sunnudagur, október 29, 2017

Karlþingi

Niðurstaða kosninganna er sú að kynjahlutföll á Alþingi hafa ekki verið verri í tíu ár. Er því farið að tala um Karlþingi.*















Þetta er hrátt uppúr fréttum Ríkisútvarpsins:
Konum fækkar á þingi um sex eftir kosningarnar í gær og hefur staða kvenna ekki verið lakari frá því eftir kosningarnar árið 2007.

Píratar ná inn sex þingmönnum. Þar af eru fjórir karlar og tvær konur. 67 prósent karlar en 33 prósent konur. Samfylkingin fær sjö þingmenn; fjóra karla og þrjár konur. 57 prósent karlar og 43 prósent konur. Viðreisn er með jafnt hlutfall karla og kvenna í sínum fjögurra manna þingflokki.

Í ellefu þingmanna þingflokki Vinstri-græna verða sex konur og fimm karlar. Þar er kynjahlutfallið 54,5 prósent konur en 45,5 prósent karlar.

Mestur er kynjamunurinn í Miðflokknum, sem fékk sjö þingmenn. Þar eru sex karlar en ein kona. Hlutfall karla er 86 prósent karlar en kvenna 14 prósent. Hjá Framsóknarflokki er hinsvegar hlutfall kvenna mest. Þar eru fimm konur í átta manna þingflokki en þrír karlar. Kynjahlutfallið er 62,5 prósent konur en 37,5 prósent karlar.

Sjálfstæðisflokkurinn er með sextán þingsæti, í þingflokknum verða tólf karlar og fjórar konur. Kynjahlutfallið er 75 prósent karlar en 25 prósent konur.

Flokkur fólksins er með þrjá karla í sínum þingflokki og eina konu. Kynjahlutfallið er því 75 prósent karlar en 25 prósent konur.

Það er náttúrlega ömurleg afturhaldsstefna hjá Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins að bjóða fram lista með svona fáum konum, og fáum í oddvitasætum. Þar ber Sjálfstæðisflokkurinn mesta sök (hinir eru nýir og geta haft það sem afsökun að hafa haft stuttan fyrirvara) því flokkurinn hefur margsinnis verið gagnrýndur fyrir að hampa körlum á kostnað kvenna.

Það eina sem getur bætt upp fyrir þessa stöðu á Alþingi er að næsti forsætisráðherra verði kona. Má gjarnan heita Katrín og vera Jakobsdóttir.


___
*Hugsanlega varð Bragi Valdimar fyrstur með þessa nafngift.

Efnisorð: , ,