fimmtudagur, febrúar 27, 2020

Blóðmerar

Blóðmerar hafði ég aldrei heyrt minnst á fyrr en Ole Anton Bieltvedt hóf að skrifa um blóðmerarhald.* Hann lýsir því þannig í m.a. tveimur greinum ( 1. febrúar og 14. febrúar) sem hér er steypt saman:

„Um þetta hefur lítið verið fjallað, en þetta blóðmerahald byggist á því, að hryssur er gerðar fylfullar og svo er tappað af þeim blóði, 5 lítrum í senn, yfir leitt fjórum sinnum á tveggja mánaða tímabili á haustin, alls 20 lítrum, en blóðið er síðan selt lyfjafyrirtækjum til framleiðslu á frjósemislyfjum. Er þetta gert í svo miklum mæli, að heildarmagn nemur mörgum tugum tonna af blóði ár hvert.

Það skelfilega við þetta dýrahald, ef dýrahald skyldi kalla – dýraníð á sennilega betur við - er það, að þetta eru allt villtar merar - útigangshross -, sem auðvitað þarf að beita heiftarlegu ofbeldi – hreinum fantabrögðum – til að unnt sé að ná þeim í algjöra kyrrstöðu, meðan að blóðinu er tappað af þeim. Það munu vera eiðsvarðir dýralæknar, sem gefa sig í blóðtökuna. Ekki mikil sjálfsvirðing í gangi þar.

Það er fyrirtækið Ísteka, sem stendur að þessari fyrir mér ljótu iðju, en leyfi fékk fyrirtækið - sem hefur stundað þetta í 30 ár - frá Lyfjastofnun, og á MAST að hafa eftirlit með þessari starfsemi. Þetta eftirlit mun þó byggjast á „stikkprufum byggðu á áhættumati“, eins og segir í skýrslu MAST, sem undirritaður skilur sem málamynda prufur.“

Nú hefur komist á hreint hve umfangsmikið þetta er.

„95 bændur halda 5.000 hryssur, svokallaðar blóðmerar, sem blóði er tappað af í slíkum mæli, að saman koma árlega um 170.000 lítrar, 170 tonn.“

„Blóðmerastarfsemin fer þannig fram hér, að bændur halda um 50-60 hryssur hver, allt hálfvillt útigangshross, sem gerðar eru fylfullar í byrjun sumars, svo hefst blóðtaka af dýrunum, með því að opnuð er æð á hálsinum, í lok júli.
Blóði er síðan tappað af hryssunum vikulega, 5 lítrum í senn, 7-8 sinnum, fram í byrjun október. Er þá búið að tappa jafnmiklu blóði af hverri hryssu og nemur heildarblóðmagni dýrsins.“

Ole Anton segir að „í grundvallar atriðum fer blóðtaka hér og í Suður-Ameríku eins fram, þó að vonandi sé, að meðferð dýranna hér sé nokkru mannúðlegri“. Í myndböndum sem finna má á netinu um þessa starfsemi í Suður-Ameríku segir hann að sjá megi hræðilegar aðfarir:

„Aðfarirnar - ofbeldi og ruddaskapur við dýrin - eru oft á slíku stigi, að manni verður illt af áhorfi, enda eru þetta oftast hálfvillt eða villt dýr, sem eru stygg, fælin og hrædd í eðli sínu.

Fyrst þarf að koma hryssunum í svokallaða blóðtökubása. Streitast dýrin auðvitað á móti, og er þá beitt raflosti, prikum og stundum járnstöngum, að ótöldum höggum og spörkum, til að koma hryssunum í bás, eins og myndböndin frá Suður-Ameríku sýna.

Næst þarf að tryggja, að dýrið sé grafkyrrt, svo að hægt sé að opna hálsæð og tappa blóði af. Sum dýrin reyna að slá frá sér með afturfótunum. Er þá (í Suður-Ameríku, sennilega líka hér), járnslá skotið þvert fyrir dýrið aftanvert, til að festa það. Sum dýr reyna samt að slá, og geta þá meitt sig illilega á slánni.

Sumar hryssur reyna að prjóna upp úr básnum. Er þá slá skotið þétt yfir baki eða dýrið reyrt niður með reipum. Líka hér.

Sum dýr reyna að forða sér með því að leggjast niður. Er þá prikum eða stöngum beitt, jafnvel á kynfæri dýranna, til að knýja þau á fætur. Hér er aftur vísað til myndbanda frá Suður-Ameríku.

