föstudagur, nóvember 10, 2017

Áhugi Sjálfstæðisflokksins á Katrínu

Sjálfstæðismenn voru manna spenntastir fyrir því að Katrín Jakobsdóttir yrði forseti Íslands. Kjósendum flokksins hennar fannst það ekki jafn góð hugmynd, vildu heldur að Katrín léti gott af sér leiða í pólitík og fyrir hin ágætu málefni flokksins.

Næst fóru Sjálfstæðismenn að máta Katrínu í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum sjálfum. Margar raddir heyrðust í þá veruna strax í þingkosningunum í fyrra. Nú eru þeir enn spenntari, meirasegja komnir í viðræður (sem fréttir herma að séu komnar á alvarlegt stig) með Katrínu og Sigurði Inga um ríkisstjórn sem mynduð yrði á næstu dögum. (Mér hryllir við því og er flökurt af tilhugsuninni.)

En afhverju eru Sjálfstæðismenn svona hrifnir af þessum helsta foringja félagshyggjunnar í stjórnmálum? Jújú, hún hefur persónufylgi langt út fyrir raðir eigin flokks, en það er ekki bara það. Þeir vilja ekki bara hafa hana með til að draga vinsældavagninn fyrir ríkisstjórn. Þeir sjá í henni ógn. Hún er alltof vinsæl. Þeir vildu losna við hana úr pólitík og senda hana á Bessastaði þar sem hún skyggði ekki á þá. Og ekki bara sem persóna, heldur sem foringi flokks sem hefur óvenju fá spillingarmál miðað við höfðatölu — hvaðþá ef miðað er við Sjálfstæðisflokkinn. Það eru engar hallir á Florida eða háhýsadraumar í Macao eða Dubaí, engin aflandseyjafélög, engir gírugir ættingjar sem eru bakvið tjöldin. Katrín býr í blokk. Það er auðvitað óþolandi.

Ein leiðin sem hægt er að nota til að eyðileggja feril Katrínar er að draga hana inn í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum, auðvitað á þeim forsendum að þar fari öflugustu flokkarnir, það sé ábyrgðarhluti að láta ekki á það reyna, og bla bla. En aðallega, og þetta myndgerði Halldór Baldursson, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn veit að samstarf við hann mun reynast Katrínu og Vinstrihreyfingunni - grænu framboði eitrað. Vinsældirnar munu gufa upp. Helst af öllu vildu Sjallar örugglega að VG gufaði upp eftir að ríkisstjórnarsamstarfinu lyki, eins og fór fyrir Bjartri framtíð, en stórminnkað fylgi VG í næstu kosningum er bæði fyrirsjáanlegt og eftirsóknarvert fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þá ríkir Bjarni einn.

Efnisorð: ,