sunnudagur, september 24, 2017

Wintrisflokkur einbúans í Hrafnabjörgum

Það eru góð tíðindi fyrir alla flokka og alla kjósendur að Sigmundur Davíð stígi skrefið til fulls og gangi úr Framsóknarflokknum. Hann hefur að því er virst hefur lítið eða ekki verið sýnilegur sem þingmaður flokksins allt frá því að Panamaskjölin og Wintris urðu til þess að almenningur krafðist þess að hann viki sem forsætisráðherra. (Reyndar var þess krafist að öll stjórnin færi frá en sú ósk fékkst ekki uppfyllt fyrr en mörgum mánuðum seinna og þá enduðum við með hinn Panamaformanninn sem forsætisráðherra!) Sigmundur hefur lítið mætt í vinnuna, en hafði þó þau skaðlegu áhrif að enginn flokkur treysti sér í ríkisstjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn með þetta ólíkindatól í þingflokknum.

Nú hinsvegar getur Framsóknarflokkurinn gengið keikur til kosninga og á möguleika — eins og venjulega — að setjast í hægri eða vinstri ríkisstjórn, eftir því hver býður betur. Og þótt Framóknarflokkurinn sé alltaf Framsóknarflokkur (og illþolandi sem slíkur) þá er allt önnur og skárri tilhugsun að vera í samstarfi við Sigurð Inga heldur en Sigmund Davíð, hvað þá þegar flokkurinn er líka laus við Vigdísi Hauks.

Þá er bara vonandi að Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir — borgarfulltrúi, flugvallavinur og allt þar til nýlega mikil vinkona Sveinbjargar, og á með henni heiðurinn af því að hafa sent Gústaf Níelsson í nefnd á vegum borgarinnar fyrir sig; já það er semsagt vonandi að hún fylgi Sigmundi Davíð að málum sem áður og gangi til lið við hann og hans allir-vondir-við-simma flokk.

Gallinn við þetta alltsaman er samt stór: Nú eru meiri líkur en minni að Sjálfstæðisflokkurinn verði enn á ný í ríkisstjórn með Framsókn sér við hlið.

Efnisorð: