miðvikudagur, september 29, 2010

Hræðileg ferðafrelsisskerðing, búhú

Áður en ég sá heilsíðuauglýsinguna um „Táknræna jarðaför á ferðafrelsi“ í Fréttablaðinu var ég búin að lesa frétt á bls. 4 undir fyrirsögninni Krefjast ferðafrelsis í Vatnajökulsþjóðgarði. Þar er talað við karlmann sem grenjar hástöfum yfir því að „loka eigi fyrir akandi umferð og reiðmönnum“ svo þeir komist ekki um Vonarskarð. Sá náungi rekur fjórhjólaleigu en eins og allir vita þá er ferðafrelsi skilgreint sem rétturinn til að aka um þjóðgarða á fjórhjólum. Líka er talað við eiganda hestaleigu sem finnst ósanngjarnt ef þjóðgarðar eigi eingöngu að vera fyrir gangandi fólk.*

En það er hann þessi með fjórhjólin** sem klúðraði málstað þeirra sem eru ósáttir við verndaráætlunina um Vatnajökulsþjóðgarð. Hann segir nefnilega, ægilega sár, að þeir sem ráði þessari stefnu séu „nokkrir menn sem vilja geta komist þarna með gönguhópa og gengið um heilu víðátturnar í algjörri kyrrð og þögn.“

Þetta eru greinilega algerir níðingar!

Hvernig er hægt að taka afstöðu með svona fólki sem vill barasta geta gengið í algjörri kyrrð og þögn þegar fjórhjólamenn og jeppamenn vilja fá að burra um með hávaða svo undir taki?!

Heilsíðuauglýsingin aftar í blaðinu*** skartar svo lógóum Óbyggðaferða, fjallabílafyrirtækja og -félaga, snjósleðainnflytjenda og síðast en ekki síst: skotveiðimanna. En það er auðvitað fáránlegt að ekki megi drepa neinn í þjóðgarðinum, það segir sig sjálft.

Ferðafrelsi, samkvæmt þessum fríða hóp,**** er rétturinn til að vera með hávaða, spæna upp landið og drepa allt kvikt. Ófrelsið er að þurfa að vera í einhverri helvítis kyrrð og þögn — jafnvel þótt ferðamennirnir útlendu sem koma til að ferðast um landið sækist einmitt eftir því, og gott ef ekki einhverjir brjálaðir íslenskir kyrrðarfíklar líka. En það skal hver lófastór blettur vera undirlagður jeppum og fjórhjólum, snjósleðum og hestamönnum á fylleríi. Stuð og stemning og ef ekki, já þá er barasta haldin táknræn jarðaför! Hvaða snillingur fékk nú þá hugmynd?

___
* Reyndar finnst mér hestar eiga talsvert meiri tilverurétt í þjóðgörðum en fjórhjól en hross skilja eftir sig slóðir og valda skaða á gróðri þannig að skiljanlegt er að þeim verði ekki hleypt inn, sérstaklega í stórum hópum eins og hestaleigur fara með um landið.
** Skemmtilegt að það er ekki tekið fram í fréttinni að hann reki fjórhjólaleigu heldur er bara sagt að hann sé með ferðaþjónustuna Óbyggðaferðir og sé með ferðir um Vonarskarð.
*** Einhver hefði mátt benda frelsishetjunum sem auglýstu á að yfirleitt er „íslendingar“ skrifað með stórum staf. En það heftir sjálfsagt tjáningarfrelsi þeirra að fylgja þeirri reglu.
**** Á bloggi Páls Ásgeirs Ásgeirssonar hafa menn farið hamförum í athugasemdakerfinu gegn allri takmörkun á umferð og skotveiði í þjóðgarðinum. Þar segir einn þetta: „Er einhver sem ætlar að hlýta þessu kjaftæði um lokanir á vegum og slóðum??? Ég hef marglýst því yfir að ég mun halda áfram að keyra þessa slóða sem við höfum keyrt i mörg ár og sumir í áratugi, mest af þessu er um sanda og mela og littlar hættur á skemmdum. Ef það verða settar keðjur þá verða þær klipptar, ef einhver verður á móti þessu þá getur hinn sami kært mig og það mál mun vinnast fyrir hæsta rétti okkur ferðafólki i hag.“ Þó ég undrist langlundargeð Páls Ásgeirs að leyfa svona liði að vaða uppi með langhunda í athugasemdakerfinu þá er líka ágætt að sjá þetta lið afhjúpa viðhorf sín með þessum hætti.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, september 22, 2010

Hluti fyrir heild

Ég hef reynt að forðast uppnámið sem hefur verið í kringum þingmannanefndina og Landsdómsumræðuna. Sé auðvitað umræðu hér og þar og er stundum alveg sammála en hef forðast að setja mig inní umræðuna á þingi. Hef ekki kveikt á fréttatímum, hvað þá beinum útsendingum úr alþingi, hef bara ekki geð á því.

