miðvikudagur, janúar 10, 2018

Hermaurinn og herforinginn ómissandi

Það gladdi mitt litla hjarta að sjá að loksins er kominn efnilegur kandídat í embætti borgarstjóra. Eyþór Arnalds býður sig fram í oddvitasætið fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og auðvitað með borgarstjórann í huga. Flestum sem heyra þessar fregnir verður fyrst hugsað til ljósastaura en mér varð hugsað til flokksfélaga Eyþórs sem hefur látið talsvert að sér kveða undanfarið. Það er engin önnur en hún Sirrý Hallgrímsdóttir, sem skrifar pistla í Fréttablaðið og hefur stundum látið ljós sitt skína í Silfrinu á sunnudögum.

Sirrý hefur mikið notað það stílbragð að setja pistla sína upp sem ímynduð viðtöl eða samtöl. (Mjög er það misvel heppnað.) Nú hlakka ég til að lesa næsta pistil Sirrýjar sem ég vona að fjalli um framboðsákvörðun Eyþórs. Sirrý hlýtur þá að stilla upp samtali milli Eyþórs, einum eigenda Morgunblaðins, og Davíðs Oddssonar, núverandi ritstj. blaðsins.

Í samtalinu gæti þá komið fram hvort Eyþór hafi sjálfur fjármagnað kaupin á fjórðungshlut í Mogganum eða hvort hann sé leppur fyrir einhvern (sama mætti upplýsa um ýmis stóriðju- og virkjunaráform sem Eyþór tengist), og hvort kaupin séu til þess gerð að fá stuðning Davíðs í framboðsbröltinu. Eða hvort allt þetta sé að undirlagi Davíðs. Og hvort þeir báðir telji öruggt að Eyþór verði borgarstjóri, með svo reyndan mann í aftursætinu að segja sér til. Því Davíð kann bæði að sigra í kosningum (ehemm) og svo kann hann auðvitað allra manna best að stjórna borginni.

Það væri auðvitað allra best ef Sirrý skrifaði það svo alþjóð geti lesið, hvaða hagsmunum Eyþór ætlar að þjóna (ekki að það sé erfitt að giska á það), og þá ekki síst hverjum er í raun ætlað að vera við stjórnvölinn.

Komaso, Sirrý!


Efnisorð: , , , ,