föstudagur, febrúar 02, 2018

Umskurður drengja, lagafrumvarp

Eitthvert ágætasta frumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi er frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur og átta annarra þingmanna Framsóknarflokksins, Vinstri grænna, Flokks fólksins og Pírata, sem kveður á um bann við umskurði drengja.

Sumarið 2012 var birt hér á blogginu nokkuð ítarleg umfjöllun um umskurð drengja, sumt af því sem þar kemur fram má einnig sjá í greinargerð með frumvarpinu.

Í greinargerðinni kemur fram:
„Öldum saman, eða í um 5.000 ár, hefur sá siður tíðkast víða að umskera barnunga drengi, framan af með almennu samfélagslegu samþykki og skilningi á helgisiðum tiltekinna trúfélaga, gyðinga og múslima aðallega. Á 19. öld jókst tíðni umskurða verulega, þegar almennt var hvatt til þess að drengir væru umskornir til að koma í veg fyrir ýmsa kvilla og hegðun. Á undanförnum árum hefur sú skoðun verið að ryðja sér til rúms, og er nokkuð útbreidd í Evrópu, að umskurður framkvæmdur í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum sé brot á mannréttindum drengja því um sé að ræða óafturkræft inngrip í líkama þeirra sem þeir hafi ekki haft neitt um að segja. Þeir séu þar að auki látnir þola mikinn sársauka og séu settir í mikla hættu, m.a. sýkingarhættu.

Umskurður fer þannig fram að fremsti hluti forhúðar getnaðarlims er fjarlægður með skurðaðgerð. Meðal gyðinga er algengast að drengir séu umskornir á áttunda degi lífs. Á meðal múslima er hins vegar algengast að drengir séu umskornir í kringum tíu ára aldurinn.“

Síðan er fjallað um hvernig og hvar þessar aðgerðir eru gerðar og ókostirnir við það. Einnig er rætt um bann við umskurði á kynfærum stúlkna sem varð að lögum 2005, og röksemdir fyrir því.

„Í frumvarpi þessu er lagt til að bannað verði að umskera unga drengi með breytingu á 218. gr. a almennra hegningarlaga nema slík aðgerð sé talin nauðsynleg af heilsufarslegum ástæðum.

Það er skoðun flutningsmanna að umskurður á ungum drengjum feli í sér brot á réttindum þeirra, nema slík aðgerð sé talin nauðsynleg af heilsufarslegum ástæðum. Umskurður felur í sér varanlegt inngrip í líkama barns sem getur haft í för með sér mikinn sársauka, auk þess sem slíkri aðgerð fylgir hætta á sýkingum og öðrum vandamálum. Það er mat flutningsmanna að drengir sem vilja láta umskera sig af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum taki ákvörðun um slíkt þegar þeir hafa sjálfir náð aldri og þroska til þess að skilja hvað felst í slíkri aðgerð.“
Þá er talað um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem er þarft í þessu sambandi. Bent skal hér á að lesa frumvarpið og greinargerðina í heild (frumvarpið er bara ein setning).

En það eru tvær síðustu setningar greinargerðarinnar sem tengjast frétt sem birtist nú í kvöld á RÚV.
„30. september 2013 skrifuðu umboðsmenn barna á Norðurlöndum og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn undir yfirlýsingu gegn umskurði ungra drengja. Þeir telja brýnt að vinna að því að umskurður á ungum drengjum verði bannaður.“
Þetta er fréttin, hér lítillega umorðuð og stytt.
Yfirrabbínar Danmerkur og Óslóar, bræðurnir Yair Melchior og Yoav Melchior, hvetja gyðinga í Evrópu til að láta í sér heyra og mótmæla frumvarpi Silju Daggar Gunnarsdóttur og átta annarra þingmanna um bann við umskurði drengja. Þeir óttast að frumvarpið geti sett hættulegt fordæmi fyrir önnur lönd.

Yfirrabbínarnir skrifuðu bréf til Evrópska rabbínaráðsins eftir að fréttir bárust af íslenska frumvarpinu. Þar hvetja þeir til þess að íslensk stjórnvöld verði beitt þrýstingi til að koma í veg fyrir samþykki þess. Þá er varað við því að verði frumvarpið samþykkt geti það sett hættulegt fordæmi. Umskurður drengja sé hvergi bannaður en danska þingið hafi svipað frumvarp til umræðu.

Evrópska rabbínaráðið sendi í framhaldinu frá sér ályktun þar sem segir að umskurður drengja sé stór hluti af gyðingatrú og engin stjórnvöld geti bannað gyðingum að framkvæma þessa trúarathöfn.
Það stefnir því í að umskurðarfrumvarpið, sem fyrirfram hefði mátt halda rynni umyrðalaust gegnum þingið, verði alþjóðlegt bitbein. Vonandi hefur það engin áhrif á að frumvarpið verði að lögum.

Efnisorð: , , , , ,