Vil samt koma þessu að; hvort sem rétt eða rangt er að draga Ingibjörgu Sólrúnu, Árna Matt og Björgvin útilokaða Sigurðsson fyrir dóm eða ekki — og eins og það er nú svekkjandi að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson munu sleppa við að vera ákærðir fyrir sama dómi fyrir margvísleg afglöp en þau helst að hafa selt bankana þessum vitleysingum sem keyrðu þá í þrot —  þá er það algert lágmark að Geir H. Haarde verði ákærður fyrir Landsdómi.

Geir H. Haarde kom ekki (öfugt við Samfylkingarráðherrana) nýr að borðinu, hann var ekki skyndilega í ríkisstjórn þar sem var eða var ekki of seint að grípa í taumana. Hann var reyndar utanríkisráðherra í u.þ.b. eitt ár framaðþví að hann varð forsætisráðherra en allt frá 1998 hafði hann verið fjármálaráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar. Frá 1999-2005 var hann að auki varaformaður Sjálfstæðisflokksins áður en hann varð formaður, semsagt í ágætis kallfæri við flokkinn sem stjórnaði landinu og formann hans, Davíð Oddsson. En þetta er mikilvægast: Geir H. Haarde var fjármálaráðherra þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður og þegar bankarnir voru seldir. Hann er bullandi sekur um þátttöku í því samsæri og þeirri óhæfu að sleppa „hinni frjálsu hönd markaðarins“ lausri á þjóðina. Það er því ekkert nema sanngjarnt að a.m.k. einn þeirra sem að þeim gjörningi verði dreginn fyrir dóm og þar sem Davíð og Halldór virðast eiga a sleppa þá er Geir staðgengill þeirra.

Landsdómur er reyndar stappfullur af Hæstaréttardómurum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur plantað þar inn undanfarna áratugi, og mun því að öllum líkindum sýkna allt liðið verði Geir ákærður ásamt Ingibjörgu, Árna Matt og Björgvini G., en Geir H. Haarde þarf samt helst af öllum að sitja þar á sakamannabekk.

Viðbót: Eins og talað út úr mínu hjarta: Geir H. Haarde verður dreginn fyrir dóm!!

Efnisorð: , ,

föstudagur, september 17, 2010

Rannsóknir sem sanna eiga að konur fíli klám

Stundum, þegar klámfíklar reyna að verja áhugamál sitt, benda þeir á rannsóknir sem gerðar hafa verið og eiga að sýna fram á að konur örvist líka kynferðislega af því að horfa á klám, ekki síður en karlar. Sönnunin fyrir því á að vera sú að þegar konum eru sýndar klámmyndir (eða eins og það heitir yfirleitt í niðurstöðunum „fólk að stunda kynlíf“) þá aukist vökvaframleiðsla í kynfærum kvennanna sem horfa. Með öðrum orðum, þær blotna.

Ég veit nú svosem ekki mikið um þessar rannsóknir enda yfirleitt vísað til niðursoðinna frétta af þeim en ekki talað um hvar þær eru framkvæmdar, hve margir þátttakendur voru eða þvíumlíkt. En þó hef ég mínar efasemdir eftir að hafa lesið einhverstaðar grein (sem ég er búin að týna) sem varpaði nýju ljósi á svona rannsóknir.

Í fyrsta lagi eru flestar þessara rannsókna gerðar við háskóla af háskólanemum á ýmsum stigum og eru hvorki meira né minna áreiðanlegar en hverjar aðrar skólaritgerðir. Í öðru lagi eru þátttakendur oftar en ekki aðrir háskólanemar (og ekki komast allir í háskóla vegna efnahagsaðstæðna). Á Íslandi fer fólk yfirleitt ekki í háskóla fyrr en uppúr tvítugu, margir mun seinna. En tildæmis í Bandaríkjunum, hvar margar þessar rannsóknir eru gerðar, byrjar fólk allajafna nám í háskóla 18 ára gamalt og meðalaldur nemenda er 25 ára.* Það eru semsagt flestir ef ekki allir þátttakendur ungir að árum, sumir jafnvel enn unglingar — og unglingar eru þekktir fyrir hormónaflæði sem þeir hafa litla stjórn á.**

