mánudagur, október 16, 2017

Tjáning og þöggun á sama degi

Undanfarna daga og þá sérstaklega síðasta sólarhring hafa konur stigið fram og sagt frá kynferðisáreiti og kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, oft af hendi valdamikilla manna. Bandarískur kvikmyndaframleiðandi að nafni Harvey Weinstein hefur áratugum saman áreitt konur og nauðgað og nú hafa þær snúist opinberlega gegn honum. Hollywoodleikkonur hófu að segja frá, og í kjölfarið hafa þúsundir kvenna um allan heim, þar af íslenskar konur frægar sem ófrægar, tjáð sig í löngu eða stuttu máli og merkja yfirlýsingar sínar með #me too eða #ég líka, stundum að viðbættu #höfum hátt.

Tilgangurinn með því að segja frá, segjast líka hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eða -áreiti, er að sýna umheiminum framá hve margar konur hafa þurft að þola þetta. Og það vill svo til að líklega næstum allar konur geta tekið undir: ég líka. (Öfugt við karla, sem vilja alltaf taka fram 'ekki allir karlar'.) En meginþunginn er meðal kvenna. Konur komast margar vart af barnsaldri áður en byrjað er að áreita þær með einhverjum hætti — og svo bara heldur það áfram. Nú standa auðvitað vonir til (eins og oft áður) að karlar átti sig á að hve víðtækt vandamál þetta er, hversu vond áhrif það hefur á líf kvenna, og hætti sjálfir eða hvetji aðra karla til að hætta að koma svona fram við konur. (Hér er rétt að geta þess að karlar og transfólk hafa stigið fram og sagt frá sinni reynslu svo það eru ekki bara konur sem verða fyrir þessu og ekki allir gerendur eru karlmenn.) Og vonandi breytir þetta einhverju.

Við höfum reynsluna af því að það getur breytt mjög miklu að segja frá. #Höfum hátt felldi heila ríkisstjórn. Nína Rún Bergsdóttir og faðir hennar Bergur Þór Ingólfsson höfðu hátt í allt sumar, linntu ekki látum fyrr en gögn um uppreista æru Roberts Downey/Róberts Árna Hreiðarssonar voru gerð opinber. Hliðarverkun af því var sú að gögn um uppreista æru annarra nauðgara og barnaníðinga urðu heyrinkunn og þar með að faðir forsætisráðherra hefði mælt með að barnaníðingur fengi uppreist æru. Það átti auðvitað að vera leyndarmál milli Sigríðar Á Andersen dómsmálaráðherra og Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, en frekjan í fjölmiðlum og Bergi Þór að fá upplýsingarnar urðu til þess að nú vita allir ekki bara um siðferðiskennd föður Bjarna Ben heldur að Bjarni í krafti stöðu sinnar kom því til leiðar að þingmenn stjórnarmeirihlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis neituðu að líta á skjöl um uppreista æru sem voru til umfjöllunar á nefndarfundi og gengu heldur út. Eftir sat formaður nefndarinnar, Brynjar Níelsson, sér vel meðvitaður um efni skjalanna(og líklegur stjórnandi útgöngunnar). Kom enda á daginn að hann þekkti til Róberts Downey en tjáði sig ekki um það fyrr en seint og síðar meir. Dómsmálaráðherra passaði sig líka á að þykjast ekkert vita, og reyndi allt hvað hún gat að koma í veg fyrir að fjölmiðlar fengu umbeðnar upplýsingar um málið. Það er þessi samtrygging og leyndarhyggja sem felldi ríkisstjórnina.

