föstudagur, október 27, 2017

Níu klukkustundir í opnun kjörstaða

Skoðanakannanir hafa reynst óáreiðanlegar en þó er afar kvíðvænlegt að sjá Sjálfstæðisflokkinn skjótast yfir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð á síðustu metrunum fyrir kosningar.

Kvenréttindafélag Íslands gerði tékklista sem ber saman feminískar áherslur stjórnmálaflokkanna. Þar stendur Sjálfstæðisflokkurinn sig mun síður en flestir flokkar, VG kemur einna best út. Það skiptir einhverja kjósendur máli, trúi ég.

Fyrir lesendur sem hafa hingað til kosið til vinstri en hafa hlustað of lengi á áróður úr herbúðum sjálfstæðismanna um skattahækkanir VG, eða þurfa að svara vinum og ættingjum sem fjargviðrast yfir að einhver vilji kjósa yfir sig hærri skatta, þá skal hér bent á fantafínan pistil Andra Snæs Magnasonar sem kallast „Skattagrýlan og kosningarnar“. Andri Snær segir það sem við vitum auðvitað öll: Það þarf að fjármagna rekstur samfélagsins með sköttum.

Það er svona einfalt. En til nánari útskýringar:
„Við erum fámenn þjóð í stóru landi og við þurfum að leggja meira á okkur til að byggja upp innviði en víðast hvar. Það hlýtur að vera óraunhæft að búa hér og greiða lægri skatta en í Danmörku eða Noregi […]
Við erum lítil þjóð og óhagkvæm eining og viljum halda úti utanríkisþjónustu, eigin þingi, rannsóknum, landsliðum og löggæslu, menningu, landbúnaði, samgöngum, æskulýðsstarfi og heilbrigðiskerfi. Það vill reyndar svo til að við eigum mannauð og auðlindir sem gera okkur þetta kleift. Og ef allir innviðir eru í lagi þá vill fólk setjast hér að og þá skapast atvinnulíf. Ef innviðir eru í molum þá setjast frumkvöðlarnir að þar sem skólar, sjúkrahús og menningarlíf er í lagi. Panamaskjölin sýndu að málsmetandi fólk hérlendis vildi ekki einu sinni greiða lægstu mögulegu skatta til samfélagsins. Þeir sem eru þannig gerðir mega alveg fara.“

Fyrir þau okkar sem þekkjum fólk sem er rígneglt við Sjálfstæðisflokkinn þá er ágætt að benda þeim á pistil Illuga Jökulssonar sem heitir einmitt „Hæ sjálfstæðisfólk - má ég trufla ykkur aðeins?“

„Ef Katrín Jakobsdóttir hefði orðið uppvís að jafn dularfullum fjármálavafningum og Bjarni Benediktsson og ef hún hefði átt pening á aflandseyjum –

ef Logi Einarsson hefði verið gómaður í jafn óforskömmuðum og ósvífnum lygaflækjum og Bjarni Benediktsson hvað eftir annað –

ef Helgi Hrafn Gunnarsson hefði hrækt fyrirlitlega á niðurstöður heillar þjóðaratkvæðagreiðslu eins og Bjarni Benediktsson hefur gert –

þið getið þá rétt ímyndað ykkur hvað þið hefðuð brjálast.

Þið hefðuð auðvitað ekki tekið þetta í mál. Ekkert af þessu.

En þið látið bjóða ykkur þetta, af því þetta er flokkurinn ykkar, af því þetta er formaðurinn ykkar.

Eins og þið – venjulegt sjálfstæðisfólk – eigið í rauninni eitthvað sameiginlegt með silfurskeiðastrák úr Engeyjarklíkunni?“
Þetta er sannarlega ekki það eina sem Illugi segir í viðleitni sinni til að snúa Sjálfstæðismönnum frá fylgispektinni við Flokkinn. (Lesið pistilinn allan — og sendið hann áfram! Og líka skattapistil Andra Snæs!)

Það kemur svo í ljós aðra nótt hvernig til tókst.

Ég er hæfilega bjartsýn.

Efnisorð: , , , ,