Það eru ekki allir nemendur skólans sem taka þátt í svona rannsóknum, þær eru ekki skylda heldur byggja á sjálfboðaliðum. Hangi nú uppi auglýsing á tilkynningatöflum og birtist á heimasíðu skólans um að fólki sé boðið að taka þátt í tilraun sem fjalli um kynlíf á einhvern hátt (í auglýsingum sem þessum er eflaust misjafnt hversu ítarlega er útskýrt hvað til stendur að rannsaka, svona til að fólk sé ekki búið að æfa sig í svörum eða viðbrögðunum sem rannsaka á), hvaða nemendur eru líklegir til að vilja taka þátt og hvaða nemendur munu ekki fást til þess?

Nemendur sem nokkuð öruggt er að munu ekki bjóða sig fram í rannsóknir um viðhorf eða hegðun gagnvart klámi eða kynlífi yfirleitt:
— Meðlimir ýmissa trúarhópa sem leggja áherslu á skírlífi
— Fólk sem hefur ekki áhuga á að deila skoðunum sínum eða reynslu af kynlífi og klámi með öðrum
— Fólk sem hefur ekki áhuga eða geð á að horfa á klámmyndir (hafi það verið tekið fram í auglýsingunni)
— Konur (og jafnvel karlmenn) sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi, sérstaklega hafi það átt sér stað í æsku
— Konur sem aldrei hafa haft samfarir og eru þarafleiðandi með órofið meyjarhaft


Af þessum hópum sem ég tel hér upp gæti svosem verið að einhver vildi taka þátt í rannsókninni en líklegt er þá að það renni tvær grímur á a.m.k. konur í tveimur síðastöldu hópunum þegar þeim er gert ljóst að í rannsókninni felist að þær þurfi að hafa skynjara í kynfærunum sem nemi vökvaframleiðsluna. Ég á bágt með að ímynda mér að konur sem hafa slæma reynslu eða enga af kynlífi með öðrum séu til í að (láta) pota skynjara í klofið á sér í þágu vísindanna.

Hvaða nemendur eru það þá sem myndu vilja taka þátt?
— Margir svosem en aðallega þeir/þær sem hafa fyrirfram afar jákvæða afstöðu til að tjá sig um kynlíf sitt við ókunnugt fólk (þarmeðtalið fólk sem þykir gaman að gorta sig af kynlífsreynslu sinni), finnst klám í lagi eða hefur ekkert á móti því, finnst fyndið að taka þátt í tilraunum þar sem skynjarar á kynfærum koma við sögu og þeir/þær sem finnst góð tilhugsunin um að horfa á klámmyndir undir því yfirskini að um vísindi sé að ræða.
Í háskólasamfélagi þarsem (auk námsins) allt gengur útá djamm og hjásofelsi, að upplifa að „þetta er besti tími ævinnar“ þá eru margir nemendur eflaust tilbúnir/tilbúnar í að taka þátt í slíkum rannsóknum, rétt eins og hverju öðru ævintýri sem tilheyri þessu skeiði ævinnar.

Þannig að útkoman er eiginlega fyrirfram gefin. Fólk/ungar konur sem taka þátt er það sem er fyrirfram jákvætt og er því líklegt til að gefa jákvæða svörun við spurningum eða áreiti. Hitt fólkið — ungu konurnar sem ekki kæra sig um að taka þátt — eru ekki þátttakendur í rannsókninni og því eru niðurstöðurnar skakkar hvað varðar almenna upplifun kvenna af því að horfa á „fólk að stunda kynlíf“.

Og þó svo væri að niðurstöðurnar, sem sýna eiga og sanna að konur örvist líkamlega við að horfa á klám, væru kórréttar? Þaðeraðsegja að þær ungu konur sem taka þátt í rannsókninni séu fulltrúar allra kvenna, hvað segir það okkur í rauninni?

Ef gerð væri rannsókn þarsem í ljós kæmi að hjá flestu fólki aukist munnvatnsframleiðsla þegar það horfi á leikna mynd um mannát á Borneó — þýðir það þá að fólki almennt þyki mannát ásættanlegt, réttlætanlegt, eftirsóknarvert og myndi í rauninni hiklaust taka þátt í því ætti það þess kost?