Víkur nú sögunni annað. Stundin, Reykjavík Media og The Guardian hafa undir höndum mikið af gögnum sem tengjast falli Glitnisbanka árið 2008, og þar með fjármálagjörningum Engeyinga, þ.á m. Bjarna Ben og föður hans barnaníðingsvininum. Gamli og bróðir hans áttu mikið í bankanum, en Bjarni var þá orðinn þingmaður og sat sem slíkur fundi í bankanum. Öllum tókst þeim að forða sér frá stórkostlegu tapi því þeir vissu á undan öðrum hvert stefndi hverju sinni. Stundin hefur semsé verið að fjalla um þetta undanfarið og örugglega ekki búin að birta öll gögnin. En í dag dró til tíðinda þegar lögbann var sett á frekari fréttaflutning. Þrotabú Glitnis er svona ægilega miður sín yfir öllum þessum engeyjarfréttum og þolir ekki við lengur. Vegna þess hve stutt er til kosninga, og Stundin hefur verið að dæla út fréttum sem varla gleðja Bjarna og föður hans eða Sjálfstæðisflokkinn yfirhöfuð, þá er erfitt annað en trúa því að bakvið þennan fráleita þöggunargjörning séu fingraför mektarmanna Flokksins. Lögbannið er því enn eitt dæmi um leyndarhyggjuna sem einkennir Sjálfstæðisflokkinn, Engeyingana og Bjarna Benediktsson forsætisráðherra. (Ja nema sú samsæriskenning, sem segir að andstæðingar Bjarna hafi farið fram á lögbannið til að skemma fyrir honum kosningarnar, sé rétt. Hún er þó heldur langsótt.)

Bjarni Ben staldraði stutt við brotþola barnaníðinga þegar hann hélt einræðu sína um stjórnarslitin. Í hans huga var vandamálið aðallega að smáflokkar gætu ekki staðið í lappirnar. Sjálfum finnst honum mikilvægast að halda völdum. Fyrir flokkinn, fyrir fjölskylduna. Til þess eru öll brögð notuð, líka þöggun og leyndarhyggja.

Kannski eiga þessi mál, uppreista æran og lögbannið á Stundina, ekkert sameiginlegt nema að nafn Bjarna Ben og föður hans kemur fyrir í báðum tilvikum, en leyndin um uppreista æru barnaníðinga var á kostnað fórnarlamba þeirra, og hafði reyndar áhrif á aðra brotaþola um leið. Leyndin um fjármálabrask forsætisráðherra er allt annars eðlis, en getur haft áhrif á kosningahegðun kjósenda í lýðræðisríki.

Ef ekkert sem fjölmiðlar og höfum hátt hafa afhjúpað um viðskiptasiðferði þingmannsins og stjórnunarhætti forsætisráðherrans Bjarna Benediktssonar hefur áhrif á kjósendur þá er það ills viti. Ef Bjarni Benediktsson verður aftur forsætisráðherra þýðir það að honum og fjölskyldu hans hefur verið fyrirgefið allt fjármálabraskið fyrir og eftir hrun, kúlulánin, fjármunina sem fluttir voru úr landi, aflandseyjareikningana, Borgunarkaupin. Áframhaldandi valdaseta Bjarna þýðir þá jafnframt að þöggunin og leyndarhyggjan, vörnin fyrir eiginhagsmunina og mannorð föður hans skipti kjósendur ekki máli; að stórum hluta almennings sé sama um sálarheill þeirra sem höfðu hátt.

Í Kiljunni í gær var spurt hvaða mál væri aðalmál kosninganna, um hvað væri kosið, og virtist sem það þvældist fyrir jafnt þáttastjórnanda og gestum. Fyrir nærri þremur vikum skrifaði Illugi Jökulsson einmitt pistil í Stundina um hvað kosningabaráttan eigi að snúast. Hann gerði þar fulllítið úr heilbrigðismálum, fannst mér, velferðarmálum og málefnum aldraðra. En það var samt skiljanlegt að því leytinu að honum var heitt í hamsi yfir því sem nú blasir við í kosningabaráttunni: það er ekkert verið að tala um málið sem felldi ríkisstjórnina. Það er enginn feminismi nefndur.

Um það erum við Illugi nokkuð sammála, að Bjarni Ben og margvísleg leyndarmál og spillingarmál hans eigi að vera þungamiðja kosningaumræðunnar. Því það er kosningamálið, það sem við kjósum um: Bjarni Ben eða ekki Bjarni Ben.



Efnisorð: , , , , , , ,