þriðjudagur, desember 19, 2017

Syndir fortíðarinnar gerðar upp í #metoo byltingunni

Karlkyns kunningi minn sagði mér í dag frá því að hann hefði beðið fyrrverandi samstarfskonu sína afsökunar á atviki sem gerðist fyrir mörgum árum. Hann hafði verið andstyggilegur við hana eingöngu vegna þess að hún var kona, og nú í allri #metoo umræðunni rankaði hann loks við sér og horfðist í augu við hvernig hann hefði komið fram.

Konan tók afsökunarbeiðninni vel, en mundi ekkert eftir þessum atburði. Sem segir heilmikið um hverskonar framkomu hún er vön af hendi samstarfsmanna sinna. Nema auðvitað hún sé ein þeirra sem getur (meðvitað eða ómeðvitað) ýtt erfiðum og neikvæðum atburðum svo aftarlega í hugskotið að þeir gleymist.

Mig langaði hinsvegar að húðskamma manninn. Bæði vegna þess sem gerðist (það sem hann sagði við konuna meðan þau unnu saman) og líka fyrir að hafa ekki strax beðið hana afsökunar. Svo ekki sé talað um öll árin sem síðan hafa liðið. Samt var ég um leið ánægð að vita að það eru til karlmenn sem eru að hlusta. Eru að lesa metoo sögurnar. Fara að skoða hegðun sína, jafnvel mörg ár aftur í tímann, og fá þá jafnvel svo mikið samviskubit að þeir eru tilbúnir að horfast í augu við manneskju sem þeir komu illa fram við, rifja upp atburðinn og biðjast afsökunar.

Þó ég hafi ekki skammað þennan tiltekna mann tókst mér alveg að stilla mig um að hrósa honum. Að hann skuli biðjast afsökunar er algjört lágmark og þótt fyrr hefði verið — en ég fagna hugarfarsbreytingunni. Vonandi eru fleiri karlmenn tilbúnir að stíga þetta skref.

Efnisorð: ,