Ætli flestir sem yrðu varir við að munnvatnsframleiðsla sín ykist myndu ekki eftir augnablik muna að þeir eru partur af siðmenntuðu samfélagi sem hefur fyrir löngu áttað sig á að sum hegðun á bara engan vegin við og er vondur farvegur til að fá löngunum sínum eða þörfum fullnægt. Nefnilega vegna þess að við búum í samfélagi, þar sem við lítum ekki á meðborgara okkar sem kjötstykki sem bara bíði eftir að við hrifsum til okkar bita.

Nema auðvitað þau okkar sem beinlínis líta á meðborgara sína sem kjötstykki sem hafa þann eina tilgang að uppfylla þarfir annarra …

Ég er ekki að segja að rannsóknir sem sýna eigi fram á kynferðislega örvun kvenna þegar þær horfa á klám séu alveg ónýtar og marklausar*** (til þess að komast að þeirri niðurstöðu þyrfti ég að leggjast í rannsóknarvinnu sem ég mun ekki gefa mér tíma til), en ég hef samt varann á að trúa hverju orði sem þar kemur fram því mér finnst, eins og af framansögðu má vera ljóst, ýmislegt vafasamt við rannsóknirnar og leyfi mér því að setja spurningarmerki við áreiðanleika þeirra.
___
* Mig grunar að allmargar rannsóknir sem rata svo í fjölmiðla séu gerðar meðal bandarískra háskólastúdenta, rannsóknir sem eiga að sýna hvað sé eðlilegt mannlegt atferli. Réttupphönd sem telja bandaríska háskólastúdenta gott dæmi um skoðanir, atferli og langanir mannkynsins!
** Ég leyfi mér að fullyrða að meðal þátttakenda séu tildæmis ekki konur sem eru að ganga eða hafa þegar gengið gegnum breytingarskeiðið.
*** Margar rannsóknir eru líka gerðar um mismun á kynjunum og kannski má skoða þær líka útfrá þessum efasemdum mínum, þ.e. hvaða fólk er líklegt að taki þátt í rannsóknunum en ekki síður: hvað eiga svona rannsóknir að sanna og fyrir hvern eru þær gerðar? Flestar virðast nefnilega eingöngu til þess fallnar að styrkja fyrirframgefnar skoðanir karlveldisins um hlutverk kvenna.

Efnisorð:

sunnudagur, september 12, 2010

Álver ≠ fátækt

Ég gladdist mjög yfir greininni hans Andra Snæs um land hinna klikkuðu karlmanna. Ekki bara vegna þess að hann notaði „karlar sem hata konur“ sem millifyrirsögn og benti á hvernig karlar ráðast gegn konum sem ganga gegn heimssýn þeirra eða vegna þess hve hann skaut á miðaldra karlmenn fyrir að hegða sér á óábyrgan hátt*, heldur aðallega vegna þess hve vandlega hann afhjúpar stóriðjugeðveikina og virkjanaklikkunina. Það hefur hann auðvitað áður gert í bókinni og síðar kvikmyndinni Draumalandið, en eins og Andri Snær bendir á, er nú uppi sú stemning í samfélaginu (sérstaklega meðal karla) að það þurfi að hrúga upp álverum útum allt og virkja og kreista orku útúr náttúrunni — meira segja þó að búið sé að virkja fimm sinnum meira en í öðrum löndum.

Í sama blaði er leiðari Ólafs Þ. Stephensen ritstjóra þar sem hann — eftir að hafa talað af sæmilega skynsamlegu viti um fátækt — segir að eina ráðið til að vinna bug á fátækt sé að reisa álver í Helguvík** og hleypa vafasömum skúffufyrirtækjum að orkuveitum***, og svo auðvitað að viðhalda kvótakerfinu í þágu LÍÚ.**** Með öllum þunga sínum sem ritstjóri mest lesna blaðs á Íslandi segir hann: „Þaðan koma verðmætin til að útrýma fátækt.“

Þetta eru mikil tíðindi að Ólafur Stephensen hefur fundið lausnina á því hvernig útrýma má fátækt og mæli ég með því að utanríkisráðherra kynni þessa allsherjarlausn á erlendum vettvangi. Lengi hefur verið vilji til að útrýma fátækt í heiminum en aðferðin ekki legið svona ljós fyrir hingað til.

Svo segir Andri Snær að meirihluti karlmanna á Íslandi sé hlynntur geðveiki, hvað á maðurinn við eiginlega?

