré ekki heima í nyrstu höfuðborg jarðkúlunnar. Jafnvel þótt pálmatrén komin í glerkúpul heiti listaverk og séu eftir virta listakonu.

Það er góð stefna að hafa útilistaverk sem víðast. En þarna tel ég að skotið hafi verið langt yfir markið. Þetta er bara rugl.

Efnisorð: ,

föstudagur, janúar 25, 2019

Klaustursvínin mætt í vinnuna til þess eins að vera til ama

Mögnuð forsíðumynd Fréttablaðsins á þriðjudag var mjög upplýsandi um stöðu þolenda í Klausturmálinu. Í myndatexta segir:
„Alþingi kom saman á ný eftir jólafrí [á mánudag]. Hér má sjá hversu lítið Alþingi er í raun og nálægðin mikil líkt og úti í þjóðfélaginu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og einn Klausturmanna, situr skammt frá fyrrverandi samstarfskonu sinni Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem svívirt var á upptökunum.“
Lilja þarf ekki annað en líta upp og þá blasir Sigmundur við henni. Alla þingfundardaga þarf hún að hafa hann fyrir augunum.



Til að bæta gráu ofan á svart mættu Gunnar Bragi og Bergþór öllum að óvörum í þingsal gær en gefið hafði verið í skyn að þau Klaustursvín myndu mæta til vinnu í næsta mánuði. Lilja snaraði sér úr sæti sínu og gekk til Gunnars Braga og las yfir honum og gekk síðan á dyr. Hún er greinilega algjör nagli en það er skiljanlegt að hún hafi ekki þolað að sjá á þeim smettið eftir allt sem á undan er gengið. Henni, Ingu Sæland, og öðrum þingmönnum yfirleitt er vorkunn að vera með aðra eins vinnufélaga.

Í skriflegu samtali sem ég átti í morgun þar sem þetta mál bar á góma skrifaði ég þetta:
„Mig skortir orð til að lýsa fyrirlitningu minni á þessum mönnum.
(Innifalið í ‘menn’ er konan í velferðarnefndinni [Anna Kolbrún Árnadóttir] sem uppnefndi Freyju Haralds.“)
Síðar í dag gafst mér tækifæri til að hefja lestur Stundarinnar, en blaðið var borið í hús til áskrifenda í dag. Sá ég þá að Illugi Jökulsson skrifaði um þessa sömu þingmenn — og notaði meirasegja um þá sömu orð og ég.

Hafi lesendur þessa bloggs ennþá áhuga á að vita hver skrifar bloggið hlýtur Illugi nú að koma sterklega til greina. Mér fannst meira segja sjálfri í smástund að ég væri kannski Illugi.

En svo fletti ég á næstu síðu. Er þá ekki pistill þar eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur – og hún að skrifa um nektarmyndirnar í Seðlabankanum mikið til út frá sama útgangspunkti og ég í síðasta bloggpistli.

Nú er sjálfsmynd blogghöfundar farin að flökta verulega. Hún er þó ekkert í líkingu við brenglaða sjálfsmynd Klaustursvínanna sem virðast allsekki fær um að horfa í spegil og sjá það sem blasir við okkur öllum:

Þau eru fyrirlitleg.


Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, janúar 22, 2019

Á mynd eftir karlmann af berbrjósta konu alltaf við?

„Ætli ein mest deilda frétt helgarinnar hafi ekki verið sú að opinber stofnun hafi tekið tillit til beiðni starfsmanna og fjarlægt listaverk af nöktum konum af skrifstofum yfirmanna. Myndirnar höfðu valdið starfsmönnum óþægindum.“
Ég leyfi mér að hefja bloggpistilinn með þessum orðum Nönnu Hermannsdóttur en nánar verður vikið að skrifum hennar síðar.

Það er auðvelt að sjá bæði sjónarmið í þessu máli. Annarsvegar þeirra sem vilja ekki að myndlist sé flokkuð eftir því hvort hún falli öllum í geð og hinsvegar þeirra sem segja að ekki sé öll myndlist allstaðar við hæfi. Seðlabankinn er annarsvegar opinber stofnun og hinsvegar vinnustaður þar sem vinna fleiri en bara kallar, og meirasegja vinnustaður þar sem ekki allir fíla að hafa myndir af berbrjósta konum fyrir augunum í vinnunni (einsog á örugglega við um fleiri vinnustaði). Það vill svo til að í síðustu viku héldu ungar athafnakonur samstöðufundar um rétt fólks til að sinna starfi sínu í friði.

„Hugmyndin um að halda slíkan fund kviknaði í fyrra eftir #metoo byltinguna … það sé ekki nóg að vandinn sé viðurkenndur heldur þurfi að bregðast við honum og skilgreina hvaða afleiðingar og eftirfylgni áreitni á vinnustað hafi fyrir gerendur og þolendur. Það þurfi að vera skýrt hvað þurfi að gerast svo það geti ríkt vinnufriður á vinnustöðum.“ [Frbl.]