Loks þarf að reyra höfuð dýrsins svo rækilega, að það geti ekki hreyft það. Þarf ekki að fjölyrða um, hvílikt andlegt og líkamlegt ofbeldi þetta allt er gagnvart dýrunum.

Hér á Íslandi er húð hryssa staðdeyfð fyrir blóðtöku. Það munu vera eiðsvarðir dýralæknar, sem framkvæma aðgerðina. Við eigum erfitt með að átta okkur á sjálfsvirðingu, starfsvirðingu og virðingu þessara dýralækna fyrir dýrunum!

Og til hvers er svo öll þessi gengdarlausa blótaka af lifandi dýrum? Hryssurnar framleiða hormónið PMSG (Pregnant Mare‘s Serum Gonadotropin), sem fer að mælast 35-40 dögum eftir að merin var gerð fylfull.

Er fylgst með styrk hormóns með því að taka blóð úr flipa hryssunnar - væntanlega aftur og aftur, jafn óþægilegt og það kann að vera fyrir dýrið - og, þegar hormónið er orðið nógu sterkt, hefst vikuleg blóðtaka. Fer hún yfirleitt fram frá 50. degi meðgöngu til 100. dags.
Merar ganga með folaldið í 330-340 daga, og fer því blóðtakan aðeins fram fyrsta þriðjung meðgöngu, en eftir það minnkar styrkur hormóns, þannig, að blóðtaka borgar sig ekki lengur.

Tvær stofnanir veita nauðsynleg leyfi fyrir þessari blóðmeraóiðju og tengdri starfsemi; MAST og Lyfjastofnun.

PMSG hormónið er svo notað í frjósemislyf fyrir fjöldadýrahald og fjöldaframleiðslu kjöts. Er það einkum gefið gyltum svína, til að gera þær frjósamari; náttúrulegur tíðarhringur gyltu er rofinn og þannig hægt að sæða hana aftur og aftur, með minnstu mögulegu millibili, sem tryggir tíðari meðgöngu gylta og fleiri grísi; stuðlar frjósemislyfið þannig að stóraukinni kjötframleiðslu og auknum hagnaði þess iðnaðar.“
Fyrir gylturnar þýðir þetta, hins vegar, stóraukið andlegt og líkamlegt álag; þær fá ekki náttúrulega vernd eða náttúrulegan hvíldartíma milli meðgangna.**
Þetta blóðmerahald fer einkum fram í Argentínu og Úrugvæ, en þar er dýravernd á lágu stigi. Í flestum ríkjum Evrópu fyrirbyggja reglur og lög um dýravernd þessa blóðmeraiðju.
Því miður er Ísland hér ógleðileg undantekning; hér fer þessi starfsemi fram - og það í þessu ótrúlega umfangi - og hefur gert svo í 30-40 ár, þó að hér gildi lög, í síðasta lagi frá 2013, sem hefðu átt að stöðva þessa óiðju.
Tvær stofnanir veita nauðsynleg leyfi fyrir þessari blóðmeraóiðju og tengdri starfsemi; MAST og Lyfjastofnun.“

Að lokum segir Ole Anton, og ég tek undir:

„Hér þarf að draga strik og láta þá, sem óiðjuna hafa leyft og stutt, sæta ábyrgð.“


___
* Reyndar er langt síðan farið var að fjalla um blóðmerarhald þó ég virðist ekki hafa veitt því athygli fyrr en nú. Þannig fann ég langa frétt í Mogganum frá árinu 1998 þar sem segir fullum fetum að „blóðtakan væri á engan hátt skaðleg og reynslan þyki sýna að ef eitthvað sé verði hryssurnar hraustari og folöldin fallegri“. Blóðtaka úr fólki tíðkaðist líka lengi vel, og þótti allra meina bót. Nú er hún orðin svona helvíti heilsusamleg fyrir fylfullar merar; ætli þær verði ekki líka minna móðursjúkar fyrir vikið?

Í frétt á RÚV sem unnin er upp úr sjónvarpsþættinum Landanum árið 2012 er sagt að „Líftæknifyrirtækið Ísteka hefur framleitt frjósemislyf sem ætlað er svínum og sauðfé í rétt um þrjátíu ár og selt víða um heim.“

Í Bændablaðinu árið 2017 kom fram að „Allt að 30 bændur í Húnavatns¬sýslu stunda […] hrossabúskap með blóðtöku.“ Velferð hestanna virðist blóðmerarbændum ekki efst í huga, voru það kannski einhverjir þeirra sem ekki bjuggu hestum sínum skjól í óveðrinu 10. desember 2019 með þeim afleiðingum að um 100 hross drápust?