___

* Úr grein Andra Snæs: „Skoðanakannanir gegnum árin hafa sýnt að stór hluti karlmanna á aldrinum 40 – 70 ára hefur verið hlynntir geðveikinni – að tvöfalda og tvöfalda svo aftur. Mesti vandinn er meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins þar sem mikill meirihluti karlmanna hefur jafnvel talið geðveikina forsendu þess að líf þrífist á Íslandi. Auk þess vill mikill meirihluti þeirra slaka á umhverfiskröfum og losa reglugerðir. Þarna liggur alvarlegasta pólitíska meinið á Íslandi. Ef allt væri eðlilegt ættu karlarnir okkar að vera íhaldssamir, hófsamir, áhættufælnir, trúaðir, sparsamir, reglufastir og jafnvel dálítið leiðinlegir. Þetta er mikilvægur hópur manna í hverju samfélagi. Þarna eru margir dæmigerðir heimilisfeður, þarna eru máttarstólpar samfélaga, íþróttafélaga, stjórnendur fyrirtækja, áhrifamenn, þingmenn og jafnvel blaðamenn og ritstjórar. Þetta eru menn sem hafa vald til að skilgreina hvað er eðlilegt og hvað er yfirgengilegt. Það er mjög alvarlegt þegar svona mikilvægur hópur bilast.“

** Úr grein Andra Snæs: „Álbræðslan í Helguvík er tákn um hvað Ísland er lélegt land og illa rekið. Álverið í Helguvík rís þrátt fyrir að skipulag liggi ekki fyrir og ekki orkuöflun heldur. Gott ef mengunarkvótann vantar ekki líka. Álbræðslan í Helguvík er tákn um hverstu veik stjórnsýslan er í landinu, hvað fagmennska og langtímahugsun er í miklum molum og hvernig fjölmiðlar nánast hvetja til lögbrota í fyrirsögnum.“ Og síðar: „Orkuveita Reykjavíkur er núna með milljarða á lager af vannýttum túrbínum sem voru keyptar fyrir Norðurál í Helguvík áður en búið var að skipuleggja eða samþykkja línuleiðina. Borgarbúar þurfa að borga niður lánið. Forsenda álversins er að OR fái að virkja við Bitru og Hverahlíð. Það er hins vegar ekki ljóst hvort íbúar í Hveragerði vilji taka þátt í tilraun um áhrif brennisteinsmengunar á lýðheilsu. Forsenda álversins er líka sú að HS Orka fái Krýsuvík og Eldvörp og að Landsvirkjun láti tilleiðast og setji Þjórsá í púkkið. Þannig reisa opinberir aðilar flókna spilaborg þar sem saman fara áhætta, skuldir og skuldbindingar sem falla ef aðeins eitt spilið fellur. Þannig er búið að binda hendur næstu borgarstjórna og efna í brálæðislegt framkvæmdafyllerí á mikilvægum svæðum, allt fyrir eitt fyrirtæki sem vantar flest leyfin.“

*** Úr grein Andra Snæs: „Magma Energy er búið að auglýsa að þeir ætli að auka framleiðslu HS orku úr 175 megavöttum upp í rúm 400 MW vegna þess að þeir virðast telja sjálfsagt að helstu orkulindirnar á öllu Reykjanesi verði einkavæddar og afhentar Magma. Verkefnafjármögnun heitir það víst núna, ekki einkavæðing.“

****Úr grein Andra Snæs: „Við erum nú þegar með allt sem nútímasamfélag þarfnast. Það þarf bara að sinna því sem við höfum þegar byggt upp, fá arð af því sem þegar hefur verið virkjað og fara betur með það sem þegar fiskast.“

Efnisorð: , , , ,

föstudagur, september 10, 2010

Horfa allir karlmenn á klám eða ekki?

Það sem gerðist eftir hin óheppilegu ummæli Jóns Gnarrs við franskan fjölmiðil þar sem hann sagðist aðallega skoða klám á netinu* var áhugavert. Bloggarar en þó aðallega þeir sem stunda að skrifa athugasemdir við fréttir og blogg annarra, ruddust fram hver á fætur öðrum til að lýsa yfir ánægju sinni. Hér á ég við karlmenn. Heilu hrúgurnar af karlmönnum sögðu að Jón Gnarr væri maður að meiri að viðurkenna þetta því ALLIR karlmenn skoði klám.** Sumir sögðu þetta merki þess hve heiðarlegur hann væri og laus við hræsni.