Undir myllumerkinu vinnufriður hefur verið hægt að lesa margar af sögum kvenna sem hafa ekki haft vinnufrið fyrir körlum (og einstaka sögur karla af konum) og segja þær ömurlegar sögur af framkomu sem í mörgum tilfellum óharðnaðir unglingar — stelpur allt niðrí 14 ára — verða fyrir í starfi. Sem er auðvitað óásættanlegt.

Sögur þessar hljómuðu enn í kollinum á mér meðan ég fylgdist með fréttum um málverkin í Seðlabankanum. Óneitanlega stóð ég með þeim konum sem þar starfa og vildu losna við myndir sem þeim fannst óþægilegt að hafa fyrir augum sér. Og fagna má því að á þær var hlustað. (Karlkyns starfsmaður Seðlabankans skrifar ágætan pistil um málið og jafnréttisstefnu Seðlabankans.) En fáa eiga þær sér formælendur í fjölmiðlum þessa dagana (og það finnst mér leitt þeirra vegna, þeim líður varla vel undir fjölmiðlastorminum, jafnvel þótt þær hafi ekki verið nafngreindar). Fjölmiðlamenn sem þekktir eru fyrir andfeminisma skrifa frétt eftir frétt um málið. Sumir fjölmiðlamenn hafa gert sér það til dundurs að hæðast að þessum starfsmönnum Seðlabankans, er það heldur nöturleg lesning.

Margir þeirra sem taka til máls í athugasemdakerfum eru reyndar ekki vanir að skrifa jákvæðar umsagnir um myndlist og listamenn, heldur eru í hópi þeirra sem trompast árlega þegar umræða um listamannalaun stendur yfir. En eru semsagt núna allir með miklar áhyggjur af afdrifum listaverka sem þeir hafa aldrei augum litið eftir listamann sem þeir hafa örugglega fæstir heyrt minnst á áður.

Fleiri hafa þó lagt orð í belg og tala af skynsamlegu viti um málverk almennt, gildi listarinnar og listrænt frelsi, og hafa áhyggjur þegar myndlist er fjarlægð af veggjum eftir séróskum einstaklinga eða fyrirskipunum stofnana. En einhverjum þeirra hefur þó orðið á að blanda saman tveimur ólíkum hlutum; hafa reynt að leggja metoo-hreyfinguna að jöfnu við málverkin umdeildu af berbrjósta konum. (Hér verður að taka fram að enginn utan Seðlabankans veit nákvæmlega um hvaða myndir er að ræða og geta því ekki frekar en ég talað um myndirnar í smáatriðum.) Í athugasemdakerfum höfðu einmitt margir vitleysingar æpt metoo, metoo og haldið að það væri röksemd í málinu, en svo er ekki. Ekki einu sinni þegar safnstjóri Listasafns Reykjavíkur segir það.

Nanna Hermannsdóttir skrifaði síðan pistil sem vitnað var í hér fyrir ofan* og svarar þessari þvælu, og segir þar meðal annars:
#FreeTheNipple snýst um að rétt kvenna til að stjórna því hvernig brjóst þeirra eru sýnd og skilgreind. Brjóstabyltingin snýst ekki um að karlar megi núna hafa naktar konur á skrifstofunni sinni ef undirmönnum þeirra og samstarfsfélögum finnist það óþægilegt.“
Það væri annars fróðlegt að vita hvort karlmönnum almennt þætti frábært að hafa eftirprentun af hinu fræga málverki Júdit drepur Holofernes eftir Artemesiu Gentileschi á vegg vinnustaðar síns. Holofernes hafði nauðgað Júdit og hún hefndi sín með því að skera af honum hausinn. Kannski myndi karlmönnum þá þykja sér ógnað af viðhorfinu til karla sem lesa má úr myndinni.

Það er margt sem lesa má úr mynd af berbrjósta konu (líka þótt það sé ekki klámmynd heldur málverk eftir virtan karlkyns listmálara) en það sýnir aldrei að konur séu jafningjar karla. Slíkt viðhorf er óþolandi á vinnustað.


Efnisorð: , , , , ,

fimmtudagur, janúar 17, 2019

Óseðjandi hungur svifétandi stórhvela og hin mikla ógn sem stafar af hryðjuverkum umhverfisverndarsinna

Eftir að hafa lesið fréttir um skýrslu Hagfræðistofnunar og séð Kastljósþátt kvöldsins þar sem Rannveig Grétarsdóttir formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands mætti Oddgeiri Á Ottesen höfundi skýrslunnar sem er einnig varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hef ég tvær spurningar.

