miðvikudagur, janúar 17, 2018

Frekastur allra

Það var ekki hægt að komast hjá því að vita um sjötugsafmæli Davíðs Oddssonar, því það var á forsíðu Fréttablaðsins. Það ku vera regla hjá Mogganum að þar hættir fólk störfum þegar það verður sjötugt, en það Davíð hefur aldrei virt reglur sem hann setur ekki sjálfur. Kannski þarf að bera hann út, eins og þegar hann var rekinn frá Seðlabankanum eftir „svokallað hrun“. Því er reyndar haldið fram að ástæða þess að Davíð hættir ekki á blaðinu sé sú að hann sé enn að endurskrifa söguna sér í hag, og ljúki því ekki í bráð.

Hefði Davíð tekist að verða forseti hefði hann kannski látið það duga til að geta litið sáttur yfir ævistarfið. En úr því það tókst ekki þá ætlar hann líklega að halda áfram að djöflast í Hádegismóum þar til honum tekst að telja okkur öllum trú um að hann eigi vammlausan feril að baki sem borgarstjóri, forsætisráðherra og seðlabankastjóri.

Margt (ófagurt) er hægt að segja og skrifa um feril ritstj. en hér verður minnst á tvennt.

Árið 2002 lagði Davíð niður Þjóðhagsstofnun sem hafði verið starfrækt frá 1974. Tilgangur sérstakrar þjóðhagsstofnunar var að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum.
„Davíð Oddsson lagði niður Þjóðhagsstofnun þegar hún hafði ítrekað sagt hluti sem honum var ekki að skapi, enda Þjóðhagsstofnun sjálfstæð stofnun. Í framhaldinu var spárhluti hennar sett inn í Fjármálaráðuneytið, þannig að sú þjóðhagsspá sem fjárlagafrumvarpið byggir á, er gerð af framkvæmdavaldinu sjálfu.“ (Gestur Guðjónsson)

Í ágúst 2008, þegar var farið að syrta í álinn í íslensku efnahagslífi, skrifaði Þorvaldur Gylfason skrifaði pistil um lokun þjóðhagsstofnunar.

„Í fyrsta lagi virtist Þjóðhagsstofnun síðustu árin trufla ráðríka stjórnmálamenn og embættismenn, því að hún fór þá sínar eigin leiðir og lét ekki segja sér fyrir verkum

Í annan stað var sagt, að greiningardeildum viðskiptabankanna hefði vaxið svo fiskur um hrygg, að þær gætu að einhverju marki leyst Þjóðhagsstofnun af hólmi. Þessi skoðun er varhugaverð vegna þess, að höfuðhlutverk greiningardeildanna er að flytja góðar fréttir af afkomu bankanna og verðbréfasviðskiptum til hagsbóta fyrir hluthafa. Hlutverk greiningardeildanna stangast á við hlutverk Þjóðhagsstofnunar, sem var að flytja réttar fréttir af þjóðarbúskapnum, góðar eða slæmar eftir atvikum, og leggja út af þeim. Stjórnmálastéttin hefði trúlega áttað sig fyrr á eðli og umfangi efnahagsvandans nú, ef Þjóðhagsstofnunar hefði notið við og síbylja gleðifrétta greiningardeildanna hefði ekki ruglað grunlausa stjórnmálamenn og aðra í ríminu.“

Þó ekki væri annað, þá varð þessi aðgerð Davíðs Oddssonar afar afdrifarík, eins og Þorvaldur og við öll komumst að þegar hér varð „svokallað bankahrun“.

En það var ýmislegt annað, þó ekki tengdist það allt bankahruninu.
„Þegar Kárahnjúkavirkjun var í undirbúningi þá hafði Skipulagsstofnun úrskurðarvald og gaf út leyfi eða synjaði. Stofnunin veitti ekki leyfi fyrir virkjuninni. Það varð til þess að þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, viðhafði þau frægu ummæli að ekki ætti að láta kontórista úti í bæ ákveða það sem heyrði undir pólitíkina. Þá var þetta vald tekið af Skipulagsstofnun, sem nú er aðeins ráðgefandi og kemur með álit en er kannski máttlausari en áður var.“
(„Dýralæknirinn sem keypti kaupfélag“ viðtal Reynis Traustasonar við Ólaf Valsson, Stundin 12.-25. janúar 2018.)
Davíð, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hreinn Loftsson (sem var þá enn í liði Davíðs) fullyrtu hver í kapp við annan að úrskurður Skipulagsstofnunar væri ólöglegur og undir það tók umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, og leyfði virkjunina.

Einnig hefur verið bent á að Skipulagsstofnun hafi eftir ádrepur Davíðs hleypt umyrðalaust öðrum virkjunarkostum í gegn, og þannig hafi stofnunin sloppið við að vera lögð niður.

Meðferðin á Skipulagsstofnun og Þjóðhagsstofnun sýnir að Davíð Oddsson lét ekki stofnanir ríkisins þvælast lengi fyrir sér heldur kúgaði þær eða lagði niður. Hann er „frekasti karlinum af öllum sem hafa frekjast hér undanfarna áratugi“. 

Að lokum má benda á gamla grein eftir Ármann Jakobsson sem varpar nýju ljósi á afmælisbarn dagsins. Því þar er svoldið eins og verið sé að lýsa öðrum valdamanni, þeim sem nú situr (óverðugur) í Hvíta húsinu.

Efnisorð: , , , , , , ,