Nú veit ég ekki hvor endinn á heiðarlega og hræsnislausa Jóni Gnarr sneri upp þegar hann lýsti yfir að hann væri á móti klámi — það sem hann sagði í viðtali við Vísi var á hinum feminískustu nótum þar sem hann talaði gegn klámi og sagði það dýrslegt og ógeðfellt — og að hann hefði allsekki meint það sem franska viðtalið lét líta út fyrir. Fengu þar feministar og Femínistafélag Íslands talsverða uppreisn æru því ekki er amalegt þegar slíkur æðstistrumpur leggur málstaðnum lið.

En nú ber svo við að karlmenn stíga ekki fram hver á fætur öðrum og segja að þeir hafi hlaupið á sig og að þeir þurfi annaðhvort að endurskoða afstöðu sína til kláms eða til Jóns — þeir sjá ekkert rangt við að halda klámfýsn sinni fram sem eðlilegri afstöðu til kynlífs, kvenna eða hlutverks kynjanna — nei, þeir þykjast aldrei hafa verið sannfærðir um afstöðu Jóns Gnarr þegar í ljós hefur komið að hann ætlar ekkert að vera talsmaður þeirra.** Hvað gera þeir í staðinn? Jú, þeir kasta sér útí umræður um að uppáhaldsóvinur þeirra númer eitt, Sóley Tómasdóttir,*** hafi vogað sér að tala um málið í borgarstjórn í stað þess að tala um allt hitt sem er að hrjá samfélagið. Þeir láta eins og þeir hafi ekki opinberað sjúkan hugsunarhátt sinn í umræðu sem á endanum snerist gegn þeim sjálfum.

Hvernig stendur annars á því að ef ég segi að allir karlmenn horfi á klám þá er ég öfgasinnaður feministi og á allt illt skilið fyrir þvílíka og aðra eins staðhæfingu en ef karlmenn í bunkum tilkynna að allir karlmenn horfi á klám***** þá er það bara meðtekið af hinum í rólegheitum og þykir sjálfsagt? Þegar ég eða aðrir feministar 'alhæfi' svona þá eru alltaf einhverjir (konur aðallega en stundum karlar) sem skammast yfir fordómum í garð karla og segja að það megi ekki gera þeim rangt til, en slíkar raddir hafa vægast sagt ekki verið háværar í umræðum síðustu daga. Líklega vegna þess að það er talið líklegra að hægt sé að þagga niðrí einhverjum kéllingum en engum dettur í hug að nokkur leið sé til að hægt sé að þagga niður í (klámsjúkum) karlmönnum.
___
* Franski blaðamaðurinn beitti DV töktum við að láta Jón Gnarr koma verr út en efni stóðu til, ef marka má það sem Jón sagði sjálfur síðar, að hann hefði strax sagt að hann væri að grínast. Jón Gnarr verður þó að átta sig á því að sumt bara segir maður ekki við erlenda fjölmiðla sem borgarstjóri höfuðborgarinnar.
** Margir karlmannanna komu meira segja fram undir eigin nafni til tilbreytingar, það er líklega vegna þess að þeir litu svo á — eins og Sóley Tómasdóttir bendir réttilega á — að þeim þótti Jón hafa „normalíserað“ klámið, þ.e. gert það að nota klám svo sjálfsagt að nú væri jákvætt að vera einn þeirra sem horfir á klám.
*** Sumir héldu því reyndar skyndilega fram að Jón hefði verið að grínast og fóru að ræða húmorsleysi feminista.
**** Sóley var auðvitað skotspænir umræðunnar um meinta klámfýsn borgarstjórans og þröngsýni feminista yfirleitt en þeim leiðist það ekki karlmönnunum að ræða persónu Sóleyjar í hörgul og alltaf á sérlega ógeðfelldan hátt.
***** Óli Tynes, sérlegur fulltrúi karlrembunnar á Vísi, skrifaði frétt með fyrirsögninni „Allir karlmenn horfa á klám (víst)“ og enginn deplaði auga.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, september 08, 2010

Börnin þræla fyrir Nestlé

Í kvöld horfði ég á heimilidarmyndina Súkkulaði og barnaþrælkun sem sýnd var í Sjónvarpinu. Ég hafði heyrt um hana áður og hún kom mér því ekkert sérstaklega á óvart þó ekki væri þægilegt að horfa á börn sem voru ýmist um það bil að lenda í þrælavinnu, nýsloppin úr höndum þrælasala eða höfðu þegar verið hneppt í þrældóm. Það kom mér tildæmis ekkert á óvart að sjá menn ljúga því blákalt að engin barnaþrælkun tíðkaðist við kakóframleiðsluna eða kaupsýslumenn sem versla með súkkulaði á ráðstefnum fordæma slíkt en snúa blinda auganu að ástandinu eða ljúga líka.