Hvernig rata hryðjuverk — og það hryðjuverk náttúruverndarsamtaka, svo algeng sem þau nú eru — yfirleitt inní skýrslu um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða?

Er öruggt að Hallur Hallsson hafi ekki skrifað skýrsluna að hluta eða öllu leyti?

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, janúar 15, 2019

Auðlindasjóður, svo fallegt orð

Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækja um íslenskan raforkumarkað kemur fram að ef stofnaður verður auðlindasjóður utan um arðgreiðslur Landsvirkjunar og geta safnast upp 377 milljarðar króna á tíu ára tímabili.

Reyndar fylgir með í fréttinni að upphæðirnar gætu orðið enn hærri — bara ef.

Sjóðurinn gæti orðið 878 milljarðar efir sautján ár — en þá þyrfti að koma til aukin orkuvinnsla og einsog einn sæstrengur er líka inní því reikningsdæmi.

878 milljarðar. Það er nú ýmsu fórnandi fyrir aðra eins upphæð.

Hljómar þetta ekki eins og gott bjargráð fyrir þjóð sem er hrædd um að þurfa að draga saman seglin? Auðvitað!

Bara þetta smáræði að það þurfi að byggja fleiri virkjanir og vera duglegri að selja meiri orku, t.d. með sæstreng úr landi (flestum kemur saman um að hækkun á raforkuverði til íslenskra heimila sé líkleg verði það gert*) stendur varla í okkur ef svona upphæðir eru í boði.

Hver getur og vill verið á móti fleiri virkjunum þegar svona upphæðir blasa við? Sem fara þar að auki í auðlindasjóð sem gagnast öllum?

Kannski fólk sem hatar rafmagn; fólk sem skilur ekki hvað þarf að leggja á sig (náttúruna) til að hafa það gott.

En meira segja það fólk hlýtur að sjá muninn á 878 milljörðunum sem renna ljúflega í auðlindasjóð ef allt er virkjað í drasl, og skitnu 188 milljörðunum sem fengjust ef ástandið er óbreytt og ekki virkjað meir og enginn sæstrengur.


Reyndar má lesa þetta allt á annan veg:


Hvernig er hægt að fá almenning til að sætta sig við enn fleiri virkjanir?

Það er tildæmis hægt að benda þeim á að það sé fólkið í landinu sem á endanum græðir á því? Hey, er ekki alltaf verið að heimta að útgerðin borgi auðlindagjald — getum við ekki í staðinn búið til auðlindasjóð og hagnaður Landsvirkjunar fari þangað. Í fínu skýrslunni er meira segja sagt að slíkir sjóðir geta orðið miklir að vöxtum og tryggja að auðlindin skili arði til framtíðar eftir að hún sjálf er uppurin, og talað er um „viðbótarávinning til allrarar framtíðar“, og að „slíkur sjóður gæti tekist á við áskoranir sem tengjast lýðfræðilegum breytingum svosem öldrun þjóðarinnar“.

Þegar Bjarni Benediktsson setti þessa hugmynd fram fyrir nokkrum árum var hann ekkert farinn að hugsa um gamla fólkið heldur var með kreppuna í baksýnisspeglinum þegar hann sagði að auðlindasjóður væri þá „vísir að sérstökum stöðugleikasjóði, varasjóði sem gripið yrði til ef jafna þyrfti út djúpar sveiflur í hagkerfinu“.** En nú er semsagt fókusað á gamla fólkið sem öllum er tíðrætt um eftir langvarandi svelti heilbrigðiskerfisins (áttu ekki Símapeningarnir að renna í það, og í Sundabraut?). En hvað um það, það er mikið auðveldara að segjast geta bjargað öllu og öllum með auðlindasjóði, bara ef.

Þetta hljómar eins og lottóvinningur. Allir græða. Bara ef.

Semsagt: Með auðlindasjóð getum við bjargað gamla fólkinu! Og bjargað okkur útúr næstu kreppu! Þetta er algjör hælkrókur og vonlaust að hafna því að virkjað verði meira.

Auðlindasjóður. Fallegt orð yfir brellu virkjanasinna.

___

* Ekki virðist vera stemning fyrir því að almenningi bjóðist að greiða lægra orkuverð heldur er einblínt á að auka arðsemi. [Úr frétt RÚV:] Landsvirkjun gæti lækkað verð til notenda eða safnað arðgreiðslum í auðlindasjóð eins og nefnt var hér að framan. Magnús Árni Skúlason hjá Reykjavík Economics segir hins vegar að huganlega myndi verðlækkun leiða til sóunar. „Við sjáum til dæmis að okkur þykir sjálfsagt að borga heimsmarkaðsverð fyrir þorsk. Hvers vegna ekki að borga heimsmarkaðsverð fyrir orku,“ segir hann.

