mánudagur, mars 05, 2018

Óskarsverðlaun metoobyltingarinnar fær ...

Óskarsverðlaunahafar og tilnefnd verk voru held ég óvenju fjölbreytt. Mynd um trans með transkonu í aðalhlutverki, myndir um með og eftir fólk af öðrum litarhætti en hvítum, myndir um og eftir samkynhneigða. Tvær sögupersónur töluðu táknmál, hvor í sinni myndinni, þaraf var önnur leikkonan (barn að aldri) ekki að leika heyrnarleysi sitt. Hlutur kvenna var mjög dreginn fram en þó varð kona ekki leikstjóri ársins. Kynnirinn ræddi öll baráttumálin og umdeildu málin, en framanaf voru verðlaunahafar ekkert á þeirri línu. Verðlaunahafar úr hópi innflytjenda, ekki síst af mexíkóskum uppruna, héldu pólitískar ræður og var vel fagnað. En það var svo ræða Frances McDormand sem var hápunktur baráttukvennaandans.

En það var ekki allt gott og jákvætt þessa löngu nótt.

Fyrirfram hafði ég ekkert kynnt mér óskarsverðlaunatilefndar bíómyndir eða einstaklinga. Vissi jú um nokkrar helstu myndir og að Gary Oldman og Meryl Streep (að vanda) væru tilnefnd en varla mikið meir. Það kom mér því gríðarlega á óvart þegar Kobe Bryant fékk óskarsverðlaun fyrir stutta teiknimynd (6 mínútur) sem hann framleiddi og skrifaði handritið að, og fjallar um feril hans, hann er því sjálfur rödd sögumanns í myndinni. Disney-teiknari var fenginn til verksins og John Williams gerði tónlistina, greinilega ekkert til sparað enda Kobe Bryant vellauðugur.

Kobe Bryant, fyrir þau sem ekki vita, er bandarískur körfuboltamaður sem var kærður fyrir nauðgun í júní 2003, en unga konan sem var hótelstarfsmaður á hóteli sem hann gisti á, hætti við að vitna fyrir rétti svo að málið var fellt niður. Síðar fór hún þó í einkamál við hann, sem hann svo samdi sig útúr. Hann játaði aldrei að hafa nauðgað henni en sagði allt hafa gerst með hennar samþykki.* (Konan skildi aldrei við hann, þrátt fyrir 'framhjáhaldið'.) Hann fékk auðvitað mikinn stuðning aðdáenda sinna en hún úthrópuð sem gráðug þið-vitið-hvað. En hann náði sér fljótlega á strik og körfuboltaferli hans lauk ekki fyrr en 2016. Nú er áætlað að hann eigi 350 milljónir dollara (35 milljarðar króna). Svona svo dæmi sé tekið um hve 'falskar nauðgunarkærur' geta eyðilagt líf karla.

Nema hvað. Kobe Bryant stökk glaður í bragði á sviðið til að taka við Óskarnum — og salurinn fagnaði ákaft. Sama fólk og stendur að #metoo, sama fólk og skreytti sig með Time's up barmmerkjum. Þvílík hræsni. Þvílíkt bjakk.


___
* Hann skrifaði afsökunarbeiðni þar sem hann hálfpartinn játar.

Það má líka alveg nefna annað atriði sem truflaði mig á Óskarsverðlaunahátíðinni, þótt ólíkt væri. Það var undarlegt að verða vitni að fagnaðarlátum þegar leikari tilkynnti stoltur að hann hefði barist í Víetnam. Alveg einsog allir væru sammála og hefðu alltaf verið um að Víetnamstríðið væri besta mál. Ég hefði viljað sjá framan í Jane Fonda á þeirri stundu.
Svo súrnaði þetta atriði enn þegar hann kynnti stríðsmyndir sem sýni þá sem hafi „barist fyrir frelsi“ um allan heim, og eftir samklipp margra stríðsmynda birtist setningin „Óskarsverðlaunahátíðin vill þakka og heiðra þá karla og konur sem gegnt hafa hermennsku um allan heim.“ Sem er auðvitað alveg óumdeilanlega alltaf mjög jákvætt, og fer vel í heimsbyggðina.

Efnisorð: , , ,