Það sem fékk mig hinsvegar til að lyfta brúnum var að Nestlé, besti vinur barnanna, er beinlínis með starfstöðvar á Fílabeinsströndinni þar sem börn þræla ljóst og leynt á kakóbaunaplantekrum. Það er því ekki hægt fyrir það fyrirtæki að bera fyrir sig að svo margir milliliðir séu á leiðinni frá framleiðanda til verksmiðju að það sé ekki hægt að átta sig á hvað fer fram á hverju stigi framleiðslunnar, handan við næsta horn.

Ég hef áður skrifað um skoðanir mínar á Nestlé fyrirtækinu. Ekki breyttust þær til batnaðar við að sjá myndina.

Það hefur sannarlega lítil áhrif á rekstur Nestlé að litla ég kaupi ekki af þeim. En því fleiri sem sniðganga vörurnar frá Nestlé því meiri líkur eru á að fyrirtækið (og önnur fyrirtæki í sama iðnaði) sjái að sér. Kakóbændur eru ekki að fá sanngjarnt verð fyrir vöru sína, sem veltir miklum upphæðum sem allar fara í vasa vestrænna fyrirtækja á borð við Nestlé; það er hvati fyrir kakóbændur til að verða sér úti um ódýrt eða ókeypis vinnuafl því annars græða þeir ekkert. Þeir munu svosem ekkert hætta að láta ræna fyrir sig börnum ef þeim er bara réttur meiri peningur, heldur yrði að fylgja því eftir með því að neita að kaupa af þeim sem ætluðu að hirða allan arðinn sjálfir án þess að borga fullorðnu starfsfólki mannsæmandi laun.

Slíkar breytingar — sem gætu bjargað fjölda saklausra barna frá þrælkunarvinnu fjarri fjölskyldum sínum í landi þar sem þau skilja ekki tungumálið og fá enga menntun — eru á valdi Nestlé.

Efnisorð: , ,

laugardagur, september 04, 2010

Skrá í eða skrá úr

Arnaldur Máni Finnsson guðfræðinemi skrifar grein í Fréttablaðið í dag um úrsagnir úr þjóðkirkjunni. Hann vill ekki segja sig úr kirkjunni vegna biskupsmálsins því honum finnst að hún þurfi á „fólki með réttlætiskennd og sannfæringu að halda“. Það eru góð og gild rök og Arnaldi Mána að sjálfsögðu heimilt að vera áfram í kirkjunni til að reyna að laga hana innan frá.

Grein Arnalds Mána minnir mig á konu sem ég þekki og er fædd og uppalin í Ísrael. Fyrir nokkrum árum stóð hún frammi fyrir þeirri spurningu hvort hún ætti að flytjast frá landinu vegna framkomu ísraelskra stjórnvalda við Palestínumenn. Hún ræddi opinskátt þessar vangaveltur sínar eftir að móðir hennar lést þegar strætisvagn sem hún var farþegi í var sprengdur í loft upp. Þessi kona vildi ekki hefndaraðgerðir heldur að reynt yrði að sætta stríðandi aðila svo morðum og limlestingum linnti. Meira segja eftir morðið á móður hennar fannst henni óþægilegt að búa meðal fólks sem studdi aðgerðir gegn Palestínumönnum en fannst jafnframt að henni bæri siðferðileg skylda til að vera um kyrrt vegna þess að ísraelskt samfélag þyrfti á upplýstu, friðsömu og sáttfúsu fólki að halda. Niðurstaðan varð nú samt sú að hún fluttist úr landi.

Ég er ekki þarmeð að segja að Arnaldur Máni eða annað fólk eigi að segja sig úr þjóðkirkjunni, rökin fyrir að laga hana innanfrá eru góð og gild. En það fólk sem er nú stríðum straumum að segja sig úr kirkjunni er ekki endilega fólk sem hefur áhuga á að bæta kirkjuna innanfrá, eða bara vera í henni yfirhöfuð. Enda þótt biskupsmálið (bæði hið fyrra árið 1996 og hið síðara sem nú stendur yfir) hafi orðið til þess að margt fólk tók þá ákvörðun að segja sig úr þjóðkirkjunni* þá er það svo að margt fólk, sem hefði aldrei skráð sig í þessa kirkju sjálfviljugt, drífur sig að skrá sig úr henni úr því sem komið er.