** Ef stofna á auðlindasjóð væri auðvitað sanngjarnt að veiðigjald eða aðrar álögur á sjávarútveginn snarhækkuðu — þjóðinni til hagsbóta í bráð og lengt — en það er ekki á dagskrá hjá Bjarna.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, janúar 10, 2019

Fröken klukka

Enn er rætt hvort breyta eigi klukkunni á Íslandi svo hún verði nær sólartíma miðað við hnattræna legu landsins. Almenningur er beðinn að gefa álit sitt og hefur úr þremur kostum að velja.

A. Óbreytt staða, klukkan er áfram 1 klst. fljótari en ef miðað væri við hnattstöðu, en með fræðslu er fólk hvatt til að ganga fyrr til náða.

B. Klukkunni seinkað um 1 klst. frá því sem nú er, í samræmi við hnattstöðu landsins (dæmi: kl. 11:00 nú, verður kl. 10:00 eftir breytingu).

C. Klukkan áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefja starfsemi seinna á morgnana.
Hjá Vísi er búið að setja valkostina í töflu (neðst í fréttinni) og gera grein fyrir kostum og göllum við hvern og einn.

Annars ætti að gera það að skilyrði fyrir að svara spurningunni og/eða að tjá sig í athugasemdum vefmiðla að gefa upp hvort viðkomandi er það sem kallað er A eða B týpa, það er að segja morgunhani eða nátthrafn. Nokkuð ljóst að morgunhönum hugnast núverandi fyrirkomulag og eru eflaust í hópi þeirra sem skilja ekki afhverju fólk fer ekki bara fyrr að sofa. Þeir merkja því eflaust við A liðinn, enda A týpur.

Blogghöfundur er í síðarnefnda hópnum, eins og sjá má á hvað klukkan er þegar þessi bloggfærsla er birt.

Það mætti seinka klukkunni um tvo tíma mín vegna.

Efnisorð: ,

sunnudagur, janúar 06, 2019

Alheimssamsæri alþjóðasinna og atlagan að vestrænni menningu; það er nefnilega það

Við sem ekki lesum Moggann fréttum stundum eftir krókaleiðum efni blaðsins, þá sjaldan það er eftirtektarvert, hvort sem það eru leiðarar, Reykjavíkurbréf eða aðsendar greinar. Þess vegna set ég slóð hér á grein (smellið á myndina af greininni til að stækka) eftir Hall Hallsson sem birtist í blaði gærdagsins.

Þetta er sturluð lesning, algerlega sturluð.

Efnisorð:

laugardagur, janúar 05, 2019

Skínandi dæmi um unaðslegan hugsunarhátt og atferli karlmanna

Það eru engin takmörk fyrir hvað karlmenn geta verið ógeðslegir.

Mér er minnisstætt þegar ég sá fyrstu Kill Bill myndina í bíó og karlmenn skelltu uppúr og skemmtu sér gríðarlega yfir atriðinu þegar Brúðurin (leikin af Umu Thurman) vaknar eftir að hafa legið í dái í fjögur ár og áttar sig á því að starfsmaður á sjúkrahúsinu hafði stundað að nauðga henni og selja öðrum körlum aðgang að henni meðan hún lá varnarlaus í dáinu. Þetta fannst karlkyns bíógestum fyndið.

Kill Bill var bíómynd en það er greinilega ekki úr lausu lofti gripið að karlmenn á sjúkrastofnunum nýti sér ástand meðvitundarlausra kvenna. Í raunveruleikanum og nútímanum gerðist það í Phoenix borg í Arizona að kona, sem hefur verið vistuð á hjúkrunarheimili í fjórtán ár eftir að hafa næstum drukknað og hlotið varanlegan heilaskaðafrétt Vísis er hún sögð heiladauð), ól barn 29. desember síðastliðinn. Það er auðvitað engin lifandis leið til þess að konan hafi sjálfviljug stundað kynlíf. Lögregla rannsakar nú málið og liggja karlkyns starfsmenn hjúkrunarheimilisins undir grun.

Varnarlaus kona. Heiladauð kona. Slíkt stoppar ekki karlmenn sem telja sig hafa rétt til ríðinga hvar og hvenær sem er með hvaða konu sem þeim hentar þá stundina. Bara bónus að hafa fullkomið vald yfir varnarlausri konunni.

Til að kóróna allt saman þá má lesa í athugasemdakerfi Vísis við fréttina að karlmönnum er stórkostlega skemmt yfir þessu öllu saman. Tala um meyfæðinguna, kraftaverk og barnið sé eingetið eins og Jesú. Grín og gaman barasta!

Karlmenn. Alltaf til í að níðast á konum og hæðast að konum sem níðst hefur verið á. Karlmenn. Alltaf ógeð.


Efnisorð: , , ,