þriðjudagur, september 19, 2017

Lauma þessu að meðan allir eru að tala um annað

Því hefur verið fleygt að besti tíminn til að flytja slæmar fréttir (af t.d. ársfjórðungsuppgjöri) eða játa á sig mistök sé þegar allir eru uppteknir við að fylgjast með öðru. Þá hverfur játningin í hafsjó frétta af öðrum og stærri málum, og viðkomandi kemst upp með að hafa játað án þess að þurfa að takast á við afleiðingarnar, að minnsta kosti ekki á sama hátt og ef þetta hefði verið eina krassandi frétt vikunnar.

Mér datt þetta si svona í hug þegar ég sá pólitíkus játa á sig kynferðisbrot. Samt svona meira almennt eitthvað kynferðisbrot, óljós fjöldi þolenda , óljóst kyn þolenda, allt frekar mikið í móðu og erfitt að festa fingur á hvað átt er við (hermt er að hann hafi átt við káf*). En samt játning og héreftir verður ekki hægt að segja að hann hafi leynt kjósendur neinu. Í stað fjölmiðlastorms er lítið um þetta fjallað og flestar athugasemdir eru hrós um heiðarleika.

Ef þetta er ekki góð tímasetning fyrir að vera með svona heldur óljósa játningu sem fellur í skuggann af öllum hinum skrásettu glæpunum með nafngreindum persónum og leikendum á öllum stigum þjóðfélagsins …


____
* Ef Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata var í raun að tala um káf þá flokkast það svona almennt talað undir kynferðislegt áreiti, en með orðalaginu kynferðisbrot (ýmislegt getur falist þar undir) verður Halldór seint sakaður um að gera of lítið úr hegðun sinni. Og getur nú tekist keikur á við hvaða kosningabaráttu sem er.

Efnisorð: ,