Það er auðvitað fáránlegt að hvert einasta barn sem fæðist á Íslandi sé skráð í trúfélagið sem móðir þess er í. Hafi móðirin ekki sjálf gengið til liðs við annað trúfélag** en þjóðkirkjuna einhverntímann á lífsleiðinni — og ekki verið svo framtakssöm að skrá sig úr þjóðkirkjunni sjálf — þá bætist þjóðkirkjunni nýr félagi sem hefur enga trúarskoðun (enda hvítvoðungur) og enga hugmynd um félagsaðild sína fyrr en mörgum mörgum árum síðar. Þar sem hvarflar að fáum börnum að efast um lífstíl eða skoðanir foreldra sinna þá gera börnin yfirleitt heldur ekki athugasemdir við að vera í þjóðkirkjunni og halda áfram að vera skráðir félagar langt fram á fullorðinsár, og sumum dettur aldrei í hug að skrá sig úr henni, ekki vegna trúarsannfæringar sem fer svona vel við stefnu hinnar evangelísku lútersku kirkju heldur af sinnuleysi.

Þetta er ástæða þess að u.þ.b. 80% allra Íslendinga eru í þjóðkirkjunni, ekki vegna þess að allt þetta fólk sé svona trúað eða hafi áhuga á „lýðræðislegu safnaðarstarfi“. Það væri fróðlegt að vita meðlimafjölda í þessu tiltekna trúfélagi sem nú heitir þjóðkirkjan ef fólk þyrfti að skrá sig sjálft í hana og vera orðið átján ára til að stíga það skref.

Þangað til þessar furðulegu skylduskráningar verða lagðar af er eina úrræðið að skrá sig úr þjóðkirkjunni. Það er talsvert minna mál en að flytjast búferlum frá landi þar sem maður fæðist af tilviljun.

___
* Sumt af því fólki sem segir sig úr þjóðkirkjunni af þessu tilefni hefur ekki áður áttað sig á hve lítið mál það er að segja sig úr henni, en nú benda nokkrir ötulir talsmenn úrsagnar upplýsingar á leiðir til þess á hverri bloggsíðunni (í athugasemdum) á fætur annarri, svo oft reyndar að það er löngu orðið þreytandi.
** Barn sem fæðist móður í öðru trúfélagi, t.d. Krossinum, er að sama skapi skráð í Krossinn það sem eftir er ef það skráir sig ekki úr honum aftur. Ekki er það nú skárra!

Viðbót: Sverrir Jakobsson skrifar ágæta grein um skráningu ungbarna í þjóðkirkjuna og önnur trúfélög og segir hana ekki standast stjórnarskrárákvæði um félagafrelsi.

Efnisorð: ,

föstudagur, september 03, 2010

Raddirnar í útvarpinu leiðrétta mig

Ég er ein þeirra sem hiklaust gagnrýni fólk fyrir lélegt málfar og hneykslast mjög á hnignandi íslenskukunnáttu fjölmiðlafólks. Veit þó uppá mig skömmina; að ég er lítið skárri enda þó ég reyni að þykjast betri en ég er. Um daginn var ég að nöldra um málfar í þessum heimur-versnandi-fer tóni og gerði þá að umtalsefni það sem mér heyrist vera nýtt orðalag um sjálfskapaðan dauðdaga; „að taka eigið líf.“ Nú tyggur þetta hver eftir öðrum en ég er eiginlega viss um að þetta orðalag var aldrei notað hér áður. Og í sjálfumgleði minni gagnrýndi ég þessa hráþýðingu úr útlensku og bætti við, sárhneyksluð: „Hvað varð um að segja að einhver hafi framið sjálfsmorð?“ — fullviss um að það væri rétt mál.

Þar sem ég er svo að sinna húsmóðurskyldum mínum og hlusta á Víðsjá á meðan, les ekki Pétur Gunnarsson eftirfarandi uppúr bók sinni Persónum og leikendum:

Hlusta mikið á daglegt mál í útvarpinu. Undanfarið hafði verið mikið um sjálfsmorð í blöðunum og umsjónarmaðurinn lagði út af orðalaginu „að fremja sjálfsmorð“, sem hann sagði að væri danska og enska þótt orðin væru íslensk:

Á íslenzku styttum við okkur aldur, fyrirförum okkur, föllum fyrir eigin hendi, verðum sjálfum okkur að aldurtila eða gröndum okkur. Ábyrgð þeirra er mikil sem „fremja sjálfsmorð“ þegar íslenzk tunga býr yfir slíkri auðlegð sömu merkingar. Lifið heil.

Efnisorð: