miðvikudagur, október 11, 2017

Ekki liðinn mánuður og þeir láta eins og það hafi ekki gerst

Þeim ætlar að verða hált á sama svellinu Engeyingafrændum. Bjarni leit á það sem einkamál að faðir hans tengdist uppreistri æru kynferðisbrotamanns enda þótt allt þjóðfélagið æpti á að leyndarhjúp yrði létt af þeim sem legðu níðingum lið við að hvítskúra glæpaferilinn af sér. Samstarfsflokkur í ríkisstjórn leit á yfirhylmingu Bjarna sem svik og gekk úr ríkisstjórninni. Nú er allt í uppnámi í hinum fyrrverandi samstarfsflokknum því frændi Bjarna (og þarmeð náfrændi pabba Bjarna) blaðrar einsog óviti um stjórnarslitin:
„Þetta mál, sem þótti svo stórt að það væri ástæða stjórnarslita, það man varla nokkur hvað þetta er. Ef að þetta hefði verið stjórnarslitamál þá ætti þetta að vera eitt aðalkosningamálið núna,“
Slíkar orðsendingar eru sem kjaftshögg fyrir kynferðisbrotaþola barnaníðinganna með uppreistuæruna, aðstandendur fórnarlambanna og raunar allt fólk sem lætur sig kynferðisbrotamál varða.

Bjarni er þrátt fyrir teflonhúðina í mesta basli með að halda sjó í kosningabaráttunni, fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur minnkað mjög. Ekki bara vegna þess að hann þagði og laug um undirskrift föður síns á meðmælabréf Hjalta Sigurjóns Haukssonar heldur hvernig hann hefur tekið á því síðan. Flutti einræðu í Valhöll þar sem hann vék fáum orðum að fórnarlömbum kynferðisbrotamannanna (beitti leikhæfileikum sínum þar) en sneri svo strax spjótum sínum að Bjartri framtíð fyrir að fella ríkisstjórnina. Hefur ekki varðandi þetta mál né nein önnur hneykslismál honum tengd sýnt nema hroka; í gegnum tíðina hefur hann tekið upp þann sið að dæsa mæðulega eigi að rifja þau upp.

Benedikt frændi hans sem er enn starfandi fjármálaráðherra missti í dag formannsembættið í flokknum sem hann stofnaði. Flokksmenn voru æfir yfir því að hann missteig sig svona hrapallega þegar ræddi um orsakir stjórnarslitanna, og þótt hann hafi reynt að biðjast afsökunar, var hann settur af. Það kaldhæðnislega við nýja formanninn er að hún tengist, rétt eins og Bjarni Ben, einum af hneykslismálum bankahrunsins. Eiginmaður hennar var í stjórnunarstöðu hjá Kaupþing banka og þau fengu kúlulán sem þau þurftu ekki að borga til baka þegar bankinn féll. Þorgerður Katrín fór af þingi í nokkur ár vegna þessara mála en steig um borð í Viðreisn þegar sá flokkur varð til sem klofningur úr Sjálfstæðisflokknum. Fyrir hægriflokkunum fara því tveir (fyrrum) ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem báðir hafa sterka tengingu við fjármálasukkið sem leiddi til bankahrunsins. Gaman að því.

Það liggur við að mig langi til að Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur myndi ríkisstjórn eftir kosningar. Hún yrði kölluð 7 hægri Vafningurinn.

Efnisorð: , , ,