sunnudagur, nóvember 19, 2017

Ekki bara skemmtanaiðnaðurinn

Áhrifinna af Weinstein málinu gætir enn og hafa breiðst út um allan heim. Breskur ráðherra hefur þurft að segja af sér. Bandaríski grínistinn Louis C.K. og leikarinn Kevin Spacey (sem hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér) reynast báðir hafa áreitt fjölda manns um árabil, og sjá fyrst núna eftir því. Vegna þess að Harvey Weinstein var kvikmyndaframleiðandi var sjónum fyrst beint að kvikmyndaiðnaðinum og hvernig komið er fram við konur sem starfa í iðnaðnum (og karla í tilviki Kevin Spacey). Sama hefur átt sér stað víðar í sviðslistum og hafa t.d. sænskar leikkonur í hundraðatali sagt frá kynferðislegri áreitni. En það er auðvitað ekki bara í skemmtanaiðnaðnum sem karlar nota vald sitt til að áreita og niðurlægja konur.

Á enskumælandi kínversku sjónvarpsstöðinni CGTN (China Global Television Network) var í kjölfar Weinsteinmálsins umræðuþáttur undir stjórn Li Qiuyuan um kynferðislega áreitni á vinnustöðum, sem er sannarlega ekki sérkínverskt vandamál. Ekki fremur en það eigi sér bara stað í hinum vestræna heimi.

Vefsíðan The Everyday Sexism Project hefur verið virk frá árinu 2012 og enn eru að bætast við sögur um allskonar kynferðislegt áreiti (sbr. bloggpistill), þar á meðal á vinnustöðum.

Þriðjungur kvenna í lögreglunni hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni, og í sumum tilvikum hefur það hreinlega orðið til að þær gefast upp og hætta störfum, sagði í skýrslu sem kom út 2013. Á hinu háa Alþingi hefur það einnig gerst að karlkyns þingmaður hafi áreitt þingkonu, sem einnig var sagt frá hér á blogginu.

Það má ljóst vera að konur, hvar í stétt sem þær standa og hvar sem þær búa í heiminum e, hafa þurft að sæta kynferðislegri áreiti, stundum hreinlega kynferðislegu ofbeldi, af hálfu yfirboðara sinna. Stundum samstarfsmanna en yfirboðararnir hafa meira vald yfir lífsafkomu þeirra og eru því í ‘betri stöðu’ til að kúga þær. Ætli þar sé komin skýringin á því að karlar sækjast í yfirmannastöður?

Nú er semsagt þessi kvenréttindabylgja að ganga yfir heiminn. Konur segja frá kynferðislegu ofbeldi, kynferðislegu áreiti í massavís. Styrkurinn er í fjöldanum. Það er ekki hægt að reka þær allar. Það er ekki hægt að þagga niður í þeim öllum.

Sum málinu eru áratuga gömul. Það er gott að þau komist uppá yfirborðið, það er gott að gömlu gröðu kallarnir þurfi að horfast í augu við hvað þeir hafa gert.

Best er þó að þeir kallar sem allt fram á þennan dag hafa notað vald sitt og aðstöðu til að níðast á konum vegna kynferðis þeirra, geta aldrei verið vissir um hvort að á morgun — eða bara einhverntímann í framtíðinni — komist upp um hvernig þeir hafa komið fram.

Djöfull er það gott á þá.


Efnisorð: , , , ,