fimmtudagur, október 19, 2017

Gögnin gætu gert meira gagn en áður var talið

Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki umfang gagnanna sem Stundin, Reykjavik Media og The Guardian hafa undir höndum. En ef marka má Vilhjálm Bjarnason fjárfesti og þingmann eru þetta gögn um þúsundir viðskiptavina Glitnisbanka. Vilhjálmi virðist finnast eðlilegt að setja lögbann á fréttaflutning — sem hingað til hefur mestmegnis eða eingöngu verið um Engeyjarfrændur og ættarlaukinn sem gegnir stöðu forsætisráðherra.

En ef nú þessir fjölmiðlar hafa öll gögn um þúsundir einstaklinga (og ætla ekki endilega að nefna hvern og einn á nafn) þá væri meira en fróðlegt ef hægt væri að skoða hvort fólk sem átti hlut í bankanum snemma árs 2008 hafi í stórum stíl selt hlut sinn í bankanum, fært í aðra sjóði, tildæmis sjóð 9 og náð síðan að flytja allt sitt úr sjóðnum áður en Geir bað guð að blessa Ísland. Ef marka má Bjarna Benediktsson þá voru allir að gera þetta, ekki bara hann, því öllum hafi verið ljóst hvert stefndi.

Það væri aldeilis gaman að sjá hvort gögn staðfesti það.

Efnisorð: , ,