mánudagur, september 04, 2017

Smáfuglar urðu semsagt að Þröstum

Það mun vera ákveðið stílbragð að draga úr þegar hægt væri að nota hástig lýsingarorða. Dæmi um það væri þá kannski texti sem birtist með stuttmynd sem var á dagskrá ríkissjónvarpsins áðan. Þegar ég kveikti á sjónvarpinu sá ég kunnugleg íslensk andlit, ýtti þá á i-takkann á fjarstýringunni til að fá upplýsingar um hvað ég væri að horfa á, og þar var talað um margverðlaunaða kvikmynd og sagt að: „Atriði í myndinni eru ekki við hæfi ungra barna“. Þarna hefði semsagt auðveldlega verið hægt að segja: Myndin er bönnuð börnum og fólk er almennt varað við að sjá hana.

Stuttmyndin sem um ræðir heitir Smáfuglar, og sami leikstjóri gerði kvikmyndina Þrestir sem ég skrifaði um í nóvember 2015. Það furðulega og klikkaða er að sama helvítis ógeðsnauðgunaratriðið er í báðum myndum. Í stuttmyndinni er það stutt, en seinna þegar leikstjórinn hafði tíma/peninga til að gera bíómynd í fullri lengd, gerði hann nauðgunaratriðið óbærilega langt. Þar lék önnur kornung leikkona en í stuttmyndinni, svo nú hafa áhorfendur séð tvær stelpur sæta þessari meðferð. Mér er fullkomlega óskiljanlegt hvað vakir fyrir manninum, og sturlast ef hann gerir enn eina kvikmynd þar sem hann skemmtir sér við þessa framsetningu eina ferðina enn.

Drullist svo til að vara við svona viðbjóði.


Efnisorð: