þriðjudagur, nóvember 07, 2017

Undarlegur þriðjudagur

Gærdagurinn var erfiður. Stjórnarmyndunarviðræðum VG, Samfylkingar, Pírata og Framsóknar var slitið og því virðist úti um vinstri stjórn undir stjórn Katrínar. Þetta eru mikil vonbrigði og ekki bætir úr skák að framtíðin er ekki bara óviss heldur kvíðvænleg.

En eftir svartan mánudag kom þessi undarlegi þriðjudagur þar sem öllu er snúið á hvolf.

Egill Gillz Einarsson — alræmdur fyrir að tala ógeðslega um konur og hefur gefið út uppskriftabók um hvernig á að niðurlægja þær í kynlífi, svo ekki sé talað um nauðgunarkæru sem var felld niður /og hans gagnsókn á stúlkuna sem kærði var líka felld niður — fær uppreist æru* hjá Mannréttindadómstól Evrópu
en Tómas Guðbjartsson — sem berst fyrir náttúruvernd og starfar við að bjarga mannslífum — er „sendur í leyfi“ frá störfum.

Hversu galið er þetta, hvort um sig, en þó sérstaklega þegar það er borið saman.


Það verður líka að nefna það hér að Fréttablaðið, sem verður líklega seint kallað hlutlaust á öllum sviðum (sbr. margvíslegar aðferðir til að bera blak af fjárglæframönnum eftir hrun), slær allt út í dag með því að leyfa Jakobi Bjarnar að skrifa fréttir um niðurstöðuna í máli Egils Gillzenegger Einarssonar.**

Jakob Bjarnar var ritstjóri hinna alræmdu Mannasiða Gillz og Lífsleikni Gillz sem Egill „skrifaði“ (og að margra mati var Jakob Bjarnar sá sem þar raunverulega hélt um penna), og einnig skrifaði hann útskriftarritgerð sína um ritstjórnarverkefnið. Sumir hafa tekið svo djúpt í árinni að það sé Jakobi að „þakka“ að „Egill varð sú stjarna sem hann varð“. Það er því vonlaust að halda því fram að hann sé hlutlaus í málum sem varða Egil Einarsson — og hann ætti auðvitað aldrei að fá að skrifa fréttir um þennan samverkamann sinn.


___

* Nei það er ekki kallað uppreist æru, heldur segir dómstóllinn að ekki megi kalla Egil Gillz Einarsson rapist bastard. Reyndar voru dómararnir ekki allir sammála, tveir af sjö skiluðu sératkvæðum, eins og segir í frétt og þýðingu Jóhanns Páls Jóhannssonar á Stundinni.
„Tveir dómarar, þau Paul Lemmens og Stéphanie Mourou-Vikström, skiluðu sératkvæðum og eru ósammála því að brotið hafi verið á réttindum Egils. 
Lemmens telur að Mannréttindadómstóllinn mistúlki vísun Hæstaréttar til þess að að ummælin hafi verið látin falla í tengslum við harðvítugar deilur í íslensku samfélagi. Af samhenginu megi ráða að orðin „fuck you rapist bastard“ hafi verið viðbragð við viðtali Monitors við Egil og þjónað þeim tilgangi að sýna vanþóknun á Agli með blótsyrði fremur en að um hafi verið að ræða hlutlæga lýsingu á gjörðum hans.
Telur Lemmens að almennt séu dómstólar heimaríkis betur til þess fallnir en Mannréttindadómstóllinn að meta merkingu tiltekins orðs í því samhengi sem það birtist. 

Í séráliti sínu segir Mourou-Vikström að taka þurfi tillit til fyrri ummæla Egils og manngerðar hans (e. the applicant’s personality) við mat á ummælunum „Fuck You Rapist Bastard“.

Vísar hún sérstaklega til þess að þegar málið var tekið fyrir í Hæstarétti voru lögð fram skjöl með ummælum Egils sem mátti túlka með þeim hætti að hann væri að hvetja til þess að konur yrðu beittar kynferðisofbeldi. Telur dómarinn að vegna þessara ummæla hafi Egill komið sjálfum sér í stöðu þar sem hægt var að nota orðið „rapist“ til að lýsa honum, ekki sem ásökun um tiltekna háttsemi heldur sem gildisdóm. 
„Samkvæmt þessu gat hann ekki farið fram á vernd samkvæmt 8. gr. með sama hætti og manneskja sem hefur verið hreinsuð af ásökunum um nauðgun en ekki sett fram umdeild ummæli og konur og kynferðisofbeldi. Umdeild og stuðandi ummæli kæranda á opinberum vettvangi breyttu mörkunum milli staðhæfingar um staðreyndir og gildisdóms,“ skrifar hún (þýðing blaðamanns) og kemst að þeirri niðurstöðu að íslenskir dómstólar hafi í ljósi þessa mátt túlka ummælin með þeim hætti sem gert var, sem viðbragð Inga Kristjáns við sjónarmiðum sem Egill hafði haldið á lofti um árabil.“

** „Íslenska ríkið braut á mannréttindum Egils“ — Jakob Bjarnar og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa 7. nóvember 2017 09:40
Egill Einarsson segir illt að sitja undir ásökunum sem þessum“ — Jakob Bjarnar skrifar 7. nóvember 2017 14:04

Efnisorð: , , ,