miðvikudagur, desember 06, 2017

Körlunum þótti bara betra að hún var hrædd

Nú þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur skýrt frá því hvaða áhrif mótmælin við heimili hennar höfðu á hana er óþægilegt að hafa ekki notað bloggið til að fordæma mótmælin skilyrðislaust. Það eina sem ég setti út á var að síður eða ekki var mótmælt við heimili karla sem fengu styrki. Það er reyndar afstaða sem ég get enn staðið við, þ.e.a.s. að mér finnst ósanngjarnt að þeir sluppu. En ég ímynda mér að hefði ég reynt að setja mig í spor Steinunnar Valdísar (sem ég gerði greinilega ekki) og hefði þarafleiðandi áttað mig á hvernig henni hlaut að líða meðan umsátrið stóð yfir, þá held ég að ég hefði fordæmt þetta skilyrðislaust.

Það er varla nema harðsvíraðasta lið sem finnst í lagi að vekja ótta og vanlíðan hjá Steinunni Valdísi og fjölskyldu hennar — og það svo vikum skipti. Vissu að hún var óttaslegin en mættu samt til að mótmæla. Og finnst þetta bara hafa verið fallegt.

„Ég sá að hún var hrædd, svo sannarlega, og kannski má halda fram að það hafi verið veiki bletturinn, að við komum aftur og aftur, að þarna var einhver sem var hræddur og smeykur. Hinir voru, sýndu okkur aðrar hliðar. En hún var hrædd, ég tek undir það."
Það er algjörlega á hreinu að körlunum fannst eftirsóknarvert að hræða konuna. Ekkert stuð að vera þar sem enginn varð hræddur.

Það er vonandi ekki of seint að fordæma þessa karla.



Efnisorð: , ,