föstudagur, janúar 26, 2018

Ég stend með konum af erlendum uppruna

Konur af erlendum uppruna hafa birt sögur af kynferðisofbeldi, áreitni og mismunum sem þær hafa orðið fyrir vegna kyns síns, uppruna og húðlitar. Sögurnar bera meira og minna keim af útlendingahatri og rasisma. Hegðun gerendanna er í einu orði sagt ógeðsleg. Kjarninn skrifaði fréttaskýringu, birti allar sögurnar og #metoo áskorun kvennanna á íslensku og ensku. Fanney Birna Jónsdóttir skrifar í leiðara sínum að
„við skiljum ekki ein­semd­ina, von­leysið og varn­ar­leysið sem felst í því að verða undir í sam­fé­lagi þar sem tengsla­netið er veikt. Þar sem tungu­málið er fram­andi. Þar sem menn­ingin er fram­andi. Þar sem allir hinir virð­ast vera ein fjöl­skylda sem þú stendur utan við. Við getum ekki tengt með sama hætti við frá­sagnir kvenna af erlendum upp­runa af því þær eru ekki okkar sög­ur. Þær eru verri en okkar sög­ur.

Frá­sagnir kvenn­anna lýsa mansali, nauðg­un­um, and­legu og lík­am­legu ofbeldi, nauð­ung, mis­munun og nið­ur­læg­ingu. Þær sýna fram á algjöran van­mátt, varn­ar­leysi og úrræða­leysi.“
Fanney Birna spyr síðan og svarar spurningunni: Hvað ætlum við að gera?

Eydís Blöndal svarar því fyrir sitt leyti með svohljóðandi yfirlýsingu:
„Ég stend með konum af erlendum uppruna.

Forréttindi mín sem íslensk kona gefa mér rými í samfélaginu sem ég þarf að vera meðvituð um. Ég ber ábyrgð á því að þekkja mín forréttindi og að sjá þegar fólk sem hefur minni forréttindi en ég er beitt misrétti og ofbeldi. Ég ber ábyrgð á því að þetta fólk hafi jafn greiðan aðgang að tækifærum, frelsi og réttlæti og ég. Ég ber ábyrgð á því að líta í eigin barm.

Ég stend með konum af erlendum uppruna.“

Undir það tek ég heils hugar.



Efnisorð: , , , , , , , ,