Einnig ber að geta þess að Árni Stefán Árnason hefur skrifað ítarlega grein um blóðmerarhald (vegna ótal andstyggilegra athugasemda Árna Stefáns um konur og aðra feminista víða um völl fæ ég ekki af mér að hampa honum frekar, en hann kemur þó með mikilvæga punkta í greininni).
** Allt flokkast þetta undir dýraníð í mínum huga. En er ekki merkilegt að þarna er verið að níðast á einni dýrategund til að geta níðst á annarri dýrategund, og að í báðum tilfellum eru það kvendýr sem níðst er á, og æxlunarferli þeirra verður (karl)mönnum að féþúfu?

Efnisorð: ,

mánudagur, febrúar 10, 2020

Óskarinn heim!

Hildur Guðnadóttir var að vinna Óskarinn, fyrst allra Íslendinga.

Þessi þrautpínda þjóð þurfti sannarlega á góðum fréttum að halda.

Efnisorð: ,

laugardagur, febrúar 01, 2020

Það sem má ekki segja um átrúnaðargoðið Kobe Bryant

Alveg þykir mér yfirgengilegt að lesa og heyra allar lofræðurnar um Kobe Bryant.* Á netinu, í sjónvarpinu og útvarpinu, í hlaðvarspþáttum og á samfélagsmiðlum. Kona sem var blaðamaður á Washington Post benti á — ekki í á síðum blaðsins heldur á Twitter í eigin nafni — að hann hefði verið kærður fyrir nauðgun** og var henni fyrir vikið sagt upp störfum, og fékk að auki yfir sig drífu morðhótana frá trylltum við-stöndum-með-nauðgurum-ef-þeir-eru-frægir múg. Örfáir fréttamiðlar minnast á nauðgunarkæruna, hafa um það örfá orð og svo er haldið áfram með upphafningu goðsins. En fæstir nefna nauðgunarkæruna yfirleitt heldur einblína bara á íþróttahæfileikana og hvað Kobe Bryant var geggjað góður gæi. Það á jafnt við fólk í útlöndum sem hér á landi, stjörnur sem fréttamenn. Nú síðast í kvöld í íþróttafréttatíma Ríkissjónvarpsins.

Annar dagskrárgerðarmaður RÚV, Guðmundur Björn Þorbjörnsson, skrifar í dag langan pistil þar sem vitnað er í Platón um fullkomnun og Jakobsbréf Nýja testamentisins um raunir og þolgæði, og sagt að í leit að fullkomnun „rekumst við á veggi“. Þessar djúpu pælingar eru inngangurinn að umfjöllun um nauðgunarmálið sem fær tæplega sjötíu orða pláss í 2.572 orða pistli:
„Árið 2003 var Kobe ákærður fyrir að nauðga 19 ára stúlku. Kæran var að endingu dregin til baka og var málið útkljáð utan dómssals. Hann neitaði því að hafa nauðgað stúlkunni, en viðurkenndi að hafa átt við hana samræði. Hann sagðist hafa haldið að það sem hefði gerst hefði verið með hennar vilja, en síðar skilið að svo hafi ekki verið. Á því bæðist hann afsökunar.“
Svo heldur bara pistillinn áfram eins og ekkert hafi í skorist og endar á háfleygum lokaorðum.

Kannski verða sömu hástemmdu lýsingarnar þegar ofbeldismaðurinn og nauðgarinn Mike Tyson deyr. Eða þegar raðnauðgarinn Bill Cosby hrekkur uppaf. Hvað þá Roman Polanski, hann hlýtur að vera hylltur að vanda, skítt með smástelpuna sem hann nauðgaði.*** Og kannski gerist það aftur að fólk missi vinnuna fyrir að leyfa sér að benda á að þetta goð hafi verið nauðgari, en hinir sem hrósa ferlinum í hástert fái til þess mikið pláss.

Á meðan sitja þolendur kynferðisobeldis, ekki bara fórnarlömb þessara manna heldur ótal önnur, og verður ómótt yfir því að kynferðisglæpurinn sé veginn og léttvægur fundinn.

___
* Áður hefur verið skrifað um Kobe Bryant hér á blogginu í miðri metoo-byltingu.

** Greinin sem blaðakonan vísaði í, þar má lesa vitnisburði beggja hjá lögreglu, hótelsstarfsmannsins þegar hún kærði Kobe Bryant fyrir nauðgun og hans útgáfa af atburðum við yfirheyrslur lögreglu.

*** Polanski hefur fengið um sig nokkrar bloggfærslur, hér er ein þeirra.

Efnisorð: , , , , , , ,