miðvikudagur, janúar 24, 2018

Vonarglæta

Hæpið var á dagskrá í kvöld, fyrri þáttur af tveimur um stráka. Hæpið er feiknalega góður þáttur (sem ég hef áður hrósað ) og umsjónarmennirnir Katrín Ásmundsdóttir og Unnsteinn Manuel Stefánsson voru semsagt að tala um stráka, við stráka og karlmenn á öllum aldri, og spurðu þá um karlmennsku og tilfinningar. Feðgar sem rætt var við í Kringlunni voru greinilega búnir að ræða um karlmennsku áður, það var gott atriði. Það var líka sérstaklega ánægjulegt að sjá litlu strákana tala af skynsemi og ígrundun (og voru meiriháttar góð auglýsing fyrir Hjallastefnuna). Eldri strákar voru líka spakir, en viðurkenndu svosem að þeir hefðu ekki alltaf verið það.

Í heildina tekið vakti þátturinn von um að nýjar kynslóðir karlmanna kunni ekki bara að tala um tilfinningar (sem er frábært) heldur verði (allavega ef marka má þessi eintök sem þarna töluðu) miklum mun betri en forfeðurnir.

Ég mæli með að skoða síðu Hæpsins á ruv.is, horfa á þáttinn á Sarpnum á netinu eða í þar til gerðum sjónvarpstækjum. Þetta eru extra mikið fínir þættir.


Efnisorð: ,